7.1.2022 | 08:37
Hópsýking einkennalausra.
Starfsemi raskast, starfsemi stöðvuð, fullfrískt fólk sent í einangrun eða sóttkví.
Hve lengi ætlum við að rífast við þann raunveruleik að omikron afbrigði kórónuveirunnar er komið til að vera, að núverandi aðgerðir virka lítt til að hindra útbreiðslu þess og þær valda langtum meiri skaða en hið meinlausa afbrigði veirunnar sem bólusetningar virðast ráða fullkomlega við.
Fyrir utan þá djúpu heimsku að hamla útbreiðslu veirunnar núna á þeim tímapunkti þar sem virkni örvunarbólusetningarinnar er í hámarki, en það er vitað núverandi bóluefni hafa tiltölulega skamman líftíma áður en þörf er á nýrri örvunarbólusetningu.
Hversu lengi á að lemja hausnum í stein??
Vita menn ekki að það er hausinn sem skaðast en ekki steinninn??
Það er mál að linni.
Kveðja að austan.
Sjúklingar og starfsmenn Vogs smitaðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 6
- Sl. sólarhring: 8
- Sl. viku: 208
- Frá upphafi: 1412827
Annað
- Innlit í dag: 6
- Innlit sl. viku: 174
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hvað vilt þú gera, Ómar?
Þorsteinn Siglaugsson, 7.1.2022 kl. 20:46
Blessaður Þorsteinn.
Eiginlega tókst mér að verða í meginatriðum sammála Jóni Ívari Einarssyni, eftir að ég hlustaði á viðtalið við hann á Rás 2, það er skipta um klár út í miðri á.
Sú stefna að herma eftir kónginum í gamla daga sem lét þjóna sína lemja sjóinn því sjávarföllin hlýddu ekki boðvaldi hans, kostar gífurlega fjármuni, þá fjármuni á að nýta í stríðsaðgerðir í veirustríðinu.
Svo ég vísa aftur í söguna þá hefðu Bretar ekki haft sigur í Orrustunni um Bretland, ef varnarviðbrögð þeirra hefðu verið í því fólgin að steyta hnefum á loft í átt að sprengjuflugvélum Þjóðverja, og nýtt svo fjármuni sína til að borga þeim bætur sem misstu eigur sínar í loftárásunum. Þeir efldu að sjálfsögðu flugherinn með því að þjálfa nýjan mannskap, smíða orrustuflugvélar, taka í notkun fullkomnara radarkerfi og svo framvegis.
Hér veðjuðu stjórnvöld á almennar bólusetningar, að þær myndu koma í veg fyrir nýja smitbylgju. Á sama tíma markaði fjármálaráðherra þá stefnu að halda áfram að tálga innúr beini heilbrigðiskerfisins með kröfu um enn einn flatan niðurskurð, ekkert sýnilegt fjármagn eða átak í að fjölga gjörgæslurýmum (sbr smíða nýjar flugvélar) eða þjálfa mannskap. Ekki er brugðist við álagi starfsfólks á neinn hátt, til dæmis með veglegum álagsgreiðslum, ekki stofnuð sérstök kóvid gjörgæsludeild til að aflétta neyðarástandinu á núverandi gjörgæsludeild, yfir höfuð ekki eitt eða neitt, ekkert plan B.
Forsendur Jóns Ívars eru að bólusetningar virka varðandi alvarleik veikinda, ógna því ekki fjöldanum og því ætti að vera auðvelt að skipuleggja ekstra vörn fyrir þann hóp sem svarar illa bólusetningum eða er í viðkvæmri stöðu vegna aldurs eða undirliggjandi sjúkdóma, og fyrst að veiran er svona bráðsmitandi, þá gengur bylgjan hratt yfir.
Hann útskýrir þetta ágætlega með rökum og ábendingum um aðgerðir, sem hægt er að ræða og útfæra, því hugmynd elur af sér hugmynd og raunhæfar aðgerðir þróast þegar raunveruleikinn slípar þær til.
Það eina sem getur réttlætt núverandi stefnu er þau mistök að hafa notað bóluefni Jansen, vegna þeirra mistaka eru einhver þúsundir ekki búin að fá þriðju bólusetninguna en sú röksemd hverfur í næstu viku þegar restin af þeim hópi fær sína þriðju sprautu.
Eftir það getur ekkert réttlætt núverandi stefnu.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 8.1.2022 kl. 09:47
"Að steyta hnefann út í loftið í átt að sprengjuflugélum Þjóðverja". Þetta finnst mér góð samlíking við stefnu yfirvalda og hefur ávallt þótt. Það er ánægjulegt að við séum að verða sammála.
Þorsteinn Siglaugsson, 8.1.2022 kl. 21:55
Þetta gerist Þorsteinn, við lifum skrýtna tíma.
Ef ég man rétt þá var líka samhljómur með okkur í upphafi þessa faraldurs þegar veiran var óþekkt stærð og rökréttara að halda henni úti meðan hægt var.
Svo skildu leiðir eins og gengur, það er eðlilegt að mismunandi sjónarmið séu uppi hvernig bregðast eigi við faraldri sem ógnar lífi og limum, er nauðsynlegt að loka??, og þá gengur það til lengdar???, er til leið til að láta hann ganga yfir en um leið vernda viðkvæma hópa??
Fátt eðlilegra en að takast á um mismunandi sjónarmið eða leiðir, svo gerist það stundum að straumur tímans færir saman sjónarmið þeirra sem áður deildu.
Njótum friðarins á meðan á honum stendur.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 9.1.2022 kl. 15:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.