Þakkað fyrir vel unnin störf.

 

Og þar með er fyrsta færslan komin á þessu bloggi sem ég hef haldið úti í um 15 ár, sem fjallar um eitthvað sem er mér persónulegt því þeim sem er þakkað fyrir vel unnin störf, Mikael Nikulásson, var þjálfari strákanna minna, reyndar þurfti annar að hætta vegna síendurtekinna höfuðmeiðsla en hinn hélt áfram harkinu.

Skrifa þessa færslu því það hvarflar að mér að bakari sé hengdur fyrir smið.

Dreg ekki í efa pirringinn en pirringur stafar af ýmsu.

 

Til dæmis vanfjármögnun þar sem máttarstálpar samfélagsins, auðfyrirtækin sem hafa þegið svo margt frá samfélaginu, aðstöðuna, hafnirnar, orkuna, telja slíkt ekki kalla á skyldur og ábyrgð.

Álverið okkar er ryðguð áldós, margfalt lýti í landslaginu, sýgur til sín en gefur fátt til baka annað en mengun sem má glögglega sjá á kolryðguðum þaki Fjarðabyggðarhallarinnar, nokkrum kílómetrum í burtu.

Það eina sem maður í raun tekur eftir eru kostaðar glansauglýsingar og fréttaumfjöllun í héraðsblaði okkar Austfirðinga, Austurglugganum, þú fæðir höndina sem gæti þó sagt satt um þig.

Síðan er það alltaf sami brandarinn þegar uppsjávarhluti Samherja, Síldarvinnslan kynnir samfélagsstyrki sína, miðað við umfang og hagnað hefði jafnvel Jóakim Aðalönd skammast sín, hann var þó fastheldinn á aurinn. 

 

Samfélag, sem allt er sogið úr, en fáu skilað til baka, er ekki sterkt samfélag.

Samt er sterkt samfélag með öflugum innviðum fyrir fjölskyldufólk, forsenda þess að hægt sé að ráða ungt og vel menntað fólk til starfa í hinum dreifðu byggðum landsins.

Á þetta benti Róbert Guðfinnsson á þegar hann benti sveitarstjórnarfólki í Fjallabyggð á að það væri til lítils að halda úti hátæknifyrirtæki á Siglufirði, ef hugarfar og innviðir væru eins og i þriðja heims samfélagi.

Það þarf nefnilega að hlúa að því sem gerir samfélög byggileg fyrir ungt fólk.

 

Byggðin mín Fjarðabyggð er byggð sem er að daga uppi innan frá.

Samt erum við með þessa flottu skóla, þetta yndislega starfsfólk sem starfar í skólum okkar, á hjúkrunarheimilum, með þann kjarna mennskunnar sem á að vera nægur til að hér sé gott að búa, það er í raunheimi en ekki í sýndarveruleik hinna aðkeyptu auglýsinga.

Og hér er gott að búa og hér er gott að ala upp börn.

Betri stað gat ég ekki fundið til að fóstra strákana sem núna eru að fljúga að heiman.

 

En það eru innanmein sem eru líkt og drepið í kjarna fallegs reynitrés, sem vega að rótum og vexti.

Innanmein sem snúa að stjórnkerfinu sem og því að það hefur ekki tekist að sameina hinar fornu byggðar sem bera upp sveitarfélagið um hið sameiginlega sem við eigum í dag.

Og auðfyrirtækin eru stikkfrí, þau sjúga en skila svo fáu til baka.

 

Í stað þess að feisa vandann er auðvelt að þakka mönnum fyrir vel unnin störf.

Að afleiðing uppdráttarsýkinnar sé þeirra en ekki þar sem ábyrgðin liggur.

 

Fótbolti er jú lífið eftir að salfiskurinn dó drottni sínum gegn ofurþunga tímans.

Fótboltinn endurspeglar líka lífið.

Hann er öflugur í öflugum samfélögum.

 

Í samfélögum þar sem fyrirtæki skila til baka.

Þakka fyrir og kunna að meta.

Eitthvað sem hefur greinilega klikkað í byggðinni minni.

 

Ég þakka samt Mækaranum fyrir góð störf.

Einlæglega.

 

Því maður á að þakka fyrir það sem er þakkarvert.

Kveðja að austan.


mbl.is Eggert stýrir KFA út leiktíðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sæll Ómar, góð grein að vanda. Einn ráðherra ríkisstjórnarinnar sagði eitt sinn að það eina sem fyrirtækin ættu að hugsa um  væri að græða nógu mikið. Þessu er ég algjörlega ósammála og held að þessi ráðherra sé ein um þessa skoðun í ríkisstjórninni. Fyrirtæki þurfa að hafa samfélagslega ábyrgð. Það er fátt sem byggir okkar samfélög upp betur en einmitt öflugt starf í íþrótta og ungmennafélögunum. Það höfðu flestir gömlu forystumenn útgerðarfélaganna í huga hér áður fyrr.  Var í nokkur ár ráðgjafi hjá öflugu byggingarfyrirtæki. Í stefnumótun okkar var lögð áhersla á samfélagslega ábyrgð. Við tókum að okkur að vera aðalstyrktaraðili móts fyrir ungar stúlkur sem haldið er árlega í Kópavogi. Það var mikil gæfa. Það var meira gert. Í því fólst okkar árangur. Fyrirtækin fyrir austan verða að taka sig á. Á ráðstefnu í Hörpu s.l. haust var farið yfir stórkostlegan árangur sem við náðum sem þjóð í að minnka drykkju og reykingar ungs fólks. Sá árangur er fyrst og fremst rekinn til aukins starfs í íþrótta og ungmennafélögunum og þátttöku foreldra þar að. Við sjáum víða um land að virkni margra barna sem koma úr öðrum þjóðfélögum er oft minni. Foreldrarnir þekkja ekki þessa miklu þátttöku, en það kemur fleira til.  Sigurður Guðmundsson fyrrum íþróttafulltrúi í Mosfellsbæ kom með þá tillögu að ríkið ætti að koma með aukinn fjárhagslegan stuðning til barna og unglinga sem stunda íþróttir. Það eru nokkur mál sem þarf á Alþingi. T.d. er ljóst að áfengi verður selt í matvöruverslunum, í komandi framtíð. Sennilega vara auglýsingar um áfengi líka leyft. Þá er spurning um fjárhættuspil. Við þurfum að efla forvarnir og okkar reynsla er skýr. Efla virkni í stefinu. Hef sjálfur verið með þá skoðun að við eigum að efla ræktunarþáttinn í starfi félaganna. Mitt gamla félag úr Garðabænum þurfti að endurskoða sína stefnu þar sem gengið var ekki eins og vonast var eftir. Niðurstaðan var að fara í gömlu gildin okkar og byggja á eigin ræktun að mestu leiti. Það gerir líka annað af mínum gömlu félögum Breiðablik. 

Sigurður Þorsteinsson, 6.8.2024 kl. 09:23

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir þetta Sigurður, hef engu bið að bæta, þetta er einfaldlega kjarni málsins.

Sem betur fer er fullt af fyrirtækjum eftir á landsbyggðinni sem eru í eigu heimamanna, og þau styrkja sitt fólk eftir bestu getu. En þegar samþjöppun í eignarhaldi er orðin svona mikil, kvóti á fáar hendur og svo framvegis, þá þarf einfaldlega að fara að segja sannleikann um auðfyrirtækin, samfélagsábyrgð er annað og meir en glansauglýsingar um eigið ágæti.  En menn þora því ekki því menn eru hræddir að missa þó það litla sem þeir fá.

Síðan þarf að fá þessa umræðu meðal stjórnvalda og þingmanna um það sem þú bendir á hér; "Sigurður Guðmundsson fyrrum íþróttafulltrúi í Mosfellsbæ kom með þá tillögu að ríkið ætti að koma með aukinn fjárhagslegan stuðning til barna og unglinga sem stunda íþróttir".  Eiginlega held ég að þessi kostnaður sé annars vegar mesta misréttið við að eiga barn á landsbyggðinni og hins vegar milli heimamanna og fólks af erlendu uppruna.  Krakkar sem verða út undan í íþróttum verða svo líka útundan í svo mörgu öðru.  Þetta helst allt í hendur.

Svo má líka bæta við það sem Róbert Guðfinnsson sagði um að öflugt nærsamfélag væri forsenda búsetu ungs vel menntaðs fólks, að öflugt og þróttmikið nærsamfélag er miklu líklegra að vera stöðugra og laust við skautun.  Datt það svona í hug þegar ég hlustaði á fréttirnar í hádeginu um óeirðirnar í Bretlandi.

Nærsamfélög eru límið sem heldur þjóðfélögum saman, þess vegna þarf að fjárfesta í þeim en ekki sjúga allt úr þeim.

Svo þarf margt annað að vera í lagi, en það er önnur saga.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.8.2024 kl. 14:57

3 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sæll, nafni minn Sigurður Guðmundsson lagði til mjög kröftuga aðkomu að þjálfun yngri flokka. Nánast að öll þjálfun þeirra verði styrkt af ríkinu. Í því fælist sparnaður. Er honum sammála. Tel að síðan eigi að skoða ferðakostnað. Það er mjög mikilvægt að á stöðunum byggist upp kjarni heimamanna. Er ekki að leggja til að félagslegt starf t.d. við fjáraflanir leggist niður, heldur verði þetta viðbót, og í ákveðnum tilfellum að gera starfið gjörlegt á landsbyggðinni. Munum að margir af fremstu íþróttamönnum þjóðarinnar koma af landsbyggðinni. 

Sigurður Þorsteinsson, 8.8.2024 kl. 15:59

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Kjarni málsins; "í ákveðnum tilfellum að gera starfið gjörlegt á landsbyggðinni".

Er svo algjörlega sammála nafna þínum.

Takk fyrir innlit og athugasemd Sigurður.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.8.2024 kl. 19:38

5 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Ómar mun kynna þessa hugmynd fyrir Willum og Bjarna í þessum mánuði. Er með einhverjar viðbótar hugmyndir. Benidikt pabbi Bjarna var okkur í Garðabænum mjög mikill stuðningur. Eitt sinn bættist einn leikmaður í hópinn. Sá átti nýríkan pabba. Ég var kallaður heim til Benedikts og fyrir var nýríki pabbinn. Strákarnir áttu að ganga í hús og selja rækjur. Benedikt spurði mig hvað við ætluðum að safna miklu. Jú 450.000 sagði ég. Þá tók pabbinn fram ávísunarheftið og skrifað 450.000. Ég horfði á þá og sagði að ég skyldi taka við upphæðinni með einu skilyrð, þeir urðu að taka tækni æfingarnar og þrek æfingarnar fyrir strákana sem þá voru 13-14 ára. Nei, nei ekki þannig meint. Þá reif ég ávísunina. Á leiðinni út sagði Benedikt ég þóttist vita svarið áður. Báðir strákarnir urðu félagslega mjög virkir og eru enn. Það var ekki boðið upp á neina silfurskeið í Garðabænum á þeim tíma. 

Sigurður Þorsteinsson, 9.8.2024 kl. 14:39

6 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Þetta þótti talsverð upphæð og átti að duga fyrir keppnisferð til Svíþjóðar fyrir allan hópinn.

Sigurður Þorsteinsson, 9.8.2024 kl. 14:54

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Góð saga Sigurður,sem aftur geymir ákveðin grunnkjarna. Strákarnir mínir spiluðu í undanúrslitum 4 flokks við Stjörnuna, gat ekki séð neina silfurskeið þar, Hins vegar Aron Eggert.

Það er gott að þessi mál séu rædd við ráðafólk, þekki ekki mikið öflugra byggðarmál.

Hlustun segir svo mikið um innri kjarna ráðherrans.

Lítil upphæð í hinu stærra samhengi, en stórt mál í því samhengi.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.8.2024 kl. 11:33

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tíu og fjórtán?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.9.): 7
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 1373012

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband