17.10.2020 | 22:37
Smitvarnir halda.
Persónulegar þar sem eldra fólk og fólk í áhættuhópum gætir sérstaklega að sér. Forðast hópamyndanir, takmarkar samskipti sín við ættingja og vini, notar grímur og sprittar sig betur en gömlu góðu rónarnir sem þóttu fátt betra en gott spritt, þó þeir neyttu þess meir innvortis en útvortis.
Samfélagslegar þar sem settar eru hömlur á samkomur, fjölda fólks sem má deila sama viðburði, fjarlægðartakmarkanir, eða hömlur á starfsemi sem eðli málsins vegna ýta undir nálægð fólks, þar fremst í flokki allt sem tengist brennivínsberserkjum.
Smitrakningar og sóttkví þeirra sem á einhvern hátt hafa hugsanlega umgengist smitbera, vissulega alltaf eftir á, en ef kjarkurinn er nægur til að draga stóran hring um þekkt smit, þá smátt og smátt einangrast veiran og tækifæri hennar til að dreifa úr sér dregst saman líkt og fylgi ógæfufólksins sem tók að sér böðulshlutverk fyrir innlenda og erlenda hrægamma eftir Hrun, þó vissulega hafi veiran ennþá forskot á uppdráttarsýki VG og Samfylkingarinnar á síðustu stjórnarárum þeirra Steingríms og Jóhönnu.
Og ekki hvað síst, þá hefur tekist að vernda Öðlinga þjóðarinnar, fólkið sem hefur skilað sínu, börnum og barnabörnum, að ekki sé minnst á dugnaðinn við að koma þjóðinni frá hestöld inní tækniöld. Fólkið sem hlúð er að á hjúkrunarheimilum þjóðarinnar, og við höfum náð að forða þeirri smán að veiran kæfi það lifandi.
Það er í raun okkar stóri sigur, sem segir að við erum siðuð þjóð, við höfum haldið haus, við hlustuðum ekki á þær raddir og þau öfl sem sögðu að heiðnir forfeður okkar sem köstuðu slíku fólki fyrir Ætternisstapa, hefðu kunnað hagfræði andskotans, Exel þeirra segði að það væri ódýrara að fórna en að verja.
Þau hefðu jú dáið hvort sem er líkt og má lesa í færslum og athugasemdum hér á Moggablogginu.
Smitvarnir halda.
Og hafa haldið áður.
Þar liggur ógnin og efinn.
Flærðin segir að fyrst að þau halda þá sé ekkert eða lítið að óttast.
Og smá aur á milli vasa galdrar fram greinar eftir kvensjúkdómalækni í Harvard.
Sem væri sök sér því þjóð sem hefur haldið haus og reisn sinni í gegnum aldir, getur það ekki nema vegna þess að mengi fífla er aðeins brot af hinni litríku flóru fólks sem gerir þjóð að þjóð.
Þau gefa lífinu lit og mannlífinu hluta af fjörbreytileik sínum, en ef fjöldi þeirra fer fram úr hófi þá er samkeppni lífsins það hörð, og hinn bitri raunveruleiki baráttunnar um brauðið það harður, að slíkt endar alltaf á einn veg.
Veg, sem orð eins og útrýming, útdauður, horfinn, eru notuð til að lýsa.
Vandinn er að þessi takmarkaði hópur samborgara okkar, sem í raun þarf ekki margar fingur og tær til að telja, er hlutfallslega mjög fjölmennur í Flokknum, sem á og rekur ríkisstjórn Íslands.
Jafnt þingmenn sem ráðherrar.
Að ekki sé minnst á hið borgaralega blað, sem heldur úti þessum afkima netheima sem við kennum við Moggabloggið.
Því þetta snýst ekki um fjölda fífla sem flærðin þarf að fífla, heldur fólkið sem lítur á sig og flærðina sem eitt.
Áróðurinn sem vissulega skaðar ekki að fífli fífl, er aðeins yfirskin yfir einbeittan vilja þröngra hagsmuna sem sjá aur í óheftum faraldri, þá fást eignir ódýrt, þá er margt brotið á bak aftur, réttindi fólks, lífskjör þess og tilvera.
Einbeittan vilja sem nýtir sér árangur sóttvarna sem röksemd um að þær hafi yfir höfuð verið óþarfar, svo vitnað sé í Frú Sigríði, þessar persónulegu dugðu alltaf.
Núna þegar sést til lands.
Gjörgæslan annar veikum, tekist hefur að vernda fólk í áhættuhópum, þá hefst nagið á ný.
Nagið sem opnaði landamærin á sínum tíma og barðist hatramt gegn sóttkví og seinni skimun á landamærum.
Nagið sem ber ábyrgð á annarri bylgjunni, og þriðju bylgjunni.
Og hefur þegar lagt drög að þeirri fjórðu undir merkjum hinnar svokölluðu sænsku leiðar.
Það er nefnilega ekki logið á auðinn þegar hann gerir bandalag við andskotann.
Og það er ekki heldur logið á fífl sem kjósa að trúa því sem þau vilja trúa, þó trúin rífist heiftarlega við raunveruleikann.
Sem og að það mun alltaf vera til sú ómennska sem segir um fólkið sem féll, að það hefði dáið hvort sem er.
Spurningin snýst um okkur hin sem látum bjóða okkur þetta.
Hvað sem við erum, þá erum við ekki fórnarlömb.
Við erum fjöldinn.
Þau eru??
Já hvað eru þau??
Hvað eru þau??
Kveðja að austan.
Fjórir á gjörgæslu og tveir í öndunarvél | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 202
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 168
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.