30.8.2020 | 14:50
Lærdómur aldanna.
"Til eru þeir menn sem virðast telja, að þar sem allir menn muni hvort sem er deyja að lokum, þá skuli afnema allar sóttvarnir og líkast til alla siðmenningu mannkynsins frá örófi alda.
Mér er nokkuð brugðið að þannig menn séu enn á meðal vor; menn sem halda fram frelsi veirunnar til að drepa sem allra flesta. Einhvern veginn hélt ég að það hefði betur gagnast mannkyninu til framfara og almennrar velmegunar, að koma í veg fyrir drepsóttir, en hvetja til frelsis veiranna til að drepa.". (Símon Pétur frá Hákoti)
Þessi meitluðu orð eru kjarni þeirra átaka sem við upplifum á Íslandi í dag, milli mennsku og mannúðar annars vegar og myrkursins hins vegar með öllu því ljóta og vonda sem hefur hrjáð manninn í gegnum aldirnar.
En fleiri vísdómsorð hef ég lesið í dag, þessi pistill er tengdur við frétt sem allir ættu að lesa.
Ung kona tekur á beinið alla hina sjálfsögðu sérfræðinga sem haldið hafa umræðunni um nauðsynlegar mótvægisaðgerðir í einhverju kviksyndi tregðunnar með þeim afleiðingum að stjórnvöld bregðast illa og of seint við.
Hún bendir á heimskuna í málflutningnum;
"Hún bendir á að margar af þeim rannsóknum sem nú er vísað til í þeim tilgangi að rökstyðja það að hærri atvinnuleysisbætur hafi letjandi áhrif á atvinnuleit og dragi úr sköpun starfa séu gerðar yfir langan tíma, 20-30 ár, og góðar og gildar í því samhengi, ekki í tímabundinni niðursveiflu eins og heimsbyggðin glímir nú við vegna faraldurs kórónuveiru.
Þessar rannsóknir skoða það hvernig fólk hagar sér undir eðlilegum kringumstæðum.
"Ég set bara mikið spurningarmerki við að fólk sem er í ráðgjöf varðandi þessi mál núna og er mikið að vitna til fordæmalausra tíma taki síðan [mið af rannsóknum] í sinni hagstjórnarráðgjöf sem taki ekki mið af fordæmalausum aðstæðum."".
Hún bendir á staðreyndir;
"Í þættinum ræddi Kristrún einnig um brúarlán sem hún sagði að hefðu verið dauðadæmd frá upphafi. Fyrirtæki vantaði fjármagn í dag vegna þess að þau hefðu lent í tekjutapi og það gengi ekki upp að skuldsetja sig fyrir tekjutapi.
"Það hefur algjörlega sýnt sig núna að það skiptir engu máli hvað peningastefnan gerir ef fólk hefur ekki áhuga á að taka lán og sér ekki út vegna óvissu."".
Og hún veit hvert hlutverk stjórnvalda er;
"Kristrún sagði að það væri algjörlega eðlilegt að stjórnvöld legðust í aukin útgjöld þrátt fyrir að það ylli halla á ríkissjóði. Hún sagði ekki eðlilegt að reka hið opinbera með halla í mörg ár undir venjulegum kringumstæðum en um tímabundið áfall væri að ræða og því þyrfti að bregðast við. Þetta er bara eins og að lenda í seinni heimstyrjöldinni, sagði Kristrún.".
Ung kona segir allt það í viðtali á Sprengisandi sem sagt hefði átt að vera fyrir löngu á þingi.
Jafnt af ráðherrum, stjórnarþingmönnum sem og þingmönnum stjórnarandstöðunnar.
Ríkisstjórnin gumar sér að aðgerðum sem virka ekki.
Það er rifist um atvinnuleysisbætur, þrengt var að hlutabótaleiðinni og mikil óvissa ríkti um framhald hennar langt fram eftir sumri.
Annað sem þarf að gera, er ekki gert.
Allavega ennþá.
Samt þarf að halda því til haga að fjármálaráðherra hefur sýnt óvenjulegt innsæi í aðstæður og það er honum og seðlabankastjóra að þakka að þjóðfélagið fór ekki á hliðina við þessi áföll.
En þetta dugar ekki til, það þarf meira, það þarf að feisa raunveruleikann, að þetta sé okkar styrjöld.
Í styrjöldum hækka ekki húsnæðislán almennings sjálfkrafa vegna óviðráðanlegra ytri áfalla, sem og að engin þjóð hefur sigrað aðra þjóð með því að sleppa hjörð innheimtulögfræðinga á almenning, hvort sem það er andstæðinga sinna eða eigin.
Og menn gera það sem þarf að gera svo fólk komist af.
Um þessa grunnhugsun er algjör þögn á Alþingi.
Á Ögurstund þjóðarinnar fóru þingmenn í frí, þegjandi og hafa þagað síðan, nema þeir sem hafa vanvirt lögmál mennskunnar sem Símon lýsti svo vel hér að ofan.
Grafið undan sóttvörnum, skapað úlfúð og deilur, flækjast fyrir nauðsynlegum mótvægisaðgerðum, þeirra eina svar er að opnun landamæra fyrir ferðafólki í tímum drepsóttar leysi allan vanda sem við er að glíma.
Þeir eru í liði með myrkraröflunum sem hönnuðu fréttaflutning helgarinnar, sem varð svo andvana þegar í ljós kom að seinni skimun hefur líklegast komið í veg fyrir enn eina bylgjuna núna þegar við erum að ná tök á sumarbylgjunni.
Hvað er að þjóð sem líður svona háttsemi?
Líður svona tilraun til hryðjuverka því að baka dánartölum er lifandi fólk, og ég fullyrði að enginn að taglhnýtingum myrkraaflanna myndi vilja bjóða líf sitt í staðinn.
Sem líður svona þing og svona stjórnarandstöðu.
Peningar geta keypt margt.
Látum þá samt ekki kaupa dauðann.
Mótmælum þessari tilbúnu umræðu almannatengilsins.
Mótmælum þögninni eða bullinu á þjóðþingi þjóðarinnar.
Mótmælum því að við stöndum ekki öll saman á þessum fordæmalausum tímum þar sem bæði líf og lífsafkoma náungans er undir.
Og ekki hvað síst, mótmælum þeim röddum sem segja að líf náungans eða lífsafkoma séu andstæður, það þurfi að velja, og þegar annað er valið, þá sé hinu fórnað.
Látum lærdóm Hrunsins verða að við endurtökum ekki sömu mistökin.
Stöndum saman og förum heil út úr þessum brimskafli.
Það er óþarfi að kasta sumum fyrir borð svo restin megi lifa.
Kveðja að austan.
Þetta er okkar styrjöld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:03 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.1.): 1
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 130
- Frá upphafi: 1412828
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 114
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.