19.10.2020 | 14:05
Hægt og hljótt náum við tökum á kóvid.
Við náum að verja okkur útí samfélaginu, með persónulegum sóttvörnum og með því að virða sóttvarnarreglur.
Við eigum frábæra lækna og hjúkrunarfólk sem eru fljót að læra hvernig best er að glíma við veirusýkinguna með þeim árangri að í dag er fólk lifandi af gjörgæslu, í stað hins óhjákvæmilega mannfalls sem áður var.
Og við eigum sóttvarnaryfirvöld sem halda haus gagnvart nagi fjársterkra hagsmuna og sem njóta stuðnings hægri öfga innan ríkisstjórnar Íslands.
Þegar allt leggst á eitt þá fáum við góðar fréttir eins og þessa að innlagnir hafi verið færri en óttast var þegar ljóst var að veiran hafði sloppið laus og það tæki aftur nokkrar vikur að ná stjórn á ástandinu.
Þessar góðu fréttir mun nagið hins vegar örugglega nota til að gera lítið úr alvarleik veirunnar og herða þannig áróður sinn um að nauðsynlegar sóttvarnir séu óþarfar, árangurinn þeirra sanni það.
Eins munu raddir myrkursins um að hvetja til fjöldamorða undir yfirskininu, myndum hjarðónæmi, styrkjast.
Í því samhengi eigum við að skilja að hinn góði árangur heilbrigðisstarfsfólks okkar á sér ekki bara þá skýringu að fólk lærir hvaða meðferð hjálpar, heldur líka að álagið hefur aldrei yfirkeyrt afkastagetu þess.
Bæði varðandi þann fjölda sem hægt er að sinna með góðu móti, eða verið það stanslaust að fólk hafi brunnið út og hrunið niður.
Því án lækna og hjúkrunarfólks, er engin umönnun, er engin lækning, aðeins veira sem drepur.
Þess vegna er gott að lesa sér til gagns og skilnings þennan feisbókarstatus hjúkrunarfræðings sem stendur í miðri varnarbaráttu okkar.
"Hausverkur, sviti, hálsbólga, nefrennsli, blóðnasir, astmi, þrýstingssár, hálsrígur, síþreyta, svimi ofl ofl eru afleiðingar af því að bera þennan búning. Við höfum þurft að vera svona klædd síðan í ágúst í seinni bylgju faraldrar. Í dag sá ég t.d. varla út um gleraugun fyrir móðu vegna svita. Það gerir blóðtökur sérstaklega erfitt viðureignar og stöndum við í því daglega með alla okkar skjólstæðinga.
Ósk okkar af legudeildum covid er að standa í þessu sem allra styst og því biðla ég til allra um að sinna sóttvörnum, vera heima ef með einkenni og fara í sýnatöku til greiningar. Verið í sóttkví ef þið eigið að vera í sóttkví og verið í einangrun ef þið þurfið þess. Mikið erum við ekki að nenna þessu sem samfélag en mikið meira erum við ekki að nenna að vinna við þessar aðstæður upp á spítala. Hjálpumst að ".
Og meðfylgjandi var mynd af henni í fullum sóttvarnargalla.
Það er ekki bara sjúklingar sem hafa náð bata að baki góðu tölunum, heldur líka starfsfólk sem vinnur hörðum höndum við mjög erfið skilyrði.
Sóttvarnir sjá til þess að þau nái að sinna sjúklingum sínum, og þær sjá til þess að þau bugist ekki undan ómennsku álagi.
Síðan eigum við að vita og skilja að þekking eykst með hverjum deginum.
Hefðu þeir sem hvetja til fjöldamorða náð sínu fram í vor, þá hefðu miklu fleiri fallið en munu falla í dag.
Nái þeir fram kröfum sínum um að sleppa veirunni lausri í dag, þá munu fleiri falla en hefðu fallið eftir til dæmis 3 mánuði.
Og takist okkur að standa þrýsting þessara ógnarafla fram að lækningu, sem verður, þá verður mannfall af völdum þessarar hættulegustu farsóttar sem mannkyn hefur glímt við frá því að spænska veikin felldi milljónir, í algjör lágmarki miðað við alvarleik hennar.
Þetta snýst nefnilega allt um að halda haus.
Og stefna fram á við.
Vernda sig og sína.
Komast þannig heill frá svo sómi sé að.
Eitthvað sem allt siðað fólk skilur.
Allt siðað fólk styður.
Það er bara svo.
Kveðja að austan.
Bjóst við fleiri innlögnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 53
- Sl. sólarhring: 615
- Sl. viku: 5637
- Frá upphafi: 1399576
Annað
- Innlit í dag: 44
- Innlit sl. viku: 4808
- Gestir í dag: 43
- IP-tölur í dag: 43
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.