Konur gegn jólum.

 

Kona fór í búð, úr varð lítil hópsýking sem felldi Víði því ef Víðir hlýðir ekki Víði, hver hlýðir honum þá??

Kona fór út að skokka, hitti svo vinkonur sínar á eftir, úr varð lítil hópsýking, sem felldi fyrirhugaðar slakanir fyrsta des, með afleiðingum að íþróttafólk okkar má hvorki æfa eða keppa innanlands.  Naut hún reyndar stuðnings ömmu sem vildi endilega hitta alla hjörðina sína, veita bæði kaffi, meðlæti og veiru.

 

Núna fáum við fréttir af konu sem neitar að bera grímu, er stolt, segir eins og er, að lítið sé réttlætið ef bara Palli litli má vera einn í heiminum.

Nýbúin að fá fréttir af konu, sem er læknir, og neitaði að láta skima sig á landamærunum, fór heim til sín, og ekki í sóttkví.

Undir eru jólin og eðlilegt mannlíf upp úr því.

 

Einstök dæmi.

Spurning.

 

En það voru líka konur sem börðust hatrammlega innan ríkisstjórnar Íslands að hleypa veirunni inní landið í sumar, með þekktum afleiðingum dauðsfalla, efnahagslegum samdrætti langt um fram það sem þurfti að verða, og frosnu mannlífi.

Það er líka kona, þingmaður sem hefur barist hart fyrir frelsi veirunnar til að fá að drepa stuðningsmenn flokks síns sem og aðra eldri borgara þessa lands.

Hún er guðmóðir kvennanna innan ríkisstjórnarinnar sem gáfu veirunni leyfi til að herja á landsmenn í sumar, og líkleg skýring á þeirri tregðu að landamærunum var ekki lokað í tíma, og við sátum uppi  með franska veiru og endalausar, sífelldar sóttvarnir sem ætla að stela jólunum.

 

Konur hér, konur þar, konur alls staðar.

Veiran hér, veiran þar, veiran alls staðar.

 

Hvað skýrir þessi tengsl??

Skortur á rökhugsun, að konum væri eiginlegra að hugsa í hring líkt og einn góður maður sagði og hlaut bágt fyrir??

 

Eða tilviljunin ein, að það sé hún sem raði upp þessum tengslum.

Eða er pistlahöfundur að tengja saman ótengda hluti og útbúa eina samsæriskenningu svona rétt fyrir leik United og West Ham?

 

Eða er dýpra á skýringunni?

Langvarandi leiði kvenna á jólunum því í aðdraganda þeirra klikkast þær allmargar, ráðast á lítt greinilegan skít, yfirfylla búr og kistur af óhollum matvælum sem leita beint á miðhluta maka þeirra, að ekki sé minnst á að þær vilja alltaf vera fara eitthvað, þegar úti er frost og funi, en inni er góður bolti í sjónvarpinu.

Og í stað þess að tækla þann leiða, slá af, leyfa skítnum allavega að vaxa svo einhver annar sjái hann, að ekki sé minnst á að ef menn baka ekki af ánægju, þá eiga menn ekki að baka af kvöð, hvað þá að vera alltaf á þessum þeytingi, þá var ráðið að leggja niður jólin.

Allavega stela þeim.

 

Finnst það líklegast.

En hef reyndar ekkert fyrir því.

 

"Ertu ekki að koma Ómar!".

Það var víst ekki leikur eftir allt saman.

 

Ekki fyrr en að verki loknu.

Kveðja að austan.


mbl.is Faraldurinn á mjög hægri niðurleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ómar, þú hefur þó nokkuð fyrir þér í því að lífið snýst orðið um kellingar á öllum aldri, af öllum gerðum, , , ,

með freðnum kveðjum, , , -úr efra.

Magnús Sigurðsson, 5.12.2020 kl. 18:29

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Austfirskir karlar ættu nú að tala vel um konur ef þeir vilja ekki missa þær allar frá sér og greinilegt að álver nægir ekki til að koma í veg fyrir að þær flytji frá Austfjörðum. cool

"Íbúar í Fjarðabyggð voru á árinu 2015 ríflega 4.700 og þar af voru 3.100 einstaklingar vinnubærir á aldrinum 18 til 69 ára, 1.400 konur og 1.700 karlar."

"Vinnumarkaðurinn skiptist þannig að konur voru 45% og karlar 55%."

"Hlutfall atvinnulausra kvenna á árinu 2015 var 3,8% en karla 1,7%." cool

"Árið 2018 var meðalævilengd karla 81 ár en kvenna 84 ár hér á Íslandi."

Þorsteinn Briem, 5.12.2020 kl. 21:50

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Já, þú ert dáldið ruglaður. Og það skánar nú ekki embarassed

Þorsteinn Siglaugsson, 5.12.2020 kl. 21:51

4 identicon

Fáirðu gagnrýna spurningu um þessi skrif gætirðu þá varið þau?

Esja frá Kjalarnesi (IP-tala skráð) 5.12.2020 kl. 23:31

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Púff Magnús, en sörurnar voru samt góðar sem og leikurinn við West Ham mjög leiðinlegur í fyrri hálfleik.

Og það er rétt að lífið snýst orðið mikið um kellingar á ýmsum aldri, flestar karlkyns reyndar, en sem betur fer þá höfum við konurnar til að þola það betur.

Kveðjur að neðan, ekki úr eins miklu frosti og í efra, en á móti kemur að við höfum ekki eins mikið frostþol og þið Hérarnir.

Ómar Geirsson, 6.12.2020 kl. 00:58

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Steini minn.

Skil sjónarmið þitt, en ég er vel giftur og konan hefur nóg annað að gera en að lesa bloggið mitt.

Svo ég slepp.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.12.2020 kl. 00:59

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Elska þig líka Þorsteinn minn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.12.2020 kl. 01:00

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Esja.

Hef ekki hugmynd, það er ekki ofgnótt af þeim þessa dagana.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.12.2020 kl. 01:01

9 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ómar, það hefði verið skemmtilegra að horfa á Aust Ham.

Nú hefur Steini lög að mæla þó svo að maður segi nú kannski ekki alveg "mæl þú manna heilastur".

Tek undir með þér varðandi kellingarnar enda bjargar það okkur að hálfu út úr ákúrum Steina á þessum Pan Trans tímum þegar öld kellingarinnar rennur í hlað.

Með stokkfreðnum kveðjum af ofan.

Magnús Sigurðsson, 6.12.2020 kl. 07:31

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Já, já Steini getur verið glúrinn, hann er allur að koma til hér á síðu minni.

Ég hef reyndar aldrei verið hrifinn af Ham í neinni mynd, er gallharður Þróttari, og síðan með árunum Unætari, og það var löngu áður en mínir menn fóru að vinna titla.

Breytingar tímans sem við lítt ráðum við, getum aðeins grátið okkar grænu dali og yfirgefin þorp, neyddu mig til að taka hluta af ástríðu minni yfir á félag sem kenndi sig við Fjarðabyggð/Leikni, það Leikin af öllum félögum.  En Óli vinur minn var bara svo frábær og svo mikill stríðsmaður, að ég kyngdi Leikni, en fattaði lítt þetta með Fjarðabyggð, það er skil ekki alveg nafnið, en strákarnir mínir spiluðu með klúbbnum svo eftir nokkur ár þá hætti ég að missa út úr mér Áfram Þróttur.

Og þegar múrarnir voru einu sinni farnir að molna, þá var ekki svo erfitt að taka inn ykkur Hérana, og ástríðan sem small saman þegar þeir voru 2-0 undir á móti Þór og aðeins 5 mínútur eftir, í leik sem endaði svo 2-2 og jafnteflið dugði í úrslit á Stefnumótinu á móti Breiðablik, þá eiginlega fattaði ég að þetta snérist allt um ástríðu og leikinn.

Og strákarnir mínir voru allir strákarnir í liðinu, óháð póstnúmeri.

Núna eru leiðir skildar, þeir eiga eftir að takast á undir merkjum Leiknis, Einherja og Fjarðabyggðar, hvað svo sem það nafn þýðir, en Snorrabúð er stekkur, fyrirhugaðar undanþágur vegna æfinga fullorðna, 16 ára og eldri sem áttu að koma 1. des, voru afturkallaðar. 

Það skýrir af hverju þessar konur sem fóru út í búð, eða út að skokka, komust með í þennan pistil.

En það er útidúr, Aust Ham með vísan í okkar eigin lið hérna fyrir austan, í stað þeirra hálfatvinnumannaliða sem litlu byggðirnar reyna að halda út, að mestu mönnuð útlensku mönnum, hvort sem þeir tala lélega íslensku úr sollinu fyrir sunnan eða enga íslensku enda af erlendu bergi brotnir, skiptir litlu þar um.

Ég var algjörlega hættur að horfa á fullorðins boltann, tengdi mig hvorki við klúbbinn eða þá sem spiluðu fyrir hann. 

En þegar eldri strákarnir, það er strákarnir sem eru á eldra árinu, það er mínir eru 2004 og annað hvort ár voru þeir á yngra ári og spiluðu þá með 2003 árganginum, fóru uppí meistaraflokk í fyrra (þó þeir væru á efra ári í þriðja), og fengu að sitja á bekknum, þá fór ég að mæta á nokkra leiki og hafði ágæta skemmtun af.

Og síðsumar var horft á alla leiki eftir að örverpið var sjanghæjað til að spila með meistaraflokk, maður horfir þegar tenging er til staðar.

Eftir stendur þá hugsun, hvað ef, hvað ef allir þessu flottu strákar sem maður hefur fylgst með frá því þeir kunnu ekki að reima fótboltaskóna, væru ennþá í einu liði, Austurland, sem er orð sem ég tengi við.

Og það væri ekki bara töluð íslenska inná vellinum, heldur austfirska.

Það er alltí lagi að láta sig dreyma.

Lognkveðjur úr birtunni hér í neðra.

Ómar Geirsson, 6.12.2020 kl. 12:05

11 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Ég man Spyrni, Leikni, Sindra, Neista, Freysgoða, Einherja, Hugin, Val, Hött, Austra, Þrótt og um tíma Egil Rauða, Hugin Fellum og UMFB. Öll þessi félög náðu að fullskipa fótboltalið á móðurmálinu. Glötuð er vor arfleið Ómar og fór sem fór á okkar vakt. 

Fótboltinn varð mál Matthildar minnar á meðan ég bara steypti, og Neisti spilaði fullskipaður á móðurmálinu með ágætis árangri, svo því sé haldið til haga.

Þegar við fluttum við sundin blá þá varð það Fjölnir, og Reykjarvík varð toppurinn á ferðlinum í borgamóti Evrópu. Svo fórum við aftur austur sumarið sem Fjölnir ætlaði að taka íslandsmeistaratitilinn í kjölfar Reykjavíkurmeistaratitilsins, í flokki sonar okkar, en hann kom með austur stormandi í Kárahnjúka steypuna og hætti í boltaleikjum.

Það er bara örstutt síðan ég hafði mig í að spyrja hvort ég hefði ekki verið vonlaus fótbolta pabbi. Nei veistu það er bara betra að fá að steypa hérna fyrir austan. 

Við Matthildur mín eigum því láni að fagna að börnin búa í grennd, Fjarðabyggð og nú Múlaþingi, vildi nú samt sjálfur að búseta okkar tilheyrði félagssvæði Neista, Vals og Spyrnis, en það er nú önnur saga, -þær yrðu kannski líflegri umræðurnar um boltann.

Það er ómetanlegt að hafa sína nánustu í grennd og nú með henni Ævi. Og varðandi kóvið hef ég ekki þurft æsa mig í 2. og 3. bylgju, en mikið andskoti fór sú 1. í mínar fínustu þegar náungakærleikurinn var svo mikill að maður fékk ekki heimsókn.

þrátt fyrir steypuna og álið, -tökum mark á Steina, -konurnar eru málið.

Með króknuðum kveðjum úr efra.

Magnús Sigurðsson, 6.12.2020 kl. 14:47

12 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þegar ég les þetta yfir sést hvað lítið er eftir í höfðinu, auðvitað vantar Súluna sem ól upp atvinnumann á Englandi og landliðsfyrirliða. Sjálfsagt gleymi ég fleiru af því helsta.

Magnús Sigurðsson, 6.12.2020 kl. 14:51

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Já ég held að Stöðfirðingar hefðu seint getað fyrirgefið þér það á næsta átthagamóti á Borginni.

En þannig var það þegar ég náði manndómsárum mínum, fyrir utan böllin á jólunum, þá hitti maður flesta af sinni kynslóð á Borginni, það er fyrir þá daga er pöbbarnir tóku yfir.

Þó gerðu samt hetjur hafsins út heima, á annað hundrað trillur í höfninni, þrír togarar, 2 uppsjávarskip.

En æ fleiri tóku bókvitið fram yfir slorið í ask sinn, og þeirra leið lá suður.

Viðspyrnan var ekki í sjávarútveginum, hún var með stofnun MA og seinna VA, unga fólkið gat verið heima fram að tvítugu, og það merkilega er, að lífið í þorpinu var ekki ömulegra en það, að seinna þegar færi gafst, þá komu þessir krakkar aftur til að ala upp börn sín.  Svona merkilegt miðað við hvernig Bubbi og aðrir dóphausar hafa náð að skíta út mannlíf hinna smærri byggða.

Krakkarnir sem voru ennþá með bleyju, eða í það minnsta hor í nös, þegar ég fór að heiman, þau voru foreldrar jafnaldra strákanna minna, iðulega báðir foreldrarnir af rótgrónum norðfirskum ættum, sumir jafnvel kynntust í námi hérlendis eða erlendis.

En þessi viðspyrna varð miklu meiri á Egilstöðum og Norðfirði, á Reyðarfirði er leitun af innfæddum, smærri byggðir fóru verr út úr þessu.  Ekki vegna kvótans sem slíks, það var aldrei rekstrargrundvöllur fyrir togurum og frystihúsi, heldur vegna þeirrar taumlausu græðgi að leyfa minni stöðum ekki að nýta grunnmið með smærri bátum.  Þar lá viðspyrnan og þar hrundi ekki fyrr en hún var afnumin og restin sett inní kvóta.  Og grunnmiðin í kjölfarið lítt nýtt eða ónýtt í það minnsta á Norður og Austurlandi.

Fótboltinn var alltaf stór hluti af sjálfsmyndinni, það var sko tekist á vellinum, jafnt innan vallar sem utan.

Og maður sér hvað þetta er ennþá sterkt á Fáskrúðsfirði og Vopnafirði, horfið á Seyðisfirði, í Fjarðabyggð þykir engum vænt um klúbbinn, ætli þetta sé ekki eitthvað limbó uppá Héraði.  Þegar strákarnir í þriðja flokki spiluðu undir merkjum Austurlands hérna á Norðfjarðarvelli, og þeir spiluðu flottan fótbolta, þá mættu alltaf fleiri en foreldrarnir að horfa, á annað hundruð á bikarleikinn við Þór þó hann væri ekkert auglýstur.  En á Fellavelli komu fáir innfæddir, það var eins og afarnir og ömmurnar væru hætt að mæta líka.

Rígurinn er minning ein, allur horfinn yfir í enska boltann. 

En ég hygg út frá minni reynslu, eftir allt þetta samstarf með fyrrum andsæðingum bernsku minnar, að viðspyrnan sé öflugt samstarf innan héraðs, og þá meina ég Austfirðinga.  Skapa umgjörð þar sem krakkarnir okkar fá að blómstra og seinna tækifæri að keppa við þá bestu þegar þau stækka.  Nútímafótboltinn er þannig að ef þú ert ekki með vel mannað og þjálfað lið, þá er þér slátrað, og það er ekki gaman að tapa leik eftir leik með 10-20 marka mun líkt og Höttur gerði gagnvart okkur í 4. flokki og Sindri núna í 3. flokki.  Það er liðin tíð að sterkir strákar geti staðið við vítateiginn og sparkað öllum boltum í burtu, þó það væri ekki nema vegna þess að pitsur og pasta ala ekki upp sérstaklega sterka drengi.

Og útlenskan á öllum völlum landsbyggðarinnar er okkur til skammar.

Lýsir algjörri minnimáttarkennd og vantrú  á okkar eigin fólki.

Eitthvað sem smitar sér svo í allt annað mannlíf.

En ég breyti því ekki Magnús, ekki frekar en þú.

Það er gott að félagsfælnin er gengin yfir, sjálfur ætla ég inní sveit núna á eftir til veita góðum Arsenalmanni andlegan stuðning á erfiðum tímum, eitthvað sem ég gerði ekki í vor þegar ekkert var vitað um þetta kvikindi, kaus frekar að gera heimsótt mömmu gömlu reglulega og argast í henni eins og er skylda hjá yngsta barninu.

Það er rétt hjá þér að þú varst ekki góður fótboltapabbi, en það er ekki hægt að vera góður í öllu, ég heyri á öllu að þér hefur verið fyrirgefið.

Ég hins vegar hefði ekki haft val, ég hefði verið ættleiddur burt ef mér hefði dottið svona í hug, hér mættu men á allar æfingar og leiki, og þessir örfáu sem voru svo óheppnir að búa við það foreldravandamál að vera teknir burt frá leikjum vegna sumarfría, þeir nutu stuðnings og samúðar hinna strákanna ásamt því að fá góð ráð um skæruliðahegðun svo slíkt yrði ekki endurtekið.  Ein mamman sem fór með jafnaldra strákanna minna til Spánar um hásumarið, sagði mér að hann hefði ekki brosað allan tímann, og sagt síðan við hana, mamma þetta gerir þú aldrei aftur.  Og hún hlýddi.

Börnin okkar erfa landið.  Og það er gaman ef við deilum því landi.

Og á meðan að svo er hjá fleirum en færri, þá er líf í byggðinni.

Hún á framtíð, hún á tilveru.

Megi svo verða um ókomna tíð.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.12.2020 kl. 15:37

14 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Einhvern vegin fer lítið fyrir ríg í minni minningu, hann var þá ekkert síður innan liðsins. Reyndar vorum við Héraðskrakkarnir svo heppin upp úr 1970 að vera boðið í skátaútilega yfir helgi á félagssvæði Egils Rauða rétt fyrir innan Kirkjuból í Fannardal. Þegar við strákarnir mættumst á vellinum eftir það var því um gömul kynni með gagnkvæmri virðingu að ræða og ég man það sérstaklega að Þróttar strákarnir áttu það til að minnast á hvað gaman væri að spila við Hött. Svona var þetta líka með önnur lið, leikirnir voru viðburðir með áhorfendum.

Seinna fór ég í iðnskóla á Neskaupstað, bjó á Skakkanum, þá var steypan komin til sögunnar. Jonni Dóru var góður félagi skólanum og seinna urðum við skipsfélagar á Barða, þeim sem Bubbi söng um sem Rosann, að mér skilst, en það var nú víst Tolli bróðir hans sem átti heiðurinn af þeim texta. Helst að rígurinn hafi falist í því að mér var sagt að gerast formlegur útsvarsgreiðandi í Litlu Moskvu ef ég vildi ekki vera kallaður Hérinn um borð í Barðanum. 

Já tímarnir breyttust og "börnin okkar erfa landið. Og það er gaman ef við deilum því landi". Það er nefnilega ekki sjálfgefið. Undanfarin ár hefur mér virst austfirskur ungdómur halda til nágrannalanda til jafns við höfuðstaðinn. Þá verður langt fyrir suma að sækja átthagamótin, kannski að konan sem þú pistlar um hafi verið að reyna það á eigin skinni? 

Fólk verða að átta sig á því að síðasti bærinn í dalnum verður aldrei annað en sá síðasti, þó svo að sá bær geti fitnað um tíma á að kvótasetja og jafnvel að bjóða upp lífsviðurværið. 

Með kveðju úr heiðríkjunni i efra.

Magnús Sigurðsson, 6.12.2020 kl. 16:41

15 Smámynd: Ómar Geirsson

Nei rígurinn við Hött kom seinna, eftir okkar daga, uppúr 1970 voru Egilsstaðir það nýir að þeir voru ekki ennþá komnir inní gamla fjarðaríginn.

En Maggi bróðir sem er 4 árum eldri en ég, hann upplifði hrækjandi og áhorfendur öskrandi ókvæðisorðum á hann, hann piltinn í marki í 5. flokki, bæði á Eskifirði og Seyðisfirði, þegar ég var í 5. flokk hafði þetta mikið lagast, man bara eftir köllum og hrópum.  Tengdapabbi minn sem var að spila á unglingsárum sínum með Austra, hann talaði líka um snarvitlaust fólk, mundi alveg eftir nokkrum heimamönnum en fyrst og síðast á öðrum fjörðum.

Þetta lagaðist mikið á Eskifirði og Norðfirði á árunum uppúr 1970, en hélst lengi slæmt bæði á Seyðisfirði og Fáskrúðsfirði.

Svo þegar þetta var sameinað í einn klúbb, alla gömlu óvinina, þá þurfti ekki mikið til að allt fuðraði upp á foreldrafundum, eða á leikjum, skilst mér, en það var fyrir mína tíð.  Ég kem fyrst inní yngra starfið 2013 og þá sá maður leifarnar af þessu, en síðan þá fór þetta bara batnandi, maður kynntist fullt af fínu fólki sem deildi sömu ástríðunni, og það var málið með Hattarforeldra, liðin voru alltaf að spila og hver nennti að vera argur??

Krakkarnir skildu hins vegar aldrei neitt í þessum sögum, þau smullu saman líkt og þau voru öll alin upp í sömu götunni.

Ég hygg að styrkur Austfirðinga sé að standa saman sem ein heild, þannig náum við að halda lífi í byggðinni sem við tókum í arf.

Krakkarnir leita vissulega út en þau leita líka heim.  Allflestir foreldrarnir sem ég tala um eru með ýmiskonar menntun, sem nýtist skólunum, sjúkrahúsinu, Síldarvinnslunni og Alcóa, eiga það samt sammerkt að vilja ala upp börnin hér heima.

Ég hef ekkert á móti útþránni, en ég tel að það sé hægt að hafa heimabyggðina sem valkost, og þrátt fyrir allt hefur margt gott gerst í þeim efnum síðustu 2 áratugina eða svo.

Það er rétt að kvótinn drepur, en undirliggjandi er hagfræðin sem keyrir niður kostnað, krefst ýtrustu hagræðingar og hampar hinu stóra, hagfræði sem endar með okkur öll í einu verksmiðjuþorpi sem framleiðir allt, og í einni borg þar sem við búum öll.  Líklegast í einu landi því það er enginn endir á samþjöppun stærðarhagkvæmninnar.

Sveitin mín var blómleg þegar þú komst hérna fyrst, ég var í 5. bekk gaggó með strák sem var ættaður frá Borgarfirði eystra, átti einhver ættartengsl hingað, hann sagði við mig einhvern tímann að hann hefði tekið eftir því í eitt skipti sem hann flaug hingað, þá var innanlandsflug hérna á Norðfjörð, að í sveitinni væri allt ræktað frá fjallshlíð í fjallshlíð, þrautræktuð sveit með öðrum orðum.

Aðeins einn kúabóndi eftir, stutt í að hann hætti og selji kvótann, sauðfjárbúskapurinn er bara hobbý hjá flestum, örfáir hestar.

Fyrst kvótasetja menn í örfá bú, svo á að flytja allt inn.

Þetta er nútíminn segja þeir, en það er hægt að spyrna á móti.

Hlúum að börnunum, hlúum að gróandanum, störfum og stöndum saman, og þá er hvergi betra að búa.

Þetta snýst allt um viðspyrnu.

Kveðja úr andsk. helv. kuldanum, hann sló í 9 gráður sem gerist ekki oft, í neðra.

Ómar Geirsson, 6.12.2020 kl. 19:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 13
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 459
  • Frá upphafi: 1412821

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 398
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband