Forsetinn og sjálfstæðið

 

Það eru mætar manneskjur sem Mbl.is bauð til sín í kappræður, af öllum yrði sómi á Bessastöðum.

 

Ég hef verið spurður hvað ég myndi kjósa ef ég væri ekki svona pólitískur, það er harður andstæðingur frjálshyggjunnar sem kennd er við hið Frjálsa flæði Evrópusambandsins, og þar með greiða þeim eina atkvæði sem hefur risið upp til varnar sjálfstæði þjóðarinnar.

Ég skal fúslega játa að ég gæti alveg hugsað mér að greiða Katrínu Jakobsdóttur atkvæði mitt, Katrín á allar þakkir fyrir að tryggja þjóðinni stjórntæka ríkisstjórn á tímum þar hávaði, froða og algjört innihaldsleysi er valkosturinn.  Katrín stóð sig líka afburðavel sem leiðtogi á kóvid tímanum, og ekki síður núna þegar Reykjanes er í útþenslu jarðhræringanna.  Mér finnst enginn stækka við það að gera lítið úr Katrínu og störfum hennar, það vill bara svo til að fólk er ekki alltaf með sömu sýn í stjórnmálum, og fólk þarf að una andstæðingum sínum sannmælis.

 

En líklegra væri samt að ég ætti í erfiðleikum að gera uppá milli tveggja karla, þeirra Baldurs Þórhallssonar og Jóns Gnarr.

Baldur hefur komið mér á óvart í þessari kosningabaráttu (ég er ekki að tala um gleymsku), breyttist úr þurrum fræðimanni í forsetaframbjóðanda með mikla útgeislun, fróður og málefnalegur.  Kannski sá frambjóðandi sem mér finnst líkastur Ólafi Ragnari, maður fróðleiks og þekkingar.  Það er alltaf gaman að monta sig að því að eiga gáfaðasta þjóðhöfðingja Norðurlanda en á það benti einhver Norðurlandabúi sem öfundaði okkur af Vigdísi Finnbogadóttur.

Jón Gnarr hins vegar er öðruvísi frambjóðandi og þó fylgi hans hafi goldið fyrir sterkasta trendi núverandi kosningabaráttu, að kjósa gegn, þá tel ég hann eiga fullt erindi á Bessastaði, því á bak við grímu grínistans er djúphugull maður, mannvinur, og já; öðruvísi.  Það er því miður skortur á brosum í heiminum í dag, og bæta þar úr, gæti verið mikilvægt framlag okkar til heimsþorpsins.

Ég hygg að ég hefði kosið Jón Gnarr, að öðrum ólöstuðum.

 

Meinið er að maður hefur ekki efni að láta sig dreyma á tímum þegar auður í bandalagi við Brusseldáta sækir að sjálfstæði þjóðarinnar.

Beint stjórnarskráarbrot er í undirbúningi á Alþingi, líklegast það stærsta sem hægt er að fremja, að samþykkja að íslensk lög gildi ekki lengur á Íslandi, heldur lög og reglur Evrópusambandsins.

Samningur sem upphaflega snérist um tolllítinn aðgang að mörkuðum Evrópuríkja, hefur snúist uppí valdaafsal þannig að ekki er lengur hægt að tala um sjálfstæði og sjálfstæða þjóð.

Í raun verðum við í sömu sporum og öll hjáríkin sem fylgdu Napóleon keisara eða Þriðja ríkinu.  Sjálfstæð að nafninu til, en ordurnar koma að ofan.

 

Í raun erum við að ræða um bein landráð stjórnmálastéttar okkar sem klædd er í froðu orðavaðals um lög og reglur Evrópusambandsins séu íslensk því Alþingi samþykki þau á færibandi.

Líkt og vissulega verið hefur, en núna er það fest í lög að komi upp ágreiningur milli sannarlegra innlendra laga og tilskipana Evrópusambandsins, þá lúffi íslensk lög.

Sem þýðir á mannamáli að lögin koma að utan, að dómurinn komi að utan, þó vissulega séum við með Alþingi og dómsstóla að forminu til.

Svona líkt og við vorum með undir stjórn Danakonungs áður fyrr á öldum þegar Ísland var hjálenda Dana.

 

Við höfum sem sagt ekki gengið götuna til góðs líkt og þjóðskálið spurði þegar það hvatt okkur til dáða í sjálfstæðisbaráttu okkar hinni fyrri.

Núna á að kasta sjálfstæðinu fyrir róða, það sé úrelt í nútímanum, það sé aftur runninn upp tími stórríkjanna.

 

Við sem erum ekki sammála og trúum því að sjálfstæði sé fjöregg þjóðarinnar, ásamt tungu hennar og menningu, upplifum að núna sé kominn tíma á aðra sjálfstæðisbaráttu, sjálfstæðisbaráttuna hina seinni.

Eigum ekkert val í þessum kosningu, aðeins einn frambjóðandi hefur risið upp gegn þessum fyrirhuguðum landráðum stjórnmálastéttarinnar, og sagt; Þetta má ekki.

Og ef hann kemst á Bessastaði, mun hann vísa þessum landráðum til þjóðarinnar.

 

Barátta Arnars Þórs Jónssonar er örugglega vonlítil, alveg eins og hjá manninum sem hvatti þjóð sína til dáða með heitstrengingum um að verja ströndina, um að verja hæðirnar, að verja bæi og borgir þar til yfir líki, og halda svo áfram baráttunni á fjarlægum ströndum þar til sigur ynnist.

Margur glotti en þessi hvatningarorð urðu þjóð hans innblástur.

Því það er þannig að þegar flest sund virðast lokuð, þá er það eina sem er eftir, að halda haus, gefast ekki upp.

Þessa speki, það er þegar öll sund virðast lokuð, hef ég reynt á mínu eigin skinni, og get skrifað þessi orð af því að þá var ekki gefist upp þó brimskaflar rastarinnar virtust ókleyfir fyrir smáfleyið sem reyndi að komast í gegnum þá, að snúa við hefði verið síðasti snúningurinn.

 

Því þetta snýst allt um að gefast ekki upp, og eygja vonina.

Það skiptir ekki máli hve margir kjósa Arnar Jónsson, hvert atkvæði er yfirlýsing vonarinnar um að til er fólk sem sættir sig ekki við landsölu valdaelítunnar.

Og alræðið hefur áður virst hafa allar taglir og öll höld, en samt lotið í gras gegn einbeittri frelsisþrá fólks og þjóða.

 

Svoleiðis baráttu háum við Íslendingar í dag.

Undir er tilvera okkar sem þjóðar, því án sjálfstæðis munum við daga uppi í einhverri skúffunni út í Brussel.

Þetta veit valdið, það afhjúpar ótta sinn þegar það lætur penna sína naga niður framboð Arnars Þórs, einan allra frambjóðanda.

 

Og þetta vitum við; Sjálfstæðir menn, sjálfstæðir Íslendingar.

Við mætum á kjörstað, ég reyndar búinn að kjósa, og kjósum sjálfstæði þjóðarinnar.

Það er okkar eini valkostur.

 

Vissulega erum mætir í framboði.

En aðeins einn sem reis upp.

 

Kjósum hann.

Kjósum Arnar.

Því þannig kjósum við okkur sjálf.

Kveðja að austan.


mbl.is Horfðu hér: Heitar kappræður í Hádegismóum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"...hafa allar taglir og öll höld" 

Eitthvað víxlast. Ætti það ekki að vera að "hafa öll tögl og allar hagldir"? Eða bara segja "hafa töglin og hagldirnar" eins og hefðin er. En efnislega; fínn pistill.

Haraldur (IP-tala skráð) 31.5.2024 kl. 09:01

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Haraldur.

Aðeins að leika mér að málinu.

Gott að þú náðir pointinu.

Kveðja að austan

Ómar Geirsson, 31.5.2024 kl. 21:33

Bæta við athugasemd

Hver er summan af níu og fjórtán?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Júní 2024
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30            

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.6.): 46
  • Sl. sólarhring: 591
  • Sl. viku: 2669
  • Frá upphafi: 1353367

Annað

  • Innlit í dag: 40
  • Innlit sl. viku: 2315
  • Gestir í dag: 40
  • IP-tölur í dag: 39

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband