Sólveig Anna.

 

Það er eins og hetjur forndægranna séu í henni endurbornar hefði Tolkien lýst Sólveigu Önnu, ef tíminn sem engu eyrir hefði á annað borð gefið honum tækifæri til þess.

 

Og eins og þær hetjur, og aðrar hetjur, þá er Sólveig Anna aðeins manneskja, ófullkomin sem slík og örugglega margt upp á hana að klaga.  Því það er bara svo að það dæmist á venjulegt fólk að taka slaginn við mannfyrirlitninguna, mannvonskuna, mannhatrið sem ógnar lífi þess og samfélagi.  Hinir fullkomnu, ef þeir hafa þá nokkurn tímann verið til, sitja heima hjá sér í fullkomleika sína og benda, gagnrýna, og jafnvel fordæma, en gera aldrei neitt sjálfir.

En hetjan verður til þegar fólk sýnir einurð og dirfsku, heldur sjó þegar á móti blæs, rís upp eftir ósigra, aftur og aftur herjar hún á vígi andstæðingana, missir ekki von þó kannski engin von sé eftir.

 

Sólveig Anna er slík persóna, reis uppúr engu, hóf baráttu sem þurfti að heyja, hóf stríð við fólkið sem á tímum auðlegðar og alsnægta, getur ekki deilt til sinna fátækari bræðra kjörum sem gerir þeim kleyft að lifa mannsæmandi lífi, ekki einu sinni orðið við þeirri hóflegu kröfu um, fæði, klæði og Þak yfir höfuð.

Það sem drífur þessa hversdagshetju áfram má lesa í mörgum pistlum hennar en núna nýlega las ég pistil sem hreyfði mjög við mér, og mig langaði alltaf að deila því til annarra sem hreif mig, eða svona hluta af því.

 

Gefum Sólveigu Önnu orðið:

"Sagan er af konum á bekk, ekki upp­runa arð­ráns­ins í mann­legum sam­skipt­um. Það var ekki aðeins myrkur úti, við vorum líka myrkvaðar inní okk­ur. "Hvað á ég að ger­a?", spurði konan mig og ég hafði engin svör; hvað átti hún að gera, nú þegar fregnir höfðu borist um fyr­ir­hug­aða 20% hækkun á húsa­leig­unni henn­ar; hún var þegar í tveimur konu­vinnum til að sjá fyrir fjöl­skyldu sinni og þrátt fyrir umtals­verðan dugnað var ekki alveg raun­sætt að hún fengi sér þá þriðju.

Konur þurfa stundum að hvílast, líka ofur-arð­rændar lág­launa­kon­ur. Ég veit það ekki, svar­aði ég og það var satt, ég vissi ekk­ert hvað hún átti að gera. Hún var fangi í kramn­ings­vél snar­bil­aðs fólks, með­lima íslenskrar arð­ráns­stétt­ar, íbúa for­rétt­inda­turns­ins sem árið 2017 gnæfði sann­ar­lega hátt en hefur risið enn hærra síðan þá, svo hátt að þau sjá ekki til jarðar þar sem að eigna­lausar konur þeirra Jafn­rétt­is­eyju sem þau, útblásin af mont-vímu röfla stöðugt um, streyma til og frá um borg­ina, upp­sprettur enda­lauss arð­ráns; "Það til­kynn­ist hér með að frá og með næstu mán­aða­mótum verður þyngt veru­lega í keðj­unni sem heldur þér fang­inni. Ef að þú hefur athuga­semdir við það er þér bent á að bera harm þinn í hljóði. Það hefur eng­inn áhuga á að heyra þig væla."

Ég vissi ekk­ert hvað hún átti að gera og við sátum áfram þögl­ar. En ég fann hvernig andúðin á kerf­inu sem traðkar á eigna­lausum kon­um, heldur þeim fögnum alla þeirra daga, sogar úr þeim gleð­ina og ork­una, hellir inn í þær köldu myrkri kvíð­ans, kerfi knúnu áfram af auð­virði­legum sad­isma arð­ræn­ingj­anna, líkt og holdg­að­ist, sett­ist við hlið okkar og spurði: "Ekki ætlarðu að gera ekki neitt?".

 

Já, Ekki ætlarðu að gera ekki neitt?.  Við vitum öll svar Sólveigu Önnu, en það er hollt og gott öllum sem á einhvern hátt láta sig dreyma um betri heim, það góðan að við erum stolt af því sem við látum börn okkar fá í arf, að lesa lýsingu hennar á eldmóðinum sem knýr baráttu Eflingar áfram.

"Úti er napur og nið­dimmur vetr­ar­morg­un, á glæ­nýju ári. Um alla borg eru á ferli Efl­ing­ar-­konur sem nota vöðva­aflið sitt, heil­ann og hjartað til að halda öllu gang­andi. Meiri­hluti þeirra hefur við­var­andi fjár­hags­á­hyggj­ur, sem kreista þær og kremja, taka frá þeim birt­una og fylla þær af myrkri.(leturbreyting mín) Mönnum nægir ekki að arð­ræna þær sem vinnu­afl, nei, að þær hafi þak yfir höf­uðið skal einnig vera ótæm­andi gróða­upp­spretta reyk­vískrar borg­ara­stétt­ar­innar sem í frið­lausri gróða-­sýki sinni fær aldrei nóg. Valda­stéttin flaggar fánum kven­frelsis þegar hentar en þegar við­fangs­efnið er raun­veru­legar breyt­ingar í efn­is­legum raun­heimum þeim er við byggjum svo að líf kven-vinnu­aflsins taki breyt­ingum eru fán­arnir snar­lega teknir nið­ur, og ófrið­ar­súla ójöfn­uð­ar­ins tendruð með við­höfn. 

Það er oft þung­bært fyrir okkur Efl­ing­ar­fólk að sjá hversu raun­veru­legt skeyt­ing­ar­leysi efna­hags­legrar og póli­tískrar valda­stéttar er gagn­vart til­veru­skil­yrðum okk­ar. En þrátt fyrir það og vegna þess gef­umst við ekki upp. Eigna­réttur okkar á sjálfs­virð­ing­unni, sam­stöð­unni og vit­neskj­unni um að við erum ómissandi er algjör. Eng­inn fær því breytt. Við höfum lært að bar­áttu­vilji okkar og eld­móður er árang­urs­rík­asta móteitrið við myrkv­un­ar- og kúg­unar til­raunum fólks­ins í for­rétt­inda­turn­in­um. Þeim mun aldrei takast að svipta okkur frels­inu til að semja fyrir okkur sjálf, frelsi sköp­uðu af hetj­unum okk­ar, verka­fólki for­tíð­ar, með blóði, svita og tárum, af svo miklum eld­móði að hann ornar enn. Þeim mun aldrei takast að slökkva bar­áttu­vilja okk­ar.".

 

Þeim mun aldrei takast að slökkva bar­áttu­vilja okk­ar.  Vegna þess að hann er í raun eina baráttuljósið sem þúsundir láglaunafólks bindur vonir sínar við.

 

Það er napur kveðja, en varpar ljósi á svo margt sem Sólveig Anna rekur í þessum pistli sínum, að skilaboð stjórnarráðsins í upphafi þessara vinnudeilna er tilkynning um stofnun Mannréttindaskrifstofu, í auðugu landi þar sem ekki er einu sinni hægt að tryggja öllum Þak yfir höfuð, nema á þeim okurkjörum að fátt er eftir til að standa undir öðrum útgjöldum fjölskyldunnar.

Firringin er þvílík, gapið á milli raunveruleikans og valdastéttarinnar virðist vart lengur vera brúað, jafnvel þó menn nái að virkja hraða ljóssins til þess.

 

Vissulega hefur þorri landsmanna það tiltökulega mjög gott, en það afsakar ekki kjör þeirra sem verkin vinna og hafa það ekki.

Við getum ekki án hvors annars verið, og hættum að láta sem svo að okkur komi ekki kjör náungans við, nema þá þegar fólk vill öfundast út í einhvern.

 

Barátta Eflingar er réttmæt.

Sólveig Anna tók að sér að gera það sem við höfðum öll átt að gera.

 

Virðum það.

Kveðja að austan.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kærar þakkir, Ómar

fyrir þennan pistil.

Hann fangar kjarna málsins.

Og réttmæta, og þar með réttlátu baráttu Sólveigar fyrir hönd Eflingar.

Því að lokum snýst þetta ætíð um mennskuna og lífið, rétt eins og Samwise svaraði Frodo í Hringadrottinssögu, hin sígildu orð þess sem berst fyrir hið réttmæt, og réttláta:

That there's some good in this world, Mr. Frodo.  And it's worth fighting for.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 13.1.2023 kl. 13:53

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Pétur Örn.

Þegar upp er staðið, þá erum við á sömu blaðsíðunni, ég ber ekki fjöður yfir að þessi orð Sáms, fanga kjarna málsins.

En hver er ég uppá dekk að vísa i þennan kjarna heimsbókmenntanna í stríðinu mikla gegn illskunni einu, Tolkien kaus að kenna hana við Hringinn eina, en sem vitur maður þá var hann allatíð að vísa í Antikristnina, þess hjáguðs illskunnar sem sagði líkt og Sauron forðum, hvað kemur mér við örlög náungans, ég býð þér auðlegð og spáðu ekki í þó hún sé byggð á þrælavinnu og blóði náungans.

Eða eins og sagt var í einhverju testamentinu, og haft var eftir Freistaranum; Ég býð þér auðlegð og völd yfir öllu mannkyni, bara ef þú aðeins fellur á kné og tilbiður mig, og gefur skít í predikun þína um að við eigum að gæta bróður okkar.

Kjarni kristninnar Pétur, og það tók hjáguðinn Mammon langan tíma að vega að þessari visku, jafnvel þó heimurinn væri ófullkominn, og hið frumstæða skriðdýr lang-áa okkar bjó manninum heim fullan af ofbeldi og kúgun.  Samt sem áður, þá vann boðskapur Krists á, þar sem grunnreglan var, "þú skalt gæta bróður þíns", í undirtexta smáaletursins var það skýrt tekið fram að þú skyldir aldrei, og þá meina ég aldrei, hlusta á Mammon og siðspillingu hans.

En það fyrndi yfir spor Krists, Mammon sigraði boðskap hans, ekki vegna þess að hann virkjaði hinn frumstæða skriðdýraheila, enda slíkt aðeins skammtímaávinningur þess að virkja forheimsku og fábjánahátt mannsins, heldur vegna þess að hann upphóf gylliboð Freistarans, og bætti við, "ég skal gera þig ofsaríkan ef þú aðeins lútir mér".

Við þekkjum söguna síðan Pétur, það er geirneglt í hinu Frjálsa flæði Góða fólksins að þú eigir ekki að gæta Bróður þíns.

Góða fólkið geirnegldi sig við Hagfræði Andskotans, því hugmyndafræði Ný-frjálshyggjunnar kemur beint frá því sem Freistarinn (andskotinn) freistaði Jesú með, og hann hafnaði. En svo liðu ár og öld, og í dag ræður Nýfrjálshyggjan öllu, grunnboðorð hennar er afneitun á kjarna boðskapar Jesús, að þú skulir passa uppá bróður þinn, þess vegna nota ég réttnefnið; Hagfræði andskotans, með hagfræði með stórum staf, upprunann með litlum.

Vissulega einföldun hinna færri orða Pétur minn, en af hverju er deilan við Eflingu svona hatrömm?? 

Af hverju breytist þannig séð gott fólk í villidýr, þegar og aðeins það er minnt á grunnboðskap kristninnar; Þú skalt gæta bróður þíns.

Ég held að jafnvel Freistarinn, þessi sem hóf alla þessa deilu með að virkja síngirnina og sígræðgina í genum mannsins, sé hissa á hatrinu og heiftinni sem beinist að Sólveigu Önnu í dag.

Hann var jú aðeins að glíma við guðdóminn, hélt örugglega að enginn tæki hann svona alvarlega, í Íslandi í dag, í byrjun ársins 2023.

Jafnvel þeir vísustu sjá ekki allt fyrir, það get ég bæði svarið, sem og bætt við að það held ég að sé rétt.

Ég reyndi þó.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 13.1.2023 kl. 15:30

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

"Hvað svo var máttugt er beit brynjuna "og brá mínum svefni. Eða mun hér kominn Sigurður Sigmundarson er hefir hjálm Fáfnis og hans bana í hendi?" 

Enn sem áður, -Amen.

Magnús Sigurðsson, 13.1.2023 kl. 15:54

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Hvort sem við sækjum lýsingar í Sagnabálk Tolkiens, sem nákvæmlega spáði fyrir um Illskuna einu sem við í dag kljáumst við afleiðingar hins Frjálsa flæðis, eða hvort Snorri hitti naglann á höfuð með að við ættum að fjötra Fernisúlf, eða af þessum sögum séu afleiddar hetjusögur af "þá" samtímasögum", þá veit ég það eitt, að við, ég, þú og Skáldið erum þannig séð tímaskekkjur, sem þýðir aðeins eitt, að örlög samtíma okkar er eins og þau eru, en það er ekki á okkar valdi að breyta þar um.

Sem þýðir ekki það sama að maður geti ekki rifið kjaft, en hin stærri örlög eru ekki í okkar höndum.

Þess vegna, þannig séð dreg ég mig í hlé núna Magnús, effortið vegur ekki gegn uppskerunni, þó hlutlaus danskur kaupmaður eigi að mæla.

Ég veit ekki Magnús, en ég óska þess innilega að það falli með Sólveig Önnu, en sannarlega eru flest öfl alheimsins gegn henni.

Jafnvel þó við kunnum fornar sagnir.

Ég óska henni samt hins besta.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 13.1.2023 kl. 16:53

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þetta vitum við nú fletir gömlu mennirnir umfarm þá sem dorma í símanum sínum. Því er sem fer, og á meðan verður Tene hvorki að þaki yfir höfuðið né vermir til lengdar tærnar tíu, -rétt svo að það nái að verða að skálkaskjóli í Seðlabankanum.

Friður verði með yður Ómar, með kveðju úr efra.

Magnús Sigurðsson, 13.1.2023 kl. 17:22

6 identicon

Sæll Ómar; líka sem og þið Pétur Örn og Magnús !

Ómar !

Síztur allra; skyldir þú draga þig í hlje / eða taka að lenza á nokkurn hátt, Austfirðingur góður.

Þeir gerazt fáir; nú um stundir hjer á Mbl. (blog.is) vefnum í dag, sem þú sýnir þig í að vera, fyrir rjettlætis og sanngirninnar baráttuna, eins og drengilegur

stuðningur þinn gagnvart Sólveigu Önnu Jónsdóttur hefur vottfest hvað beztur vera, á líðandi dögum, sem misseri.

Sólveigu; sem hennar slekti öllu liggur svo mjög við öllum þeim stuðningi, sem mögulegt er að veita, í þessarri orrahríð við fáránleika fjárplógs- og græðginnar

óheftu afla, sem hvert dæmið á fætur öðru sýnir okkur:: þ.e., þeim okkar, sem höfum lágmarks siðferðiskennd til að bera: yfirleitt.

Hvet þig eindregið Ómar minn; til þess að halda ótrauður áfram þínum skrifum hjer á vef, án þess að hirða á minnsta hátt um viðhorf oflátunganna í okkar samfjelagi,

fátt gleddi skaðræðisins fylgjara meira, ljetir þú undan síga fyrir þeim, ágæti drengur.

Með beztu kveðjum; sem jafnan og áður, af Suðurlandi / 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 13.1.2023 kl. 17:57

7 identicon

Þó hin stærri örlög séu ekki í höndum okkar, sem hér skrifum, þá er þó aldrei að vita nema orð þín og pistlar, jafnvel  eitt orð í pistli, ein smæsta fjöður á vogarskálarnar, geti hreyft svo við að öllu breytir, snúið öllu til betri vegar, og er þá til mikils unnið.  Rétt eins og blað skilur bakka og egg, allt hverfist um það sverð, sverð réttlætisgyðjunnar að skynja hvoru megin allt skal falla.  Tek því undir hvatningu Óskars Helga að þú skulir ekki láta deigan brand síga, heldur berjast svo sem þér einum er lagið.  Í stíl Magnúsar segi ég svo Amen, efninu og andanum skylt.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 13.1.2023 kl. 19:43

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Látið ekki svona félagar, ég er ekki að hætta, bara þessum kafla er lokið,með þrennunni sem byrjaði á stormsveipnum, svo að mig minnir um réttlátt verkfall, og svo núna lokapistilinn þar sem Sólvegi Annar fær heiðurssætið, svona líkt og Óli Stef fær í handboltapallborði Ruv.

Þegar maður hefur ekkert meir að segja, þá segir maður ekki meir, þetta málefni, verkfall Eflingar snertir mig ekki neitt, þannig séð, er ekki á mínu borði, hvað sem ég segi eða segi ekki, snertir ekki á nokkurn hátt þá hringiðu sem ég er algjörlega utan við.

Það var Sólveig Anna, persóna hennar og einurð sem snerti mig, þetta átti bara að vera einn pistill, en innri röddin reyndist ekki sátt fyrr en þeir urðu þrír, þar af einn erfiður, enda orðfár.

Persónulega hygg ég að þetta sé árið þar sem allt fór til helvítis, það er þetta er árið þar sem við, mannkynið, gátum stöðvað, eða snúið við ferlum Tregðunnar sem stefna öllu til Heljar, en gerðum ekki.

Það er skýring þess að ég athugaði hvort ég kynni þetta ennþá, þarna einhvern tímann fyrir áramót, síðan var það undirliggjandi að tjá mig um Sólveigu Önnu þegar hennar tími væri kominn, sem er núna, og ég mætti og orðaði hugsanir mínar.

En með hækkandi sól þá brennur jörðin sem aldrei fyrr, og þá er spurning hvort ég hafi tötsið til að segja eitthvað að viti, sem og að ég finni hvötina til þess.

Ég veit allavega að ég bý að vettvanginum sem hefur fóstrað mig vel sem og haldið utan um skrif mín.

Í því er fólgin gæfa sem maður skal seint vanþakka, ég vona samt að hægriöfgarnar verði ekki endanlega búnir að slátra Moggablogginu, treysti allavega á Palla Kóng og félaga Geir til að halda þessu á floti.

En Efling strákar og barátta hennar er fyrir utan og ofan þessa vettvangs, hér gerir maður fátt annað en að stríða og ögra meintum hægri mönnum, en hér er skjól til að ráðast að forheimsku rétttrúnaðarins, eða Helstefnu Góða fólksins gegn framtíð barna okkar.

Þar heggur jafnvel deigur brandur Pétur minn, hvað þá beittur.

En þetta er bara svo stórt, og við svo smáir, sjáum samt til.

En Höfuðlausn var aðeins ort einu sinni, vonandi hef ég náð að setja inn eina línu inní Höfuðlausn hina nýju, megi valdið hætta við að höggva, í stað þess megi það semja.

Okkar vegna, þess vegna, allra vegna.

Það er mín fróma ósk.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 13.1.2023 kl. 21:13

9 identicon

Þú ert öðlingur og vilt vel en þú ert tilfinningavera, ekki vitsmunavera.

Hafðu það gott á nýju ári.

Bjarni (IP-tala skráð) 13.1.2023 kl. 22:57

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Ég elska þig líka Bjarni minn.

Takk sömuleiðis.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 14.1.2023 kl. 11:44

11 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Tek undir með þér. Sólveig Anna er sannkallaður leiðtogi.

Þorsteinn Siglaugsson, 14.1.2023 kl. 23:45

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið Þorsteinn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 15.1.2023 kl. 10:50

13 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Ég er líka sammála ykkur félagar að við höfum ekki átt verkalýðshetju eins og Sólveigu Önnu lengi, en spennir hún ekki bogann of hátt á þessum erfiðu tímum?

Þar liggur efinn. Er þetta rétti tíminn fyrir svona stéttabaráttu? Áður fyrr voru kjör lakari. Verkamenn voru á mjög lágum launum þegar afi byggði húsið sitt og verkstæðið um 1950. Hef heyrt sögurnar um það. Þá þurfti að skríða fyrir bankastjórunum. 

Uppi eru raddir um að Sólveig Anna kunni að vera að reka erindi auðjöfra innan félagsins. Veit ekkert um það, en allt er mögulegt.

Að lokum, ekki sammála Bjarna um að Ómar sé ekki vitsmunavera. Hann er kannski meiri tilfinningavera í heildina, en oft hafa röksemdirnar verið snjallar og óhrekjanlegar.

Ég dáist að Sólveigu Önnu eins og aðrir fyrir framúrskarandi dugnað í þessu. En er hún að þessu til að búa til nýja valdaklíku? Maður efast.

Annars eru líkingar og vísanir í Tolkien við hæfi. Mammon hefur sjaldan verið miskunnarlausari en á okkar tímum, og klækir hans inní vinstriflokkunum ekkert síður en hægriflokkunum oft. 

Ingólfur Sigurðsson, 17.1.2023 kl. 17:50

14 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Ingólfur.

Við flestum af þínum spurningum er Efinn, á nokkurn hátt hef ég reynt að leyna því.

Kjarninn er réttmæti??, sem og leiðtogahæfileikar Sólveigu Önnu.

Við búum við þá gæfu að Undirróðursmaðurinn á Mogganum svaraði þessum spurningum, hann gat ekki mætt röksemdum Sólveigu, og hann persónugerði hið meinta verkfall um persónu hennar.

Skil ekki og veit ekki tilganginn,  Mogginn virti alltaf reglur fréttamennskunnar, Fréttin.is var aldrei nokkurn tímann að hlutgerast hér á Mogganum svo dæmi séu tekin.

Eftir stendur samt, að þó Andrés Magnússon eigi að taka yfir ritstjórn Davíðs, og hann er eins og hann er, að af hverju lætur Kristrún þessi ósköp yfir sig ganga??

Hún var jú á breiðljósmynd með þessari Vonarstjörnu verkalýðsarms Samfylkingarinnar, arms sem Mogginn svívirðir í misnotkun sinni.

Og Kristrún segir ekki orð, ég hef sannarlega Ingólfur upplifað aðra eins gjaldfellingu á verðandi stjórnmálaleiðtogum Jafnaðarmanna, þetta slær út gorgeir Jóns Baldvins á sínum tíma.

Þá var ég strákur, í dag er ég ekki svo heimskur að sjá samhengið milli orða og raunveruleiks, og ég veit að Kristrún er aðeins kaupauki hjá Kviku, eða hvar það var sem hún seldi sálu sína.

Og þegar ég veit Ingólfur, þá er öruggt að fleiri vita.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 17.1.2023 kl. 18:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 639
  • Sl. sólarhring: 760
  • Sl. viku: 6223
  • Frá upphafi: 1400162

Annað

  • Innlit í dag: 582
  • Innlit sl. viku: 5346
  • Gestir í dag: 553
  • IP-tölur í dag: 542

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband