Landsleikur í skugga ofbeldis.

 

Það er óhætt að segja að það hafi gustað um íslenska landsliðið og KSÍ síðustu nokkra daga, landsliðsmenn eru sakaðir um að vera ofbeldismenn og nauðgarar, og ríkjandi menning innan KSÍ er sögð vera "nauðgunarmenning og gerendamenning".

Þetta eru stór orð og að baki hljóta að liggja atburðir í fortíð og nútíð sem kalla á þau.

 

Halla Gunnarsdóttir, brennandi fótboltaáhugamanneskja, orðaði kjarna málsins vel í pallborðsumræðum um málefni KSÍ, svo ég vitna í frétt Ruv;

"Þessi hegðun sem er lýst, að labba inn á skemmtistað og haga sér svona, þetta gerðirðu ekki bara einu sinni á ævinni og svo aldrei meir,".

 

Það er nefnilega þannig að ofbeldismönnum fylgir slóð, sem blasir við og ekki er hægt að þagga niður til lengdar, og þó lögfræðingum hafi tekist að afvegleiða réttarkerfið í þágu skjólstæðinga sinna, að hvert ofbeldismál verði að skoðast eitt og sér, en ekki í samhengi við önnur mál svipaðs eðlis, þá er það svo að það er síendurtekið ofbeldi sem ljáir mönnum stimpilinn ofbeldismenn.

Nærtækt er að benda á mál Harvey Weinsteins eða Andrew Bretaprins, þegar eins steig fram undir nafni, þá fylgdu margar á eftir, og í dag gistir Weinstein grjótið en orðstír Andrew er enginn annar en sá að hann níddist á unglingsstelpum í partíum sem eitt villidýr í mannsmynd hélt fyrir ríka og fræga fólkið.

 

Þessi slóð er ekki til staðar í málefnum meintra ofbeldismanna landsliðsins, þrátt fyrir að fjölmiðlar og slúðurmiðlar hafi leitað af henni ítarlegra en tekur að finna nál í heystakki.

Það hafa engar stúlkur stigið fram undir nafni og ásakað Kolbein Sigþórsson um svipaða framkomu og hann var ger af eitt kvöld 2017.  Kolbeinn hefur gengist við verknaðinum, tekur fram í yfirlýsingu sinni að hann kannist ekki við hann, en bætir við að hann sé að vinna í sínum málum.  Lesið milli línanna þá virðist hann hafa farið í blakkát og gert ýmislegt af sér sem hann man ekki eftir.

Ásökun um aðra hópnauðgun reyndist vera flugufrétt sem talskona Stígamóta sver af sér að sé frá samtökunum komið.

Úr leitinni stendur aðeins eftir meint ofbeldi Ragnars Sigurðssonar á húsgögnum heimilis hans, en þó margur perrahátturinn sé til í þessum heim, þá verður slíkt seint flokkað undir nauðgun.

 

Einhver slóð getur verið þarna sem ekki hefur komið fram, og það má vel vera að það sé algjör viðbjóður, en útfrá því sem ekki er þekkt og vitað, er ekki hægt að úthrópa saklaust fólk sem níðinga, eins og gert hefur verið undanfarna daga af íslensku hópsálinni.

Hvað þá að það sé hægt að slá því fram að innan KSÍ sé ríkjandi nauðgunar og gerendamenning.

Slíkt er árás á almenna skynsemi sem og almennt siðferði, siðað fólk ásakar ekki annað fólk um alvarlega vanrækslu, yfirhylmingu á glæpsamlegri hegðun, eða varpar sekt á hóp vegna gruns um að einn innan hópsins hafi framið alvarlegan glæp.

Ef það hefur ekkert annað í höndunum en orðróm og gróusögur, og rökin er vísan í síbylju orðræðu múgæsingarinnar.

Hér er vissulega ekki verið að brenna hús eða taka fólk af lífi vegna orðróms, nema þá í óeiginlegri merkingu, en menn ættu samt að staldra við og íhuga af hverju Biden forseti baðst afsökunar á voðaverkunum í Tulsa eða ríkisstjóri Virginínu náðaði í dag 7 svört fórnarlömb múgæsingar, 70 árum eftir aftöku þeirra, þeirra sök grunur um glæp.

 

Hlálegt er svo að spjótum er beint að ötuli baráttukonu gegn kynbundnu ofbeldi, réttindum þeirra sem eru öðruvísi, manneskju sem hefur lyft grettistaki innan knattspyrnuhreyfingarinnar í jafnréttismálum.

Þar var stutt í hommahatrið og Þórðargleðin mikil yfir falli Klöru Bjartmarz.

Í valdabaráttu er ekkert heilagt, það sást að aðkomu aurapúkanna í félagsskapnum sem kennir sig við topp.

 

Landsleikurinn fer samt fram, í skugga þess ofbeldis sem saklaust fólk hefur verið beitt af ósekju.

Hvort sem það er kynbundið ofbeldi, líkamlegt ofbeldi, eða ofbeldi umræðunnar.

Landsleikurinn er prófsteinn á andlegan styrk þeirra ungu manna sem eru að taka við keflinu af hetjunum hans Lars og Heimis.

Þeirra er að fara inná og spila fótbolta, um það snýst þetta þegar allt annað er dregið frá, fótboltinn er ástríða svo margra, og hafi hann villst af leið, þá er það þeirra að draga hann að landi.

Þeirra er síðan lærdómurinn, hegðun þeirra innan og utan vallar skiptir öllu ef friður á að ríkja um íþrótt þeirra.

 

Hvort þjóðfélagið lærir á síðan eftir að koma í ljós.

Vonandi er einhver þarna úti sem tekur það að sér að rannsaka þetta mál ofaní kjölinn, fær allar staðreyndir uppá yfirborðið, hversu sársaukafullar þær eru.

Ekki til að dæma, ekki til að fordæma, heldur til að læra af.

 

Ef það er slóð, þá á að finna hana.

Það á að rannsaka ásakanir, fá botn í þær.

Sama hversu mörg helg vé eru undir.

 

Ef engi er slóðin þá þarf líka að fá það á hreint.

Okkar allra vegna.

 

Annað er ávísun á ljótleika sem mun engan enda taka.

Ljótleika sem líka er ofbeldi í sinni tærustu mynd.

 

Höfum það hugfast.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Mótmælt í Laugardal: „Skítinn úr skúffunum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Antonsson

Sæll Ómar

Fyrirsögn þín er lýsandi fyrir ofdýrkun á fótbolta. Farið langt yfir skammt. Allar rannsóknir óþarfar ef byrjað er á vitlausum enda. Það voru góð ár í fótbolta og þú nefnir Lars og Heimir, samvinna þeirra einstök og samspil leikmanna eftir því.

Góðir stjórnendur Lars og Heimir vöktuðu sína ungu leikmenn. Fótboltinn sem sigraði lið Englendinga fyrir margt löngu er nú fjarri. Skipið lekt og á reki eftir leifturárás kvenna sem telja sig eiga rétt á réttlæti og beita stofnun fyrir sig sem nýtur opinber stuðnings til að ná nú óljósum markmiðun. 

Þú nefnir að blakkát hafi átt þátt í hegðun leikmanns. Á Rúv er Blakkát nafn á hljómsveit en annars varla sjáanlegt í orðabókum netsins.  Blakkát, ágætis íslenska en enskuskotið, ekki viðurkennt af lærðum. Á sjómannamáli er það notað þegar sjómaður man ekki eftir sinni drykkju. "Eldri borgarar drukku frá sér ráð og rænu í sólarferð." stóð í blaðinu. Algengt er að unglingar sem þekkja ekki heim áfengis missa minnið í fyrstu drykkjuför, fara í blakkát.  

Læknar á meðferðastofnunum þekkja orðnotkunina og fyrirbærið ráðleggja afeitrun. Flestir vita þegar blakkát er nefnt að komið er inn á varhugavert hættusvæði í áfengisneyslu. Margir telja að þeir geti falið þennan veikleika og viðurkenna ekki að þeir eru hjálpar þurfi og að best sé að leita eftir aðstoð. Aðrir taka til í sínum garði.

Knattspyrnuhetjan Ronaldo hafði skýrar línur í fótbolta. Neitir ekki áfengis eða hans fjölskylda, leiðsögn í trúarlífi múslima. 

Sigurður Antonsson, 4.9.2021 kl. 17:29

2 identicon

Leiðsögn í trúarlífi múslima?

Að öll ætt leikmanns neyti ekki áfengis? Og það á Íslandi, af öllum löndum? Það gengur ekki upp.

Ég sé fyrir mér eintóma kjólklædda múslima á fótboltavelli. Ekkert talað um eiturlyfin, sem kjólklæddir múslímar geta margir hverjir ekki verið án. Eiturlyfin sem ganga kaupum og sölum í undirheimum, hér á jarðarkringlunni.

Píratar eru ekki hlynntir áfengi, og hafa gert mikið umræðu-veður út af áfengisneyslu. Bæði í hófi og óhófi.

Þeir eru bara á móti vímugjafanum áfengi?

Það finnst mér umhugsunarvert. Ég skil þetta ekki ennþá, enda frekar skilningssljó þessa dagana. M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttira (IP-tala skráð) 4.9.2021 kl. 18:33

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Sigurður og afsakaðu hve ég kem seint inn, en lífið var fótbolti gær, tvíburar mínir voru að spila á sitthvorum staðnum í gær, annar með Austurlandi í 2. flokki uppá Egilstöðum, hinn 2 tímum seinna með Fjarðabyggð niðri á Eskifirði, í morgun notaði ég svo tækifærið og horfði á morgunleik með 3. flokki Austurlands, svo lítt var hugað að þessu hliðarsjálfi mínu á meðan.

En veldur sá sem heldur, á mörgu átti ég von, en ekki að fyrirsögn mín yrði kennd við ofdýrkun á fótbolta.  Mér fannst hún persónulega ágætlega heppnuð til að fanga anda umræðunnar, meint ofbeldi innan landsliðsins versus sannarlegt fár ofbeldis sem dynur á saklausu fólki sem tengist því.

Svona er sýn fólks á hlutina mismunandi, en varðandi þetta með ofdýrkun, þá eru alhæfingar oft notaðar til að lýsa ákveðinni stemmingu eða ástandi.  Laxnes lagði til dæmis Sölku þau orð í munn að lífið væri saltfiskur, vissulega alhæfing en fangaði andrúmsloft hins einhæfa atvinnulífs sjávarbyggðanna.

Hins vegar í dag er lífið fótbolti, og þar að baki er engin alhæfing, aðeins einföld lýsing á raunveruleikanum.

Varðandi það óminni sem kallaðist blakkát á mínum æskuárum, óháð því hvort menn migu í saltan sjó eður ei, þá var það gott og gilt orð í málinu engu að síður en danska orðið bíll.  Og það má vel vera að slíkt tengist langvarandi drykkju og taugaskemmdum, en þeir sem lýstu því höfðu ekki aldurinn til að hægt væri að tala um langvarandi drykkju og að þróa með sér taugaskemmdir, heldur drukku þeir of mikið.  Og svarið var að drekka minna.

En ef það rjátlaði ekki af fólki þá var tími til kominn að staldra við, drekka minna, eða sleppa því alveg.

Gömul saga og ný og í fullu gildi í dag, og í það tel ég Kolbeinn vera að vísa í yfirlýsingu sinni.

Áfengi afsakar ekki neitt, en áfengi er skýring, og ef menn reyna að takast á við hana, reyna að betra sig, biðjast afsökunar á misgjörðum sínum, reyna að bæta úr þeim, þá eiga þeir fullan rétt á að taka þátt í samfélaginu eins og hver annar.

Og það er ofbeldi, kynbundið ofbeldi að ráðast á karlmenn í dag vegna uppgerða atburða fortíðar.

Ofbeldi sem þarf að stöðva.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.9.2021 kl. 13:39

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Anna.

Það er margt skrýtið í kýrhausnum þessa dagana.

En ég hygg að ástæða þess að Ronaldo neytir ekki áfengis, líkt og margur góður íþróttamaðurinn, er sú að það áfengisneysla hefur neikvæð áhrif á líkamann, og sá sem vill komast á toppinn, og vill vera þar, hann hefur ákveðið forskot ef hann sleppur því.

Mínir strákar er hluti af mjög öflugum og skemmtilegum árgang þar sem Gylfi var fótboltafyrirmyndin, hann drakk ekki, og ætlaði ekki að drekka fyrr en í fyrsta lagi þegar hann hætti að æfa fótbolta á afrekslevel.

Hjá þeim er áfengi ekki inní myndinni, allavega ennþá sem komið er þó enginn viti um atburði morgundagsins.

Þetta tengist ekki trú, þetta er lífsviðhorf.

Þar sem fyrirmyndir skipta máli.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.9.2021 kl. 13:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 51
  • Sl. sólarhring: 616
  • Sl. viku: 5635
  • Frá upphafi: 1399574

Annað

  • Innlit í dag: 42
  • Innlit sl. viku: 4806
  • Gestir í dag: 41
  • IP-tölur í dag: 41

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband