"Því sótt­varn­a­regl­ur hafi ekki verið nægj­an­lega harðar".

 

Segir örmagna læknir á gjörgæsludeild Hospital del Mar í Barcelona, vísar í yfirfullar deildir og það sem verra er, og í raun það versta, örmagna starfsfólk.

Nær að ramma inn kjarna alvarleika þessarar drepsóttar sem engu eirir, nái hún að breiðast út, óheft eða lítt heft.

 

Alvarleiki sem vestræn þjóðfélög hafa ekki kynnst í raun, því alltaf hefur skynsemin og þekkingin náð að yfirstíga hina forheimsku fávita sem tala um meðalhóf í sóttvörnum, og því miður hafa stjórnað flestum vestrænum samfélögum.

Líklegast er aðeins ein undantekning, ung heilbrigð kona sem er forsætisráðherra Nýja Sjálands, var það í upphafi faraldursins, og hafði vit og skynsemi að hlusta á ráð sérfræðinga þjóðarinnar á því sviði sem kennt er við sóttvarnir, einu sinni mikilvæg þekking sem bitur reynsla ítrekaða drepsjúkdóma skóp, en í dag í raun löngu gleymd, aðeins tregðan gagnvart breytingum skýrir að embætti til dæmis sóttvarnalæknis sé ennþá til í þeirri mynd sem við þekkjum, margt hagræðingargáfumennið hefur örugglega lagt til afnám þessa embættis, verkefnum þess hefði örugglega mátt sinna með öðrum veigameiri og nútímalegri.

 

Þess vegna er drepsóttin því sem næst stjórnlaus í dag, þrátt fyrir hertar sóttvarnir flestra ríkja í nóvember og desember.

Vandinn er og var, þær voru hertar of seint, eftir á þegar drepsóttin hafði grafið um sig djúpt í samfélögum fólks, smitstuðulinn náðist vissulega niður, en þegar sóttin er útbreidd, þá dugar ekki að hemja hana nema hann fari niður fyrir 1, jafnvel einn komma núll eitthvað getur verið ávísun á veldisvöxt, sérstaklega þegar drepsóttarveiran stökkbreytist og margfaldar sýkingarstuðul sinn.

Aðeins algjör lokun á smitleiðir hennar, þannig að einn smitaður einstaklingur eigi ekki möguleika til að smita allavega annan, heldur að smitstuðul margra verður innan við 1, það er núll komma eitthvað, dugar þegar svona er komið.

 

Á þetta bendir gjörgæslulæknirinn í Barcelona, i raun sjálfsagt frelsi um ferðalög yfir jólin, skilar sér beint í dauða ástvina og ættingja.

Eitthvað sem vitað var fyrir, en yfirvöld í raun lokuðu augum fyrir, líklegast vegna þess að fleiri en færri vildu taka áhættuna.

Það var ekki þannig að einhver segði að frelsi til að ferðast væri æðra mannslífum, heldur vonaðist fólk til þess að þetta gengi.

 

Sem það augljóslega gerði ekki, enda aldrei von á öðru.

Veirur drepsóttarinnar skilja ekki orðaleppa eins og meðalhóf í sóttvörnum, eða að nú sé tími, eins og jólin, þar sem önnur lögmál gilda en smitstuðull þeirra eða alvarleiki gagnvart heilsu þeirra sem smitast.

Þær einfaldlega smita eða drepa fái þær til þess tækifæri, með þekktum afleiðingum, þær smita ekki eða drepa sé skorið á smitleiðir þeirra.

Einfaldar staðreyndir sem vestræn samfélög lærðu í vor, en einhver óútskýranleg forheimska eða hálfvitaháttur fékk stjórnvöld flestra landa til að gleyma þegar sólin fór að skína skært í sumar, ekki bara með þeim afleiðingum að grasið fór að gróa og ávextir að þroskast á trjám, heldur líka með því að sóttvarnir innan landa, og milli landa hurfu hraðar en hitamet féllu, þó féllu þau hratt vegna hlýnunar jarðar.

 

Þess vegna deyr fólk í dag, á Spáni, á Bretlandi, í Svíþjóð, Tékklandi, Belgíu, Frakklandi, í svo ótalmörgum löndum, að ekki sé minnst á Ítalíu þar sem seinni bylgjan hefur drepið hátt í tvöfaldan þann fjölda sem féll í vor, þá voru samt allir óundirbúnir, bæði almenn gjörgæsla eða þekking lækna á beitingu lyfja gagnvart sóttinni.

Þá vissum við ekki betur, í dag, í haust hefur fólk dáið þó við vissum betur.

Undirliggjandi skýring er forheimska og fávitaháttur leiðtoga okkar, sem að hluta til má skýra með áróðri fjársterkra afla sem eiga rann sinn og taug að rekja til hugmyndafræði frjálshyggjunnar, og hafa barist fyrir rétt veirunnar til að sýkja og drepa, að hún hafi sama rétt og við mennirnir, þau réttindi sem við kennum við okkur og köllum mannréttindi.

 

Þessi viðurstyggð, með falsi sínum og blekkingum (illvígt kvef, eins og hver önnur flensa) hefur þegar kostað hundruð þúsunda fólks lífið, miklu fleiri eiga eftir að falla, milljónir eru veikluð á eftir.

Samt er aðeins ein skýring á að ekki fleiri hafi fallið, það er nútíminn og þekking hans.

Það dóu miklu fleiri í plágunni, en þá var hámarkshraðinn sá hraði sem hestur komst, fjarlægð út í tómið aðeins sú sem þokkalegur sjónauki sá, í dag keppir hestur ekki við Ferrari, eða Hubbel sjónaukinn við góðan kíki, aðeins dæmi um framþróun sem líka hefur átt sér stað í læknavísindum.

 

En að baki þeirri framþróun er fólk, af holdi og blóði, dags daglega köllum við það heilbrigðisstarfsfólk.

Sem er að örmagnast, er á síðustu blóðdropunum, og samt er farsóttin í vexti.

Samt í eins litlum vexti og harðar samfélagslegar lokanir leyfa henni, í mörgum löndum á aðeins eftir að loka öllu, að gefast upp á daglegu lífi því það er fátt annað sem hægt er að herða.

Ef ekki, þá hrynur heilbrigðiskerfið, ekki aðeins með þeim afleiðingum að dánartölur geti alltaf fimmfaldast, heldur líka fellur fólk úr öðrum sjúkdómum sem eru banvænir þannig séð, en auðvelt að lækna með nútíma þekkingu, tækjum og tólum.

 

Síðustu, ekki fyrstu, aðvörunarmerkin eru fréttir um yfirfullar deildir og örmagna starfsfólk, eða líkt og sagt var frá Bretlandi í fyrradag, að spítalar minntu á stríðstíma, þar sem óvinurinn væri veiran.

Við lifum þá tíma í dag.

Aðeins vonin um að harðar sóttvarnir snúi þróuninni við heldur lífi í mörgum heilbrigðiskerfum vestrænna þjóða í dag.

Og að bólusetningin virki áður en allt hrynur.

 

Samt erum við aðeins að glíma við veiru, skynlausa sameind sem varla getur talist lífvera, en hefur samt gengið svona nærri okkur.

Ef ástandið væri alls staðar eins slæmt, að hún hefði alls staðar gengið eins nærri okkur, þá gætum við sagt, að fátt hefði verið til varnar.

En það er ekki bara svo, gapið skilur á milli þekkingar og fávitaháttar.

 

Og fátt lýsir þessum fávitahætti betur en orðaleppurinn um Meðalhóf í sóttvörnum, og fá lönd hafa sótt lengra inná þær lendur heimskunnar en Noregur þegar Stórþingið þar afnam nauðvörn stjórnvalda um brennivínssölubann brennivínssala sem kenna sig við krár og öldurhús.

Firringin þar að baki með vísan í einhver frelsis og mannréttindarákvæði, meðalhóf eða annars sem afneitar alvarleika drepsóttarinnar, staðfesti aðeins þá úrkynjun sem gerði einum manni með byssu kleyft að drepa tugi ungmenna fyrir fram nefið á aðgerðarlausri löggæslu eða aðgerðarlausum almenningi.

Lífið er svo sjálfgefið að fólk kann ekki lengur að verja það.

 

Þess vegna eigum við að þakka fyrir það sem við höfum.

Að þjóðin leyfði ekki þessari úrkynjun að skjóta rótum, að hún var það heilbrigð að styðja sóttvarnaryfirvöld þegar þau tóku af skarið og lýstu yfir stríði við veiruna, og neyddu þar með stjórnvöld til að fylgja þeim, þrátt fyrir háværar raddir innan Sjálfstæðisflokksins um að veiran, þetta smæsta af hinu smáa, hefði ekki minni rétt til lífs en við hin, sem teljumst vera fólk og manneskjur.

 

Gleymum því samt aldrei að þessi úrkynjun ber beina ábyrgð á ótímabæru andláti hátt í tuttugu einstaklinga, sem og að samfélagið hefur verið í fjötrum óþarfra sóttvarna hátt í fjóra mánuði.

Gleymum því ekki heldur að það þurfti beina uppreisn löggæsluyfirvalda (sjá viðtal við yfirmann sóttvarna á landamærum) til þess að ríkisstjórnin hætti loksins að draga lappirnar gagnvart lokun á þeirri glufu sóttvarna að leyfa fólki að þykjast fara í 14 daga sóttkví, í stað þess að vera skimað við komu, og svo aftur eftir 5 daga.

Gleymum heldur aldrei flóttaviðbrögðum forsætisráðherra þegar hún varði hina óskiljanlegu tregðu með orðaleppnum um að stjórnvöld vildu alltaf gæta meðalhófs í sóttvörnum, eins og veiran skilji þetta meðalhóf, eða annan tilbúinn lagatexta.

Eins og að hún sé vitsmunavera og hafi lært þrætubókarlögfræði frjálshyggjunnar, sem hefur í áratugi barist fyrir frelsi Örfárra auðmanna til að ræna og rupla okkur hin, og hefur núna tekið upp á arma sína  frelsi kóvid veirunnar til að drepa okkur að auki.

 

Gleymum því aldrei, aðeins þannig kunnum við að meta þó það sem við höfum.

Ísland eins og það er í dag.

Veirufrítt, að hryllingssögunnar eru erlendar, eitthvað sem við þurfum að varast, en er ekki.

 

Og já, já já, við eigum stjórnvöldum okkar mikið að þakka.

Og við eigum að þakka fyrir að mjög margt er gert, og ekki hvað síst, reynt að gera, til að þjóðin komist heil, vissulega sködduð enda ekki annað hægt, en samt heil, út úr þessum hremmingum.

 

Við eigum að þakka fyrir að margt má betur gera, þá vitneskju höfum við vegna þess að margt hefur verið gert, og þá vitneskju nota stjórnvöld til að gera betur.

Eins og við klúðruðum eftirmálum fjármálahrunsins kennt við haustið 2008, þá höfum við náð að halda sjó í þessum hremmingum, og ekki hvað síst sem í raun skiptir mestu máli, náð að halda þjóðarskútunni með stefnið uppí ölduna og vindinn, óveðrið er ekkert að baki, líklegast er það versta framundan, en það er ekkert sem bendir til að við höldum þetta ekki út.

 

Við eigum að þakka fyrir það.

Slíkt er aldrei sjálfgefið.

Allra síst í því forystuleysi sem einkennir samtíma okkar.

 

Við þökkum fyrir það með því að halda haus.

Að gefa ekki eftir þegar raddir úrtölunnar hvísla í eyru okkar að nú sé tíminn til að slaka á, að þetta sé í höfn, eins og óvinurinn sé ekki lengur meðal okkar.

Að við höldum okkar striki þar til ekki lengur er neitt strik til að feta.

 

Að við séum frjáls.

Að við séu veirulaus.

Aðeins þá, en ekki fyrr, slökum við á.

 

En dýpsta þakklætið er sú samkennd að við séum þá öll eitt, að byrðar okkar séu sameiginlegar, að áföll eins sé áföll okkar allra.

Og sú heitstrenging að þó við náum ekki að bjarga öllum fyrirtækjum og öllum rekstri sem faraldurinn ógnar og mun eyða eftir því sem hann nær lengur að grafa um sig, að þá mun ekkert barn, engin fjölskylda missa heimili sitt vegna hans.

 

Því við erum eitt, þegar á reynir þá pössum við uppá hvort annað.

Það heit mun vísa okkur veginn í gegnum brotsjóina, gegnum storminn, gegnum erfiðleikana þar til við komust heil í höfn, tilbúinn í næstu ferð, sem verður ferð sóknar og afla.

 

Því öll ferðalög eiga sitt upphaf.

Allur endir sína byrjun.

Og jafnvel drepsótt og heimsfaraldur sína gjöf.

 

Þiggjum þá gjöf.

Þökkum fyrir hana.

 

Við erum eitt.

Látum ekki segja okkur annað.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


mbl.is Yfirfullar deildir og örmagna starfsfólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 21
  • Sl. sólarhring: 767
  • Sl. viku: 5560
  • Frá upphafi: 1400317

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 4777
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband