Mátti hann deyja??

 

Hann var hvort sem er orðinn gamall, áttatíu og eitthvað.

Svona eins og mamma gamla er í dag, eða pabbi áður en hann dó.

 

Verða ekki allir einhvern tímann að deyja??

Svo er það sparnaðurinn  maður, ekki má gleyma því þó ljótt sé frá því að segja.

Að ekki sé minnst á tímasparnaðinn þegar við losnum við að eyða tíma í að heimsækja foreldra okkar, afa og ömmur eða bara fólkið á hjúkrunarheimilum landsins sem á enga að.

 

Eftir allar smittölurnar, eftir allar sóttkvíarnar, alla almannavarnarfundina, þá dó maður á níræðisaldri.

Og hafi einhver haldið að Marbendill hefði dáið um leið og fólk hætti að lesa þjóðsögur Jóns Árnasonar, þá var það svo ekki.

Hlátur hans ómar um netheima, bergmál hans mun líklegast ná inná fund ríkisstjórnarinnar.

Þar sem hagsmunatengdir ráðherrar við lúxusferðaþjónustu, að ekki sé minnst á blessuð börnin, munu segja, "sögðum við ekki, það deyr enginn nema sá sem hefði hvort sem er dáið".

 

Leggja þar með drög að fjórðu bylgjunni með því að grafa undan sóttvörnum í þeirri þriðju.

Líkt og þau grófu undan sóttvörnum í þeirri annarri, eða lögðu granítsteina í grunn hennar með opnun landamæra án undangenginnar sóttkvíar.

 

Því nagið, hið stöðuga nag gagnvart sóttvörnum, seinkar nauðsynlegum aðgerðum, á þann hátt að þegar þær hefðu dugað, þá var ekki gripið til þeirra.

Og þegar það var gert, það var það of seint, veiran hafði þegar borist út fyrir þá múra sem átti að halda henni inni.

Með þeim afleiðingum að sóttvarnir lokuðu þjóðina inni, en veiran gengur laus.

 

Frelsi hennar til að veikja, er frelsið sem var varið.

Með því að láta allar varnir vera eftir á, smitleiðum var lokað þegar þær höfðu smitað.

Í stað þess að loka þeim áður og kæfa þar með veiruna áður en hún náði að grafa um sig.

 

Í dag erum við í fjötrum sóttvarna.

Og á þeim virðist enginn endir vera.

 

Huggunin er að ennþá hafi heilbrigðiskerfið haldið, að þeir sem veikjast hafi fengið þá umönnun og meðhöndlun að þeir lifi af, að þeir fylli ekki út talnatálkinn sem telur dauðsföll.

Sá dálkur telur ekki bæklun eða veiklun af völdum veirunnar, það er harmur einstaklingsins, sem er léttvægur metinn ef frelsi veirunnar er undir.

 

Deyi samt einhver, þá mátti hann bara deyja.

Hefði dáið hvort sem er segir fólkið sem berst dag og nótt fyrir frelsi veirunnar.

 

Deyi fleiri, þá hefðu þeir hvort sem er dáið, sökum aldurs, undirliggjandi veikinda, eða þeir hefðu dáið einhvern tímann seinna.

Allt aukaatriði miðað við þann heilaga rétt veiru, þessarar minnstu einingar lífs sem við þekkjum, til að fá að vera hún sjálf, að fá að fjölga sér, að fá að gera það sem hún var sköpuð til að gera.

 

Veikja og drepa.

Okkur hin.

 

Þess vegna er aldurinn tekinn fram, þess vegna eru undirliggjandi veikindi tekin fram.

Þess vegna er allt tínt til sem dregur úr alvarleik farsóttarinnar, þess vegna er hamast á sóttvarnaryfirvöldum, ýtt undir tortryggni, nauðsynlegar aðgerðir sagðar óþarfar, alltof strangar miðað við meðalhóf og tilefnið.

Síðan sagðar sögur af þjóðum sem höfðu ekki gripið til svona strangra aðgerða, höfðu landamæri opin, sem tókust á við veiruna með grímu og persónulegum sóttvörnum.

Og þó fólk smitist, þá sé enginn að deyja.

 

Þegar fréttir berast um hertar aðgerðir, jafnvel lokanir samfélaga, og að dauðsföll séu á uppleið eftir því sem veiran fær að grafa um sig, þá eru þær fréttir hundsaðar, aðeins fjölgað í hinum logandi ljósum sem leita að dæmum um mildari sóttvarnir, eða að dauðsföllum hafi ekki fjölgað í takt við fjölgum smita.

Og þegar hin logandi ljós finna ekki fleiri dæmi, smitum fjölgar í Svíþjóð, aðgerðir eru hertar í Þýskalandi, stjórnvöld í Bretlandi boða samfélagslegar lokanir, dauðsföllum fjölgar um alla álfuna, þá er hálmstrá áróðursins að til séu sérfræðingar sem segja að baráttan sé tilgangslaus, að ekkert annað sé í boði en að leyfa veirunni að drepa, þar til hún finnur ekki fleiri til að drepa.

Flestir sem deyja er hvort sem er fólk sem myndi deyja fyrr eða síðar.

 

Mátti deyja.

Jafnvel nauðsynleg hreinsun fyrir kerfið.

 

Á meðan gengur veira laus.

Frelsi hennar er varið.

Þó annað sé sagt.

 

Spurningin er.

Hve margir þurfa að deyja til að ekki sé lengur spurt;

Mátti hann deyja??

 

Hve margir þurfa að deyja til þess að ekki sé lengur minnst á aldur eða undirliggjandi veikindi??

Hve mörg þurfa fórnarlömbin að verða til þess að þaggað sé niður í þessum röddum??

 

Svarið við þeirri spurningu er um leið svarið um stöðu mennskunnar.

Eða sið í samfélagi okkar.

 

Það átti samt aldrei að spyrja.

Kveðja að austan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Snarpur Ómar og baráttujaxl sem hvergi bilar

Halldór Jónsson, 17.10.2020 kl. 03:45

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Halldór.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 17.10.2020 kl. 11:22

3 identicon

Frábær pistill Ómar.

Frá Nýja-Sjálandi berast fregnir af stórsigri

Jacindu Ardern, forsætisráðherra, sem þorir

að huga fyrst og fremst að sóttvörnum þjóðarinnar,

lokun landsins og blómstrandi atvinnulífi þar.

Mikið vildi ég að íslenska ríkisstjórnin færi 

að fordæmi Jacindu Ardern og ríkisstjórnar hennar

Ætla mætti að hálfkák ríkisstjórnar Bjarna og Kötu stefni að algjöru falli, vegna miðjumoðsstefnunnar 

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 17.10.2020 kl. 15:38

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Símon Pétur.

Alveg rétt, stúlka sú náði að halda haus, vernda þjóð sína og efnahag, eftir þeirri getu sem mannlegur máttur leyfði.

Veit ekki með ríkisstjórn okkar, hún er ennþá beggja blands.

En að mínu dómi það langskásta sem er í boði, Sigmundur er ekki í jafnvægi, hefur aldrei náð vopnum sínum eftir svikin á sínum tíma, restin er meir og minna fífl, eina sem má deila um er hvar á kvarðanum um hreinræktuð þau lenda.

Það þarf samt að gera miklu meir, skútunni er aðeins haldið á floti með því að setja hamp í verstu sprungurnar, og það dugar ekki í versnandi sjólagi, hvað þá því fárvirði sem óhjákvæmilega mun skella á seinna í vetur.

Leiðtogi eða leiðtogar, slíðra sverðin, grafa stolt og hégóma, og leita allra leiða til vernda þjóð og lýð.

Til dæmis að setja niður með Sigmundi Davíð, og því fólki sem talar á svipuðum nótum.

Við eigum í stríði eins og unga konan hjá Kviku banka benti réttilega á, en afneitunin er slík að ráðamenn okkar halda að þeir séu í göngutúr þar sem hergönguhljómsveit slær taktinn, og allir séu ligeglad.

Það veit enginn hvenær rofar til í efnahagsmálum heimsins, en á meðan megum við ekki glata sálinni líkt og við gerðum eftir fjármálahrunið 2008 þar sem hluti þjóðarinnar var skilinn eftir í skítnum, og í engu sinnt.

Að deila byrðum, að standa saman, það er engin leið í boði.

Og það þarf að feisa.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 18.10.2020 kl. 17:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 220
  • Sl. sólarhring: 871
  • Sl. viku: 5951
  • Frá upphafi: 1399119

Annað

  • Innlit í dag: 186
  • Innlit sl. viku: 5041
  • Gestir í dag: 181
  • IP-tölur í dag: 178

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband