16.12.2020 | 10:02
Munu þau biðjast afsökunar.
Yfirfullar gjörgæsludeildir, smitmet, líkin hrannast upp, neyðarpantanir á líkpokum.
Þetta er hrollvekjan í Bandaríkjunum í dag, raunveruleiki sem margar ríkisstjórnir Vestur Evrópu reyna að forðast með því að skella öllu í lás um jólin og áramót, nú að þreyja þorrann á þar til almenningur er bólusettur.
Það er langur vegur frá þessu ástandi í Bandaríkjunum í dag og þess sem prófessorinn, sem ferðaþjónustan fékk til að ráðast gegn sóttvörnum á landamærunum, sagði í blaðagrein þann 29. ágúst síðastliðinn;
" Til dæmis voru viðbrögð vegna faraldursins vestra ekki til fyrirmyndar og Covid hefur í raun brunnið þar í gegn eins og sinueldur. En, án þess að það fari hátt í fjölmiðlum, þá hefur tilfellum í Bandaríkjunum farið fækkandi og lífið hér úti gengur almennt sinn vanagang, veitingahús full af fólki og sjúkrahús að mestu að sinna hefðbundnum sjúklingum þótt vissulega sé ástandið misjafnt á milli ríkja. Hjarðónæmi myndast ekki í einu vetfangi heldur verður smám saman erfiðara fyrir veiruna að breiðast út og það gæti e.t.v. farið að raungerast vestra á næstu mánuðum. ".
Þessum orðum hömpuðu andstæðingar sóttvarna í Sjálfstæðisflokknum mjög, sögðu að þarna væri fræðimaður sem væri ekki í vasanum á Kára og DECODE og margt mætt fólk þarna úti trúði þessu.
Prófessorinn var hluti af áróðursherferð fjársterkra hagsmuna, annað getur ekki skýrt að á svipuðum tíma birtust aðrar greinar í dagblöðum, leiðaraskrif Fréttablaðsins og Morgunblaðsins réðust beint gegn sóttvörnum þjóðarinnar, Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins endurbirti níðgrein öfgamanns um Boris Johnsson, þekkt Albaníuaðferð sem beindist að Bjarna Benediktssyni, og bullið og vitleysan var síðan blásin upp í netheimum, þar á meðal hér á Moggablogginu.
Í ljósi frétta um samfélagslegar lokanir víða í Evrópu eru þessi orð Reimars Péturssonar lögmanns athyglisverð, en hann skrifaði grein í Fréttablaðið, einmitt þann sama dag og Jón Ívar Einarsson, prófessor í Harvard, undir fyrirsögninni; "Vafasamar sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda".
"Vafasamt hlýtur að teljast að lokun landsins og stórkostlegar takmarkanir á atvinnufrelsi fjölmennra hópa samrýmist stjórnarskrá og lögum. Að minnsta kosti benda viðbrögð annarra Evrópuþjóða, eyríkja sem annarra, sem búa við stjórnskipun og löggjöf sem líkist okkar, til þess að síður íþyngjandi aðgerðir séu nú um stundir taldar nægjanlegar. Engar þeirra virðast álíta það markmið raunhæft eða samrýmast hófsemd að reyna að skapa veirufrítt svæði með því að stöðva allar ferðir yfir landamæri.".
Það vita allir hvernig það fór með þessar síður íþyngjandi aðgerðir, í dag eru þær strangari en hér, en munurinn er sá líklestin er farin af stað, í mörgum þessum löndum slagar mannfall haustsins hátt uppí þann fjölda sem féll í vor, munurinn er sá að í vor vissu menn svo lítið, í dag eru menn undirbúnir og gjörgæslur og önnur meðferð bjargar því miklu fleirum.
Samt deyr fólk og deyr, og miklu fleiri eiga eftir að deyja.
Verst er samt lygi Reimars, úthugsuð til að blekkja, "með því að stöðva allar ferðir yfir landamæri", ferðalög yfir landamæri hafa aldrei verið stöðvuð hérlendis, og krafa um sóttkví við landamæri var langt í frá séríslenskt fyrirbrigði.
Eitt af því sem einkenndi áróðurinn eða blekkingarinnar var að taka lönd þar sem faraldurinn var ekki eins skæður og í mörgum öðrum löndum, og það notað sem rök fyrir því að mildari sóttvarnir virkuðu betur en þær hörðu.
Þýskaland var tekið sem dæmi um stórt ríki þar sem ekki var gripið til eins harkalegra ráðstafana og í löndum eins og Ítalíu eða Bretlandi. Þjóðverjar náðu vissulega að halda veirunni í skefjum í vorbylgjunni en aðferðirnar voru um margt svipaðar og reyndar voru í upphafi í öðrum stórum löndum. Kannski var þýskur almenningur meðvitaðri um smithættu og hagaði sér í samræmi við það en allavega þá braust ekki út stjórnlaus faraldur þar í vor, ólíkt því sem gerðist í hinu stóru löndum Vestur Evrópu.
En þegar faraldur er stjórnlaus, þá duga ekki önnur ráð en að skera á smitleiðir veirunnar með stífum samfélagslegum lokunum. Eitthvað sem Þjóðverjar hefðu neyðst til að gera eins og allir aðrir.
Og gera núna á þessum tímapunkti; "Hert útgöngubann tekur gildi í Þýskalandi í dag og gildir til 10. janúar vegna mikillar útbreiðslu kórónuveirunnar í landinu. Skólum verður lokað og fyrirtækjum sem ekki veita nauðsynlega þjónustu verður gert að loka. (Ruv)".
Svíþjóð var síðan annað dæmi sem hampað var mjög, þrátt fyrir að mannfall þar átti sér engin önnur fordæmi á Norðurlöndum.
Bara það sem gerðist þar í vor gera þessi orð Sigríðar Andersen alþingismanns og foringja sóttvarnarandstæðinga í Sjálfstæðisflokknum óskiljanleg;
""Ég hef ekkert legið á mínum skoðunum og þetta er ákveðin leið sem ég tala fyrir og óska eftir skýringum frá yfirvöldum. Af hverju fara menn þessa leið?" spyr Sigríður og bætir við að sín leið sé líkari margtugginni sænskri leið, sem sóttvarnalæknir hafi upphaflega viljað feta: "Þess vegna er svo skrítið að menn hafi gefið í í þessum sóttvarnaaðgerðum þegar líður á faraldurinn og þegar það er alveg ljóst að menn eru að veikjast minna og höndla faraldurinn betur. Þá er gripið til harðari aðgerða. Það þarf að útskýra það"".
Það er mikill misskilningur að sænsk heilbrigðisyfirvöld hafi ekki gripið til harðra sóttvarnaaðgerða og þegar komið var fram á mitt sumar var heimsóknabann á hjúkrunarheimilum landsins og á meðan við máttum ferðast um landið okkar, þá máttu Svíar ekki fara nema x kílómetra frá heimili sínu í sumarfrí.
Vandinn var eins og sagði í nýrri skýrslu þarlendra um sóttvarnir; "Það mistókst að verja eldra fólk fyrir COVID-19, segir í áfangaskýrslu nefndar sem sænsk stjórnvöld skipuðu í sumar.Skýrslan er áfellisdómur yfir viðbrögðum yfirvalda í Svíþjóð, aðgerðir þeirra hafi komið of seint og ekki gengið nógu langt.".
Þeirra eigin orð um hina margtuggnu leið sem Sigríður Andersen hefur barist fyrir, þær mistókust því þær komu of seint og gengu ekki nógu langt.
En faraldurinn er í rénun í Svíþjóð var þá sagt og áróðursvélin dró upp að Íslandsströndum því til sönnunar forstjóra Karilanska sjúkrahússins, Íslendinginn Björn Zoëga. Allt var í góðu hjá honum og hans fólki, varla kóvid sjúklingur á sjúkrahúsinu en sagði þó að faraldurinn væri víða í vexti út um sveitir.
Bloggar höfðu ekki heldur undan að birta litmyndir af smitkortum Evrópu þar sem hluti Svíþjóðar kom betur út en Ísland og Noregur.
Og það var sífellt ráðist á Þórólf á blaðamannafundum, af hverju er ástandið svona gott í Svíþjóð, er það ekki vegna þess að þeir gáfu veirunni frelsi??
Í dag er allt lokað í Svíþjóð, og ástandið ekki gott.
Þetta mátti lesa í SVT í gær;
"153 nya dödsfall har rapporterats in sedan i fredags i Sverige, vilket gör att den totala dödssiffran i landet nu ligger på 7 667 personer. Samtidigt forsätter smittan att öka. Ökningen är ganska jämnt fördelad över olika åldersgrupper. Särskilt ökningen för personer över 70 år är bekymmersam eftersom de har ett större behov av sjukhusvård och större risk för att dö, säger Sara Byfors, enhetschef på Folkhälsomyndigheten, under tisdagens pressträffDet ökar i alla åldersgrupper vilket är en signal om att alla måste vara med i att bromsa smittspridningen. Det är viktigt att alla gör vad vi kan, fortsätter Byfors.".
Það verður að bremsa af smitútbreiðsluna, gjörgæslan er að yfirfyllast.
Ekkert af þessu á að koma á óvart því það er þannig með bráðsmitandi farsóttir, að þær breiðast út þar til hjarðónæmi næst eða það er skorið á smitleiðir þeirra.
Eitthvað sem vestrænir stjórnmálamenn þráuðust við fram eftir öllu hausti með þekktum afleiðingum.
Eitthvað sem íslensk stjórnvöld öxluðu ábyrgð á og því erum við í einum bestu málum í Evrópu í dag.
Öxluðu ábyrgð á þrátt fyrir beina andstöðu hluta af ráðherraliði Sjálfstæðisflokksins (Frétt af mbl.is Þrír ráðherrar í hópi efasemdamanna).
Þrátt fyrir opinbert andóf þingmanna flokksins sem sögðu létu meðal annars þetta út úr sér; "Bara að einhver geti dáið og þá getum við bara lokað heiminum (BN)".
Þrátt fyrir harðskeyttan áróður fjársterkra hagsmuna.
Að stóru leiti vegna þess að formaður flokksins, Bjarni Benediktsson stóð ístaðið gegn þessum áróðri, með þjóðinni gegn hinum þröngu hagsmunum.
Eftir stendur samt að áhrifafólk barðist fyrir fjöldamorðum, sænska dauðinn er um 250 einstaklingar hjá okkur.
Það eru þessir einhverjir sem Brynjar Níelsson talar um, rökin vernda ferðaþjónustuna.
En það er engin ferðaþjónusta í heiminum í dag, það er allt lokað, alls staðar.
Allt þetta fólk vissi vel fyrir hverju það var að berjast.
Það vissi afleiðingarnar, það þurfti ekki raunveruleikann til að skera úr um.
Það gengur laust meðal okkar og fær áfram að berjast gegn og grafa undan sóttvörnum þjóðarinnar.
Ráðast á heilbrigðisyfirvöld, ráðast á sóttvarnaryfirvöld.
Biðst ekki afsökunar, iðrast einskis.
Eina sem hefur breyst er að það hefur ekki lengur dæmin til að vitna í.
En ég skal vitna í dæmi um árangursríka sóttvarnir í landinu þar sem allt þetta hófst.
Hér hæðumst við að þeim, köllum þær kínversku leiðina.
"Thousands of people packed shoulder-to-shoulder with no face masks in sight, frolicking on rubber floats and cheering along to a music festival. It's not a very 2020 image, but it was the scene this weekend in the Chinese city of Wuhan, where Covid-19 first emerged late last year. ".
Það er allt eðlilegt í Whuan í dag.
Það tók aðeins innan við 3 mánuði.
Sóttvarnir virka.
Þetta er aðeins spurning um þekkingu og vilja.
Ekkert annað.
Kveðja að austan.
Yfirfullar gjörgæslur og smitmet | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 34
- Sl. sólarhring: 631
- Sl. viku: 5618
- Frá upphafi: 1399557
Annað
- Innlit í dag: 27
- Innlit sl. viku: 4791
- Gestir í dag: 26
- IP-tölur í dag: 26
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Mikið ósköp ertu sorglegur greyið mitt. Vilt sumsé loka alla inni mánuðum saman og logsjóða fyrir útidyrnar eins og í Kína. Skiptir engu hve margir farast, bara svo lengi sem þeir drepast ekki úr kóvít.
Þorsteinn Siglaugsson, 16.12.2020 kl. 11:50
Kæri Þorsteinn. Hvernig getur þú lesið það út úr þessum pistli Ómars að hann sé að tala um að "logsjóða" fyrir útidyrnar. Sannleikurinn talar sínu máli, hversu mikið sem þú og þínir talsmenn afneita sannleikanum eða bjaga hann, þá breytist hann ekkert. Sannleikurinn er ekki afstæður, hann er öllum sýnilegur sem vilja sjá hann! Og hafa skal það sem sannara reynist. Umræðan er ekki "pissukeppni" í því hver hefur rétt fyrir sér, heldur tala staðreyndirnar sínu máli. En sumir kjósa að berja höfði við steininn. Af hverju eru Íslendingar á þessum stað í dag gagnvart Covid veirunni? Og hvernig er ástandið núna á Norðurlöndunum, Evrópu og Bandaríkjunum? Þegar þú hefur svarað þessum spurningum í hjartans einlægni, þá veistu svörin.
Ólafur H. Knútsson (IP-tala skráð) 16.12.2020 kl. 12:53
"Thousands of people packed shoulder-to-shoulder with no face masks in sight, frolicking on rubber floats and cheering along to a music festival. It's not a very 2020 image, but it was the scene this weekend in the Chinese city of Wuhan, where Covid-19 first emerged late last year. ".
Eru þeir ónæmir? Hvernig stendur á því? Er veiran skipulagt hryðjuverk Kínverja gegn efnahagslífi Vesturlanda? Ég hef heyrt slíkar kenningar.
Hversu marga látum við ESB núna drepa fyrir okkur með því að afgreiða ekki leyfið fyrir bóluefnin? Hvað þykjast þeir vera að gera? Lágum við eftir í að gera samninga við Moderna sem er með miklu meðfærilegra bóluefni en Pfizer.
Halldór Jónsson, 16.12.2020 kl. 12:55
Sæll Ómar nú er það svart í neðra. Og ekki er að skárra hér í efra þar sem ég kokast af kverkaskít og hef mig ekki út á meðal manna.
Það er akkúrat á svona dimmum degi sem manni dettur í hug að kóvítboðskapurinn hafi eitthvað til síns máls og það sé jafnvel komið til að vera. Hingað til hefur mér nægt að vera síma og sjónvarpslaus og bregða mér frá tölvuskjánum út á meðals fólks til að átta mig á að kóvítið er aðallega úti í Langtíburtukistan og tel reyndar að svo sé um víða veröld.
Ég á systir í Frakklandi sem bæði trúir á kóvítið og þjáist af afleiðingum þess en hefur aldrei séð það, eins á ég bróðir býr í Englandi sem hefur heyrt um það en trúir á karma og Búdda. Svo er það stór vinur minn og frændi í Ástralíu sem hefur heyrt um þessa pest en hefur aldrei vitað til að nokkur hafi fengið hana þar um slóðir. Þetta er fólkið sem ég tala við um kóvítið úti í Langtíburtukistan.
Einn kolleiki minn hitti mig á förnum vegi á vordögum til að spaða mig, hafði verið í sóttkví svo til allan síðasta vetur. Hafði asnast til Spánar og lokast þar inni vikum saman kom svo til landsins og lenti í tveggja vikna sóttkví við komuna. Þegar hann kom úr þeirri sóttkví hafði fjölskyldumeðlimur fengið úrskurð um úrvinnslusóttkví svo hann var sendur í aðra til úrvinnsluöryggis.
Ég hafði lítinn áhuga á öllum þessum sóttkvíum en var forvitin varðandi veru hans á Spáni hvort hann hefði orðið var við líkpoka, hann horfði í forundran á mig og spurði hvort ég fylgdist ekki með fréttum. En það er akkúrat því sem ég nenni ekki þessa stuttu stund sem ég fer netsambandslaus út á meðal fólks á hverjum degi. Ég hef trú á að þörfin fyrir líkpokana sé mest í Langtíburtukistan og þannig sé það líka í Bandaríska sjónvarpinu.
En ég verð að segja það eins og er að þetta er versti dagurinn í kóvítinu hjá mér því þó þetta sé bara smávægilegur kverkaskítur þá treysti ég mér ekki út á meðal fólks en hefði betur haldið mig hinumegin við svartan skjáinn á tölvuskrattanum því hérna megin geisar drepsótt.
En svona til að poppa þetta upp þá sendi ég þér þennan lofsöng með uppstyttukveðju úr efra. (og þar er nú ekki um neinn Langtíburtukistan söng að ræða)
https://www.youtube.com/watch?v=Nd-Zq6Ak4nk
Magnús Sigurðsson, 16.12.2020 kl. 14:56
Af hverju eru Íslendingar hvar, Ólafur? Með þrefalt meiri samdrátt á þriðja ársfjórðungi en Evrópulöndin? Með þrjátíu þúsund manns án atvinnu og fer sífjölgandi? Með unglinga í reiðileysi og þunglyndi vegna skólalokana? Með yfirvofandi niðurskurð í heilbrigðiskerfinu og velferðarkerfinu, vegna þess að hér var ekkert tillit tekið til þess á hverju efnahagurinn hvílir þegar landinu var lokað fyrir ferðamönnum?
Þorsteinn Siglaugsson, 16.12.2020 kl. 15:08
Blessaður Halldór.
Þú virkar eins og frumbygginn(indíáninn) í Lukku Láka sem hélt að járnbraut væri furðuverk og að æðri öfl drifu járnskrímslið áfram.
Kínverjar gerðu fátt annað en að loka á smitleiðir, eftir að þeir hættu að rífast við veiruna.
Munurinn á þeim og til dæmis Íslandi eða Ítalíu, var sá að þeir héldu þetta út, og eru veirulausir í dag.
Af hverju, þeir passa uppá landamæri sín.
Flókið??
Nei, þetta er svipað og Ný Sjálendingar og Taívanar gera og gerðu, það er loka á smitleiðir og passa uppá landamæri.
Samsæriskenningarnar sem þú vísa í höfða til heimsku fólks, forsenda þeirra er að Kínverjar hefðu reiknað með að fífl stjórnuðu Vesturlöndum sem myndu ekki loka á veiruna í tíma, sem og að skera á smitleiðir. nýta sér síðan nýjustu tækni til að leita uppi veiruna og útrýma henni þar sem hún stingi sér niður.
Eftir sætu Kínverjar með lamaðan útflutning, og almenning á Vesturlöndum sem spyrði sig, af hverju létum við frjálshyggjuna flytja alla framleiðslu í þrælabúðir alþjóðavæðingarinnar.
Kínverjar eru rökhyggjumenn Halldór og hefðu aldrei tekið áhættuna á að frjálshyggjufíflin næðu að grafa undan sóttvörnum vestrænna þjóða, með hið frjálsa flæði Evrópusambandsins í fararbroddi.
Gleymdu þessu.
Kveðja að austan.
PS. Bóluefnin koma Halldór, reynslan mun skera úr um hvert er notadrýgst, við getum hvorki flýtt því ferli, eða rifist við það.
Ómar Geirsson, 16.12.2020 kl. 18:19
Blessaður Þorsteinn.
Þú ert dálítið að verða eins og biluð plata eftir því sem raunveruleikinn bítur fastar í þig, eiginleg vantar bara að þú hefðir mætt sænsku dánartölunum með því að segja að vegna sóttvarna munu allt að 300 látast, og þá væri gjaldþrot málflutningar þíns algjört.
Ég settist niður og aflaði mér upplýsinga, upp to date, um fullyrðingar þínar og ætla að svara þeim eins málefnaleg og ég get, líka þeim sem þú beindir af Ólafi því tilefnið var jú pistill minn.
1.Vilt sumsé loka alla inni mánuðum saman og logsjóða fyrir útidyrnar eins og í Kína.
Yfirvöld í Wuhan höfðu ekki aðra valkosti en að loka því smitið var svo útbreitt. Strax á fyrstu 2 vikunum féll smitstuðullinn frá rúmum 7 niður fyrir einn, í upphafi var áætlað að það tæki 12-14 vikur að algjörlega útrýma veirunni. Þetta má lesa í nýlegri frétt; "In late January, the Wuhan government decided to enforce a total lockdown in the city. Public transportation was suspended, and citizens were asked to stay at home. The number of confirmed cases reduced gradually. Then, in April, the regional government lifted the citywide lockdown, and businesses slowly resumed operations in the following months.", það er ýkt að segja að þetta sé lokum mánuðum saman, í raun svipaður tími og það tók að ráða við veiruna hér, en við þurftum ekki jafn strangar lokanir því smitstuðullinn var í upphafi miklu lægri hjá okkur.
Og svona er ástandið í Wuhan í dag; "We have been going to movies, watching live performances, and even traveling to other cities since the beginning of the summer," Lin, who asked to only use his last name, told DW.".
Þessi árangur er ekki vegna þess að héraðið eða Kína almennt var logsoðið aftur, í Kína eins og flestum öðrum Asíu löndum er sóttkví á landamærum, og það eru margir sem ferðast til og frá Kína því þetta er jú verksmiðja heimsins þar sem milljónir útlendinga lifa og starfa.
2.Skiptir engu hve margir farast, bara svo lengi sem þeir drepast ekki úr kóvít.
Þetta skiptir einmitt lykilmáli, það er til lítils að forða fólki frá afleiðingum smitsjúkdóms, og láta það svo deyja vegna hliðarverkana. Þar erum við og höfum alltaf verið sammála Þorsteinn, en tökum ólíkan pól á málið. Óheft farsótt drepur milljónir, um það er ekki hægt að rífast, það sést á veldisaukningum dauðsfalla áður en strangar sóttvarnir sveiga þær í línulegan vöxt, og stöðva síðan að lokum eins og gerðist í Kína, Ítalíu, Spáni, Bretlandi og fleirum löndum.
Sá dauði er vís, hliðarverkanirnar og dauði vegna þeirra ekki eins vísar, þar skipta mótvægisaðgerðir öllu. Neyðin kennir naktri konu að spinna var sagt og á stríðstímum læra þjóðir að bjarga sér af því sem þær hafa. Þetta sást í hafnbanni Þjóðverja á Breta sem og hafnbanni Breta á Þjóðverja. Bretar lærðu til dæmis að skipta matnum jafnt á milli óháð efnahag og þjóðfélagsstöðu, þeir lærðu lika að láta slökkviliðið slökkva elda eftir loftárásir jafnt í ríkra manna hverfum sem og fátækrahverfum. Þjóðverjar þróuðu efnaiðnaðinn til að mæta skorti á hrávöru, og svo framvegis.
Heimfært uppá nútímann, þá er ekkert mál að virkja krafta atvinnulausra, skipta gæðum jafnt líkt og gert er með hlutabótaleiðinni, veita greiðsluskjól og svo framvegis. Eins er hægt að setja fjármuni í hliðarráðstafanir vegna félagslegra eða andlegra vandamála.
Og þetta hafa íslensk stjórnvöld gert með góðum árangri, þó vissulega megi alltaf gera betur, og þess vegna sleppur þú að skjóta að mér 300 manna tölunni. Því þú veist alveg innst inni að ótti þinn hefur ekki gengið eftir.
Seinni hlutanum, sem snýr að Ólafi ætla ég að svara í annarri athugasemd, þá er þetta aðeins auðlesnara.
Á meðan er það kveðjan.
Ómar Geirsson, 16.12.2020 kl. 23:15
Þá er það seinni hlutinn Þorsteinn og sama framsetning.
1.Með þrefalt meiri samdrátt á þriðja ársfjórðungi en Evrópulöndin?.
Þarna ert þú vísast að vísa í samdrátt á þriðja ársfjórðungi og það er rétt hann var mikill samanborið við bóluárið mikla 2019 í ferðaþjónustu. Land sem er háð örfáum atvinnugreinum lendir alltaf í erfiðleikum þegar ein af þeim hrynur. Til dæmis þá lækkuðu útflutningstekjur okkar um 40% þegar síldveiðar hrundu 1968, sama hrun hjá norska síldariðnaðinum mældist vart í þarlendri þjóðarframleiðslu.
En í alvöru talað Þorsteinn, svaraðu mér heiðarlega, heldur þú virkilega að hrunið í ferðamannaiðnaðinum hefði ekki hvort sem er átt sér stað þó við hefðum haft landið opið fyrir komu ferðamanna?? Svona miðað við þær reglur sem aðrar þjóðir settu um sóttkví á sínum landamærum þegar fólk kom frá löndum þar sem smitstuðull fór yfir ákveðið mark??
Síðan Þorsteinn er þessi samdráttur ekki eingöngu vegna lokunar landsins, verð sjávarafurða hefur lækkað sem og álverð, almennt í heiminum eru þjóðir að glíma við samdrátt, og slíkur samdráttur hlýtur að leita hingað, algjörlega óháð því sem við gerum í okkar eigin sóttvörnum.
Víkjum síðan af tölulegum staðreyndum, mörg blöð, sem eru hluti af þessu áróðursstríði gegn sóttvörnum þjóðarinnar, slógu því upp að Landsframleiðslan á evrusvæðinu dróst á sama tíma saman um 4,4%, samanborið við 2019 þegar okkar dróst saman um "um 10,4% á þriðja ársfjórðungi 2020, samanborið við sama tímabil í fyrra.", sem er reyndar ekki þrefalt meira en látum það liggja milli hluta. En er þetta eitthvað óeðlilegt miðað við hvað hagkerfi okkar er háð útflutningi og ferðaþjónustan er þar stærst??
Er þetta sanngjarn samanburður að bera saman kóvid núna við bóluárið 2019, sem og að bera okkur saman við meðaltal þjóða þar sem atvinnulíf er margflókið og þær greinar sem kóvid hefur leikið illa, vega misþungt í efnahagsreikningi viðkomandi þjóða??
En þetta er samt bara blekking líkt og annar áróður, við gripum snemma til strangra sóttvarna í seinni bylgjunni, núna á síðasta ársfjórðungi eru aðrar þjóðir að loka með tilheyrandi samdrætti, samanburður á þriðja ársfjórðungi okkar er því miklu eðlilegri við fjórða ársfjórðung evrusvæðisins.
Eða bara að bera saman þriðja okkar við annan ársfjórðung evrusvæðisins; "and a rebound compared withthe second quarter of 2020,when GDP had decreased by 11.7% inthe euro area and by 11.3% in the EU". Stóra letrið er ekki mitt, þetta eru tölur frá Brussel og síðast þegar ég vissi þá er 11,7% samdráttur meiri en 10,4%.
Við erum ekki ein á báti í þessari kóvid kreppu og hvort kom á undan eplið eða hænan er endalaust hægt að þrasa um á meðan engin þjóð lætur reyna á óhefta farsótt. Eina sem víst er með hana er að þá deyr fólk, og það er allavega kreppa á meðan hún gengur yfir. Hvort hún hefði orðið meiri eða minni en kreppan með sóttvörnum, það er alltaf getgátur á meðan raunveruleikinn gefur ekki samanburð.
En það má samt fara rétt með, og sleppa því að blekkja að við séum eitthvað sér á báti í okkar sóttvörnum.
En núna er letrið orðið bjagað eftir EU tilvitnun mína og þetta einnig orðið langt, og því er það kveðjan í bili.
Ómar Geirsson, 16.12.2020 kl. 23:38
Blessaður aftur.
1. Með þrjátíu þúsund manns án atvinnu og fer sífjölgandi?.
Þetta eru háar tölur en ekki alveg nákvæmar. "Alls voru 20.906 einstaklingar atvinnulausir í almenna bótakerfinu í lok nóvembermánaðar og 5.448 í minnkaða starfshlutfallinu, eða samtals 26.354 manns.".
Þetta er samanburður við hagkerfi þar sem allt var í yfirsnúning vegna ofris ferðaþjónustunnar, og hluti af þessu er innflutt vinnuafl sem kom vegna þenslu og hlýtur þá að fara í samdrætti.
Síðan er núna verið að slaka á sóttvörnum og síðan er reiknað með að heimsefnahagurinn taki við sér einhvern tímann á næsta ári, sem hlýtur að leiða til aukinnar eftirspurnar eftir útflutningsvörum okkar.
En þetta er líka tækifæri til að gera eitthvað annað, auka innlenda hluta af neyslu okkar, leita nýrra útflutningstækifæra líkt og menn spá í landeldi í Ölfusinu og svo framvegis. Og þá reka menn sig á að kerfið letur nýsköpun með alltof flóknu regluverki, eitthvað sem hægt var að hundsa meðan gullið streymdi inn í ferðaþjónustunni, en er ekki hægt að hundsa lengur.
Dregið saman, við erum ekki að fara mikið aftur en til 2016, mikið af samdrættinum og atvinnuleysinu stafar af heimskreppu kóvid, og í kreppu felast ný tækifæri.
2.Með unglinga í reiðileysi og þunglyndi vegna skólalokana?.
Ég á unglinga og þeir eru ekki í reiðileysi og þeim og jafnöldrum þeirra hérna fyrir austan líður almennt vel. Einna helst að bann við íþróttaiðkun sé að bögga þessa krakka, en núna má æfa blakið og fótboltinn er að reyna að finna sér einhvern farveg.
En þetta er lókal, ég skal viðurkenna það, en það var gerð könnun nýlega og um hana má lesa hér;
Sofa betur og upplifa minni kvíða - Mbl.is
þar sem könnun meðal nemenda MH leiðir í ljós að "sofa mun betur og upplifa minni kvíða í haust en áður. Þeir upplifa minna einelti og upplifa síður erfið samskipti, áreitni eða ofbeldi. Viðhorf nemenda til námsins og skólans er svipað og síðustu ár og heilt yfir jákvætt."
Vissulega held ég að þeir sem standa tæpt fyrir upplifi meiri erfiðleika, en það er hægt að takast á við erfiðleika þessa hóps, og það er verið að því, bæði í skólum sem og í kerfinu.
En eðlilegir heilbrigðir krakkar hafa það bara gott Þorsteinn, trúðu mér.
3. Með yfirvofandi niðurskurð í heilbrigðiskerfinu og velferðarkerfinu, vegna þess að hér var ekkert tillit tekið til þess á hverju efnahagurinn hvílir þegar landinu var lokað fyrir ferðamönnum.
Niðurskurður er alltaf afstæður, en ferðamannaiðnaðurinn er horfinn í bili, ekki bara hér, heldur um allan heim. Það er einnig fordæmalaus efnahagskreppa sem engin sér fyrir endann á það er langtímaafleiðingum kóvid.
Það er staðreynd að þjóðartekjur hafa dregist saman, og á meðan það er ekki almennt viðurkennt og einstakir hópar berjast um hælinn og hnakkann við að halda sínum hlut, þá er niðurskurður óhjákvæmilegur.
En menn geta líka leyft genginu að síga líkt og gert var 1968, aðlagað sig að nýjum tekjuraunveruleika, og farið að vinna. Gert það sem er hagkvæmt og skynsamlegt, og þá er niðurskurður ekki skynsamlegur, hann dýpkar kreppu.
En ekkert af þessu er innlendum sóttvörnum að kenna, nema þá mesta lagi að litlu leiti, það er þau mistök að verja ekki landamærin, þá væri kófið ekki eins mikið. Þó við séum stór og mikil í anda þá hafa sóttvarnir okkar ekkert með heimskreppuna eða hrun ferðamannaiðnaðarins að gera.
Og þetta vita allir Þorsteinn, líka þú.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 17.12.2020 kl. 00:03
Takk fyrir innlitið og vörnina Ólafur þegar ég var upptekinn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 17.12.2020 kl. 00:04
Blessaður Magnús.
Vertu ánægður með kverkaskítinn, það rignir hvort sem er allt niður úti sem getur rignt niður.
Það er gott að heyra að þínu fólki líður vel, og vonum bara að svo verði áfram.
Ástandið er misslæmt eftir því hve þjóðir voru snöggar að bregðast við. Spánverjar voru einna fyrstir, og hvort sem það var lærdómur almennings úr fyrri bylgju eða árangur sóttvarna þeirra, þá er seinna bylgja þeirra mun vægari en víða í nágrannalöndum þeirra. Og sóttvarnir þeirra sem voru strangar í lok sumars, virka mildar í dag miðað við síðustu Evrópufréttir. Mér til dæmis hálf brá þegar ég las þessa fyrirsögn á Mbl.is; „Raunveruleg lokun“ í Danmörku - Mbl.is
Ekki félegt hjá frændum vorum Dönum.
Líkpokarnir eru sem betur fer ekki pantaðir víða, en eitthvað er um það á Ítalíu, aftur, og í USA, og þar er einnig Back in the USA.
En þeir væru víðar ef ekki hefði verið gripið til gagnráðstafana, sem vonandi fá einhverju bjargað í löndum þar sem heilsugæslan er komin í þrot og ræður ekki við frekari útbreiðslu farsóttarinnar.
En takk fyrir sendinguna.
Þetta eru miklir snillingar.
Kveðja úr rigningunni í neðra.
Ómar Geirsson, 17.12.2020 kl. 00:15
Ljúga ekki Kínverjarnir því sem flokknum passar?
Trúi ég þeim?
Stundum efast ég.
Er veiran bara ekki hryðjuverk sem þeir eru búnir núna að gera sig ónæma fyrir?
Við hinsvegar sitjum uppi með hana?
En þeirra efnahagslíf virðist ganga á fullri ferð. Hvernig getur 1.5 milljarður manna verið ónæmur?
Þessar fréttir frá Wuhan finnast mér lygilegar miðað við hversu smitnæmið er hér á Vesturlöndum.
Senda þeir okkur aðra umferð og hvernær?
Belti og braut?
Hvað á ég að halda?
Er ég orðinn vitlaus?
Halldór Jónsson, 22.12.2020 kl. 04:38
Blessaður Halldór.
Ertu ekki bara orðin ær á því að bíða eftir bóluefninu sem lætur bíða eftir sér??
Vissulega er ekkert að marka kínversk stjórnvöld, þau ljúga meiru en nef þeirra nær, og þó er talið að nefið fari langt með að hringa jörðina.
En þekking snýst ekki um orð Halldór, heldur það sem best er vitað á hverjum tíma, núna er til dæmis að hlýna og þá er vitað að fjöll leita niður á sléttuna og jarðvegur á haf út með leysingavatni.
Vísindamenn okkar sem og annarra vestræna þjóða merkja ekki mannlegt fikt við veiruna. Þar að auki er það ákaflega heimskulegt hjá þeim sem ætlar í sýklastríð að byrja að dreifa eitrinu hjá sjálfum sér, aðrar þjóðir þurftu bara að loka á hann og málið dautt.
Auðvitað gengur efnahagslífið vel hjá Kínverjum, þeir höfðu styrk til að beita aldagamalli þekkingu til að útrýma veirunni, ekkert flókið við það, síðan voru vinir þínir í frjálshyggjunni, guðir þínir til skamms tíma, búnir að leyfa auðnum að flytja alla grunnframleiðslu til Kína, og auðvitað framleiða þeir og framleiða, hvað annað??
Ég var að lesa, af öðru tilefni, gamla þýska bók með gotnesku letri, með hjálp Gúgla þýðanda, þar sem minnst var á strangleika Karólínu sem er fyrsta samþýska lagabókin. Þar eru þeir meðal annars með ákvæði sem snúa að sóttvarnarglæpamönnum. En tilefnið var að í borg einni var röð gálga meðfram þjóðveginum, allir uppteknir. Glæpurinn, viðkomandi höfðu ferðast og reynt að komast inn fyrir borgarmúrana án þess að hafa gildan sóttvarnarpassa, menn tóku þetta alvarlega því það var plága á ferðinni, og hún hafði ekki ferðafrelsi.
Það er diffinn Halldór milli feigs og ófeigs þessa dagana.
Ástandið í Whuan er ekkert lygilegra en það hefði verið hér ef landamærin hefðu ekki verið opnuð í sumar, þrátt fyrir skjalfestar aðvaranir lækna og mætra hagfræðinga. Það er ekki lygilegra en ástandið væri hér ef stuðningsmenn veirunnar innan Sjálfstæðisflokksins, ráðherrarnir Guðlaugur, Kolbrún og stelpan, hefðu ekki náð að tefja nauðsynlega lokun landamæranna þegar ljóst var síðla júlí að landamærin láku og það þyrfti að taka upp tvöfalda skimun auk sóttkvíar á milli.
Þá værir þú öruggur Halldór og mannlífið hér í sama eðlilega ganginum og í Whuan.
Ég skil það vel að Gunnar Rögnvaldsson hafði orðað í gær að það þyrfti að fara að draga þetta fólk fyrir dóm, jafnt stuðningsmenn veirunnar sem bera beina ábyrgð á ótímabærum dauða samlanda okkar, sem og þeirra álfa sem samsekir eru opnun landamæranna og gátu síðan ekki einu sinni pantað öryggisskammta af bóluefninu, það er eins og þau höfðu ekki fattað að þegar farsótt geisar, þá er óvissan það eina sem er viss.
Ég er ekki hrifinn af refsingum Halldór, tel nóg að segja; skammist ykkar, en við sitjum endalaust uppi með fífl ef þau eru aldrei látin sæta ábyrgð.
Það að vera fífl er áunnin hegðun, hjá allflestum allavega, slíka hegðun er ekki hægt að líða á dauðans alvöru tímum, og trúðu mér, flestir hætta að láta eins og fífl þegar þeir fatta að eftirspurnin eftir þeim er ekki til staðar.
Ekki það að stjórnvöld hafa gert ofsalega margt gott, það besta að þau eru að reyna að gera það sem þarf að gera, en þau hafa klikkað á grundvallaratriðum, að verja þjóðina, sem er létt verk og löðurmannlegt, og að hafa allar klær úti við að útvega bóluefni.
Ef þau skammast sín, og lofa bót og betrun, og sanna betrun sína með því að hætta láta barn stjórna almannavörnum þjóðarinnar, þá er allt í góðu hvað mig varðar.
Og trúðu mér Halldór, ég er ekkert að verða vitlaus.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 22.12.2020 kl. 08:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.