Faraldurinn er stjórnlaus.

 

Segir farsóttarlæknir í París, og sjúkrahúsin eru að yfirfyllast.

 

Í kjölfarið er rætt um tregðu franskra stjórnvalda að gera það sem þarf að gera, að loka á smitleiðir veirunnar, lendingin verður líklegast einhver málamiðlun, aðgerðir hertar, en ekki nóg.

Það er því haldið áfram að rífast við raunveruleikann því veira í veldisvexti heldur áfram að fjölga sér á meðan einhverjar smitleiðir hennar eru opnar.

Það sem verra er, það tekur nokkrar vikur að sjá árangur hertra aðgerða, ef sjúkrahúsin eru full, og eru að yfirfyllast, þá er stutt í þau ráði ekki lengur við ástandið.

 

Í dag voru skráð 523 dauðsföll í Frakklandi vegna kóvid, tvöföldun frá gærdeginum þegar þau voru 257, vel rúmlega fjórföldun frá helgarskráningunni sem var 116 dauðsföll.

Þetta gerist þrátt fyrir að læknum hefur gengið betur að glíma við veiruna núna í haust en í vor.

Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá hvað gerist þegar heilbrigðiskerfið springur og ræður ekki við ástandið, bæði vegna fjölda sjúklinga sem og að starfsfólkið er ekki vélmenni, það veikist eins og við hin, og ef álagið er stöðugt og viðvarandi, þá kiknar það undan því alveg eins og við hin.

 

Tölur frá öðrum pestarbælum Evrópu eru líka í vexti, á Spáni, Ítalíu og Bretlandi, það sama virðist líka vera að gerast í Bandaríkjunum.

Í sjálfu sér þarf þetta ekki að koma á óvart, svona var þetta líka í lok vetrar, veiran var örugglega búin að grassera lengi áður en hún sprakk út. 

Þá vissi þetta bara enginn, svo voru aðeins þeir sem voru veikir prófaðir fyrir veirunni svo enginn veit í raun hvað hún var útbreidd í samfélaginu hjá fólki sem sýndi lítil sem engin einkenni.

Allar smittölur í dag miðað við í vor eru ósambærilegar því dag eru skimanir svo miklu víðtækari.

En niðurstaðan sú sama, á ákveðnum tímapunkti springur veiran út og allt verður stjórnlaust.

 

Íslensk sóttvarnaryfirvöld náðu vonandi að stöðva útbreiðslu veirunnar áður en að þessum tímapunkti kom, en ljóst er að tæpt er það.

Það reynir mjög á heilbrigðiskerfi okkar og þar er fólk undir miklu álagi að vinna lítil kraftaverk á hverjum degi.

Einn daginn getur það fengið nóg og tilkynnt sig veikt, eða sagt, ég nenni þessu ekki lengur, ég fer bara að gera eitthvað annað.

Eða líkami þess tekur þá ákvörðun fyrir það, og starfsferillinn er sjálfhættur.

 

Það er eins og margir samlandar okkar geri sér ekki grein fyrir því hvað við eigum þessu fólki mikið að þakka.

Allavega einn vinnur á skrifstofu Landlæknis og tilkynnti nýlega í fjölmiðlum að það væri alvarlegt atvik að veiran gæti smitað á sjúkrastofnunum eins og á öðrum vinnustöðum landsins.

Skriffinninn taldi þetta gott innlegg í umræðuna.

 

Einnig skilst mér að fréttafólk okkar sé bendandi og spyrjandi, núna þegar kraftaverkahetjurnar okkar þurfa á öllu sínu að halda við að koma böndum á smitið sem slapp inn fyrir dyr hjúkrunarheimila.

Hvað á þetta að þýða spyr það með öllum þeim hroka sem fáviskan getur blásið upp í fólki.

Það ræðst sem sagt að fólkinu sem varaði við að veirunni yrði aftur hleypt inní landið og er í dag fórnarlömb þessarar skammsýnu ákvörðunar.

 

Það spyr ekki þá sem ákvörðunina tóku af hverju þau hlustuðu ekki á varnaðarorð helstu sérfræðinga okkar, læknanna sem stóðu í eldlínunni og bað fólki sínu griða.

Sögðu að það þyrfti að hvílast og safna kröftum eftir ómanneskjulega törn, við skyldum sjá til með þróun faraldursins í öðrum löndum áður en við hleypum honum inní landið á ný.

Skynsemisorð í ljósi þess að faraldurinn er við það að verða stjórnlaus í stærstum hluta Evrópu, og sum staðar jafnvel orðinn það.

 

Þessi einfalda rökhugsun að sjá samhengi hlutanna, að krefja þá um svör sem ábyrgðina bera, en láta fórnarlömb skammsýni þeirra í friði, er því miður fréttafólki okkar ofviða.

Hvað þá að það geri sér grein fyrir alvöru mála, að við séum komin á brún hengiflugsins, og héðan  er það aðeins fallið fram af ef nýjar hópsýkingar koma upp.

Og því svo augljós spurning að spyrja bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra, hvort þau geri sér ekki grein fyrir alvarleik málsins.

Hvort þau séu það veruleikafirrt að þau skilji ekki hvað það þýðir ef faraldurinn verði stjórnlaus hér, líkt og hann er að verða víða í kringum okkur??

Því ef þau skyldu það þá stýrði ekki óreyndur krakki almannavörnum þjóðarinnar.

Vanhæfni er aldrei vopn í stríði við banvænan óvin.

 

Nei, böggum frekar fólkið sem er okkar eina haldreipi, okkar eina von um að við sem samfélag hröpum ekki fram af brún hins viðráðanlega niður í botnlausa gjá hins óviðráðanlega ástands hins stjórnlausa faraldurs.

Þetta er ekki einu sinni heimskt, þetta er algjör veruleikafirring.

Á tímapunkti þar sem varnir okkar geta brostið.

 

Heimskt var þetta fólk í ICEsave.

Ennþá heimskara í þriðja orkupakkanum.

Núna hefur það skorið á öll tengsl við raunveruleikann.

Gerir ekki greinarmun á raunveruleikanum eins og farsóttin er og tilbúningi eins og 2 ára gömul mynd af fánum á einkennisbúningi lögreglumanns.

Heldur að fréttir séu ekkert annað en tíst, hávaði og læti.

 

Vonandi fer þetta allt vel.

Og þá eigum við það kraftaverkahetjunum okkar að þakka.

 

Við sem þjóð eigum að biðja fyrir þeim.

Það veitir ekki af.

Kveðja að austan.

 


mbl.is „Faraldurinn er stjórnlaus“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

Ég held nú að Íslendingar séu þakklátir afmælisbarni dagsins og hinum í þríeykinu. Við höfðum að vísu vonir í vor á að Kári og Íslensk erfðagreining sköpuðu Íslendingum sérstöðu í baráttunni við veiruna en því miður þá virðist þetta vera eins og riðuveikin sem við vitum ekki enn hvernig smitast milli landshluta. Eina landið sem hefur getað sýnt fram á árangur er Suður Kórea en þar eru upplýsingar um ferðir hugsanlegs smitbera gerðar opinberar - GSM rakning, kortafærslur bara ALLT notað til að kortleggja ferðirnar og vara almenning við.

Fyrrverandi fjármálráherra toppaði nú blóraböggssýkina í sinni grein í Morgunblaðinu. Stærðfræðingurinn komast að þeirri niðurstöðu að rótarvandi veirunnar lægi í kvótakerfinu.

Grímur Kjartansson, 28.10.2020 kl. 10:40

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Grímur.

Veit ekki um fyrrverandi fjármálaráðherra, man aðeins eftir Geir Harde, og hann var góður.

Það var ekki Kári sem opnaði landið án seinni skimunar, það var ríkisstjórn Íslands.

Hins vegar hafði Kári kjark til að mótmæla því að ekki skyldi vera gripið til seinni skimunarinnar þegar ljóst var að landamærin láku, og því eigum við að þakka að almenningsálit knúði hægri öfgana í Sjálfstæðisflokknum í felur, og ríkisstjórnin lét loksins undan.

En viku of seint, þar er liggur blóraböggullinn og ömurlegt að þeim manni sem mest hefur lagt að mörkum í stríðinu við veiruna, að öðrum ólöstuðum, sé stillt upp sem einhverjum skálki.

Skiljanlegt reyndar miðað við áróðurinn í hægri öfgunum gegn sóttvörnum, að hann sé gerður að skálki, minnir á nagið gegn Churchil á sínum tíma af hálfu nassa og seinna komma.

Vissulega hefur gengið vel í Suður Kóreu, enda fengu þeir staðbundið smit, sem þeir reyndu að einangra.  Lykillinn er sóttkví á landamærum ásamt öflugri smitrakningu innanlands sem og einangrun borgarinnar sem smitið braust út í.

En Taiwan með 0,3 per milljón og Singapúre með 5 per milljón hafa náð betri árangri, og ef út í það er farið, þá er líklegast mesta afrekið unnið í Hong Kong þar sem ekki er þverfótað fyrir fólkið og mikil og bein tengsl við Kína.

En lykillinn er sóttkví á landamærum, atriði sem við klikkuðum á.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 28.10.2020 kl. 13:48

3 Smámynd: Grímur Kjartansson

Þetta var líka stuttur ferill - Benedikt Jóhannesson  var skipaður fjármálaráðherra árið 2017 og var veitt lausn frá því embætti sama ár. Benedikt er með doktorsgráðu í tölfræði og stærðfræði

En þessi órekjanleiki hlýtur að vera mjög slæmur ö https://www.mbl.is/frettir/erlent/2020/10/28/adgerdir_hertar_75_prosent_smita_orekjanleg/

Grímur Kjartansson, 28.10.2020 kl. 19:20

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Ætli þetta sé kannski ekki valkvæð gleymska hjá mér Grímur, þetta fólk hefur ekki skorað hátt hjá mér eftir ICEsave.

En takk fyrir að linka á fréttina, en segir að veiran sé líka orðin stjórnlaus í Þýskalandi, þeir eru aðeins á eftir Frökkunum.

Í Suður Kóreu réðust þeir strax til atlögu, hún náð þvi aldrei þeirri útbreiðslu að ekki var hægt að rekja hana.

Svo náttúrulega lokuðu þeir landamærunum, því allar innlendar sóttvarnir eru til einskis, það er ef menn vilja ekki veiruna, ef henni er jafnóðum hleypti inní landið.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 28.10.2020 kl. 20:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 20
  • Sl. viku: 449
  • Frá upphafi: 1412811

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 388
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband