2.9.2021 | 09:03
Þegar Gróa réð sig á Moggann.
Það er óhætt að segja að orðið heimilisofbeldi fái nýja merkingu í þessari frétt Gróu.
Þó hún sé þaullesin þá kemur hvergi fram að Ragnar Sigurðsson hafi beitt öðru ofbeldi en að níðast á heimili sínu.
Ekki konu sinni, ekki hundinum eða kettinum, nágrannanum eða lögreglunni, aðeins brotið og bramlað húsmuni.
Og ég sem var svo grænn að halda að orðið heimilisofbeldi merkti ofbeldi gagnvart öðru fólki, og þá innan veggja heimilisins.
En snillingar eins og Gróa geta með skapandi fréttamennsku gefið orðum nýtt lif eða aðra merkingu, enda ekki undir áþján gamaldags fréttamennsku sem fór í kistu Ara fróða með visku að betra væri að hafa það sem sannara reynist, því auðvita selur það meira að hafa það sem verra hljómar að æðsta boðorði fréttaskrifa.
Þá treystir Gróa sér að smjatta aðeins á KSÍ, "Knattspyrnusambandið hafi þá fengið upplýsingar um málið frá nágrönnum hjónanna, en ekkert aðhafst.".
Til að geta skáldað í eyður þá fer Gróa örugglega rétt með að nágrannar Ragnars hafi haft sambandi við sambandið, hvað svo gerðist veit Gróa ekki, því að afla þeirra upplýsinga þarf gamaldags fréttamennsku, hringja í fólk, afla sér upplýsinga, fá álit og komment hlutaðeigandi.
Gróu dugar slúðrið, það er henni næg heimild.
Ef Gróa verður spurð, látin standa við frétt sína, sem reyndar er mjög ólíklegt í því andrúmslofti múgsefjunar, heiftar og haturs sem nú ríður röftum samfélagsmiðla, þar með þeirra sem ennþá kenna sig við fréttir, þá mun hún örugglega segja, "hvað er þetta maður, þú þarna gerandameðvirki með nauðgunarmenningu, hann var ekki rekinn úr landsliðinu".
Sem er rétt hjá Gróu.
Og hópsálin mun taka undir og klappa, og tilnefna Gróu til næstu blaðamannaverðlauna fyrir rökvísi sína og ályktunarhæfni.
Hún mun ekki spá í að KSÍ hafi verið vorkunn á þessum tíma.
Vissulega hafði Lars Lagerbäck tekið á mörgu agamálum innan landsliðshópsins, skrúfað var fyrir djammið og djússið á landsliðsferðum, auk margs annars sem snéri að aga og framkomu landsliðsmanna.
En hvernig var hægt að ætlast til þess að Lars hefði sett landsliðsmönnum siðareglur um hve mörg húsgögn og húsmuni mætti brjóta á heimilum þeirra áður en þeir misstu sæti sitt í landsliðinu.
Átti hann að miða við 5 bolla og undirskálar, 6 diska og einn stofustól, eða eitt bollastell og eitt sófasett??, hvenær ganga menn of langt í að misþyrma húsgögnum??
Eða átti hann að hafa þá siðareglu að þegar menn gæfu kost á sér í landsliðið, þá afsöluðu menn sér öllum rétti til að sýna mannlega hegðun, lenda í tilfinningalegu ójafnvægi, fá bræðiköst, líka þegar þeir væru ekki á vegum landsliðsins??
Þarna var Lars á, og er þar með orðinn sekur um gerandameðvirkni gagnvart nauðgunarmenningu, og augljóst að hann ætti að reka, væri hann ekki hættur.
Það er marka má Gróu.
Að afla sér upplýsinga hvernig hann tókst á við þetta mál, er algjört aukaatriði.
Hvað þá að það hvarfli að Gróu að það er hægt að takast á við mannlega harmleiki eða mannlegan breyskleika á annan hátt en að krossfesta menn opinberlega, úthrópa þá sem óbótamenn, útskúfa þeim.
Í hennar huga er slíkt alltaf gerandameðvirkni með nauðgunarmenningu.
Eftir stendur hlutur ritstjórnar Morgunblaðsins sem réði Gróu í vinnu.
Ef ráðning hennar er birtingarmynd nýrrar stefnu Morgunblaðsins til að halda velli í samkeppni við samfélagsmiðla, að blaðið hætti að vera miðill sem miðlar fréttum, og miðli slúðri þess í stað, þá verður eitt yfir alla að ganga.
Einelti og mismun varðar við ýmis lög í dag, blaðið getur ekki bara slúðrað um heimilissofbeldi knattspyrnumanna, aðrir verða að sitja við sama borð.
Þegar ég var ungur var oft sagt um menn að þeir væru vondir með víni, seinna þegar ég var eldri þá las ég oft í viðtölum við menn sem sóttu sér hjálp til að hætta að drekka, að vínið hefði farið illa í þá.
Sem er önnur hlið á sama pening, vísar í að undir áhrifum gerðu menn eitthvað sem ekki lengur var við unað.
Ritstjórn Morgunblaðsins ætti því að setja Gróu í það verkefni, svona fyrst blaðinu er fyrirmunað að skrifa frétt eða fréttaskýringu um hve hæft er í ásökunum um að KSÍ líði meintar nauðganir landsliðsmanna, að fara yfir gagnabanka blaðsins, og þefa uppi þá menn sem játuðu að vín hefði farið illa í þá.
Komast að því hvað var það sem þeir gerðu svo þeir hættu að drekka.
Nærtækt væri að byrja á núverandi og fyrrverandi starfsmönnum blaðsins, eins mætti athuga þá sem hæst hafa sig frammi í umræðunni í dag, það er karlkyns því eins og allir vita þá beita hvorki konur ofbeldi eða lenda í tilfinningalegu ójafnvægi.
Af hverju??, jú rannsóknir hafa sýnt að þeir sem hæst fordæma hafa oft ýmislegt að fela, með hávaða sínum eru annað hvort að koma grunsemd eða sök sem lengst frá sjálfum sér, eða innst inni þá skammist þeir sín fyrir hegðun sína, telja hana jafnvel ranga, og fá þá einhvers konar innri réttlætingu á að fordæma aðra fyrir sömu hegðun.
Eða þeir eru bara almennt séð skítseyði, geta ekki sett sig í spor annarra, finna ekki fyrir samúð eða samhygð, orðtök eins og aðgát skal hafa í návist sálar, eða eigi skal hrapa af dómum, er einhvers konar óskiljanleg latína í þeirra eyrum.
Og skítur fylgir alltaf skítseyðum, það er bara svo.
Þegar Gróa hefur tekið fyrir innanhússögur, þá má taka aðra fjölmiðla fyrir, nærtækt að byrja á Rúv, þar hefur margur drykkjuboltinn unnið.
Síðan má snúa sér að stjórnmálamönnum, ættingjum þeirra og vinum, svo leikurum, rithöfundum, háskólafólki, listinn er ótæmandi.
Það er bara að byrja og áratugurinn mun ekki endast Gróu til að smjatta á öllu þeim óhroða og mannlegum breyskleika sem hún grefur upp.
Ákærandi í dag, sakborningur á morgun.
Þannig er heimur Gróu, hann er saga án endis.
Eftir stendur.
Er þetta heimur sem við viljum lifa í?
Er þetta samfélag sem við viljum ala börnin okkur upp í??
Er þetta leiðin til að gera heiminn betri??
Ég held ekki.
Kveðja að austan.
Landsliðsmaður sagður hafa gengið berserksgang | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:47 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 7
- Sl. sólarhring: 65
- Sl. viku: 2647
- Frá upphafi: 1412705
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 2311
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Húsgagnaofbeldi? Manninum hefur greinilega liðið illa, fyrst hann réðst á húsgögnin. En hann réðst ekki á fólk, sem er virðingarvert, fyrst hann sprakk svona á annað borð. Hefði ekki verið nær að hringja í lækni, til að hjálpa honum að róa sig niður, frekar en að hringja í KSÍ? Ekki gengur KSÍ um með róandi sprautur og pillur fyrir leikmenn, sem missa stjórn á sér í heimahúsum? Ef hann hefði misst stjórn á sér á leikvellinum, þá hefði fyrst verið kallaður til læknir, og svo líklega lögregla. Eða öfugt. KSÍ er hvorki læknisþjónusta né lögregla, hvað sem um þetta samband má annars segja. M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 2.9.2021 kl. 11:57
Íslenskir fjölmiðlar fengu falleinkunn í skýrslu RNA um aðdraganda hrunsins.
Þeir hafa ekkert lært síðan.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 2.9.2021 kl. 14:03
Og það sem eftirtektarverðast er, að þeir lepja lágkúruna upp, hver eftir öðrum.
Samkeppniseftirlitið hlýtur að samþykkja samruna þeirra. Þetta er hvort sem er allt sama lágkúran.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 2.9.2021 kl. 14:17
Mikið rétt Ómar. Svona viljum við ekki hafa.
Tek undir með Pétri.
Sigurður Kristján Hjaltested, 2.9.2021 kl. 16:31
Blessuð Anna.
Orð þín lýsa visku, sem því miður á mjög undir högg að sækja hjá kynsystrum þínum, sem opna ekki svo munninn án þess að tala um ofbeldi, kynbundið ofbeldi, gerandameðvirkni, nauðgunarmenningu.
Éta upp eftir hvor annarri, í raun sýna fram á að vit er í öfugu hlutfalli við menntun kvenna.
Eða misles ég stöðuna, er fullt af velmenntuðum konum þarna úti, heitar í sál og sinni gagnvart kynbundnu ofbeldi, en gæta að sér og lítilsvirða hvorki menntun sína, vit eða málstaðinn.
Nema þær þora hvorki að æmta eða skræmta af hræðslu við hópsálina, sumar jafnvel það lesnar að þær vita hvað um skynsemisfólk sem andmælti Rauðu varðliðinum í kínversku menningarbyltingunni.
En vit fer greinilega hvorki eftir menntun eða aldri Anna, hafðu þökk fyrir athugasemd þína.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 2.9.2021 kl. 18:09
Ánægður með þessi skrif.
Magnús Skúlason (IP-tala skráð) 2.9.2021 kl. 18:14
Blessaður Pétur Örn.
Spurning hvort samkeppniseftirlitið hafi nokkuð til að samþykkja, svona í ljósi þess að samkeppnislög, sem og fjölmiðlalög ná aðeins yfir fjölmiðla, ekki slúðurmiðla??
En aumt er það þegar leifar af stétt blaðamanna halda sig til hlés, láta Gróu eftir sviðið, þeirra eini ótti er að bíða eftir hinni óumflýjanlegu úreldingu hinna nýju tíma þar sem fagþekking og fagleg vinnubrögð eru einskis metin.
Ég hélt samt að þeir hefðu engu að tapa.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 2.9.2021 kl. 18:30
Nei Sigurður, svona viljum við ekki hafa þetta.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 2.9.2021 kl. 18:31
Takk fyrir það Magnús.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 2.9.2021 kl. 18:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.