Stór og falleg demantssíld

 

Er lýsing Sturlu skipstjóra á Beiti á þeirri síld sem hann veiddi út af Héraðsflóa og landaði í kjölfarið til matvælavinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar hér á Neskaupstað.

 

Demantssíld er tungutak liðinna tíma, þegar lífið var fiskur, og afkoma þjóðarinnar var háð því hvernig aflaðist og hvernig gekk að vinna og selja aflann.

Tími sem aðeins gamlir og gráir muna eftir, tungutak sem er óðum að deyja út líkt og til dæmis mörg frumbyggjamál í Ástralíu þar sem aðeins er beðið eftir að síðasti öldungurinn fari á vit feðra sinna, þar sem hann mun aftur komast í heim þar sem tungumál bernsku hans er talað og skilið.

Sjávarútvegurinn í dag er hátækniatvinnugrein, aðeins prómil þjóðarinnar vinnur við hann, landvinnslan að mestu mönnuð erlendu starfsfólki, fiskur er ekki veiddur nema til staðar sé skrifleg þinglýst heimild sem má ganga kaupum og sölum.

 

En hann skaffar, og skaffar mikið.

Það sást gleggst í kóvid faraldrinum þegar ferðamenn hurfu hraðar en fína fólkið sem plagaði landsliðið í knattspyrnu á góðum stundum með uppáþrengjandi nærveru sinni, þá hélt sjávarútvegurinn hlut sínum, og varð aftur mikilvægasta gjaldeyrisuppspretta þjóðarinnar.

 

Og hann skilar hagnaði, góðum hagnaði.

Er bæði mjólkurkú þjóðarinnar og gullgæs fyrir þann fámenna hóp kvótaeiganda sem á góðri stundu þjóðmálaumræðunnar eru kallaðir sægreifar.

 

Þessi góði hagnaður hefur framkallað faraldur í stjórnmálum landsins sem má einna helst líkja saman við fjöldaofsjónir hjá deyjandi sveit franskra hermanna í útlendingahersveitinni, síðasti vatnsdropinn teygaður, ennþá dagleiðir í næstu vin.

Allt sem er á hverfandi hveli í okkar meinta bláfátæka þjóðfélagi, heilbrigðiskerfið, vegirnir, sultarkjör öryrkja, allt á að laga með að ná í þennan hagnað.

Jafnvel hillingar Steinríks (þegar hann var að deyja úr þorsta í útlendingahersveitinni) þegar hann sá dansandi villtar meyjar án þess að vera sjálfsmorðsíslamisti, blikna í samanburði við allt sem lýðskrum kosningabaráttunnar bíður kjósendum uppá þessa dagana.

 

Eftir stendur heimskan sem er skráð í visku kynslóðanna.

Þú slátrar ekki gullgæsinni, þú blóðmjólkar ekki mjólkukúna.

Í slíku atferli er fólgin feigð, aðeins vitstola græðgi hugsar ekki lengra en um ávinning morgundagsins.

 

Að ekki sé minnst á mannvonskuna sem að baki býr, því sægreifinn flýtur ofaná en hinar dreifðu byggðir sem ennþá eiga alla afkomu sína undir sjávarútveginum, þurfa að þola enn eina hringekju hagræðingarinnar með tilheyrandi röskun á atvinnu, eignaupptöku því þar sem enga vinnu er að fá, þar eru eignir verðlausar, líkt og sannaðist svo illilega í í kjölfar hins frjálsa framsals á kvóta.

 

Svona er græðgin.

Svona er öfundsýkin.

 

Heimskar fólk.

Vekur upp allt það versta í fólki.

 

Ljósi punkturinn er að það er aðeins kosið á fjögurra ára fresti.

Og þrátt fyrir að fólk spili sig fífl í aðdraganda kosninga, hvað skyldi það annars segja um okkur kjósendur??, þá er það svo þau eru miklu færri en fleiri sem komast á þing.

 

Ef ekki, þá mun fjara fljótt undan lífskjörum þjóðarinnar.

Óhjákvæmilegt líkt og að pissa uppí vindinn endar alltaf með bleytu á buxum.

 

Því þó það sé hægt að rífast við raunveruleikann.

Þá rífst raunveruleikinn ekki á móti.

 

Hann ræður, hann er.

Kveðja að austan.


mbl.is „Stór og falleg demantssíld“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragna Birgisdóttir

Sæll Ómar. Ég held ég vilji frekar jólaauglýsingar núna í september heldur en stjórnmála og kosningaauglýsingar. Þetta er að ganga frá skilningarvitunum. Áróðurinn snýst í andhverfu sína. Ég hlæ þegar að liðið lofar hinu,þessu,öðru og aftur hinu. Þvílík hræsni. Horfi frekar á Ebenezer Scrooge........laughing..talandi um síldina..hún er komin....og 80% þeirra sem vinna við að koma henni í pakkningar eru útlendingar..á lágmarkstöxtum..innfluttir í gegnum starfsmannaleigur....og topparnir velta sér upp úr arðinum....kaupa lúxusíbúðir á Spáni,hafnarbakkanum í RVK,raðhúsalengjur á suðurlandinu.jarðir með hlunnindum.....tvo bíla á ári undir rassgatið á sér........cool...andlega fátæktin ræður ríkjum há þorra þjóðarinnar.....það endar bara á einn veg....illa. Góðar stundir.

Ragna Birgisdóttir, 19.9.2021 kl. 21:47

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Ragna.

Mikið er ég sammála þér með kosningaauglýsingarnar og þá skrípamynd lýðræðisins sem þær birta.

Það vantar bara bása í Kringlunni með rauðklæddum hvítskeggjuðum manni sem tekur hinn almenna kjósenda á hné sér og spyr, hvað vilt þú í kosningaloforð??

En þessi lýsing þín á sjávarútveginum passar ekki við það sem ég best veit, og gildir allavega hér fyrir austan.

Þetta eru vel borguð störf og það eru góðar tekjur, maður er aftur farinn að heyra sögur af krökkum sem taka sér hlé frá háskólanámi og taka einn vetur í vertíð til að fjármagna áframhaldandi nám.

Málið og meinið er að ungt fólk vill ekki vinna í fiski, það fólk sem var er að detta út sökum aldurs, og það væri eiginlega rekstrarstöðvun ef ekki væri hægt að manna störfin með erlendu vinnuafli.

Það vinnuafl fær sömu kjör og innlendir, og hér fyrir austan er stór hópur Pólverja sem býr hérna og starfar, gildur meðlimur í samfélaginu og eiginlega forsenda þess að hér er ennþá byggð.

Uppsjávarfiskurinn bjargaði okkur, annars væri ástandið hérna svipað og fyrir vestan, sjávarútvegurinn aðeins minningin ein.

Það eru fleiri byggðir sem hafa lifað af á landsbyggðinni, þær eru í hættu ef frjálshyggja Viðreisnar og Samfylkingarinnar verður algjörlega innleidd í sjávarútveginn og fiskveiðiheimildir boðnar upp.

Varðandi byggðir og laun þá endar það með samnefnara hins lægsta, mannaðar með fátækasta hluta vinnuafls alþjóðavæðingarinnar, en líkt og plantekrum Suðurríkjanna forðum daga þá fá nokkrir heimamenn góð laun fyrir að manna svipurnar, sem og tæknina sem þrælavinnuaflið hefur ekki menntun til.

En það er líka hægt að taka Play á það, auðn mannlegs samfélags er alltaf niðurstaða hinnar óheftu frjálshyggju.

En varðandi lúxusinn þá er hann ekki bundinn við sægreifa, hann er fylgifiskur kapítalismans, hafi menn athugasemdir við það þá vega menn að kapítalismanum, en ekki að fólki hinna dreifðu byggða sem allt sitt undir að fiskur sé veiddur og unninn.

Það er bara svo.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 20.9.2021 kl. 09:29

3 Smámynd: Grímur Kjartansson

Góður pistill

Það má líka muna eftir hvað gerðist 67-68 og hvað ESB fannst um Makrílveiðarnar sem björguðu okkur (guð blessi Ísland)

Þegar engin rök finnast fyrir fjármögnun þessara kosningaloforða þá er gripið til þess að fullyrða að viðteknar reiknisaðferðir séu bar rangar - vigtaðu rétt strákur

Grímur Kjartansson, 20.9.2021 kl. 09:38

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir það Grímur.

Það er rétt að drengur var beðinn um að vigta rétt, en að baki bjó skynsemi þess sem vildi meira en honum bar.

Þú ert líklegast að vísa í Pírata, jæja, hvað er hægt að segja um þá??

Jú ég get sagt eitt, innan þeirra raða er gott fólk, sem vill vel.

En hvað það er að gera þar í þessari vitleysingasamkomu, er mér hins vegar hulin ráðgáta.

Ég skil auðinn að fjármagna Pírata, og ég skil að það sé til fólk sem kýs þá, líkur sækir líkan heim, en að fólk sem vill breytingar, vill losa þjóðfélagði úr heljargreipum hugmyndafræði hinna ofsaríku sem eiga næstum allt, og ráða öllu, að það skuli greiða þessum flokki atkvæði sitt.

Það skil ég ekki.

Ekki frekar en menn sem kalla sig vinstrisinna, hatast út í frjálshyggjuna hans Hannesar, og segja svo, vinstrið er dautt, ég ætla að kjósa Viðreisn.

Það hlýtur eitthvað að vera í vatninu Grímur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 20.9.2021 kl. 16:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.1.): 15
  • Sl. sólarhring: 27
  • Sl. viku: 2034
  • Frá upphafi: 1412733

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 1787
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband