Skilið skömminni til þeirra sem eiga hana.

 

Ekki dreifa skít og drullu yfir allt og alla, slíkt er í raun viðbjóður, graftarkýli sem sýkir allt þjóðfélagið sé ekki stungið á það.

 

Það er eðlismunur á því þegar Virginia Giuffre, ásakaði Andrés Bretaprins um kynferðislega misnotkun, um að vera ofbeldismann og geranda, og því ef hún hefði sagt sömu sögu, án nafngreiningar, en sagt ofbeldismanninn tilheyra einni þekktustu konungsfjölskyldu Evrópu.

Er það þá Kalli ríkisarfi??, eða Jóakim prins??, eða þessi eða hinn??

Og þeir fjölmiðlar sem hefðu tekið þátt í leiknum, velt sér upp úr hinni nafnlausu ásökunum, hefðu verið slúðurmiðlar, margfalt verri en frúin sem bjó á Leiti á sínum tíma.

En verst að öllu, alvarleikinn, brotið sjálft, það gjaldfellur, vegna þess glæps að röng sök er borin á saklausa, því það segir sig sjálft að þar sem er einn gerandi, getur ekki fleiri en einn verið sekur.

 

Virginia hafði þennan kjark, þegar hún hóf vegferð sína, vissi hún ekki um niðurstöðuna, hvort hún yrði lögsótt, jörðuð opinberlega af skjaldborginni sem yrði slegin um prinsinn, en hún vissi að tími þagnarinnar væri liðinn, ofbeldismaðurinn yrði að horfast í augun á gjörðum sínum.

Kjarkur hennar er kjarkur margra sem hafa risið upp og sagt frá.

Kjarkur sem er hliðstæður þeim kjark sem ung stúlka sýndi í strætisvagni í Montgomery þegar hún mótmælti kynþáttamismunun með því að neita að standa upp og færa sig aftast í vagninn.  Það eina sem Rósa vissi þá var að það gat haft afleiðingar, það hafði haft afleiðingar fyrir marga í hennar stöðu áður, en hún sat samt kjurr.

Tími þagnarinnar, tími kjarkleysisins var liðinn, það sem þurfti að gera, varð að gera.

 

Nauðgun á ekki að líðast.

Það er grátlegra en tárum tekur að hugsa til umræðu undanfarinnar margra ára um sögur af lyfjabyrlun á veitingahúsum og ekkert er gert.

Við höfum ekki sannanir segir lögreglan, en hvað hefur hún gert til að afla þeirra??

Af hverju er ekki stofnuð sérsveit til að takast á við þann alvarlega glæp og senda þar með skýr skilaboð út í samfélagið að þessi hegðun sé ekki liðinn, að gerendurnir verði hundeltir og afhjúpaðir. 

Þetta eru ekki margir, mynstrið er skýrt, það þarf aðeins að rannsaka þetta, takast á við þetta.

 

Sem er ekki gert, það er svo lítið gert.

Sem er smán samfélagsins, smán sem er blettur á okkur öllum.

 

En þessi smán réttlætir ekki nafnlausar ásakanir, róg eða dylgjur.

Og hún réttlætir engan veginn andrúmsloft nornaveiða, gífuryrða gagnvart borgurum sem hafa ekkert gert af sér annað en að vera þarna, vera hluti af samfélagi sem sannarlega er gallað og þarf að breyta, en breytist aldrei með þeim vinnubrögðum sem nú vaða uppi.

Eða hverju breytti kínverska menningarbyltingin, ógnarstjórn Jakobína eða morðæði bolsévika??

 

En einn maður sem kom í nafni kærleikans breytti hins vegar miklu, hann kom í veg fyrir morðæði meirihlutans á minnihlutanum sem áður kúgaði hann, og gaf samfélaginu von um framtíð.

Það er reginmunurinn á Mandela og Robespierra, á Mandela og Lenín, á Mandela og öllum þeim sem réttlæta óhæfu sína með vísan í fyrri óhæfu eða glæpi.

 

Það er engin Mandela á Íslandi í dag.

Það er engin skömm skilað til þeirra sem eiga hana.

Heldur er skömmin mögnuð upp í forarpytt rógs og níðs.

 

Nauðgun er alvarlegur glæpur.

Svo alvarlegur að sá sem verður fyrir henni á að segja frá.

Aðstæður geta valdið því að viðkomandi treystir sér ekki til að segja frá eða taka slaginn við fjandsamlegt réttarkerfi, en kjósi hann að segja frá seinna, þá hvílir sú skylda á honum að segja satt og rétt frá, greina frá öllu, líka nafni geranda, hvort sem þeir eru einn eða fleiri.

Annað er vanvirðing við alvarleikann, sem og uppspretta vangaveltna um hugsanlegan geranda, þar sem margir er nefndir að ósekju.

 

Því miður var sá kjarkur ekki til staðar þegar greint var frá lyfjanauðgun þar sem gerendur voru þekktir knattspyrnumenn, og það kjarkleysi hefur undið uppá sig þannig að margir saklausir liggja undir grun.

Það er bletturinn á þessari umræðu í dag.

Í skjóli hinna nafnlausu ásakana vaða síðan allskonar dólgar uppi, skítandi allt og alla út, hvort sem það er í persónulegri krossferð, eða hluti af stærri valdabaráttu hinna rétttrúuðu.

Þeir eru nefnilega víða Talibanarnir þessa dagana.

 

Vendipunktur umræðunnar var samt fréttin á Mbl.is þar sem fjallað var um fjölmiðlaumfjöllun í Rúmeníu.

Þar fékk rógurinn andlit svo ekki verður við unað.

"Sam­kvæmt heim­ild­um mbl.is er hann þó ekki ann­ar þeirra, held­ur er um að ræða leik­mann sem er ein af stjörn­um landsliðsins í dag og ann­an sem hef­ur lítið komið við sögu hjá A-landsliðinu um langt ára­bil.".

Blaðamaður sem taldi sig geta hreinsað Kolbein af ásökunum um nauðgun, smækkaði þar með hópinn sem liggur undir grun.

 

Hverjir eru þá eftir??

Og eru þeir sekir??

 

Svona vinnubrögð eru ekki líðandi.

Ekki í siðuðu samfélagi.

 

Morgunblaðið verður að taka af skarið og segja það sem það veit.

Eða leggja sig niður ella.

 

Þar er enginn millivegur.

Kveðja að austan.


mbl.is „Drullan dunið yfir mann“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Þú ert öflugur bloggari, Ómar, og gott að þú ert kominn aftur. 

 

Ég er farinn að skilja hvað vakir fyrir Öfgum og Bleika fílnum, að það þurfi svona sársaukafulla aðgerð fyrir þjóðina, að koma þessu í allar fréttir til að reyna að breyta þessari (ó)menningu.

 

En í færslunni í gær komstu með ágætan punkt:"Í þessari frétt er sekt Moggans algjör".

 

Hvenær er tímabært að velta sér uppúr þessu? Þarf að setja þetta á dagskrá áður KSÍ gerir eitthvað í þessu, eða þarf þrýsting fjölmiðla til að KSÍ geri eitthvað í þessu?

 

Og svo er líka önnur grunnspurning sem vegur þungt: Mun þetta breytast? Er hægt að breyta þessu? Eðli ofbeldisins er tengt valdinu, sá sem hefur völd beitir ofbeldi og það er þaggað niður eða réttlætt sem eðlilegt af þeim sem völdin hafa. Sagan sýnir þetta. Ofbeldi er ekki bundið körlum eingöngu, bæði kynin geta beitt því, aðferðirnar mismunandi, en konur læra líka ósiði karla og gera að sínum með femínismanum og fjölmenningunni. Ýmislegt er tekið úr framandi menningu, því er rænt skammarlaust og þykir flott og töff hér á klakanum.

 

Einhvernveginn efast ég um að þetta dugi. Það er mín spurning hér, er þetta stormur í vatnsglasi eða mun fólk breytast? 

 

Þetta eru miklar fórnir fyrir KSÍ ef þær eru bara ætlaðir til þess að hrókera fólki, láta konur fá völd á kostnað karlmanna. Hverju svarar þú því?

 

Í þínum beztu pistlum tekst þér að setja málin upp með skýrum hætti eins og hér. 

 

Enn er þó mörgum stórum spurningum ósvarað.

Ingólfur Sigurðsson, 31.8.2021 kl. 14:59

2 identicon

Birgitta Jónsdóttir lýsti eitt sinn vonbrigðum sínum, eftir að hún hætti á þingi, um að þegar konur fengju sömu völd og karlmenn, þá hegðuðu þær sér oft, jafn valdsins mibeitinga-illa og karlmenn, (ef ég man rétt). Ég er jafnréttissinni, en ekki öfgasinni í hvoruga áttina. Það er ekki sjálfgefið að konur í KSÍ hegði sér eitthvað betur en karlar í KSÍ. Siðareglur eru kannski ekki til hjá stjórn KSÍ. Ef þær eru til þar á bæ, eru þær þá virtar af heiðarleika og sanngirni? M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttira (IP-tala skráð) 31.8.2021 kl. 15:52

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Ingólfur.

Þetta er aðeins tilfallandi, vissulega hafa nokkrir pistlar grafið um sig og vilja koma út, dedlæn þeirra er komandi kosningar, en þegar ég sest niður við tölvuna týni ég mér í öðru, áhuginn er hreinlega ekki til staðar sem stendur. Og þó ég hafi hugsað mitt um þetta KSÍ mál, þá hefði ég ekkert skrifað ef ekki hefði fokið í mig þegar ég las frétt Mbl.is þar sem blaðamaður taldi sig geta veitt Kolbeini syndaaflausn vegna nauðgunarmálsins, hann hefði heimildir um annað.

Þegar svona er komið fyrir eina borgarlega fjölmiðli landsins, blaði sem hefur stært sig af því að vera ein af kjölfestum hins borgarlega samfélags, þá er fokið í flest skjól, slúðrið er tekið yfir.

Nálgun mín hefur öll verið á þessum nótum, ásamt því að ég vona að það hafi komið skýrt framhjá mér að ég fordæmi ofbeldi, þöggun þess eða að "rétt tengdir" komist upp með það.  Ég vil engan Teddy þvott núna á 21. öldinni, svo ég vísa í hvernig litli bróðurinn í Kennedy fjölskyldunni komst upp með að vera valdur að dauða ungrar konu, þar leiddi rannsókn til "réttar" niðurstöðu, ekki réttlátar.

Og ef manni er alvara með þessa skoðun, þá er manni ekki sama hvernig staðið er að svona málum, hvernig gert er upp við fortíðina, tekist á við breyskleika nútíðarinnar, með því markmiði að gera framtíðina í það minnsta ögn skárri.

Varðandi stóru spurningu þína hvort þetta sé stormur í vatnsglasi á ég fá svör, tel þó að lítt breytist með þeirri aðferðafræði sem beitt er í dag, hún líkist miklu frekar valda og hugmyndabaráttu, þar sem enn einn flokkurinn kennir sig við púrítanaisma, og telur sig umkominn að tukta til alla sem eru ekki á sama máli.  Sagan kennir einfaldlega að slíkt endar alltaf illa.

Hins vegar hygg ég að margt hafi breyst til batnaðar frá því að ég var ungur að árum uppúr 1970, enda mátti það alveg.  Síðan hefur Meetoo hreyfingin haft jákvæð áhrif, menn í valdastöðum eru varari um sig en áður, og margur sem hélt að hann væri ósnertanlegur í viðbjóði sínu, hefur verið snertur.  Skuggahliðarnar eru hins vegar óðum að drekkja hinu jákvæða, og þá er það skyldan að berjast gegn, þó það sé gegn straumi.

Ég held að ekkert sé hægt að leggja út frá því sem gerast þessa dagana í KSÍ fárinu, núverandi stjórn féll fyrir þungri undiröldu í þjóðfélaginu, hún á sér eldri og dýpri rætur og stjórn KSÍ varð aðeins fyrir henni, en ekki orsök hennar.  Niðurstaðan verður alltaf sú að þeir á toppnum verða jafnsnertanlegir og hinir, og menn í fremstu röð þurfa að gæta mjög að orðstír sínum og umtali.  Hvort þeir megi ekki vera mannlegir á síðan eftir að koma í ljós.

Eins finnst mér mikið fullyrt á veikum eða hæpnum forsendum.  Um það fjallar nýjasti pistill minn, meðal annars, og ég vil líka vísa í frétt þar sem talskona Stígamóta vísar því frá sér að hún sé heimild fyrir "hinni" nauðguninni.

Hugleiðingar þínar um ofbeldi eru síðan góðar og gildar, á þessu er margar hliðar og mörg sjónarhorn.  Ég sá einu sinni skopmynd þar sem yfirmaðurinn skammaði fyrirvinnuna (í þá gömlu góðu daga þegar karlinn vann úti en konan sinnti búi og börnum), hann kom heim og las yfir konunni, hún skammaðist í stráknum, og hann sparkaði í hundinn.

Kannski er þetta eðlislægt, en ég vil meina að þetta sé afstaða.

En það er önnur saga.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 31.8.2021 kl. 22:57

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Anna.

Mikið til í þessu hjá Birgittu, að mínu viti er ofbeldi og beiting þess persónubundin en ekki kynbundin.  Hins vegar getum við ekki afneitað rótum okkar meðal dýranna, við sem tegund hefðum ekki komist af ef ekkert væri ofbeldið, og friðsöm samfélög er alltaf fyrst til að falla fyrir þeim sem eru ofbeldisfull eða árásargjörn. 

En varðandi hvort ekki séu til siðareglur hjá KSÍ, þá er svarið einfalt, þær eru til.  Er farið eftir þeim??, já það virðist blasa við þegar störf og orðræða Guðna Bergs er skoðuð.

Það er hið hlálega í málinu.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 31.8.2021 kl. 23:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 7
  • Sl. sólarhring: 69
  • Sl. viku: 2647
  • Frá upphafi: 1412705

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 2311
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband