25.7.2024 | 07:50
Seint í rass gripið.
Það má teljast mikið afrek að Joe Biden skuli hafa komist fyrir á sjónvarpsskjánum fyrir skottinu sem hann hafði milli fóta sér þegar hann tók á rás frá framboði sínu.
Aldrei í stormasamri stjórnmálasögu Bandaríkjanna hefur verið vegið eins hart að lýðræðinu með þessu sjónarspili um Joe Biden og Kamillu Harris.
Það er göfugt að afhenda yngri kynslóðum keflið en það er ekkert göfugt að gera það nokkrum vikum fyrir kosningar.
Og ef Kamila Harris er "bæði hörð af sér og mjög hæf", af hverju var hún ekki látin taka prófkjör flokksins og rúlla þeim upp??
Fáráð fréttarinnar er svo að styðja þessi orð Bidens um Kamillu með því að segja að hún hafi nú þegar "tryggt sér nægan stuðning til þess að fá útnefningu Demókrataflokksins á landsfundi hans í næsta mánuði".
Að aðför samsærisfólks að lýðræðinu lýsi einhverri hæfni í merkingunni hæfileika til að gagnast landi og þjóð en ekki sinni eigin metorðagirni og valdafíkn.
Kamilla Harris, varaforsetinn sem enginn tók eftir þó forsetinn væri bæði hrumur og með augljós elliglöp, er alltí einu orðin stjarna umræðunnar.
Bjargvætturinn sem forðaði þjóðinni að kjósa á milli tveggja frambjóðanda sem báðir virtust vera komnir fram yfir síðasta söludag, Biden þó sýnu verri.
Nema hún hefur ekki til þess lýðræðislegt umboð.
Leikflétta, sjónarspil, sýnd, allt orð sem lýsa góðri sápuóperu frá Suður Ameríku.
En eiga ekki að lýsa heljartökum örfárra flokkseiganda á bandarísku lýðræði.
Í því ljósi eru þessi orð Joe Bidens; "Að verja lýðræðið, sem er nú undir, er mikilvægara en nokkur vegtylla", örgustu öfugmæli, þau komu 6 mánuðum of seint.
Fyrir 6 mánuðum hefðu þau verið sönn og rétt, það var vissulega kominn tími á ferskar og nýjar raddir en þá fór bara sjónarspil leikfléttunnar af stað.
Það er kjarninn og þann kjarna á að ræða.
Ekki spila með, ekki kyngja þessari aðför að leifum lýðræðisins vestra.
Það er eins og að dansa með Pútín og hinu meinta lýðræði í Kreml.
Svo er alltaf kosið í Norður Kóreu og frambjóðandi alþýðunnar þar í landi, einhver Kim Jong vinnur alltaf með ríflega 110 prósent greiddra atkvæða, og þar er alltaf klappað fyrir hinum mikla stórsigri þessara hógværu alþýðuhetju.
Þar er reyndar byssukúlan undir ef ekki nógu vel er klappað, en hvað er undir hjá þeim fjölmiðlum og stjórnmálaskýrendum sem sjá ekki nekt keisarans þarna vestra??
Er þetta bara allt orðið eitt shóv, einn stór raunveruleikaþáttur þar sem mesti fáránleikinn fær alla athyglina og mesta klappið??
Er tilveru okkar í raunheimi lokið, hefur tómhyggja rétttrúnaðarins endanlega innlimað okkur í sýndarveruleikans??
Veit ekki.
Langaði bara að spyrja svona í morgunsárið.
Núna í rigningunni hér fyrir austan.
Kveðjan að austan engu að síður.
Afhendir yngri kynslóðum keflið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:52 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.1.): 15
- Sl. sólarhring: 27
- Sl. viku: 2034
- Frá upphafi: 1412733
Annað
- Innlit í dag: 15
- Innlit sl. viku: 1787
- Gestir í dag: 15
- IP-tölur í dag: 13
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Í síðustu forsetakosningum á Íslandi þá voru margir sem kusu frambjóðenda til að halda öðrum frambjóðanda frá starfinu
sá frambjóðandi sem sigraði gerði mikið út á vinsælu samfélagsmiðlana Tik Tok og eitthvað fleira - yngra fólk
Kamila Harris ætlar að nota sömu aðferðir í sinni kosnigabaráttu og þó Trump geti dregið upp ófagra mynd af henni þá hefði ég haldið að hann þyrfti að lofa betri lausnum
En sennilega verður þetta eins og margir fótboltaleikir - úrslitin ráðast af mistökum og klúðri en ekki snilld
Grímur Kjartansson, 25.7.2024 kl. 10:25
Blessaður Grímur.
Ég held að enginn viti hvernig þetta fari, það eru tvær fylkingar sem berjast á banaspjótum í USA, gæti trúað að sá aðili sem virkjar betur fólk á kjörstað, vinni.
Ég hins vegar er að skrifa um skrípaleikinn að baki framboði Kamillu Harris, hann er ekki boðlegur í lýðræðisríki.
Gangi hann upp, þá á bara eftir að skrifa uppá dánarvottorð fyrir hugsjónir genginna landsfeðra um frjálst, opið og lýðræðislegt samfélag, þar sem lýðurinn stjórnaði en ekki fámenn elíta.
Það er allt vont við þetta mál.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 25.7.2024 kl. 13:55
Sæll Ómar, -ég hef grun um að þú sért að hitta naglann á höfuðið, -hvort sem þú ætlaðir eða ekki.
Þetta er allt eitt stórt show, svona nokkurskonar eurovision, sönn vakningarsamkoma djöfladýrkenda þar sem leikarar á fjósbitanum fara með hlutverkin, nokkurskonar dúkkulísur og flissandi fábjánar upp á íslenska mátann.
Það hefur aldrei þurft að efast um Trump hann varð frægur í raunveruleikaþáttum á sínum tíma.
Að bjóða fram lík var aftur á móti full langt gengið, eins og þú bentir sjálfur á fyrir stuttu, enda hafði það verið gert áður með lélegum árangri í sovétinu sælla minninga.
En þetta er nú einu sinni vakningarsamkoma djöfladýrkenda hafa þeir lengi vitað skuggabaldrarnir vestra.
Það sem þarf að efast um í þessu öllu saman eru kjósendur, sama hvort heldur er í USA eða á Íslandi. Lengi vel var helmingur Amerískra kjósenda svo gáfaður að hann mætti ekki á kjörstað, sá í gegnum það að hann sat uppi með ríkisstjórnina eftir sem áður.
Íslendingar voru farnir að átta sig á þessari einföldu staðreynd upp úr hruni og mætti stór hluti ekki á kjörstað nema til að kjósa um já eða nei, -s.s. í icesave.
Nú fer kjörsókn vaxandi í öllum hinum vestræna heimi, -t.d. í Frakklandi og Bretlandi nýverið.
Og við þau úrslit sem boðið er upp á þá sjáum við alltaf betur og betur að hægt er að stórefast um sjálft lýðræðið. Jafnvel það hvort atkvæðin eru ekki bara líka sýndarveruleikarar eins og í síðustu forsetkosningum á Íslandi, og þarf þá ekki Borgarnes talningu til, -skoðanakannanir nægja.
Bestu kveðjur úr dumbungnum efra í þokuna í neðra.
Magnús Sigurðsson, 25.7.2024 kl. 16:27
Sæll Ómar
Aðalskrípaleikurinn eru þær lofræður sem nú heyrast allt í einu um Jo Biden
Það er látið einsog þvinguð viðurkenning hans á að hann sé óhæfur forseti
sé hans stærsta afrek á stjórnmálaferlinum
ferill sem orðin er mjög langur
Að flokkseigendafélagið ráði öllu er nú varla fréttnæmt
Grímur Kjartansson, 25.7.2024 kl. 21:21
Pistillinn er góður því hann bendir á það augljósa um skrípaleikinn, sem ekki er viðurkenndur á RÚV eða opinberlega, en fólk sér og hlýtur að sjá í gegnum.
Ég vil einungis mótmæla því að Trump sé hluti af Elítunni eða leiksýningu spillingar. Jú, hann er vissulega undir áhrifavaldi peningaafla, en margt er gott þar líka. Elon Musk er til dæmis samkvæmt mörgu sem hann segir bæði maður frjálslyndur og skynsamur, og því merkilegur. Hann virðist ekki gleypa allt hrátt í fjölmiðlum og gagnrýnir þá, og það hjálpar venjulegu fólki að vera ekki undir áhrifavaldi spilltra afla, að það þurfi sjálft að hugsa og taka ákvörðun.
Donald Trump var raunveruleikaþáttahetja eins og Magnús fjallar um. Einmitt þessvegna getur verið að hann sjái í gegnum skrípaleikina sem settir eru á svið.
Í pistlinum orðar Ómar þetta þannig að "báðir virtust vera komnir fram yfir síðasta söludag".
Þegar þær sögusagnir komast á kreik að Joe Biden sé dauður ef hann lætur ekki sjá sig eða heyra í sér í nokkra daga, þá vita það allir að jafnvel Demókratar efast um lífsmörk hans og hafa ástæðu til þess. Það segir býsna margt um að maðurinn sé hrumur og styðjist við tækniframfarir til að hressa fólk við í útliti og framkomu.
En jafnvel þótt þeir séu á svipuðum aldri þá er aldur afstæður. Sumir gamlir menn geta verið skýrir í hugsun og eldklárir fram í andlátið á meðan aðrir verða hrörnun að bráð snemma.
Donald Trump hjálpaði efnahagnum þar vestra. Hann er "The Real Deal" eins og sagt er. Einmitt þessvegna er reynt að drepa hann. Hann er maður sem getur breytt mannkynssögunni til batnaðar, til dæmis með því að stöðva Úkraínustríðið. Maður Guðs jafnvel eins og Guðmundir Örn heldur fram.
Hvað varðar vaxandi kjörsókn sem Magnús fjallar um, þá er hún dæmi um þetta að fylkingarnar berjast af meiri hörku. Það kom Demókrötum mjög á óvart þegar Donald Trump sigraði Hillary Clinton 2016. Hún var talin sigurstrangleg út um allan heim, sem yrði fyrsta konan forseti í Bandaríkjunum, og frjálslynd. Það brást.
Donald Trump var og er talinn trúður af mörgum glóbalistum og vinstrimönnum ennþá.
Vaxandi kjörsókn er vegna þess að vinstrið er farið að fatta að það er komin andstaða, vaxandi andstaða til hægri, áhugi og vit, uppreisn gegn woke. Hægrið er ekki lengur eins dautt í Bandaríkjunum og á Íslandi. Við megum þakka fyrir það að lífsmark er með Bandaríkjamönnum.
Hitt er annað mál að ég tek undir með Magnúsi að ég efast um að kosningaúrslit séu rétt allsstaðar. Með tölvutækni eða öðrum aðferðum er hægt að hagræða úrslitum.
Ég vil trúa á lifandi og virkt hægriafl eins og í Bandaríkjunum. Ég vil hafa slíka von, að eitthvað slíkt sé til hjálpar fólki. Það vantar á Íslandi, þegar Sjálfstæðisflokkurinn er að hlýða vinstrinu og Miðflokkurinn ekki það risaafl sem Sjálfstæðisflokkurinn var fyrir 40 árum.
Íslendingar eru fjarri góðu gamni. Fyrir okkar steinsofandi þjóð virðist liggja að ganga í ESB og missa sjálfstæðið endanlega.
Ingólfur Sigurðsson, 26.7.2024 kl. 02:58
Blessaður Magnús.
Ég hef nú aldrei verið naglviss, um það geta fleiri en færri puttar á vinstri hendi minni vitnað. En það sem er að gerast þarna vestra er eitthvað sem er ekki rétt á neinn hátt.
Kannski erum við að upplifa dauðateygjur lýðræðisins, flokkseigendur reyna ekki einu sinni að fela puttann sem þeir senda kjósendum. Og að mæta á kjörstað virðast litlu máli skipta, niðurstaðan alltaf sú sama. Hér á Íslandi heitir það að boða hagræðingu eftir kosningar og flatan niðurskurð. Að gefa í, rífa upp, taka slaginn við hnignunina, efla grósku og gróandann með því að hlúa að einstaklingnum og öllu innlendu, það er útdautt tungutak.
En kjósendur er ekkert dauðir, maður sér það til dæmis í Frakkland, þar sáu innlendir, sem eru búnir að fá uppí kok af rétttrúnaði skríðandi þjóna glóbalsins, tækifæri til að kjósa þá burt, en aðfluttir ásamt unga fólkinu sem er fast í sýndarheimi blekkingarinnar, komu í veg fyrir þá byltingu. Ætli Frakkarnir reyni bara ekki aftur.
Þetta fer samt bara einhvern veginn, við eldumst allavega Magnús, alveg hættir að skilja í vitleysunni.
Það er eins og mér finnst ég hafa heyrt slíkt áður, til dæmis á áttunda áratugnum í saltfisknum, þá fór þetta samt einhvern veginn. Reyndar aftur á bak áður en yfir lauk, en svoleiðis er það bara.
Það á alla vega að birta til um helgina.
Kveðja úr uppstyttunni í neðra.
Ómar Geirsson, 26.7.2024 kl. 06:58
Blessaður Grímur.
Það eru kannski litlar fréttir, en fram að þessu hefur það allavega virt leikreglurnar.
Og já, það er margur skrípaleikurinn í þessu, og fréttaflutningurinn af ræðu manns sem hrökklaðist úr framboði sínu á lokametrunum, því hann stóðst ekki þrýsting flokkseigandanna, er ótrúlegur. Hann var allavega ekki svona þegar Nixon yfirgaf þvingaður embætti sitt, þá var einfaldlega sagt frá raunveruleikanum.
Það er ekki gert í dag, og þá segir maður eins og Skrámur forðum; Pútín hvað.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 26.7.2024 kl. 07:02
Takk fyrir innlit og athugasemd Ingólfur, hún talar fyrir sínu og litlu við að bæta.
Aðeins benda á að hér hefur verið margt sagt en Trump samt ekki ættfærður uppá elítuna, strax frá fyrsta degi var ljóst að þarna fór maður bæði gegn flokkseigendum og alþjóðaauðmagninu, ég hins vegar trúði ekki orði um það, taldi það sýnd til að ná til sín atkvæðum.
Nú jæja, ég hafði bara rangt fyrir mér, og fattaði að þarna væri kominn maður sem væri óvinur óvina minna, og þar með á vissan hátt í vinabók mína.
Trump hefur hins vegar látið á sjá, það er ekki vitsmunamerki að detta í að tala um uppþvottavélar á kosningafundum líkt og Friðjón erkióvinur hans á Íslandi sagði frá í einhverjum þættinum. Og það eru 4 ára framundan en hvað veit maður um tæknina, hún náði að hleypa því lífi í Biden að hann gat talað og hreyft sig, en alltaf jafn stjarfur.
Ég veit ekki hvernig þessar kosningar fara en ég hef alltaf jafn gaman að því þegar einhver kjaftfor tekur það að sér að lemja á auðrónunum, það mættu vera fleiri slíkir í heiminum í dag.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 26.7.2024 kl. 07:15
Það er óskaplega fátt við stefnu demókrata sem hægt er að kenna við vinstri. Alveg örugglega er stefna þeirra hægra megin við "New deal" FDR á sínum tíma. Hins vegar á róttæk einangrunarstefna Dóna Prump enga samleið með klassískri hægri stefnu eða frjálslyndi.
Bjarni (IP-tala skráð) 26.7.2024 kl. 10:57
Blessaður Bjarni, Dóna Trump eins og þú kallar hann, fetar fótspor andstöðu hægri þjóðernisafla í Evrópu gegn glóbalvæðingunni.
Að baki liggur þessi einfalda skynsemi, af hverju geta örfáir auðmenn lagt niður heilu samfélögin.
Sem og spurning sem kom seinna, hví eru allir þessir umhverfis og félagslegur skattar lagðir á heimafyrirtæki, samtímis þar sem fríverslun við þrælabúðir hins alþjóða auðmagns skilar svipuðum vörum, margfalt ódýrari því þær eru ekki skattlagðar með umhverfis eða félagslegum sköttum.
Allt hefur þetta lagst á eitt Bjarni til að útrýma vestrænni framleiðslu, sem og lífskjörum vinnandi fólks.
Trump er vissulega eins og hann er, en óttalega eru þeir aumir sem verja andstæðinga hans, eða andstæðinga meintra hægri populista í Evrópu, vissulega eru þetta gallagripir, en vinstriaumingjarnir eru það lægsta sem til er, þjónandi Helinu sem gengur að lokum vestrænum samfélögum dauðum.
Að verjast undirboðum Bjarni er ekki einangrunarstefna, það er lífsbjörg.
Að setja á skatta sem fríverslun innflutningsins þarf ekki að bera, er hins vegar dauði.
Gjaldþrot hins vitiborna frjálslynda manns, eða aumingjanna til vinstri, var að það þurfti dólg eins og Trump til að berjast gegn Heli glóbalsins.
Þessir aumingjar væla og skæla, aðeins til að magna upp smán þeirra.
Þá smán að Trump er eini valkosturinn við arðrán glóbalsins, niðurrifs þess á vestrænum samfélögum, sá eini sem berst við Nýfrjálshyggju Friemans og Hayeks, enda er sú hjátrú Mammons einn af hans helstu andstæðingum.
Aðrir sem áður lutum þessari hagtrú Mammons, ná áttum með því að kenna glóbalið við einhverja vinstristefnu, eins og til dæmis að hugmyndafræðingar hins Frjálsa flæðis, Haeyk og Friedman væru meðhöfundar Kommúnistaávarps Marx og Engels.
Svona fer sagan í hringi Bjarni, og vanþekking skýrir þann hring.
Þess vegna eigum við að þakka fyrir Trump, hann kann ekki sögu, hann hefur engan áhuga á staðreyndum, hann er vígamaður, víg sem snúast um völd og áhrif Trumps. En hann ræðst að hinu illa, hagtrú þess í neðra.
Fyrir það virði ég hann.
Alveg eins og ég fyrirlít fyrrum félaga mína til vinstri.
Þeir þjóna á meðan Trump berst gegn.
Á því er mikill diff.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 26.7.2024 kl. 15:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.