Bjánar um bjána, frá bjánum til bjána.

 

Svo við höfum það á hreinu, það er leitun á fíflum sem tengja heimsfaraldur veirusjúkdóma við verðbólgu.

Og allra síst eiga slík fífl að vera á fóðrum almennings, hvert sem yfirskin sjálftöku þeirra er.

Síðan á fjármálaráðherra þjóðarinnar aldrei að geta vitnað í þessa speki, að tekjufall þjóðarinnar, sem er bein afleiðing af hruni ferðaþjónustunnar, sé eitthvert dæmi um verðbólgu.

 

Við lifum alvöru tíma, það sem var, er ekki, enginn veit hvað verður.

Hvað sem við gerum, til góðs eða ills, þá má aldrei sú heimska að kenna áhrif heimsfaraldursins við verðbólgu, að vera faktur í umræðunni.

Fyrir utan heimskuna, þá er slíkt aðeins yfirlýsing um að fífl stjórni okkur á dauðans alvöru tímum.

 

Hinsvegar má alveg ræða samfélag, geirneglda kjarasamninga, launahækkanir, og annað sem er algjörlega út úr kú miðað við ástand þjóðarbúsins á tímum heimsfaraldursins.

En þá á að kalla hlutina réttum nöfnum, kjarasamningar sem knýja á launahækkanir, þegar þjóðarbúið sætir áður óþekktum áföllum, eru án innistæðu, þeir eru heimskir, og fyrst og fremst eru þeir bein yfirlýsing um að þjóðinni sé ekki stjórnað.

Að forysta okkar feisi ekki alvöru heimsfaraldursins.

 

Slíkt hinsvegar er aldrei eitthvað sem mælt er með verðbólgu, það segir aðeins um fólkið sem stýrir okkur, vit þess og sýn.

 

Eitthvað sem skiptir kannski ekki svo miklu máli, hagkerfið aðlagar sig hvort sem er að tekjum sínum og útgjöldum.

Ef það væri ekki verðtryggingin.

Sem vogar sér að mæla heimsfaraldur sem hækkun lána almennings.

Á sama tíma og fólk er beðið um að slá af kaupkröfum sínum.

 

Það varð samfélagsrof eftir Hrunið haustið 2008.

Stjórnmálastéttin sveik þjóðina, seldi hana í skuldaþrældóm, þó andspyrnan lagði ICEsave af velli, þá stóð eftir hamfaraástand uppboða og nauðungarsala, þar sem tugþúsundir samlanda okkar voru seld erlendum hrægömmum.

 

Og það er eins og þetta aumkunarverða fólk ætli að endurtaka leikinn.

Að verja fjármagn, þó þjóð sé undir.

 

Eins og enginn sé morgundagurinn.

En hann er þarna, áhrif heimsfaraldursins eru aðeins rétt farin að bíta.

 

Hvað sem verður, þá er aðeins eitt víst.

Hamfarirnar eru ekki mældar í verðbólgu.

 

Þetta snýst um að lifa af.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


mbl.is Verðbólgan gæti orðið þrálát
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

Verðbólgan er skrýtin og allt öðruvísi en miðjubólgan sem flestir glíma núna við sem afleiðingar af Covid og hversu afspyrnu leiðinlegt er nú að stunda heilsrækt. Í stað líkamlegs erfiðis og þeirrar ánægju og afslöppun sem fylgir þá þarf að panta og drífa þetta af líkt og hjá tannlækni = ekkert nema stress.

Það var viðtal við fasteignasala í Mogganum í dag sem sagði að fólk væri að flýja með spariféð úr bönkunum í steinsteypuna. Það virðast allir vera búast við kröftugu verðbólguskoti nema Seðlabankasjóri sem væntanlega keyrir um á rafmagnsbíl því bensínlíterinn er nú kominn yfir 240 kr en var það ekki hröð hækkun eldsneytisverðs sem var fyrsti vísir að síðustu kreppu?

En svo er kosningaár og því miður eiga bara allir von á að bráðlega verði farið í að reyna kaupa atkvæði með illa ígrunduðum (en vinsælum hjá almenningi!) fjárútlátum upp á skriljónir í bara eitthvað líkt og Covidaðgerðinar sem Biden er að reyna koma í gegnum þingið í USA.

Allt á lánum og lán þarf að borga til baka og hver er hinn endanlegi lánadrottinn er það ef til vill lánaKonfúsíu og verður Lykla-Pétri skipt út fyrir Tao sem stjórna þá aðgenginu að himnaríki í samræmi við bókhaldið.

Grímur Kjartansson, 17.2.2021 kl. 18:26

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Verðbólgan hér á Íslandi er núna 4,3%, sú mesta á Evrópska efnahagssvæðinu (EES), og ekkert nýtt við það. cool

Með mestu verðbólguna á eftir Íslandi á Evrópska efnahagssvæðinu eru Rúmenía, Ungverjaland, Pólland, Noregur og Tékkland, enda er ekkert þeirra með evruna. cool

Þorsteinn Briem, 17.2.2021 kl. 19:21

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Strax og COVID faraldurinn skall á bentu Hagsmunasamtök heimilanna á nauðsyn þess að setja tímabundið þak á verðtrygginguna. Þá var okkur sagt að hafa ekki áhyggjur, það væri ekkert útlit fyrir verðbólguskot og ef það kæmi þá yrði brugðist við því. Nú hafa heimilin reynst sannspá og Seðlabankinn ekki því verðbólguskotið er komið, en ekkert bólar á viðbrögðunum sem var lofað.

Guðmundur Ásgeirsson, 17.2.2021 kl. 19:58

4 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Og Íslandbanka skal selja, hvað sem þjóð finnst um.

Engan arð skal út borga, svo ekki styggist þeir sem hann vilja kaupa.

Við sölu á Borgun var gert hið sama og viti menn, arðurinn borgaði

kaupinn og lét þeim sem keyptu, helminginn af arði í vasan.

Deja Vú. Allir sömu spilltu pókerspilararnir ennþá að.

Almenningur mun blæða og núna er Covid notað sem skjól til að koma þeirri sölu á koppinn.

Því miður Ómar, þá eru þeir sem stjórna nákvæmlega sama um almenning.

Mammon hefur tökin á öllu sem kemur frá þessum fífla cirkus á Austurvelli.

Stjórnmálastéttinn er enn að svíkja sína þjóð. Tókst ekki nógu vel í

fyrstu atlögu, en skal takast í þeirri seinni.

Heimilin og almenningur munu þurfa enn og aftur, að borga fyrir svik

þessa fólks sem á alþingi situr.

Sorglegt en satt.

Sigurður Kristján Hjaltested, 17.2.2021 kl. 21:46

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið og athugasemdir félagar.

Vil aðeins árétta að tekjufall þjóðarbúa völdum heimsfaraldra er ekki verðbólga, verðbólgan kemur þegar menn fara að elta skottið á sjálfum sér, að verja stöðu sína, til dæmis með hækkun launa eða hækkun lána með einhverjum sjálfvirkum mekanisma líkt og verðtryggingin er.

Síðan er löngu kominn tími á Hamfarasjóð heimilanna til að hindra að tekjufallið komi fólki á götuna.

Sundrungin er næg fyrir þó það verði ekki líka að ófriðarbáli.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 18.2.2021 kl. 08:47

6 Smámynd: Örn Gunnlaugsson

Ómar, það gengur nú næst óvirðingu við fábjánana að leggja þá að jöfnu við þessa fugla sem koma við sögu í þessari frétt. Þegar ég var smápjakkur í barnaskóla í Laugarnesinu vann pabbi heitinn í Seðlabankanum, einn af mjög fáum starfsmönnum þar. Bankinn var þá í húsnæði Landsbankans í Austurstræti og var hann þar þangað til ég komst á fullorðinsár. Síðustu árin í Landsbankahúsinu minnir mig að hann hafi verið geymdur í risinu þar. Haft var í flimtingum að Seðlabankinn væri til húsa í skúffu í Landsbankanum sem var ekkert fjarri sannleikanum. Starfsmannafjöldinn var ekki mikill þá og launastrúktúrinn talsvert annar en núverandi starfsmenn njóta. Starfsmenn bankans telja nú nokkur hundruð og eru þeir almennt á nokkuð góðum fóðrum hjá almenningi en þeim hefur fjölgað lógaitmískt hlutfallslega miðað við íbúatölu landsins frá því bankinn var til húsa í skúffunni góðu. Mér er spurn hvað er allt þetta fólk að sýsla með þarna. Við þessa frétt birtist mynd af fimm margra milljóna mönnum (konur eru líka menn) sem virðist vera lágmarksfjöldi aftanlenda-sprenglærðra til að útdeila þeirri visku sem hefur gerjast með þeim kringum spákúluna, tarotspilin og reykelsin. Þau eru ekkert smá fín í tauinu okkar, hafa kannski verið á leið í trúðakeppni. Þrátt fyrir mikla fjölgun starfsmanna bankans á þessum árum hefur visku hans hrakað verulega og ekki gef ég nú mikið fyrir þá speki sem rýkur upp úr hólnum þarna.

Örn Gunnlaugsson, 18.2.2021 kl. 14:12

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Já, þú segir það Örn.

Í sjálfu sér ætla ég ekki að hætta mig út í þá umræðu eða leggja dóm á.

Við lifum hins vegar þá tíma að við höfum ekki efni á svona vitleysu, efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldursins er ekki eitthvað þursabit sem gengur yfir, þetta er rétt að byrja, við lifum óvissutíma.

Það þarf að gera það sem þarf að gera, fyrst og síðast að vernda þjóðina.

Ekki bara útvalda.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 18.2.2021 kl. 15:49

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"Síðan er löngu kominn tími á Hamfarasjóð heimilanna til að hindra að tekjufallið komi fólki á götuna."

Það er verið að vinna úr hugmyndum og útfæra leiðir til að nota ríkissjóð í þessum tilgangi. Hagsmunasamtök heimilanna eiga fulltrúa í þeim starfshópi.

Allir sem hafa tekið húsnæðislán eftir 1. apríl 2017 eiga nú rétt á að fá lánið fryst eða skilmálabreytt ef þeir lenda í greiðsluvanda, áður en gengið er að húsnæðinu.

Enda voru nauðungarsölur hjá einstaklingum 2020 færri en þær hafa verið á einu ári eins langt og fyrirliggjandi tölur ná eða til síðustu aldamóta.

Ástæðan er meðal annars sú að bankarnir vilja núna sýna fólki þá vægð sem þeir sýndu ekki eftir hrunið en hefur nú verið viðurkennt að hefði átt að gera.

Þrotlaus barátta Hagsmunasamtaka heimilanna er risastór áhrifaþáttur á þennan aukna vilja bankanna til að gæta að orðspori sínu að þessu leyti.

Guðmundur Ásgeirsson, 18.2.2021 kl. 16:07

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Guðmundur, gott að heyra.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 18.2.2021 kl. 17:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 202
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 168
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband