24.4.2021 | 10:43
Frá mismunun til sóttvarna.
Þó aðeins séu liðnir nokkrir dagar frá því að stjórnvöld kynntu frumvarp sitt um hertar aðgerðir á landamærunum þá hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan.
Frá fikti til hækkunar á viðmiði Sóttvarnastofnunar Evrópu um hárauð svæði til kerfis sem má rökstyðja að byggist á viðmiðun hennar, en útfærð út frá markmiðum sóttvarnayfirvalda um að minnka líkur á að smit berist inní landið gegnum landamærin.
Það fyrra var gróf siðlaus mismunun með þeim eina tilgangi að koma pólskum íbúum þessa lands í örugga sóttkví, það seinna er fullkomlega rökrétt og innan ramma almennra sóttvarna.
Við sem þjóð, sem hefði setið uppi með smánarblettinn um langa tíð, eigum stjórnarandstöðunni þær breytingar að þakka sem gerði sóttvarnalækni kleyft að skila af sér tillögum sem eru fullkomlega í samræmi við viðmið Sóttvarnastofnunar Evrópu.
Þeir sem koma frá hárrauðum löndum Evrópu eru skyldaðir í örugga sóttkví, þó vissulega sé undanþága fyrir betur stæða landa okkar til að nýta sér sumarhús sín og villur til að þurfa ekki að deila kjörum með publiknum á sóttkvíarhóteli.
Í raun stórsniðugt því það minnkar álagið á formann Sjálfstæðisflokksins og eykur líkur á að þessi þrándur innlendra sóttvarna, Sjálfstæðisflokkurinn verði til friðs.
Stjórnarandstaðan náði að lækka viðmið frumvarpsins þannig að þau urðu siðleg og samræmdust alþjóðlegum viðmiðum.
Þess vegna eru kaldar kveðjur heilbrigðisráðherra til hennar þegar hún greiddi atkvæði með hinu breytta frumvarpi lítt skiljanlegar, einhver hefði jú fagnað fyrir hönd þjóðarinnar en þetta var það sem Svanhvít sagði; "Það hefði verið gott fyrir málið og gott fyrir samstöðu í samfélaginu að við gætum verið sammála um að renna styrkari stoðum undir nauðsynlegar ráðstafanir sóttvarnalæknis. Það hefur greinilega verið freistandi fyrir ýmsa í umræðunni hér í dag að láta þetta mál snúast um eitthvað annað, en það verður bara svo að vera".
Minnihlutinn bjargaði ríkisstjórninni frá smán mismunar, og einmitt styrkti stoðir undir nauðsynlegar sóttvarnir með því að lækka viðmið frumvarpsins, og hún sakaði hann um pólitískan hráskinsleik.
Vonandi hefur Svanhvít verið sybbinn þarna og ekki vitað hvað hún sagði, verra var það sem hún sagði í fréttum Ruv í gær þegar hún afsakaði þau viðmið sem lagt var upp með í frumvarpi hennar og minnihlutinn fékk breytt, með því að segja að þessi viðmið hefðu einmitt verið viðmið til að hafa eitthvað til að leggja upp með í frumvarpi sínu.
Eins og hún fattaði það ekki að hún var að setja bindandi lög en ekki leggja fram tillögu á fundi í hinu útdauða Sósíalistafélagi Reykjavíkur.
Allt er gott sem endar vel sagði einhver í fyrsta sinn, og öðrum fannst svo merkilegt að úr varð orðtak sem fylgt hefur þjóðinni lengi.
Vissulega lokar þetta frumvarp ekki öllum glufum á landamærunum og á því eru miklir annamarkar, en það er stórt spor í rétta átt.
Sem ber að fagna eftir að útfærsla Þórólfs liggur fyrir.
En hvort það endi vel.
Það er önnur saga.
Því nú eru börnin og Sjálfstæðisflokkurinn eftir.
Hvaða málamiðlanir þarf Bjarni að gera til að koma þessu í gegnum sinn flokk.
Hvaða hráskinsleikur með fjöregg þjóðarinnar verður leikinn á bak við tjöldin??
Það veit tíminn.
En vonum það besta.
Svo má ekki gleyma að þeir eru hættir með ofurdeildina.
Kveðja að austan.
Hert á landamærunum á þriðjudag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 563
- Sl. sólarhring: 729
- Sl. viku: 6147
- Frá upphafi: 1400086
Annað
- Innlit í dag: 510
- Innlit sl. viku: 5274
- Gestir í dag: 487
- IP-tölur í dag: 480
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll Ómar
Sjallinn og börnin, þarf ekki að halda lífinu í rútufyrirtækinu?
kv hrossabrestur.
Hrossabrestur, 24.4.2021 kl. 14:51
Sæll Ómar
Ég var satt að segja nokkuð ruglaður eftir fréttamannafundinn sem ríkisstjórnin boðaði til í Hörpu. Lítið stóð eftir af fundinum sjálfum og ekki batnaði ástandið í viðtölum sem tekin voru að honum loknum. Dómsmálaráðherra koma fram eins og eitthvað vélmenni, bullaði heil ósköp og var greinilega að misskilja eitthvað það efni sem fundurinn átti að vera um. Hélt að þar væri verið að boða tilslakanir á sóttvörnum, meðan þjóðin hélt að það ætti að herða þær.
Annars er allt gott að frétta hér af Skaganum, er sjálfur loks búinn að fá gott í kroppinn gegn veirunni en mun þó ástunda allar verjur gegn henni áfram, mér sjálfum en þó sérstaklega öðrum, til varnar. Mun hlýða Víði.
Kveðja
Gunnar Heiðarsson, 24.4.2021 kl. 15:49
Blessaður Hrossabrestur minn góður.
Þú varst eiginlega forspár um efni næsta pistils míns, hann var hamraður áðan, áður en ég fór inná athugasemdarkerfið.
Í þeim pistli færð þú svarið hvað varðar rútufyrirtækið.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 24.4.2021 kl. 21:26
Blessaður Gunnar.
Við hlýðum Víði, en ef við viljum honum vel, þá gagnrýnum við hann líka.
Trúum og svo treystum á mátt umræðunnar.
Vegferð ríkisstjórnarinnar hófst illa, en hún endaði vel, líkt og ég hef rakið mig áfram í þessum þremur pistlum sem fjalla um niðurlægingu og smán þjóðar, sem vék af stíg þess sem hægt er að réttlæta og verja, og guð hjálpi mér, mikið hef ég varið sóttvarnir, yfir í það sem er rökrétt og skiljanlegt.
Vegna þess að það var fólk sem hafði kjark til að taka umræðuna.
En ekki hvað síst, Þórólfur hugsaði sitt þó hann segði annað, en þegar hann fékk rétt tæki og tól, þá gerði hann það sem var rétt í stöðunni.
Vissulega er þetta ekki fullnægjandi, en þetta stöðvar stærsta lekann, ásamt því að vera vegvísir fyrir framtíðina, núna þróa men áfram örugga sóttkví á landamærum, hún á að vera örugg, en hún á ekki að vera fangelsi.
Ég trúi og treysti að menn séu að gera sitt besta miðað við aðstæður í raunheimi, í heimi sem til dæmis hefur fengið börnum völd sem þau hafa ekki vit eða þroska til að stýra á tímum heimsfaraldurs.
Fólk vill öryggi en jafnframt fórna litlu hvað varðar ferðalög eða heimsóknir náinna skyldmenna. En samt eru allir að reyna sitt besta.
Sem er kannski kjarni þess sem skiptir máli.
Stjórnmálamenn eru líka fastir í vítahring þess að vilja verja þjóðina, en jafnframt að gera ferðalög til og frá landinu sem auðveldust. Það skýrir heimskuna sem felst í að meta eitthvað út frá litaspjaldi, eða taka pappíra fram yfir örugga vörn gegn veirunni.
Eins og menn skilji ekki að tölfræðilega skiptir það ekki máli hvort eitthvað sé 90% öruggt, 98% öruggt, 99 % öruggt eða 99,99% öruggt.
Veirunni dugir þetta 0,01 prósent til að sýkja samfélagið, sé það sem ekki er öruggt, stærra hlutfall en það, þá tekur það hana aðeins lengri tíma að grafa um sig, en svo springur allt út.
En núna er svo stutt í bólusetningu, að hugsanlega sleppur þetta fyrir horn.
Vonum það.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 24.4.2021 kl. 21:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.