Kveikjum eld, kveikjum elda!!

 

Syngur seðlabankastjóri þessa dagana, nema með fornnorðlenskum framburði svo líklegast þarf þýðanda svo fólk skilji.

 

Ekki gerir forseti ASÍ það allavega; Hann segir "óþolandi mýtu að kjara­samn­ing­ar og launa­hækk­an­ir séu ástæðan að baki þess hve illa geng­ur að temja verðbólg­una. Frek­ar hefði átt að taka á þeim vanda­mál­um sem uppi voru fyr­ir rúmu ári vegna hækk­ana á fast­eigna­markaði, en að hækka stýri­vexti".  Og bendir á það augljósa sem allir sjá sem tala og skilja nútíma íslensku;

"Þarna eru hlut­ir á bakvið þetta, veik­ing krón­unn­ar hef­ur áhrif á verðbólgu, það eru ytri aðstæður sem hef­ur áhrif á verðbólgu og svo eru gjald­skrár hækk­an­ir hjá stjórn­völd­um sem eru að auka verðbólgu, sem ella hefði lækkað hefðu þær ekki komið til um ára­mót­in.".

 

Ekki er skilningurinn á söng seðlabankastjóra meiri hjá fulltrúum atvinnurekanda, Halldór Benjamínsson talar um óskiljanlegar boltalíkingar og bætir svo í; "Seðlabank­inn er því því miður að feta hratt þá leið að skaða trú­verðug­leika sinn al­var­lega.".  Svo kemur hefðbundni söngurinn sem hann fékk í arf frá fyrirrennara sínum, sem aftur fékk hann í arf hjá sínum fyrirrennara, sem aftur ... og svo koll af kolli, um óábyrg ríkisfjárlög og núna sé ekki lengur hægt að hækka kaupið þó það sé ekki sagt að það gæti komið niður á ofurarðgreiðslur fyrirtækja.

 

En stöldrum við þetta með trúverðugleikann, sem réttilega er verðmætur og til mikils að halda í hann.  Það gildir samt ekki bara um seðlabankastjóra, heldur líka um Halldór eða ríkissáttasemjara, en þeir síamstvíburunum tókst með einu gönuhlaupi að eyðileggja allt traust á vinnumarkaðnum og stórskaða embætti ríkissáttasemjara.

Fyrir hvað??, kröfur láglaunafólks um laun sem dygðu fyrir lágmarksframfærslu!!!

 

Það er nefnilega mjög auðvelt að skaða trúverðugleik sinn en það getur verið mjög erfitt að vinna hann aftur.

Augljóst er að allir eru að spila sóló, og enginn axlar ábyrgð á því sem er að gerast eða tekur af skarið og veitir forystu um leið sátta og samkomulags.

Og allir benda á hina, og hinn meinta stórskaðaða trúverðugleik þeirra.

Ríkisstjórnin er svo stikkfrí, að mæta á ráðstefnur, að halda skál-skálráðstefnur, flottræfilsháttur og sýndin er mál málanna í dag.

 

Enginn stígur fram og sýnir frumkvæði, með því til dæmis að afsala sér einhverju sem sjálfvirknin hefur fært honum uppí hendurnar, eða slá af einhvern flottræfilsháttinn sem þjóðin hefur engan veginn efni á.

Við erum kannski stærst og best, en við þurfum samt ekki að greiða hæstu laun í heimi til stjóra okkar, hvort sem þeir eru í einkageiranum eða hjá hinu opinbera.

Að meta menntun til launa, í samfélagi þar sem stefnt er að því að yfir 80% þjóðarinnar sé með einhvers konar "æðri" menntun, þýðir ekki það sama að þá þurfi að greiða hinum ómenntuðu, þrælalaun, svo eitthvað sé afgangs fyrir hálaunakröfur hinna menntuðu.

Velmegun og velferð getur aldrei byggst á örbyrgð þeirra sem vinna grunnstörfin.

 

Það er siðferðisgrunnur kjarabaráttu Eflingar, og sá siðferðisgrunnur er ljósið sem mun lýsa þjóðina út úr ógöngum sínum.

Því ójafnvægið og síkrafa þeirra sem mest hafa um að fá meira, hærri laun, meiri arð, er að sprengja efnahagslífið sem og að vera uppspretta ólgu og átaka sem engan endi sér fyrir.

Bara það að staldra við og viðurkenna að mennskan, að siður krefst þess að allir hafi í sig og á af vinnu sinni, mun laga svo margt annað.  Menn munu fara að tala saman, útfæra leiðir, líta á sig sem samherja, ekki óvini.

 

En ef ekki, og Seðlabankinn telur sig þurfa að kveikja elda í stað þess að slökkva bál og lægja öldur, þá mun fátt annað gerast en forseti ASÍ bendir á; "Auk­in út­gjöld hjálpa ekki til við að ná samn­ing­um þar. Þetta er frek­ar til þess að auka á vand­ann".

Því það er liðin tíð að verkafólk taki því sem að því er rétt og verði stillt þegar því er sagt að verða stillt.

Og því verður ekki breytt þó menn láti ríkissáttasemjara siga lögreglu á Sólveigu Önnu og félaga hennar hjá Eflingu.

 

Að kveikja elda hefur aldrei virkað vel til að slökkva bál eins og aðilar vinnumarkaðarins benda réttilega á.

Að beita fyrir sig ólögum til að stöðva réttmætar verkfallsaðgerðir er ekki heldur líklegt að stuðli að friði og sátt á vinnumarkaði.

Að hver skari eld að sinni köku en í vandlætingu sinni bendir á aðra, er fyrst og síðast aðeins líklegt til að valda sinadrætti í bendiputtanum, en stuðlar aldrei að jafnvægi og stöðugleika.

Og að neita hluta þjóðarinnar um að hafa í sig og á er aðeins ávísun á stöðugan ófrið og deilur.

 

Þetta er allt eitthvað svo augljóst.

Kannski of augljóst til að fólk sjái þetta almennt.

 

Munum samt að við höfum áorkað miklu sem þjóð og þrátt fyrir allt ölum við börnin okkar upp í góðu samfélagi.

Við getum þetta alveg, við höfum allavega getað þetta.

Og það hefur ekkert breyst í rauninni, nema kannski að það sé of mikið til skiptanna, eða hver er vandinn þegar þjóðartekjur eru í sögulegu hámarki??

 

Það vantar bara skynsemisrödd og sátt um að hlusta á hana.

Og að við munum að við erum öll Efling, líka Halldór Benjamínsson.

 

Þá kemur þetta.

Alveg satt.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


mbl.is „Við erum reiðubúin að halda áfram“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 20
  • Sl. viku: 449
  • Frá upphafi: 1412811

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 388
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband