25.10.2020 | 12:44
Vér sóttvarnarglæpamenn segjum:
"Það var aldrei ætlun útgerðar eða skipstjóra að stefna heilsu og lífi áhafnar skipsins í hættu".
Svo eftir stendur stóra spurningin, af hverju gerðið þið það þá??
Hefur heimsfaraldur kóvid farið framhjá ykkur, alvarleiki hans og hve margir féllu áður en gripið var til SÓTTVARNARAÐGERÐA??
Fylgist þið ekki með innlendum og erlendum fréttum??, eða lesið þið bara afskræminguna sem kemur frá hægri öfganum úr innsta kjarna Sjálfstæðisflokknum, og hefur dreift úr sér inná ritstjórn Morgunblaðsins og Fréttablaðsins og kyndir undir þann áróður að kóvidveiran sé álíka hættuleg og meinlítil flensa.
Sé svo þá eru viðbrögð ykkar skiljanleg, í þekktri útgerð frystitogara hefur engu skipi verið snúið í land vegna einhvers flensuskíts, enda slíkt góð leið til að sigta út alvöru karlmenn sem kunna að bíta á jaxl, og þá eina sem lagt er uppúr er að sjá til þess að tannheilsa áhafnar sé góð og allir hvattir að fara reglulega í tanntékk.
Þið gerðuð þetta og brotavilji ykkar var einbeittur.
Það var örugglega engin mistök að landhelgisgæslunni var ekki tilkynnt um faraldurinn sem þið í sannleiksást ykkar kallið "grun um kórónuveiru um borð", þið hafið örugglega bannað skipstjóranum að viðurlögðum brottrekstri að gera slíkt. Sá ærulausi maður mun örugglega staðfesta það þegar hann upplifir á eigin skinni fyrirlitningu samfélagsins og að hann eigi sér hvergi viðreisnar von fyrr en hann rís upp og segir satt frá.
Hafi einhver efi verið þar á þá útrýmduð þið honum með viðbrögðum ykkar eftir í land var komið þegar þið hótuðu skipverjum illu ef þeir segðu frá, ef þeir tjáðu sig um hina skelfilegu aðför ykkar að lífi þeirra og limum. Í stað þess að játa mistök ykkar, biðjast afsökunar og lofa að gera allt sem er í ykkar valdi til að bæta úr.
Því það getur nefnilega öllum orðið á, gert hræðileg mistök, jafnvel vísvitandi, en það eru viðbrögðin við þeim sem skera úr einlægnina að baki afsökunarbeiðninni.
Þið hótuðu skipverjum og einhvern veginn tókst ykkur að þagga niður í sóttvarnaryfirvöldum, lögregluyfirvöldum og stjórnmálastéttinni eins og hún lagði sig.
Fyrsti vélstjóri sagði samt frá, og ykkur tókst ekki að þagga niður í samfélaginu fyrir vestan, í samráði við fréttafólk Ruv var sagt frá, vandaðar fréttir unnar, og glæpir ykkar vorum öllum ljósir.
Einnig má þakka Morgunblaðinu, þó blaðmenn þess fengju ekki að vinna sjálfstæða frétt um málið með sínum eigin viðtölum og fréttaskýringum, enda um fáheyrða hegðun að ræða frá því að Axlar Björn kom óorði á ferðaþjónustu, þá endursagði það fréttir Ruv og birti samviskulega í sjávarútvegskálfinum sínum, 200 mílum.
Meir er ekki hægt að ætlast til að blaði sem er undir hæl stórútgerðarinnar.
Þið hafið séð ykkur knúna til að biðjast afsökunar og segið að fyrirtækið muni axla ábyrgð.
Innantómt því ef þið meintuð orð af orðum ykkar, þá væruð þið þegar búnir að banka uppá hjá lögreglunni og biðja um gistingu í fangaklefum á meðan málið er í rannsókn.
Því fyrir utan fáheyrða mannvonsku eruð þið sekir um tilraun til manndrápa.
Þetta veit allt siðað fólk þó það hafi á einhvern hátt farið framhjá þeim fyrir sunnan þar sem kerfið er, valdið og atvinnugóðmennskualmannarómurinn.
Þögn þess verður það sjálft að skýra.
Vona þess vegna að það missi ekki út úr sér að voru þetta ekki bara einhverjir sjómenn, hvort sem er innilokaðir og gátu því engan smitað nema fugla og fiska. Og er þetta ekki allt hvort sem er að deyja út þarna á landsbyggðinni, þarf ekki bara að hækka veiðigjöldin svo fólk hætti þessu hokri og flytji suður í siðmenninguna.
Allavega, hverjum er ekki svo sem sama.
Hverjum er ekki svo sem sama?
Vissulega ekki venjulegu ærlegu fólki, en það hefur ekkert með völdin fyrir sunnan að gera. Fóðrar ekki almannaróm eða gerir út góða fólkið.
Á hvorki ráðherra eins og Gunnvör eða þingmenn yfir höfuð.
Er ekki áhrifavaldar eða álitsgjafar.
Nei, það er ekki verið að spyrja um það þegar spurt er; hverjum er ekki sama.
Það er verið að spyrja um fólkið sem þegir þegar það á að segja.
Þökk sé Ruv þá mun það neyðast til að tjá sig.
Mun örugglega lýsa yfir vandlætingu sinni þó einhverjum yrði á orði hvort þetta hafi verið nokkuð svo alvarlegt, allir lifandi frá borði og að á myndum hafi ekki sést nein rasísk tákn, hafi þetta þá verið svo slæmt? En jú, jú auðvitað er mér ekki sama, ég fattaði bara ekki að ég ætti að bregðast við vegna hins alvarlega atburðar, svo vanur að segja ekki neitt nema fjölmiðlaumræða knýi mig að fara með samúðarrullu mína. Ha, hvað gerðist þarna??, hvar var þetta??, fyrir vestan??, hvar er það??, býr fólk þarna??, eru þetta ekki bara einhverjir Pólverjar sem eru eftir þarna.
Nei, kannski ekki en ég gat bara ekki stillt mig um að skrifa niður líklegustu skýringuna á þögninni.
Það verður örugglega eitthvað sagt.
Hvort iðrunin risti dýpra en finna má í þessari yfirlýsingu stjórnenda Gunnvarar, það er ekki gott að spá um.
Það eru nefnilega svona mál sem afhjúpa fólk.
Hversu gott það er, hversu heilt það er.
Sóttvarnaryfirvöld hins vegar brugðust.
Þau höfðu vitneskju um hópsmitið.
En aðhöfðust ekkert.
Þau skulda okkur skýringu.
Kveðja að austan.
Raunir skipverja mega ekki endurtaka sig | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:45 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 5
- Sl. sólarhring: 15
- Sl. viku: 451
- Frá upphafi: 1412813
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 390
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þessi pistill var saminn út frá yfirlýsingu stjórnenda Gunnvarar sem sagt var frá í annarri frétt hér á Mbl.is, undir fyrirsögninni; "Við munum axla ábyrgð".
Svo skemmtilega vildi til að bloggpistillinn festist ekki við fréttina, varð hálfgerður munaðarleysingi ef fréttin er ekki höfð til hliðsjónar.
Þá kom þessi ágæta yfirlýsing frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, þar sem fyllsta kurteisi var notið til að fordæma útgerð Júlíusar Geirmundssonar.
"Af þeim sökum er sérstaklega mikilægt að skýrar leiðbeiningar séu fyrir hendi, en leiðbeiningarnar voru samdar sameiginlega af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og stéttarfélögum sjómanna, og í samstarfi við embætti landlæknis, og sendar á útgerðir, er haft eftir Heiðrúnu.
Í tilfelli Júlíusar Geirmundssonar var ekki farið eftir þessum leiðbeiningum, segir í tilkynningunni. Samkvæmt þeim hefði átt að hafa samband við Landhelgisgæsluna þegar veikinda varð vart. Þar með hafði málið verið komið í réttan farveg.
"Á þessum misbresti verða skipstjóri og útgerð skipsins að axla ábyrgð," segir í tilkynningunni.
Heiðrún segir að mikilvægt sé að samskipti útgerða og sjómanna séu góð, sérstaklega þegar í hlut eiga frystiskip sem eru lengi á sjó, en þetta mál hafi skaðað þau samskipti.
SFS hyggst ræða málið við forystumenn stéttarfélaga sjómanna á næstu dögum. Mikilvægt sé að greina hvað fór úrskeiðis og læra af því.
"Raunir þessara skipverja á Júlíusi Geirmundssyni mega ekki endurtaka sig á íslenskum skipum," segir að lokum.".
Þögnin rofin svo sómi er af.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 25.10.2020 kl. 12:52
Hlutverk þríeykisins er að verja þá sem veikir eru fyrir. Hvers vegna eru þá 30 sjúklingar á Landakoti og Reykjalundi nú sýkir? Engin hneykslast á því, en þess í stað loga netmiðlar af reiði yfir fílhraustum sjómönnum sem hrist hafa pestina af sér. Hvernig skyldi standa á því?
Ragnhildur Kolka, 25.10.2020 kl. 13:12
Skipstjórinn sver sig í ætt við hina fornfrægu íslensku togarajaxla sem þekktu ekkert nema hörkuna 6. Gaf ekkert eftir og hélt áfram að fylla skipið.
Hefði ekki þótt mikið í gamla daga en líklega einum of mikið fyrir góða fólkið.
Halldór Jónsson, 25.10.2020 kl. 13:19
Halldór. Þetta var ekki fallegt hjá þér. Að sjálfsögðu á að höfða dómsmál gegn skipstjóranum sem á að bera ábyrgðina. Og kannski ættu sjómenn að sniðganga þetta fyrirtæki. Það er ekkert skrýtið að netmiðlar logi af reiði yfir þessu ,Ragnhildur. Fílhraustir sjómenn eiga líka rétt á mannréttindum rétt eins og aðrir. Við lifum í nútímanum.
Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 25.10.2020 kl. 13:30
Skammastu þín Halldór Jónsson, og skammastu þín svo aftur.
Svona lætur engin siðuð manneskja út úr sér.
Og allra síst að reyna að réttlæta þetta óeðli með því að vitna í hina hörðu lífsbaráttu liðinna tíma, harkan var þá hluti af umhverfinu og aðstæðum, menn urðu að gera gott úr því sem þeir höfðu.
Þú átt ekkert, og enginn á ekkert dæmi um sambærilegt óeðli að útgerð í landi þvingar skipstjóra til að stefna lífi og limi áhafnar sinnar í hættu.
Og Halldór, það er einmitt góða fólkið sem þegir, frétt Ruv er unnin af heimafólki fyrir vestan þar sem allt logar.
Og vogaðu þér ekki að kenna Vestfirðing við góða fólkið.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 25.10.2020 kl. 13:51
Blessuð Ragnhildur.
Ég hef aldrei skilið af hverju kona á virðulegum aldri gengur erinda áróðurs myrkrarafla sem vilja stuðla beint af ótímabærum dauða þúsunda landa sinna, og milljóna á heimsvísu.
Kannski hjálpa þessi orð þín mér að skilja það; ".. yfir fílhraustum sjómönnum sem hrist hafa pestina af sér", það býr einhver sverta í sálu hjá þeim sem færði þau fyrst í orð og kom þeim í umferð í netheimum.
Varðandi Landakot þá er sýking meðal starfsmanna fyrr eða síðar óhjákvæmileg þegar farsótt geisar í samfélaginu, og líkurnar á því aukast í beinu hlutfalli við útbreiðslu farsóttarinnar.
Mistök sóttvarnaryfirvalda var að láta undan þrýstingi myrkraraflanna og opna landamærin án þess að öruggt væri að skimun næði öllum sem gætu borið með sér veiruna inní landið.
Hvort sökin er síðan þeirra sem létu undan eða þeirra sem þrýstu á, um það má deila. Í mínum huga fríar það ekki sóttvarnaryfirvöld ábyrgð að myrkraöflin höfðu ítök í ríkisstjórn Íslands, með því að láta undan hægri öfgafólki, þá urðu þau samsek.
Þau brugðust líka of seint við þegar ljóst var að þriðja bylgjan var skollin á, líklegast af sömu ástæðum.
Og sitja uppi með samsektina.
Ég hef í það minnsta bent á það en síðan þá hef ég verið nokkuð sáttur við viðbrögð þeirra, skíturinn er skeður, veirunni var leyft að dreifa sér, og lánið leikur ekki endalaust við þjóð sem leyfir myrkraöflum að berjast fyrir frelsi drápsveiru að fá að drepa samborgara sína.
Við sitjum uppi með afleiðingarnar en ákvörðun þar um var tekin í byrjun sumars.
Þá var ég einn af þeim sem varaði við, í góðum hóp þar sem læknar Landspítalans og virtir hagfræðingar voru í fararbroddi, en ég hneykslaðist ekki.
Fullorðið fólk hneykslast ekki þegar það situr undir árásum illviljaðra, það snýst til varnar, verði það vitni að óhæfu, þá fordæmir það hana.
Ég er ekki hneykslaður þegar ég fordæmi til dæmis hina tilbúnu hungursneyð Stalíns í Úkraínu á fjórða áratug síðustu aldar en hugsanlega er ég hneykslaður á kommúnistunum sem reyndu að réttlæta hana.
Það er munur á þessu tvennu.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 25.10.2020 kl. 14:13
Blessaður Jósef.
Ekki ætla ég að réttlæta skipstjórann á nokkurn hátt en vil ítreka orð mín í athugasemdum við fyrri pistil; "Auðvitað er skipstjórinn sá sem ábyrgðina ber, en það er löngu liðin tíð að þeir hafi eitthvað sjálfstæði gagnvart útgerðinni, hlýði þeir ekki, þá eru þeir látnir fara, þó einhverjar tylliástæður séu týndar til.".
Óhæfan heldur alltaf áfram ef henni er ekki mætt, og rótin skorin upp.
Takk annars fyrir að kíkja við og halda uppi vörnum fyrir mennskuna.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 25.10.2020 kl. 14:26
Halldór, þú þarna sem ert ennþá í skammarkróknum.
Þú hefur örugglega fallið í fúlapyttinn sem Palli kóngur gróf í nýjasta pistli sínum, án þess að hugleiða að Páll þarf nú að gera margt þegar kemur að því að vinna fyrir kaupinu sínu.
Ég veit reyndar að þú ert svag fyrir kommúnískri ofurskattlagningu á sjávarbyggðir landsins í anda Stalíns og samyrkjustefnu hans, og því veit ég ekki hvort það þýðir að vitna í viðtal við Kristján Þór.
Geri það samt, hann er ekki hluti af góða fólkinu, en hann er ærleg manneskja.
Peistað af vef Rúv.
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra segist vera sleginn vegna máls skipverjanna á Júlíusi Geirmundssyni sem var meinað að fara í land þegar smit kom upp á meðal þeirra. Hann segir að málið sé ekki lýsandi fyrir viðbrögð útgerðarinnar við slíkum aðstæðum. Kristján Þór var gestur Fanneyjar Birnu Jónsdóttur í Silfrinu í morgun.
„Að sjálfsögðu er maður það, “ svaraði Kristján spurður um hvort hann væri sleginn vegna málsins. „Markmið hverrar veiðiferðar er að sigla úr höfn og koma heilir heim.“
„Við þessar aðstæður skiptir öryggi og velferð sjómanna um borð höfuðmáli,“ sagði Kristján Þór. Hann sagði málið ömurlegt. Þarna hefði verið farið „freklega á svig við grundvallaratriði sem í mínum huga er afar slæmt og augljóst að fyrirtækið hefði átt að taka á þessum málum með allt öðrum hætti en gert var.“
Fanney Birna spurði Kristján sem fyrrverandi sjómann og skipstjóra hvort það væri svo að skipstjóri væri alvaldur um borð og gæti þannig traðkað á réttindum skipverja. „Þetta eru margir samverkandi þættir sem spila inn í svona máli,“svaraði Kristján Þór.
Hann sagðist vilja taka það fram að hann teldi að um væri að ræða einangrað tilvik, dæmin þar sem brugðist hefði verið hárrétt við þegar smit hefðu komið upp í skipum væru miklu fleiri.
„Ég held að það sé ekkert í þessu máli þannig að það sé hægt að dæma það á einhvern einn tiltekinn einstakling. Menn vilja vissulega draga útgerð til ábyrgðar og ábyrgð skipstjóra er vissulega mikil í þessu efnum,“ sagði Kristján Þór og sagði það einkennandi fyrir íslensku sjómannastéttina að „taka á kassann“ það sem kæmi upp um borð.
Ráðherra var spurður hvort það lýsti ofbeldismenningu innan starfsgreinarinnar að Arnar Hilmarsson, skipverji sem sagði frá aðstæðum u um borð í viðtali á RÚV í gær, hefði verið spurður í viðtalinu hvort hann hefði áhyggjur af stöðu sinni og starfi og hvort hann teldi að það væri almennt staðan innan stéttarinnar.
Kristján Þór svaraði að ógnarstjórnun væri ekkert bundin við sjávarútveg. Hana væri að finna víða í atvinnulífinu. „Ég ætla rétt að vona að þessi heiðarleiki hjá þessum unga sjómanni bitni ekki á honum með þeim hætti að hann missi atvinnu eða því um líkt.Þetta er frábært dæmi um einstakling sem þorir að stíga fram. Það þarf mikinn kjark til að koma fram með þessum hætti og ég tek ofan fyrir þessum unga manni.“
Spurður hvort einhverjar lagalegar afleiðingar yrðu af málinu fyrir Hraðfrystihusið Gunnvöru svaraði Kristján Þór að það yrði skoðað. Hann sagði að svo virtist sem samskipti á milli sjómanna og útgerðarmanna hefði versnað, þetta mál gæti orðið til þess að efla vilja til að bæta þau samskipti.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi birtu í vikunni samfélagssáttmála um öryggi sjómanna um borð og var Hraðfrystihúsið Gunnvör eitt þeirra fyrirtækja sem skrifuðu undir hann. Spurður hvort hægt væri að taka þennan sáttmála alvarlega svaraði Kristján Þór að vonandi yrði þetta prófmál þannig að hægt væri að bæta meðferð þessara mála. „Á engan hátt getur þetta mál verið fordæmi fyrir nokkurn skapaðan hlut,“ sagði Kristján Þór.
Svona bregst alvöru fólk við.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 25.10.2020 kl. 14:40
Sæll Ómar. Þegar ég sagði að skipstjórinn bæri ábyrgð þá meinti ég lagalega. Og þegar hann lætur útgerðina ráða för i þeim efnum þá er hann í ansi vondum málum. Þetta er rétt eins og með Kranastjórann fyrir nokkrum árum síðan sem lét verkstjórann segja sér fyrir verkum sem olli síðan slysi. Í þessu tilviki er ekki hægt að draga útgerðina til ábyrgðar vegna þess að skipstjórinn á að bera alla ábyrgð á skipinu, veiðarfærinu og mannskapnum um borð. Þannig er það bara samkvæmt lögunum. Ef hann myndi fara á móti útgerðinni og yrði rekinn fyrir það er honum í lófa lagið að fara í mál við útgerðina. Vonandi er þetta ekki algilt hjá útgerðarfyrirtækjum allavega verðum við að láta þá njóta vafans þangað til annað kemur í ljós.
Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 25.10.2020 kl. 16:57
Vissulega alveg rétt Jósef, lögin vernda alltaf peningana.
Þess vegna hamast maður í þeim svo hinn fyrirhugaði kattarþvottur þeirra dugi ekki.
Enda ekki vanþörf á.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 25.10.2020 kl. 17:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.