6.9.2020 | 18:26
Ætlum við að kasta fólki á ný fyrir Ætternisstapa??
Spurði Kári bæði hinn "hlutlausa" spyril Silfursins sem og kvensjúkdómalækninn frá Harvard.
Rammaði þar inn kjarna málsins sem er spurning mannhelgi allra, sem er geirneglt í kristinn sið Vesturlanda, eða mannhelgi sumra, og hún þá metin út frá kostnaði eftir reglum skurðgoðsins Mammons.
Í raun erum við að upplifa á ný átök kristinna og heiðna, nú rúmum þúsund árum eftir að Útburður og Ætternisstapar voru aflagðir.
Átök sem í raun eru framhald af stríðinu við Mammon þegar hundheiðið fylgisfólk hans hrakti þúsundir samlanda okkar út af heimilum sínum eftir Hrun, og beit svo höfuð af skömminni með því að reyna að selja óbreyttan almenning í áralangan skuldaþrældóm kenndan við ICEsave.
Á tímum umburðarlyndis og trúfrelsis má segja að rök Mammonsista eigi rétt á að heyrast, að það megi ræðast hvort mannhelgi eigi að vera skilyrðislaus, eða hvort það eigi að vega hana og meta eftir þörfum eða aðstæðum.
En þá er lágmarkið að menn hafi kjarkinn eins og sá hluti af ritstjórn Morgunblaðsins sem sagði að veiran ætti að fá frelsi til að mynda hjarðónæmi hjá þjóðinni.
Ræði hlutina út frá staðreyndum, en hætti þessu eilífa niðurrifi á sóttvörnum þjóðarinnar þar sem vopnin eru hreinar rangfærslur, hálfsannleikur eða samhengi hlutanna sé snúið á hvolf líkt og Kári bendir réttilega á að kvensjúkdómalæknirinn frá Harvard gerir.
Annað er áróður fólks sem vill öðrum illt, en hefur það mikinn sens fyrir að slíkt falli í grýttan jarðveg á akri almenningsálitsins, að það getur ekki sagt satt orð í þessu máli nema það alveg óvart henti málflutningi þess í hinum stærra samhengi blekkinga og rangfærslna.
Snúum nokkrum hlutum við svo þeir hætti að vera á hvolfi.
"Veirulaust land er útópía". Rétt, ekki frekar en það er hægt að koma algjörlega í veg fyrir sýkingar eftir skurðaðgerð eða að fólk látist í umferðinni. Gagnályktunin er samt ekki sú að það eigi hætta að gæta fyllstu aðgæslu við skurðaðgerðir, eða slaka á umferðarhraða, gera bílbelti valfrjáls og hætta leggja fjármuni í vegabætur í nafni umferðaöryggis. Eina sem hægt er að gera er að lágmarka líkindin að því gefnu að slíkt sé innan skynsemismarka.
"Árangurinn við að ná niður seinni smitbylgjuna réttlætir að slaka á sóttvörnum við landamæri". Rangt, árangurinn náðist einmitt vegna núverandi sóttvarna og mælingar við seinni skimun sýna að líkindin á nýjum smitum aukast í réttu hlutfalli við fjölda ferðamanna, önnur bylgja er þá aðeins spurning um tíma.
"Dánarhlutfallið er 0,3". Rangt því það er verið að álykta út frá árangri sóttvarna sem bæði hafa náð að verja viðkvæma hópa, sem og hindrað fjöldasmit sem gerði heilbrigðiskerfinu ókleyft að ráða við fjölda bráðveikra. Án smitvarna myndi veiran breiðast út til hópa þar sem dánarhlutfallið er miklu hærra, sem og að heilbrigðiskerfið myndi brenna út á tiltölulega stuttum tíma, bæði vegna skorts á lyfjum og búnaði og ekki hvað síst vegna þess að starfsfólk myndi örmagnast, líkt og var að gerast á Ítalíu og víðar áður en smitkúrfan fór að lækka vegna strangra sóttvarna.
Afleiðingin er að miklu, miklu fleiri myndu deyja en er raunin þegar smitvarnir ná að stilla af fjölda smitaðra og illa veikir fá alla þá hjálp sem nútíma læknavísindi geta veitt þeim.
Þetta síðastnefnda, að ljúga til um dánartöluna er það siðlausasta af öllu hjá talsmönnum þeirrar heiðni að mannhelgi sé metin í krónum og aurum.
Og svartast af öllu er þegar blekkingin kemur úr munni læknis því þeir vita manna best að geta þeirra til að takast á við fjölda, hvort sem það er vegna slysa, hamfara, sjúkdóma eða annað, er takmörkuð, og fari fjöldinn yfir ákveðið mark, þá geta þeir litla hjálp veit þeim sem eru umfram.
Illa slasað fólk eftir bílslys er oft tímunum saman á skurðaborðinu, en lifir þökk sé nútímatækni og færni heilbrigðisstarfsfólks, en hver skurðlæknir, hver skurðstofa ræður aðeins við ákveðinn fjölda á sólarhring, sami læknir stendur ekki nema eina 20 tíma skurðaðgerð, og ekki margar slíkar á viku, hvað þá vikum eða mánuðum saman.
Þetta er alveg sama með smitsjúkdóma, verði þeir of útbreiddir verður fátt við ráðið, og þar að auki bætist við hættan á að heilbrigðisstarfsfólk sjálft veikist.
Og heilbrigðisstarfsfólk hefur hríðfallið í Evrópu og Bandaríkjunum í baráttunni við kórónuveiruna, að tala niður alvarleik veirunnar er í raun níð gagnvart öllu því fólki.
Öllu þeim sem dóu, svo aðrir gætu lifað.
Þegar læknar sem glíma við veiruna segja að hún sé jafn alvarleg og áður, þá eigum við að hlusta.
Við eigum ekki að hlusta á málaliða Mammons, sama hvaðan þeir koma.
Öll heimska á sín takmörk.
Kveðja að austan.
Segir Jón Ívar snúa hlutum á hvolf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 447
- Sl. sólarhring: 714
- Sl. viku: 6031
- Frá upphafi: 1399970
Annað
- Innlit í dag: 403
- Innlit sl. viku: 5167
- Gestir í dag: 391
- IP-tölur í dag: 387
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Taugalæknir og kvensjúkdómalæknir deila um hvað sé ásættanleg áhætta. Hvorugur er fráhverfur áhættu og báðir sætta sig við einhver dauðsföll, eins og við gerum öll. Hans heilagleiki Ómar Geirsson tekur áhættuna á að drepa samborgarana á hverjum degi. Svo þessi málaliði Mammons geti drukkið gosdrikk og haft hundraðkall í veskinu þarf fólk að leggja líf sitt í hættu. En Ómar telur ávinninginn gera áhættuna ásættanlega, hverju fórna menn ekki fyrir kók og klink?
Á hverjum degi metum við almenningur, læknastéttir og stjórnvöld mannhelgi eftir þörfum eða/og aðstæðum. Þó árlega verði dauðsföll í umferðinni bönnum við ekki akstur. Og þú, Ómar Geirsson, ekur af stað vitandi að ef illa fer þá hefur þú drepið mann. Þitt mat er að með varkárum akstri og öryggisatriðin í lagi þá séu líkurnar litlar og ávinningurinn svo mikill að hann geri áhættuna ásættanlega.
Hvort hraði á einhverri götu eigi að vera 30 eins og taugalæknir gæti viljað eða 35 eins og kvensjúkdómalæknir gæti lagt til skiptir e.t.v. ekki miklu máli, áhættan eykst en er áfram ekki mikil og ávinningurinn talinn þess virði af sumum en öðrum ekki. En ef engin umræða á að eiga sér stað og ekkert mat að gera má eins banna allan akstur eins og að afnema öll umferðarlög, öfgarnir ráða með hámarks skaða.
Vagn (IP-tala skráð) 6.9.2020 kl. 20:25
Jæja er búið að sleppa þér út aftur Vagn minn, ég hélt að það væri búið að slökkva á þér.
Hins vegar er þér fyrirgefið þó þú þekkir ekki til mannhelgi, í þínum heimi er fjöldinn jú af ætt óendanleikans.
Hins vegar er svört sálin í forritara þínum, líklegast er skömm að bera slíka svertu uppá heiðni, og ekki veit ég hvort sá í neðra kannist frekar við ýlduna.
En óvitlaus er hann ekki, það má hann eiga og lætur því nagið duga en hefur ekki kjarkinn sem hægri öfginn á Mogganum hefur þó.
Þegar Kára ofbauð ljóskan og kvensjúkdómalækninn, og greip til samlíkingarinnar sem er efniviður þessarar fyrirsagnar, þá var það ekki út af ágreining milli hámarkshraða uppá 30 eða 35, það eitt er víst.
Þetta veit forritari þinn líka kæri Vagna, þess vegna er sál hans svona svört.
En hvernig læt ég, takmörkun mannlegrar forritunar er víst talin vera sú að ekki sé hægt að forrita sál í rafeind.
Og hvernig er hægt að ætlast til að sálarlaust þekki litbrigði sálar??
Skrýtin heimur sem við lifum Vagn, þú til og ég tala við rafeind.
Ætli kýrhausinn rúmi þetta allt saman??
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 6.9.2020 kl. 20:48
Það er skrýtin heimur þar sem greindarlaus talar við gervigreind.
Vagn (IP-tala skráð) 6.9.2020 kl. 21:14
Já finnst þér það ekki Vagn minn góður.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 6.9.2020 kl. 22:33
Það er kannski að fara að verða kominn tími til að henda þér fyrir ætternisstapa Ómar eins og þú bullar sífellt. En ég efast þó um að það dugi neitt til. Þú myndir ganga aftur eins og Klaufi á Klaufabrekkum og hamra á mönnum með hausnum af sjálfum þér út í það óendanlega.
Þorsteinn Siglaugsson, 6.9.2020 kl. 23:25
Ég elska þig lika Þorsteinn minn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 6.9.2020 kl. 23:36
Óskaplega var þetta nú klént svar við ágætlega rökstuddu innleggi Vagns, Ómar. Er það ekki staðreynd að við verðum alltaf að draga einhverja línu í sandinn varðandi ásættanlega áhættu í öllu. Er það líka ekki staðreynd ef við bönnuðum alla umferð bifreiða þá myndi engin deyja í bílslysi. Ég les pistlanna þína reglulega og hef fundist gaman af þeim. Stundum sammála og stundum ekki eins og gengur. Í seinni tíð hefur þér brugðið af leið. Þú ert einhvern fastur í einhverskonar ofstækis afstöðu til mála varðandi þetta covíd dæmi. Ég spyr mig hverju sætir?
Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 7.9.2020 kl. 10:15
Blessaður Stefán.
Áður en ég svara þér efnislega vil ég að þú skiljir að Vagn er dulheiti yfir áróðursveitu sem kom fram í orkupakkaumræðunni, einkenni hans er útúrsnúningar og persónulegar svívirðingar. Penninn að baki honum eru allavega þrír, ég merki það á mismunandi nálgun, sem og þekkingu í innslögum hans. Allavega einn er forheimskur krakkabjáni um eða yfir tvítugt, annar er um miðjan aldur, þokkalegur greindur og uppfyllir öll skilyrði um illkvittni og leiðindi, sá þriðji er eldri og skynsamari, það er þá sem Vagn virkar annað en illkvittið heimskt fífl, og stundum á köflum eru innslög hans þess virði að lesa.
Víkjum svo að athugasemd þinni.
Ágætlega rökstutt innlegg sagðir þú og þá spyr ég þig, heldur þú að ég hafi ekki eitthvað annað við tíma minn að gera en að elta ólar við persónulegar svívirðingar og svigurmæli?? Og hvar heldur þú að endirinn sé gagnvart slíkum vinnubrögðum nettrölla sem takast ekki á við rök eða skoðanir, heldur sérhæfa sig í útúrsnúningum, svigurmælum og öðru því sem sækir hráefni sitt í botnlausan brunn ómennsku og heimsku.
Kallar þú þetta ágætlega rökstutt innlegg Stefán;
" Hans heilagleiki Ómar Geirsson tekur áhættuna á að drepa samborgarana á hverjum degi. Svo þessi málaliði Mammons geti drukkið gosdrikk og haft hundraðkall í veskinu þarf fólk að leggja líf sitt í hættu. En Ómar telur ávinninginn gera áhættuna ásættanlega, hverju fórna menn ekki fyrir kók og klink".
Eða þetta;
"Á hverjum degi metum við almenningur, læknastéttir og stjórnvöld mannhelgi eftir þörfum eða/og aðstæðum. Þó árlega verði dauðsföll í umferðinni bönnum við ekki akstur. Og þú, Ómar Geirsson, ekur af stað vitandi að ef illa fer þá hefur þú drepið mann. Þitt mat er að með varkárum akstri og öryggisatriðin í lagi þá séu líkurnar litlar og ávinningurinn svo mikill að hann geri áhættuna ásættanlega.".
Á ég að segja þér það hreint út Stefán??, svona framsetning er fóður fyrir heimskt fólk, sem grípur rökmola en hefur ekki vitsmuni til að sjá heildarsamhengið.
Hvernig dettur þér í hug að ég héldi út bloggsíðu eins og minni ef ég elti ólar við innslög eins og hjá nettröllinu Vagni eða vini mínum Þorsteini hér að ofan??
En Stefán, þú gerir þig hvorki út fyrir að vera nettröll eða vitleysingur, okkur getum öllum orðið á, og því skal ég svara þér efnislega.
"Er það ekki staðreynd að við verðum alltaf að draga einhverja línu í sandinn varðandi ásættanlega áhættu í öllu. Er það líka ekki staðreynd ef við bönnuðum alla umferð bifreiða þá myndi engin deyja í bílslysi.".
Ég sá fyrir þennan útúrsnúning ef menn tækju dæmið fram yfir þann kjarna sem það átti að lýsa, jú vissulega mátti benda á að menn væru ekki asnar, og því dæmið um gulrótina og asnann ofar skilningi, en ég setti inn þessa öryggissetningu;
"Eina sem hægt er að gera er að lágmarka líkindin að því gefnu að slíkt sé innan skynsemismarka.", þar sem hið feitletraða er öryggisventilinn svo umræðan snérist ekki um dæmið.
En ef við tökum skítinn út, þá stóð einn rökpunktur eftir, því þannig eru vinnubrögð hins lúmska skítadreifara, að viss kjarni afvegleiðingarinnar á að styðja málstað þeirra sem snúa hlutunum á hvolf.
"Þegar Kára ofbauð ljóskan og kvensjúkdómalækninn, og greip til samlíkingarinnar sem er efniviður þessarar fyrirsagnar, þá var það ekki út af ágreining milli hámarkshraða uppá 30 eða 35, það eitt er víst.".
Ég svaraði þessu Stefán, Kári hefði ekki blánað og roðnað og gripið til þessarar samlíkingar, ef málið snérist um áherslur.
Að fækka dögum í sóttkví úr 14 í 5 er hægt vegna hinnar tvöföldu skimunar við landamærin, en sóttkvíin er samt sem áður nauðsynleg, líkt og hún sannaði sig hér í vor, sem og í öllum öðrum löndum sem beittu henni.
Heimkomusmitgá virkar ekki, ef smit hefur sloppið framhjá fyrri skimun, líkt og gerðist í seinni smitbylgjunni, þá stöðvar hún ekki útbreiðslu á því smiti. Þar reyndi aldrei á hinar meintu takmarkanir málaliðans frá Harvard, sem hann veit mæta vel, annars væri allur hans málflutningur ekki að ætt áróðurs og útúrsnúninga þar sem þekkingu er beitt til afskræma eða snúa hlutum á hvolf.
Það var einn málefnalegur punktur hjá nettröllinu Vagni Stefán minn, og ég svaraði honum, í samhengi hans snýst þetta ekki um 35 eða 30 við til dæmis skóla, heldur hóflegan hraða versus ótakmarkaðan, þar sem engin afskipti eru gagnvart ofsahraða.
Varðandi seinni hluta athugasemdar þinnar Stefán, þá er ég auðvitað ánægður með að þegar fólk leggur í mig að það skuli taka það fram að það lesi mig, og sé oft sammála mér, en stundum ekki.
Segi bara við þig eins og við marga oft áður, velkominn í hópinn, ég er ekki alltaf sammála sjálfum mér.
Verra er þegar fólk bætir við eða gefur í skyn að ég eigi ekki að skrifa eins og ég geri, kennir það við ofstæki, heimsku eða eitthvað annað.
Kommon, ég er ekki Ruv, lestur á pistlum mínum er frjáls, og ég get sagt mína reglu, ég les ekki vitleysinga, ég rífst ekki við þá heldur, en kannski hæðist að þeim stundum.
Seinni tíð og ofstæki segir þú!!, já ég hef ekki pistlað um annað en kóvid í þessari törn minni sem hófst um miðjan júní, þar áður var reyndar samhengið tengt óvitum og börnum sem seldu þjóðina og orkuauðlindir hennar og bitu svo höfuð af skömminni með því að leyfa frjálst flæði af sýklum inní landið. En kóvid samt.
Þeir sem þekkja til minnar einu ástríðu vita reyndar af hverju ég brást illa við innflutning á smiti, hverju það ógnaði og af hverju það skipti mig máli.
En nálgun mín um mannhelgi og mennsku er ekki bara minnar, ekki átti ég hugmyndina af þessari fyrirsögn svo dæmi séu tekin, ég vísa í eldri umræðu, sem er árþúsunda gömul, og tengingin við fólkið sem grefur undan og vill öðrum illt, er heldur ekki frumleg nálgun.
Og það fólk hefur ekki afsökunina sem Gvendur Stalín sagði eitt sinn við mig þegar við spjölluðum á unglingsárum mínum; ´"Ómar, við verðu að skilja að miklar þjóðfélagstilraunir krefjast mikilla fórna".
Ég leit aldrei á Gvend sem illmenni Stefán, en fólkið sem vísvitandi vinnur að því að náungi okkar kafni lifandi, það er heldur ekki illmenni.
Það er illt.
Þú ræður hvort þú telur það ofstæki, og í hvaða hóp þú skilgreinir þig.
Hinsvegar ef samviskan böggar þig eitthvað, þá ráðlegg ég þig að hætta lesa mig.
Þetta er ekki eins og guð hafi sagt það.
Hann sagði þér hins vegar að líta eftir náunga þínum.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 7.9.2020 kl. 18:16
Sem dyggur lesandi pistla þinna, Ómar, þá langar mig til að þakka þennan þrumupistil og frábær svör í athugasemdum þínum.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 7.9.2020 kl. 19:08
Blessaður Pétur Örn.
Ég vissi alveg að efnistök mín hér að ofan heppnuðust þegar Vagn minni heiðraði mig með innleggi sínu, og endanlega staðfestingu fékk ég frá öðrum vini mínum.
Menn leggja yfirleitt ekki lykkju á leið sína að ástæðulausu.
Ekki frekar en að ég læt ekki svona að ástæðulausu, þó ástæðan liggi kannski ekki alltaf í augum uppi.
Þessi törn varð lengri en ég ætlaði mér, la la svona þegar strákarnir mínir máttu spila án áhorfenda, eins og það hvarfli að nokkrum manni að virða það á heimaleikjum hérna á Neskaupstað, en fullur sigur þegar áhorfendur voru leyfðir, áhyggjunnar snúast núna um leikjaálag því seinkun á tímabilinu vegna kóvid þjappar bæði saman leikjum í þriðja flokki, sem og að meistaraflokkur kallar á strákana vegna affalla í leikmannahópa vegna álags eða strákar farnir annað í skóla.
Málið var ráðning hægra öfgans í ritstjórn Morgunblaðsins, og sú afstaða sem blaðið tók gegn sóttvörnum í kjölfarið.
Það setti málið í stærra samhengi, og kallaði á aukna grimmd af minni hálfu, svo jafnvel dyggir voru skammaðir fyrir linku við þrautþekkt áróðurfólk skurðgrafarins.
Vegna þess Pétur að lífið sem við vonuðumst til að fengi tækifæri til að dafna, mun ekki eiga breik ef þessi ógnaröfl verða ekki brotin á bak aftur og send til baka þangað sem þau komu upphaflega.
Það var svo sem ekki mikið klappa, en meira skammað, þegar hér var góðfúslega bent á með tökum og tilvísun í lög og rétt, að ICEsave þjófarnir væru ekki bara þjófahyski sem slík, heldur líka stuðningsmenn alþjóðlegrar fjárkúgunar og sá stuðningur væri landráð samkvæmt ákvæðum hegningarkafla þar um.
Hér var svo slakað á þegar aðrir tóku upp merkin og vitnuðu í lög og reglu.
Því það er ekki ljótt að segja satt um ljótt fólk.
Ekki frekar en að benda á úr hvaða ranni Málaliðar Mammons eru runnir.
Eða benda á að lífið sem við sórum að vernda, á líf sitt undir að einhverjir hafi nennu til að taka málstað þess.
Takk fyrir dyggðina Pétur Örn, hún á sér rætur til árdaga, hefur aldrei slitnað þó hér sé skammast til hægri og vinstri, eða hrósað því sem áður var gjörskammað.
Því að baki liggur dýpri þráður grundvallargilda mennskunnar sem við báðir teljum þess virði að berjast fyrir.
Núna ætla ég að reyna að treysta á landvarnir Kára sem og visku okkar besta fólks sem mannar stjórnstöð sóttvarna okkar.
Vonandi tekst mér að þegja í nokkra daga, hef um annað persónulegra að hugsa.
Á meðan er það kveðjan sem alltaf lifir.
Að austan.
Ómar Geirsson, 7.9.2020 kl. 20:24
Ég tel að réttara sé að fylgja Kára en þessum nýfundna kvensjúkdómalækni. Reynslan er frekar Kára megin held ég að sé augljóst.
Halldór Jónsson, 7.9.2020 kl. 20:30
Fagna þessum skýrum orðum þínum Halldór.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 7.9.2020 kl. 22:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.