Lýðræði inn memorium.

 

Lýðræðissamfélag, sem býður þjóð sinni upp á þann valkost að kjósa milli Trump og Biden, annars vegar lýðskrumara sem gerir út á sundrungu og slagorðavaðal og hins vegar mann sem gerir Brezhnev heitin líflegan, er ekki lengur virkt.

Eitthvað hefur farið úrskeiðis í samfélaginu sem gerir venjulegu fólki, hæfu fólki ókleyft að bjóða sig fram.

 

Kosningarnar í dag skipta samt máli, því hvað sem verður sagt um Trump, þá fór hann gegn alþjóðavæðingunni sem gerir út á samnefnara hins lægsta, þrælahald, náttúruníð, gegndarlausa sóun og mengun.

Og hann þorði að fara gegn auðnum sem lagði niður störf, borgar lítt eða ekkert til samfélagsins, geymir eigur sína í skattaskjólum.

Enda fjármagnar auðurinn andófið og róginn gegn honum.

 

Fyrir utan að vera í samkeppni við liðið lík um fjörleika, er Biden afsprengi þess stjórnmálakerfis sem stóð vaktina þegar Bandaríkin voru rænd, þegar störf voru lögð niður, heilu samfélögunum leyft að grotna.

Nema hann er verri en Busharnir voru nokkurn tímann, því hann býður sig fram fyrir flokk sem þóttist allan tímann vera á móti arðráninu.

Harmleikur vinstrisinnaðra flokka á Vesturlöndum í hnotskurn, þeir ekki aðeins gáfust upp fyrir alþjóðavæðingunni og frjálshyggjunni, heldur gerðu hana að trúarsetningu sinni.

 

Trump er vissulega lýðskrumari og ræðutaktík hans minnir um margt á manninn með yfirvaraskeggið, úthugsuð slagorð sem ætluð eru frumstæðustu hugsun mannsins, eitthvað sem æsir hann upp, breytir honum í taktlausan múg, sem reyndar gengur í takt á eftir leiðtoga sínum.

En hann þorði gegn á meðan hinir gengu í takt.

Og fyrirlitning hinna á þjóð sinni er þvílík að þeir geta ekki einu sinni valið frambærilegan frambjóðenda sem bæði er líklegur til að lifa af kjörtímabilið, og býður uppá valkost við Trump.

"Ekki Trump" er ekki stefna, heldur leið til að ná völdum valdanna vegna.

Í raun engu minna lýðskrum eða atlaga að lýðræðinu en framboð Trump er.

 

Þó er eitt sem skilur á milli.

Og það er bein þátttaka fjölmiðla vestan hafs til að ráða úrslitum kosninganna, falsfréttin um ætlaðan ásetning Trump um að ræna völdum eftir kosningar, er áður óþekkt lágkúra í bandarískum stjórnmálum.

Eitt er að bulla á kosningafundum eða ljúga í kosningaáróðri, annað er að hanna frétt sem ætluð er beint til að hafa áhrif á úrslit.

Slíkt er alltaf aðför að lýðræðinu.

Og þar er ekki við Trump að sakast.

 

Hvernig sem fer þá er ljóst að bandarísk auðstétt hefur lagt lýðræði landsfeðranna að velli.

Hún hefur arðrænt landið, skilið stóran hluta landsmanna eftir í sárri fátækt, rænt störfum, plægt þar jarðveg sem síðan sáð var í sundrung og úlfúð.

Hún hefur kynnt undir hatur og deilur milli ólíkra þjóðfélagshópa, milli ólíkra stjórnmálaskoðana, milli ólíkra lífsgilda.

Skítkastið og hatursorðræðan hefur síðan skapað þann hreinsunareld að aðeins steingeldir persónuleikar, með tefflon húð utan Colgate bros, talandi í frösum, síhugsandi um hagsmuni kostunaraðila, komast í gegnum hann og mynda stjórnmálastétt landsins.

Með undantekningum þó en þær undantekningar eiga ekki lengur möguleika á forsetaframboði.

 

Lýðræðið er fallið í Bandaríkjunum.

Borgarstríð blasir við í landinu ef Biden vinnur, of margir hata hann og allt það sem hann stendur fyrir, og þeir eru vopnaðir.

Ef Trump vinnur heldur núverandi óöld bara áfram, skotgrafir milli víglínanna eru dýpkaðar, ósættið þanið út.

 

Æ fleiri munu kalla á Tyranni það er hinn sterka leiðtoga.

Það er hann eða borgarstríð.

Eina spurningin er hvort viðkomandi muni endurreisa lýðræðið og skapa samfélagssátt, eða hann verði eins og Sesar forðum, alvaldur án keisaratitils.

 

Þeirri spurningu verður ekki svarað á morgun.

En henni verður svarað.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 


mbl.is Verður það Biden eða Trump?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Með þessum línum nærðu að róta upp í kolli þeirra sem nenna að hugsa.

Mælir nokkuð gegn því að þessi orð þín séu notuð til að lýsa íslenskum stjórnmálum og íslenskum veruleika: "Lýðræðissamfélag, sem býður þjóð sinni upp á þann valkost að kjósa milli [] og [], annars vegar lýðskrumara sem gerir út á sundrungu og slagorðavaðal og hins vegar mann sem gerir [] líflegan [trúverðugan], er ekki lengur virkt.

Eitthvað hefur farið úrskeiðis í samfélaginu sem gerir venjulegu fólki, hæfu fólki ókleyft að bjóða sig fram."

Esja frá Kjalarnesi (IP-tala skráð) 3.11.2020 kl. 13:48

2 identicon

Takk fyrir umhugsunarverðan pistil, Ómar.

Gæti tekið undir nær allt sem þú nefnir.

En einkum er varðar glóbalisma auðdrottnanna

sem sundurmola lýðræði og sjálfstæði þjóðríkjanna.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 3.11.2020 kl. 15:34

3 identicon

Og mig undrar að sjá hversu áberandi moggabloggarar, sem leyfa engar athugasemdir við pistla sína, hallast eindregið að frambjóðanda valdaelítunnar og glóbalismans.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 3.11.2020 kl. 15:54

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Esja minn.

Það mælir margt gegn því, samt aðallega það að þau voru skrifuð sem lýsing á gjaldþroti bandarískra stjórnmála.

Um það fjallar pistillinn, ekkert annað.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 3.11.2020 kl. 16:24

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Símon Pétur.

Ég held að ég hafi sjaldan haldið mig eins mikið við staðreyndir og í þessum pistli mínum, þó orðalagið sé vissulega mitt, og aðrir myndu líklegast tjá sig á annan hátt um sama efni.

Þannig að ég spái aðeins í hvað það er sem þú getur ekki verið alveg sammála um, og hef fátt í athugasemdum þínum hér á þessari síðu til að styðjast við.

Breytir því samt ekki að ég er lesinn, og les Siglfirðing, og því datt mér í hug að þú samsinnir þig ekki við þessa setningu; "annars vegar lýðskrumara sem gerir út á sundrungu og slagorðavaðal og hins vegar mann sem gerir Brezhnev heitin líflegan, er ekki lengur virkt.".

Eða nákvæmari lýsingu á Trump sem gæti alveg verið tekið sem dæmi um kjarnyrtan texta versus orðavaðal stjórnmálafræðinga eða stjórnmálaskýringa. 

"Trump er vissulega lýðskrumari og ræðutaktík hans minnir um margt á manninn með yfirvaraskeggið, úthugsuð slagorð sem ætluð eru frumstæðustu hugsun mannsins, eitthvað sem æsir hann upp, breytir honum í taktlausan múg, sem reyndar gengur í takt á eftir leiðtoga sínum".

Viðurkenni reyndar að málfarið gæti verið betra, enda er ég ekki góður íslenskumaður, eða stílisti yfir höfuð.

Styrmir er hins vegar fínn en hann leyfir ekki athugasemdir.

Það er hans val og fátt um það að segja.

Persónulega held ég að hann skauti framhjá andófi Trump gegn alþjóðavæðingunni og arðráni auðstéttarinnar sem frjálshyggjan bauð velkomna í bandarískt þjóðfélag, með þekktum afleiðingum.

Þeim afleiðingum sem ég lýsi sem forsendum væntanlegs borgarastríðs, ekki nema Siglfirðingurinn sé sannspár um sigur Trump.

Skrýtið svona miðað við hvað Styrmir þykist á eldri árum vera á móti auðráni frjálshyggjunnar.

Sem bendir til að yfirbót hans á glæpum hennar sé ekki heil, hann axli ekki ábyrgð sína og beini spjótum sínum í rétta átt.

En það er bara svona Símon minn, við erum ekki margir sem höfum verið heilir í þessu stríði frá upphafi.

Og flestir sem heyja það eru eins og ég, tifandi verðandi gamalmenni sem rífa sig í afkimum sem enginn les.

En maður þarf samt ekki að taka ofan fyrir óvininum.

Hvort sem það er að upphefja Trump eða taka undir með Styrmi.

Betra er að vera maður sjálfur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 3.11.2020 kl. 16:46

6 identicon

Takk fyrir gott svar, Ómar.

Tek þar undir hvert orð.  Amen.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 3.11.2020 kl. 17:04

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Símon minn.

Þar lágu Danir í því, ég eru engu nær um ágreining okkar.

Eins og ég sagði, ég hef sjaldan reynt eins mikið að halda mig við staðreyndir og láta persónulegar skoðanir ekki hafa áhrif á skrif mín.

Nema náttúrulega sú ályktun mín að Trump væri ekki alls varnað, hann fór gegn, á meðan góða fólkið spilaði með.

Það er reyndar rétt að hann fór gegn og góða fólkið spilaði með, en diffinn er þessi; "Kosningarnar í dag skipta samt máli, því hvað sem verður sagt um Trump, þá fór hann gegn alþjóðavæðingunni sem gerir út á samnefnara hins lægsta, þrælahald, náttúruníð, gegndarlausa sóun og mengun.  Og hann þorði að fara gegn auðnum sem lagði niður störf, borgar lítt eða ekkert til samfélagsins, geymir eigur sína í skattaskjólum".

Og ályktun mín er sú að það skiptir máli, og það er mín eina prívat og persónulega skoðun í þessum pistli.

Maður verður jú að hafa skoðanir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 3.11.2020 kl. 17:30

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Síðan má bæta við hvort Styrmir geri sér yfirhöfuð grein fyrir að fölsk yfirbót vegna áralangs stuðnings við þann í neðra og hagfræði hans sem kennd er við frjálshyggju forði honum ekki frá dómnum sem kveðinn er yfir verk okkar þegar verk eru dæmd, og dómnum svo lýst vel í drápu Dantes.

Það er svo fyndið fyrir þann í neðra að hann er með sérstaka hillu, eða var það level, nei það er enska, á maður ekki að segja frekar hlið eða mismunandi stig hreinsunareldisins, fyrir þá sem fylgja honum og hagfræði hans.

Enda fór ekki vel fyrir honum Lofti á sínum tíma.

Allavega þá þarf sanna yfirbót.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 3.11.2020 kl. 17:39

9 identicon

Vel mælt, Ómar, í einu og öllu.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 3.11.2020 kl. 20:01

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Þú veist samt Símon minn að ég er just kidding.

Bæði í pistli mínum sem og andsvörum.

Þetta er svona hugsanaleiftur sem er eins og ein húðflaga á fíl blindu mannanna sem deildu hart um útlit hans og lögun.

Vona samt að lýðræðið þarna vestra lifi af nóttina, morgundaginn, sem og næstu daga.

Þori ekki að vona lengra fram í tímann.

Og núna er ég ekki að djóka, eða þannig.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 3.11.2020 kl. 22:21

11 identicon

Það verður táknrænt fyrir hið meinta "lýðræði"

ef líkið vinnur.  Þjófar, lík og falar konur.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 3.11.2020 kl. 22:55

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Góðan daginn Símon.

Takk fyrir peruna sem þú kveiktir og varð stefið í nýjasta pistli mínum.

Veit ekki um aðra en ég hafði gaman að því að pikka hann inn.

Þetta verður fróðlegur dagur, sem og hinir næstu.

Vonandi tekst að koma lýðræðinu í hús áður en það verður úti á vergangi sínum.

Fýkur yfir hæðir og frostkaldan mel, í Bandaríkjunum núna komið er él.

Það er svo.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 4.11.2020 kl. 09:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 21
  • Sl. sólarhring: 628
  • Sl. viku: 5605
  • Frá upphafi: 1399544

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 4778
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband