6.12.2020 | 13:41
Lífið var einfaldara í gamla daga.
Rómverjar, þetta litla borgríki við Tíber, sem varð að mesta heimsveldi veraldarsögunnar, byggði sigra sína á þrautseigju, skipulagi og aga.
Og agi er lykilorðið þegar árangur hernaðarvélar Rómverja er krufinn, hver hermaður þekkti sitt hlutverk, hann var hluti af heild, kaus hann annað, til dæmis í nafni þeirrar hugsunar sem er orðuð; "Ég má", þá hafði það þá einu afleiðingu sem aðrir skildu.
Hann hins vegar fékk ekki tækifæri til frekari lærdóms.
Á tímum þar sem einstaklingshyggjan tröllreið hetjum og ættbálkum, þá þurfti aðeins agaða hernaðarvél til að leggja undir sig heiminn.
Her sem barðist sem heild, hélt röðum sínum og uppstillingu þrátt fyrir harðskeyttar árásir andstæðinga sína, hann sigraði margfalt fjölmennari her óvinanna sem börðust sundraðir og eftir sínum eigin geðþótta, eða héldu ekki skipulagi í orrahríð augnbliksins.
Hetjur unnu hetjudáðir, en agi vann stríð.
Enda vann ekkert á rómversku hernaðarvélinni fyrr en Germannir komu böndum á stjórnleysi sitt, lærðu til verka af Rómverjum sjálfum með því að gerast málaliðar þeirra og gangast undir Rómverskan aga.
Og þá féll Róm, 800 frá því að fyrstu rómversku bændurnir fóru að herja á nágranna sína.
Róm reis upp aftur, og þá sem stórveldi andans eða guðs á jörð, stendur ennþá en lifði sína blómatíma á síðmiðöldum þegar Evrópa var kristnuð og missti ekki ítök sín fyrr en gráðugir furstar nýaldar ásældust eignir hennar, og gerðu út eitthvað trúarofstæki sem sagði að syndin væri kjarni kristninnar en ekki iðrunin og fyrirgefningin.
Róm lifði samt af þessa aðför, á sömu forsendum og það varð hernaðarveldi á sínum tíma, og nýtti síðan til að byggja upp hina miðlægu kirkju sem hlýddi henni í einu og öllu.
Með aga.
Róm vissi alveg að jörðin var kringlótt en Galíleó fór gegn aga hennar.
Eins var það með hinar ýmsu endurskoðunarkenningar gagnvart hinum miðlæga sið, létu menn ekki undan með góðu, þá var farið með báli og brandi gegn þeim borgum og héruðum sem ljáðu þeim eyra og skjól, kennimenn teknir og brenndir hvar sem til þeirra náðist.
Agaleysi er nefnilega fóður sundrungarinnar, fái það að þrífast, þá er stutt í upplausn, og í stríði, ósigur.
Á tímum þar sem lífið var bókstaflega baráttan um lífið.
Vegna sjúkdóma, vegna uppskerubrests, vegna náttúruhamfara, og ekki hvað síst vegna stöðugra styrjalda og átaka, þá sá samkeppni lífsins (survival of the fittest) til þess að þær þjóðir eða samfélög, sem virtu ekki aga og leyfðu þá úrkynjun einstaklingsins að hann mætti gera það sem hann vildi þegar hann vildi, óháð því sem væri að gerast í kringum hann, til þess að þær þjóðir eða samfélög urðu undir.
Og að verða undir á þessum tíma kostaði viðkomandi ekki bara sjálfstæðið, heldur líka eignir og mjög mörgum tilvikum lífið.
Menn rændu ekki bara og rupluðu sigraða andstæðinga, heldur drápu þá líka miskunnarlaust, og jafnvel þó menn héldu líftórunni, þá var matur og búfénaður á burt, og hungurdauðinn sá um eftirlifendur.
Menn börðust ekki bara innbyrðis, heldur líka við sjúkdóma.
Menn lærðu snemma hvernig hægt var að brjóta múra sóttkvíar með því að kasta sýktum líkum yfir borgarmúra, eitruðu vatnsból með drepsóttarsmiti, og menn lærðu líka snemma að verjast smitsjúkdómum með því að loka hliðum, setja upp sóttvarnarhlið á vegi, eða setja lög um að skip þar sem grunur lék á smiti, kæmu ekki að landi fyrr en ljóst var hvort um smit væri að ræða, eða allir um borð væru dauðir.
En ekkert af þessu gekk ef einstaklingnum var leyft að ganga úr takt, leyft að vinna með óvininum eða sýna af sér þá hegðun sem bauð honum heim.
Hvort sem það var að opna borgarhlið í umsátri því rétturinn til ferðalaga var sterkari en sjálf tilveran, eða að menn virtu ekki tilmæli um sóttkví á tímum drepsóttar.
Það höfðu menn lært af hinu fornu Rómverjum, að aðeins eitt dugði við agaleysi.
Böðullinn.
Hvort Englendingar gripu til hans á dögum loftárásanna miklu þegar algjör myrkvun byggða var fyrirskipuð að nóttu til, skal ósagt látið.
Ég held hreinlega að það hafi aldrei reynt á slíka úrkynjun.
Að segja, Ég má, ég hef rétt, ég er einstaklingur og má gera það sem ég vil.
En ferðalagið til böðulsins var stutt og það vissu allir.
Þegar líf og limir eru undir, þá dugar ekki agaleysi.
Það er áfellisdómur fyrir yfirvöld þessa lands að fólk sem neitar skimun við landamæri skuli hafa það í sjálfvaldi hvort það valsi um og hugsanlega smiti samborgara sína.
Annað hvort eru sóttvarnir í landinu eða ekki.
Það er ekki endalaust hægt að líða þann hálfkæring að fólk komist vísvitandi upp með að brjóta sóttvarnir, eða það sem verra er, að yfirvöld sýni þann hálfkæring að halda smitleiðum inní landið opnum, og á sama tíma halda öllu mannlífi í herkví sóttvarna.
Dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, höfum við þurft að gjalda svona hálfkærings.
Með síharðari sóttvörnum og framlengingu þeirra.
Það er þjóðin sem geldur þessara aumingjaskapar eða forheimsku.
Við vorum veirulaus og hefðum aftur getað orðið fyrir löngu síðan.
Lifað hér að mestu eðlilegu lífi, slagurinn væri tekinn við landamærin.
Þetta er spurning um vilja og þann vilja hafa sumar þjóðir haft, og uppskorið eftir því.
Ég er ekki að mælast til að eldri aðferðir verði teknar upp.
Þær virkuðu en staðfesta gerir það líka.
Staðfesta skoðar ekki augljós ásetningarbrot.
Hún grípur tafarlaust til aðgerða.
Það er ef henni hefur orðið á þau mistök að bjóða hættunni heim.
Staðfestan stýrir ekki þjóðinni í dag.
Þess vegna er ástandið eins og það er.
Þar liggur sökin.
Hvergi annars staðar.
Feisum það.
Kveðja að austan.
Lögreglan skoðar mál Elísabetar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 13
- Sl. sólarhring: 14
- Sl. viku: 459
- Frá upphafi: 1412821
Annað
- Innlit í dag: 13
- Innlit sl. viku: 398
- Gestir í dag: 12
- IP-tölur í dag: 12
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Að rifja upp sögu Rómverja er hollt fyrir okkar fólk og að vita að þeir sigruðu ekki með fjölmenninu heldur samstöðunni og aganum. Það er velmegunin sem hefur leyft okkur að láta einstaklingshyggjuna þrífast og taka völdin.
Það er svo merkilegt að langfæstir hugsa á grundvelli þjóðarhagsmuna nú til dags, sama hvaða mál maður fjallar um, flestir taka persónulega pólinn til skoðunar. Það hlýtur að vera skýringin á því að flokkar eins og Þjóðfylkingin og Frelsisflokkurinn fá ekki nægilegt fylgi til að komast inná þing. Stóru flokkarnir bjóða skyndilausnir einstaklingshyggjunnar (jafnvel vinstriflokkarnir, því þar er talað beint inní aðstæður fátækra, en eftir kosningar lítið efnt) og ódýrar reddingar, loforð og svo bara geta seinni kynslóðir reddað málunum. Of mikil vinstristefna er óhagstæð fyrir efnahaginn og of mikil hægristefna er óhagstæð fyrir umhverfið.
Sumt verður bara ekki úrelt, eins og að læra af sögunni. Sömu lögmálin gilda, jafnvel þótt tímabundið góðæri geti látið fólk halda að jörðin sé orðin paradís eins og henni er lýst í trúarritunum. Það er bara stóra blekkingin.
Ég hef lengi haft áhuga á Keltum, Gaulverjum og drúíðum. Þeir dóu út, eða samlöguðust Rómverjum, skildu engar ritaðar heimildir eftir sig, en áttu þó dásamlegt menningarskeið samkvæmt því litla sem um þá hefur verið ritað, til dæmis af sjálfum Júlíusi Sesar.
Þeir voru dæmigerðir fyrir þessi samfélög á þessum tíma, villimenn sem lögðu þó á vissan hátt grundvöllinn að okkar menningu. Þeirra gen lifa enn í Þjóðverjum, Frökkum og þjóðunum þar í kring, og tungumálin þarna geyma enn einhver orð úr þeirra máli.
Eina þjóðin eða ættbálkurinn frá þessum tíma sem nóg er vitað um eru Rómverjar, sigurvegarnir.
Ef einhver raunveruleiki er á bakvið kenningarnar um billjarðamæringa sem vilja ná enn meiri heimsyfirráðum með New World Order þá er ég ekki viss um að þeirra áætlanir gangi upp. Svona kreppur og farsóttir hafa nefnilega sérstaka eiginleika í þá átt að koma fólki útúr útópíuástandi yfir í rökhyggjuástand, þar sem þjóðernishyggjan verður betri kostur fyrir fjöldann en einstaklingshyggjan. Ég er feginn að ég gaf mér tíma til að lesa allan pistilinn þinn, þetta um Róm er sérlega áhugavert.
Ingólfur Sigurðsson, 7.12.2020 kl. 04:19
Takk Ingólfur.
Þú fangar kjarnann.
"Sumt verður bara ekki úrelt, eins og að læra af sögunni. Sömu lögmálin gilda, jafnvel þótt tímabundið góðæri geti látið fólk halda að jörðin sé orðin paradís eins og henni er lýst í trúarritunum. Það er bara stóra blekkingin. ".
Hinir fornu Keltar voru víða á háu menningarstigi,um það vitna fornleifar frá Alpahéruðunum og Gallíu.
En þeir gátu ekki lotið aga, gátu ekki barist sem heild, til þess var einstaklingshyggja þeirra of sterk.
Og enduðu fyrir vikið í fjötrum milljónum saman á þrælamörkuðum Rómar.
Víti sem vert er að hafa í huga eftir því sem æ fleiri eru sviptir mennskunni á altari kostnaðargreiningar og hagræðingar.
En það er önnur saga og utan áhugasviðs minna pistla í augnablikinu.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 7.12.2020 kl. 08:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.