Rjúkandi rústin.

 

Ástandinu á Íslandi, hvort sem það er í stjórnmálum, eða rekstri þjóðarbúsins, er best lýst með frétt sem var á Rúv fyrir nokkrum dögum síðan, og fjallaði um bágborið ástand vega í Dölunum og á sunnanverðum Vestfjörðum.

Slitlagið á stórum köflum var ónýtt, engin önnur orð hægt að nota um það, og hið hlálega í fréttinni, eða réttara sagt örvæningarópi starfsmanns Vegagerðarinnar fyrir vestan, var að það kostar nokkra milljarða að gera þá ökufæra á ný, en fjármálaráðuneytið ætlar í verkið nokkur hundruð milljónir.

Skýringarnar á ástandi veganna má rekja til aukinna þungaflutninga, aukins ferðamannastraums sem og frumstæðra vinnubragða vegagerðarinnar sem hefur ekki þróað þetta bráðabirgðaslitlag sitt í áratugi, nema þá til versnunar, í nafni misskilinna umhverfisverndunarsjónarmiða datt einhverjum snillingi vegagerðarinnar í hug að taka bikið úr og setja náttúrolíur í staðinn, með margfalt lélegri endingu.

 

Þessi litla dæmisaga segir allt um hvernig Íslandi hefur verið stjórnað í langan tíma.

Viðhaldi innviða er ekki sinnt eins og þarf að gera, viðhaldi fasteigna er ekki sinnt eins og þarf að gera, eða þar til allt er orðið ónýtt, þá duga ekki milljónirnar sem hefðu dugað, heldur þarf milljarðanna.

 

Og stjórnvöldum virðist vera fyrirmunað að sjá afleiðinga ákvarðanna sinna. Þau gáfu leyfið fyrir stórtæka uppbyggingu laxeldisins á suðurhluta Vestfjarða, og það var vitað að slíkt myndi stórauka álagið á vegakerfið, og það á vegi sem voru ekki byggðir fyrir svona mikla þungaflutninga.

Samt er ekki brugðist við í tíma, hvort sem það er að styrkja vegakerfið eða reyna finna leiðir til að minnka álagið á það

Það er aldrei brugðist við neinu eða tekist á við neitt fyrr en í óefni er komið.

 

Um margt er Ísland á sjálfsstýringu.

Ferðamannaiðnaðurinn hefur fengið að þenjast út án þess að nokkur stefna sé mörkuð í að mæta auknu álagi á innviði með uppbyggingu þeirra.

Það nægir að einhver útlendingurinn vilji byggja hér hóteli, þá er það byggt, starfsfólkið fengið erlendis frá, og svo skilja menn ekkert í hinum síviðvarandi húsnæðisskorti.

Eða þensluáhrifin sem landsmönnum er svo hegnt með sívaxtahækkunum einvaldsins í Seðlabankanum.

 

Flóttamanna og mansalsiðnaðurinn er svo annað dæmi um sjálfstýringu sem þjóðin er hætt að ráða við. 

Landamærin er opin eða því sem næst, yfir 20 milljarða saug þessi angi alþjóðlegra glæpastarfsemi í sig af opinberu fé á síðasta ári, fjármunir sem eru teknir frá lífsnauðsynlegri starfsemi innanlands.

Atvinnugóðmenni og opinber samtök hinna alþjóðlegu glæpasamtaka, stjórna hinni opinberu umræðu, alltaf má týna til eitthvað barn í vanda, venjulega fjölskyldu í neyð, síþrýstingur til að halda landamærunum opnum, eins og við rúmlega 300 þúsund manna þjóð geti tekið við öllum flóttamönnum heimsins.

Sjúklegast er samt að minnst af þessum fjármuni rennur til fólks sem er að flýja heimili sín vegna styrjaldarátaka eða  náttúruhamfara.

 

"Rjúkandi rúst" er ekki vísan í að við Íslendingar höfum það svo slæmt, landið okkar er gjöfult, þjóðin dugleg og vel menntuð, hér er gott að eiga heima og ala upp börn.

Stjórnmálin okkar ráða bara ekki við að stýra landinu, og það sem er viðráðanlegt er að verða illviðráðanlegt, og það sem var illviðráðanlegt er að verða óviðráðanlegt eins og vegirnir fyrir vestan, tími bótarinnar á hinar stagbættu buxur er liðinn.

 

Gjaldþrot stjórnmálanna á tímum loftslagsbreytinga og háleitra markmiða í loftsagsmálum, kristallast í þeirri staðreynd að hér í landi orkunnar hefur lítt eða ekkert verið virkjað á þessari öld.

Við eigum ekki til orku fyrir orkuskiptin, birtingarmynd hláleikans er sú staðreynd að þegar fiskistóriðjan okkar fór 40 ár aftur í tímann og fór að kynda með olíu, þá hvarf á einni nóttu ávinningurinn af rafbílavæðingu þjóðarinnar.

Jafnvel í dæmisögu H.C. Andersen var keisarinn ekki svona nakinn líkt og íslenskir stjórnmálamenn eru í dag, í því eina máli sem þeir virðast vera sammála um, að drífa hagkerfi okkar áfram á umhverfisvænni orku.

Og það er ekki bara að þeir geri ekkert í þessu, að tala kallast ekki að gera, þeir skilja ekkert í þessu.

 

Sem er kjarni málsins, þeir skilja ekki neitt, þess vegna gera þeir ekki neitt.

Nema tala, og upphlaupa í ræðupöllum Alþingis ef þeir eru í stjórnarandstöðu.

 

Það er því við hæfi að mál málanna undanfarna daga sé hvort Katrín Jakobsdóttir ætli að bjóða sig fram til embætti forseta Íslands.

Og núna, þegar hún loksins tilkynnir framboð sitt, þá er ljóst að hún skilur eftir sig sviðna jörð, flokkur hennar er rústin ein, ríkisstjórnin, kannski þegar í andaslitrum, er á eftir stjórnlaust flak, ef hún hangir í einhverja vikur, þá er það vegna ótta viðkomandi flokka við dóm kjósenda.

 

"Rústin ein" er kannski við hæfi sem eftirmæli Katrínar Jakobsdóttur.

Hún hóf jú feril sinn í stjórnmálum sem taglhnýtingur Steingríms Sigfússonar, þess mikla ógæfumanns í íslenskum stjórnmálum.

Hún tók varðstöðu með völdum Steingríms gegn hagsmunum og framtíð vinnandi fólks.

Gekk erinda hins sígráðuga svarta fjármagns í stað þess að höggva á krumlur þess.

 

En frá því, til þessa dags, hefur Katrín um margt reynst þjóðinni vel.

Hún kom saman starfshæfri ríkisstjórn þegar valkosturinn var upplausn leidd af Pírötum og Samfylkingunni.

Og hún hefur verið glæsilegur fulltrúi þjóðarinnar erlendis, fjölmenntuð, bráðskemmtileg, alþýðleg.

 

Þess vegna er þessi endir svo sorglegur.

Það lýsir ekki manndómi að flýja sökkvandi skip, einhver hefði tekið upp kökukeflið og þrammað til orrustu, tekið slaginn með fólkinu sem treysti henni, sem barðist fyrir hana, sem tók á sig alla ágjöfina hennar vegna.

Það er eins og feigð hafi komið yfir Katrínu, að hún hafi arkað inní dimman dal og ekki séð neina ljósglætu framundan, eða að baki sér.

 

Hvað um það, brotthvarf hennar markar kaflaskil í íslenskum stjórnmálum.

Blaðrið og vitleysan getur ekki versnað, en hvort eitthvað annað sé í boði veit tíminn einn.

 

En þá þarf þjóðin að óska þess.

Kveðja að austan.


mbl.is Katrín býður sig fram til forseta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Atvinnugóðmenni er gott orð! 

Wilhelm Emilsson, 5.4.2024 kl. 22:26

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Wilhelm, já það er vel lýsandi fyrir þessa stétt manna.

En það þurfa allir að hafa í sig og á, því miður stundum á kostnað þeirra sem þurfa fjármagnið sökum neyðar eða aðstæðna.

Spurning um samviskuna þegar húmar seint að kveldi og sálin leitar tengingar við almættið.

Veit allavega að hún var góð hjá biskupnum af Digne enda hafði hann atvinnu af öðru en að vera góðmenni.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.4.2024 kl. 11:47

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Takk fyrir frábæran pistil, og sérstaklega þessi orð:
Jafnvel í dæmisögu H.C. Andersen var keisarinn ekki svona nakinn líkt og íslenskir stjórnmálamenn eru í dag, í því eina máli sem þeir virðast vera sammála um, að drífa hagkerfi okkar áfram á umhverfisvænni orku.

Þetta með malbikið þekki ég vel eftir samræður við starfsmann malbikunarstöðvar sem kvartaði undan stöðugu áreiti eftirlitsmanna, síbreyttum uppskriftum af malbiki og sinnuleysi almennt gagnvart því að þurfa framleiða verðmæti. 

Ég hætti á að verða sendur í gapastokkinn en legg til að Davíð Oddsson, eða önnur manneskja með hryggsúlu úr stáli, rísi úr rykmekki meðalmennskunnar í íslenskum stjórnmálum og að kjósendur taki vel á móti (ef prófkjör og uppstillingarnefndir síu ekki slíka einstaklinga út áður en til kosninga kemur, eins og Sjálfstæðisflokkurinn er duglegastur allra að gera).

Geir Ágústsson, 6.4.2024 kl. 17:54

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir þessi orð Geir, ég met þau mikils.

Þetta var eitthvað sem þurfti að segjast, ekki mín vegna eða annarra vegna, orðin brutu sér aðeins leið gegnum varnir þagnarinnar sem Kveðjan að austan var sjálfskipuð komin í.

Til skamms tíma hefði ég tekið undir þessi orð um Davíð, guð hjálpi mér að ég eigi mikla samleið með honum, enda hann íhald og ég Hriflungur. En styrkur hans að þora, að vera, og að standa með ákvörðunum, hefur á tímum innihaldslaus blaðurs og forheimsku, hefur í þó nokkuð mörg ár vegið æ þyngra gegn tómhyggju nútíma stjórnmála.

En ég á erfitt með að fyrirgefa friðarstól (fínt orð yfir kjarkleysi) Davíðs gagnvart femínistum Morgunblaðsins, sem upphefja morð og viðbjóð miðaldaöfgahyskis Hamas, með því að láta eins og Ísraelsmenn eigi í stríði á Gasa við sjálfa sig. Femínistinn sem í raun er verkfæri botnlausrar illsku.

Óendanleg dæmi um meðvirknina, spítalar óstarfhæfir vegna orkuskorts (rafalar án olíu), samt starfaði stríðsvél Hamas af fullum þunga gagnvart innrásarliði Ísraela.  Börn deyja úr hungri og ofþornun, samt eru hermenn Hamas stríðaldir, langsoltinn maður berst ekki gegn þungvopnuðum hermönnum. Og ef menn efast um baráttuþrek stríðsmanna Hamas, þá þarf fólk að vera hreinræktað fífl til að trúa að umsátrið um spítalann þarna sem er núna rústir einar hafi falist í að Ísraelskir hermenn hafi skotið á sjálfa sig.

Að geta ekki sagt satt, óháð því hver fremur voðaverkin, að falla í þá gryfju að upphefja voðaverk eins og þau séu aukaatriði málsins, meðvirk fréttamennska Morgunblaðsins með óhæfuverkum voðamanna, sem eiga blóðslóð í borgum Evrópu, núna síðast í Moskvu, í kristnum þorpum á Sahel svæðinu, gagnvart eigin trúbræðrum og öðrum um öll Miðausturlönd, er Davíð Oddssyni til ævarandi skammar.

Hann hefur ekki tötsið lengur.

Sigríður Andersen hefur hins vegar stálið í hryggjarsúlu sinni, guð hjálpi mér að segja þetta, fáar andstæður þekki ég meir milli skoðana minna og hennar, því miður eru hennar líkar ekki á Alþingi í dag.

Veit hins vegar að hún er ekki lausnin því hún er ekki allra.

Lokaorð mín voru ekki út í loftið, því miður; "Blaðrið og vitleysan getur ekki versnað, en hvort eitthvað annað sé í boði veit tíminn einn.".

Sem og að það er tími til kominn að íhaldsmenn, bæði núverandi og fyrrverandi Sjálfstæðismenn, fatti að það er ekki einu sinni blæbrigðamunur á málflutningi Kristrúnar Frostadóttur og Þordísar Kolbrúnar með miklu fleiri nöfnin.  Og aumt er það vígi sem reynir að sannfæra bæði sig og aðra um að Kristrún sé í vitlausum flokki.

Fyrir rúmu ári síðan hefði ég hins vegar verið sammála þér með Davíð, og ég ulla bara framan í þá sem telja sig hafa styrk til að setja mig í gapastokk þöggunarinnar.

Ég mæli hins vegar með alvöru verkfræðingum, bæði í malbikun og að byggja hús án myglu, og ég mæli með blóðugum niðurskurði á regluverki andskotans kennt við fjórfrelsi Evrópusambandsins.

Svo mæli ég með Tuborg sem sóttvörn á Hróarskeldu, og svona almennri heilbrigðri skynsemi, saman hvaðan kemur hún kemur.

Og ekki hvað síst, með stáli í hryggjarsúlum.

Kveðja út í Danaveldi, að austan.

Ómar Geirsson, 6.4.2024 kl. 18:50

5 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Takk kærlega fyrir svarið, Ómar. Þú bendir á eftirfarandi: "En það þurfa allir að hafa í sig og á, því miður stundum á kostnað þeirra sem þurfa fjarmagnið sökum neyðar eða aðstæðna." Það lifir enginn á loftinu, sagði amma mín. Ég kíkti einu sinni á upplýsingar um mannúðar- og hjálparsamtök, þ.e.a.s. hve mikið af fjármunum sem safnast fer til málefnisins og hve mikið til þess að halda samtökunum uppi. Það sagði sína sögu. Góðmennska getur verið bisness eins og hvað annað--en ekki alltaf eins og tilvitnun þín í Victor Hugo sýnir.

Með bestu kveðju austur!

Wilhelm Emilsson, 6.4.2024 kl. 19:53

6 identicon

Takk fyrir góðan og þarfan  pistil.

Það er helvíti óþolandi að það sé ekki bara atvinnugóðmennskan sem ríki hér, heldur er sem stjórnvöld noti land og þjóð til stórsóknarfórnar, án nokkurs plans hvert stefna skuli.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 7.4.2024 kl. 14:04

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Pétur Örn.

Það tekur á að halda með litla liðinu í Manchester þessa dagana, raðárásir á blóðþrýsting leik eftir leik, eins gott að íslensku  stelpurnar forðuðu manni frá álíkri spennu og var í leik minna manna við Púlarana þar á undan.

Það er því miður ekki sama spennan í íslenskum stjórnmálum í dag, ekkert bendir til annars en að sjálfsstýringin haldi áfram, og fólk sem greinir ekki eða skilur þann vanda sem grefur undan lífskjörum þjóðarinnar og í raun þjóðinni sjálfri því það er hægt og hljótt verið að gera okkur að minnihlutahóp í landi áa okkar, það hefur ekkert til úrbóta að leggja.

Segi eins og Geir, hryggsúla úr stáli óskast.

Má vera notuð.

Kveðja úr garranum hér fyrir austan.

Ómar Geirsson, 7.4.2024 kl. 17:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 328
  • Sl. sólarhring: 783
  • Sl. viku: 6059
  • Frá upphafi: 1399227

Annað

  • Innlit í dag: 278
  • Innlit sl. viku: 5133
  • Gestir í dag: 261
  • IP-tölur í dag: 259

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband