22.2.2021 | 17:33
Hæfni til skipan dómara.
Í Landsrétt sem aðra dóma ræðst af mörgu.
En hvergi í því mati er minnst á að nægjanlegt skilyrði sé að vera eiginmaður vinkonu dómsmálaráðherra.
Ótrúlegt að Jón Finnbjörnsson skuli ekki átta sig á því, og hafi látið reyna á þetta mat Sigríðar Andersen.
Ennþá ótrúlegra að mætir menn eins og Björn Bjarnason eða Davíð Oddsson skuli hafa kóað með og hafi á einhvern hátt reynt að réttlæta þessa geðþóttarákvörðun Sigríðar.
Ef Neró hefði verið í Sjálfstæðisflokknum, hefðu þeir fundið faglegan grundvöll á skipan gæðings (hestur) hans í öldungaráð Rómar??
Því geðþótti, hvort sem hann styðst við alræði keisarans eða sterka stjórnmálastöðu Sjálfstæðisflokksins, er aldrei réttlætanlegur, því þá er enginn munur á valdi einræðisherrans eða þess sem er lýðræðislega kjörinn.
Og réttlæting hans eyðir trúverðugleika viðkomandi, líka þar sem rétt er mælt og rök færð fyrir máli.
Fyrir mig sem fastan pistlahöfund hér á Moggablogginu frá því að óhæfuverk Steingríms og Jóhönnu kröfðust afstöðu og vettvangs, því þögn okkar til vinstri var sama og samþykki alls þess sem við höfðum barist gegn frá unga aldri, var sárast að sjá meðvirkni þeirra sem áður höfðu fordæmt svipuð vinnubrögð hjá þeim skötuhjúum.
Eins og hið rétta væri valkvætt, rök og heilbrigð skynsemi ætti við gagnvart andstæðingunum, en allt það sem var ámælisvert hjá þeim, væri réttlætanlegt, ef "okkar" fólk ætti í hlut.
Eins og enginn væri spegillinn sem fólk horfði í augu sín á kveldi.
Svo skilja menn ekkert í því að heimurinn er eins og hann er.
Eða að auðklíkan geti fótum troðið lýðræðið og fullveldið eins og hún gerði þegar forræði okkar yfir orkuauðlindum þjóðarinnar var afsalað til Brussel, á altari hinnar frjálsu samkeppni þar sem sá sem borgar mest fær, en aðrir éta það sem úti frýs.
Og þessi aðrir eru almenningur, ég og þú og við öll hin.
Þess vegna er Snorrabúð stekkur enn á ný.
Horfið er sjálfstæðið, horfin eru gæði lands og þjóðar.
Á rústunum stendur Made in China og svo póstnúmer á Bresku Jómfrúareyjum þar sem auðurinn er skráður, því lúxussnekkjurnar urðu ekki til úr neinu, eða borguðu sig sjálfar.
Hve aumt getur fólk verið?
Eins og enginn eigi líf sem þarf að verja.
Aðeins rétturinn til að vera vitlaus.
Kveðja að austan.
Símon metinn hæfastur í embætti landsréttardómara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 477
- Sl. sólarhring: 711
- Sl. viku: 6208
- Frá upphafi: 1399376
Annað
- Innlit í dag: 405
- Innlit sl. viku: 5260
- Gestir í dag: 372
- IP-tölur í dag: 367
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það er frábært þegar vinstrimenn verða gagnrýnir á eigið lið. Það þurfa hægrimenn að gera líka, ef vel á að vera. Annað er óhæfa í raun.
Það er mikið umhugsunarefni að okkur er seld sú hugmynd að við nútímamenn séum svo fullkomnir og miklu fremri fyrri kynslóðum. Í raun högum við okkur eins og verstu bavíanar mjög oft.
Ég eins og margir man vel tímann fyrir Hrunið 2008. Þá voru flestir glaðir og þjóðfélagið í partýstandi meira og minna, þótt aðvörunarraddir heyrðust. Nú er munurinn sá að þöggunin er meiri, eins og það bjargi málunum að grafa höfuðið í sandinn eins og strúturinn.
Það eru nokkrar línur svo góðar í þessum pistli að ég verð að þakka fyrir það sem vel er gert. "Horfið er sjálfstæðið, horfin eru gæði lands og þjóðar".
Menn verða að átta sig á því að það er ekki skynsamlegt að vera meðvirkur þessu sammviskulausa auðmagnsliði sem stjórnar heiminum, og mútar embættismönnum og heilu þjóðunum eins og ekkert sé. Ég er á því að annað hrun hljóti að verða áður en langt um líður, því margt bendir til þess.
Spillingarfurstarnir hreykja sér yfir aðra. Það er það sem er mest óþolandi.
Nú er það svo að vinstristefnan byggir á fögrum hugsjónum og án frelsishugsjóna hægristefnunnar værum við heldur ekki í góðum málum.
Eitthvað mikið hefur farið úrskeiðis á þessari miklu hátækniöld. Það er eins og hátæknin sé notuð til að kúga okkur, og það er svo sem augljóst af fréttunum af því hvernig Google, Twitter, Facebook og fleiri fyrirtæki haga sér, eins og ríki í ríkinu, þeir sem hafa siðferðisvald, auðmagnsvald, og jafnvel eitthvað meira ef slík framrás er ekki hindruð.
Afi minn hafði rétt fyrir sér 1992 þegar hann sagði að ráðamenn hefðu afsalað sér sjálfstæðinu með inngönguna í evrópska efnahagssvæðið. Það hefur bara komið betur og betur í ljós með tímanum.
Nú þarf að breyta því sem hægt er, og almenningur þarf að kjósa rétta flokka. Takk fyrir góða grein, eins og svo oft.
Ingólfur Sigurðsson, 23.2.2021 kl. 00:34
Blessaður Ingólfur.
"Afi minn hafði rétt fyrir sér 1992 þegar hann sagði að ráðamenn hefðu afsalað sér sjálfstæðinu með inngönguna í evrópska efnahagssvæðið. Það hefur bara komið betur og betur í ljós með tímanum.".
Hafi verið efi um þessi spádómsorð afa þíns, þá hvarf sá efi endanlega við samþykkt orkupakka 3.
Langar að vísa í vísdómsorð;
"Þegar til kastanna kom var OP3 innleiddur með þingsályktun en ekki formlegu lagasetningarferli. Látið var að því liggja í umræðum innan og utan þings að samningsbundið neitunarvald Íslands væri aðeins gilt í orði en ekki á borði. Sú skemmri skírn sem málið fékk á Alþingi varð til þess að stjórnskipulegir varnaglar um aðkomu forseta lýðveldisins voru sniðgengnir og málið var aldrei borið undir hann til samþykktar eða synjunar, sbr. ákvæði 26. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. ..... Við stöndum m.ö.o. frammi fyrir því að Alþingi hefur gengið svo langt að viðurkenna að útilokað sé að þaðan komi minnsta breytingartillaga við efni slíkra tilskipana. Ef Alþingismenn nálgast innleiðingu EES-réttar með slíku hugarfari, þ.e. að Ísland hafi í reynd ekki neitunarvald, þá er veruleikinn sá að við getum breytt öllum lögum sem eru í gildi hérlendis, nema þeim sem eiga stoð í EES-samningnum, vegna þess að við höfum engan aðgang að því valdi sem setur reglur á grundvelli EES. " (Arnar Þór Jónsson)
Við erum ekki lengur sjálfstæð, og í raun er það eina mál næstu kosninga því þegar á reynir þá eru allir flokkar valdaflokkar, með sömu stefnu, þá stefnu að gera það sem ætlast er til af þeim.
Þetta er stóra ástæða þess að ég er að skrifa um meðvirki hér að ofan og hvernig menn eyða sínum eigin trúverðugleika með því að vera ekki sjálfum sér samkvæmur.
Því fólk án trúverðugleika fær ekki varið sjálfstæði þjóðarinnar, tilvist hennar og tilverugrundvöll.
Og ekki gerir Flokkurinn það.
Við lifum þá tíma að við höfum ekki efni á að vera bjánar, en það er erfitt að feisa það.
Takk fyrir góða og hlýlega athugasemd, hún tekur á mörgu því sem ég sjálfur er hugsa um bak við eyrun.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 23.2.2021 kl. 09:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.