27.6.2020 | 10:03
Óvitar með eldspýtur.
Kallaðir ráðamenn, hleyptu fólki frá löndum þar sem drepsótt geisar, inní landið, til að brenna upp þær fórnir sem þjóðin lagði á sig, til að losna við þessu sömu drepsótt.
Dóu ekki nógu margir?, var þjóðlífið ekki nógu lengi lamað?, var gamla fólkið ekki nógu lengi einangrað?, hvað var það sem gekk þessu fólki til??
Samt var til kjarkað fólk eins og Gylfi Zoega hagfræðiprófessor, sem gekk ekki í takt með gæsagangi forheimskunnar, og benti á hættuna, að það væri verið að fórna grundvallarhagsmunum, öryggi þjóðarinnar, fyrir lítinn og vafasaman ávinning.
Lítinn og vafasaman ávinning.
Því jafnvel þó áður óþekkt kraftaverk hefðu gerst, og beinn innflutningur á smiti hefði ekki strax smitað út frá sér, þá var ljóst að þessir fáu ferðamenn sem kæmu, dygðu engan veginn til að skapa hin útblásna ofvaxna ferðamannaiðnaði rekstrargrundvöll.
Það er nefnilega svo að ef tekjur duga ekki fyrir breytilegum kostnaði, þá er betra að loka en að láta hvern dag leggja inná höfuðstól rekstrartapsins.
Síðan má spyrja hvað við höfum að gera við atvinnugrein sem á tilveru sína undir erlendu farandverkafólki?, því ef innlendir eru ráðnir, þó það sé ekki annað en skólafólk, og kjarasamningar virtir, þá virðist greinin fara lóðrétt á hausinn.
Það þurfti að opna landið sögðu óvitarnir með eldspýturnar, en hvenær var landinu lokað??
Það var aðeins töluð íslenska á einum af fjórum greiðastöðum sem ég hef komið inná á síðustu 10 dögum, og það var í minnsta þorpinu, þar sem staðurinn var rekinn af heimfólki en ekki einhverri keðjunni.
Og ef fólk fer á næsta fótboltaleik í neðri deildunum, þá er ekki töluð íslenska inná vellinum ef landsbyggðarlið eiga í hlut.
Landið var galopið, það þurfti bara að virða smitvarnir.
Ef fullorðið fólk grípur ekki tafarlaust inní.
Fer uppí stjórnarráð og snýr uppá eyrun á óvitunum, og dregur þá uppí Gaggó Vest, í skammarkrókinn þar, þá erum við að upplifa á ný byrjun mars 2020.
Erum stödd í martröð Bill Murrays í Groundhog day nema í okkar martröð deyr fólk í alvörunni.
Það mun ekki ganga betur að elta skottið á smitinu núna, en þá.
Það er nefnilega ástæða fyrir því að það borgar sig ekki að rífast við raunveruleikann, hann sigrar alltaf.
Blaðamannafundurinn í gær var fundur óvita og afglapa.
Það er ef maður vill vera jákvæður og ætla þessu fólki ekki þann innvilja að styðja kynbótastefnu sænskra stjórnvalda, að nýta sér sjúkdóm til að losa sig við óæskilegt fólk.
Afglaparnir játuðu að skimun þeirra væri álíka örugg gagnvart nýsmiti og slembiúrtak, óvitarnir báðu fólk um að hætta að faðmast.
Enginn sagði; afsakið, fyrirgefið, við göngumst við ábyrgð okkar á hinum ófyrirgefanlegum mistökum.
Enginn sagði, það þarf ekki að sækja mig til saka ef einhver deyr, ég mun sjálfviljugur fara á Hraunið og afplána minn dóm fyrir manndráp af ásetningi. Hvað þá að nokkur segðist vera búinn að setja hús sín á sölu til að greiða náunganum það tjón sem mun óhjákvæmilega hljótast af hinni nýrri smitbylgju, eða þann kostnað sem fellur á samfélagið þegar sjúklingar streyma á gjörgæslunnar.
Því óvitarnir vita ekki hvað þeir gjöra.
Og mannvitsbrekkurnar í stjórnarandstöðunni!!.
Þeir hafa áhyggjur af rétti fólks til að kjósa í þessum málamyndakosningum.
En engar áhyggjur af rétti okkar til eðlilegs lífs.
Til að lifa í öryggi en ekki í síótta smitsins.
Skömm stjórnmálastéttarinnar er algjör, með undantekningum þó.
En við vissum það fyrir eftir samþykkt orkupakkans.
Ærlegt fólk vegur ekki fjöregg þjóðarinnar, jafnvel þó kokteill frá Brussel er undir.
En þó æran sé engin og skömmin algjör, þá gambla menn samt ekki með líf og limi náungans.
Með öryggi þjóðarinnar.
En menn gera það.
Og komast upp með það.
Það segir margt um okkur hin.
Kveðja að austan.
Þetta má ekki endurtaka sig | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:04 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 202
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 168
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Amen úr efra.
Með sumarkveðju.
Magnús Sigurðsson, 27.6.2020 kl. 10:50
Gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum hér á Íslandi eru um ein milljón króna að meðaltali af hverri fjögurra manna fjölskyldu og laun í ferðaþjónustunni hér eru hærri en í stóriðjunni.
Útflutningsverðmæti ferðaþjónustunnar rúmlega fimm hundruð milljarðar króna árið 2017 - Um þrefalt meira en útflutningsverðmæti sjávarafurða
"Störf í ferðaþjónustu og tengdum greinum eins og veitingarekstri eru yfir 22% allra starfa á Íslandi.
Sé tekið mið af meðaltali undanfarinna sjö ára gegna konur 54% þessara starfa en karlar 46%."
Ferðaþjónusturit Landsbankans - Mars 2015
Um 139 milljarða króna afgangur af þjónustuútflutningi en 11 milljarða króna halli á vöruskiptum árið 2014
27.9.2015:
"Ef ferðaþjónustan hefði ekki komið til væri hagsveiflan sennilega á enda, þar sem vöruskiptajöfnuður er orðinn neikvæður á nýjan leik.
Ferðaþjónustan hefur gegnt algjöru lykilhlutverki í að byggja upp gjaldeyrisforða Seðlabankans."
Ásgeir Jónsson hagfræðingur (nú seðlabankastjóri) útskýrir það sem er að gerast í íslenska hagkerfinu
Auknar fjárveitingar ríkisins til Landspítalans, háskólanna og vegagerðar koma frá ferðaþjónustunni.
27.11.2014:
Hagvöxturinn byggist á vexti ferðaþjónustunnar
Þorsteinn Briem, 27.6.2020 kl. 11:01
Blessaður Steini minn.
Núna ert þú aftur orðinn leiðinlegur, og það er leiðinlegt.
Ef þú vilt peista uppúr Britannicu, þá legg ég til að þú upplýsir mig um sögu kínverska Miðríkisins frá um 800 til 550 fyrir Krist, ég er farinn að ryðga, og það er passlega súrrealískt til að vera skemmtilega út úr kú miðað efni og innihald þess pistils sem þú peistar peistið þitt við.
Því á þessum döprum rigningartímum, þar sem erkifjendur hampa titli, og fósturvísar í teinóttum fötum hafa vegið alvarlega að íslenska fótboltasumrinu, þá eigum við aðeins eftir hið súrrealíska, eða tragedíuna, eða jafnvel bara þögnina, sem reyndar yfirgaf mig nýlega, en ekki leiðindin Steini.
Ekki leiðindin.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 27.6.2020 kl. 11:15
Steini er ágætur, en það er stundum örlítið of mikið af honum...
Annars er ég sammála pistlinum þínum, Ómar. Við lögðum mikið og margt erfitt og sárt á okkur í sóttvarnarskyni í vetur. Það hefði mátt verðlauna á einhvern hátt þótt ekki væri nema rétt yfir hásumarið.
Kolbrún Hilmars, 27.6.2020 kl. 11:25
Verð á íslenskum sjávarafurðum hefur lækkað mikið erlendis vegna Covid-19 og stóriðjan hér á Íslandi er á hvínandi kúpunni eins og dæmin sanna, til að mynda á Húsavík og í Hafnarfirði, og hvar er stóriðjan í Reykjanesbæ?!
7.8.2015:
"Rannveig Rist forstjóri Rio Tinto Alcan sendi starfsmönnum bréf í dag þar sem hún útskýrir afstöðu fyrirtækisins."
"Rannveig segir í bréfinu að fyrirtækið hafi tapað samtals sjö milljörðum árin 2012 og 2013 og að hagnaður fyrirtækisins hafi aðeins verið 0,3% arðsemi eigin fjár."
19.11.2015:
"Tilbúið tap" og "skandall" að mati fyrrverandi ríkisskattstjóra."
"Fjallað er um málið í nýjasta tölublaði Stundarinnar. Þar segir að á síðasta ári hafi Alcoa á Íslandi, móðurfélag álverksmiðjunnar á Reyðarfirði sem rekin er undir merkjum Alcoa Fjarðaáls ehf, greitt móðurfélagi sínu í Lúxemborg tæpa 3,5 milljarða króna í vexti og vitnar til nýlegra ársreikninga Alcoa félaganna á Íslandi.
Kastljós hefur ítrekað fjallað um þá staðreynd að Alcoa hafi aldrei greitt svokallaðan fyrirtækjaskatt hér á landi, enda hefur félagið aldrei skilað hagnaði hér.
Á sama tíma hafa 57 milljarðar króna runnið út úr rekstrinum hér til Lúxemborgar í formi vaxtagreiðslna sem ekki eru skattlagðar og dragast í leiðinni frá hagnaði starfseminnar hér á landi."
Alcoa aldrei greitt fyrirtækjaskatt hér á Íslandi - Alcoa greitt Alcoa um 60 milljarða króna í vexti
Þorsteinn Briem, 27.6.2020 kl. 11:28
Takk fyrir innlitið Kolbrún.
Steini minn, þegar ég segi að mér þyki þú vera orðinn leiðinlegur, þá þarftu ekki að staðfesta það með annarri langloku, þú gast bara sagt Rétt, ég er leiðinlegur.
Eða bara orðið skemmtilegur aftur.
Það er miklu skemmtilegra.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 27.6.2020 kl. 11:33
En orðunefndin er búin að kalla þau til sín í hátíðarsalinn og láta setja á þau orðu. Er þá ekki allt komið og almenningur þakklátur, öruggur og fullur trausts?
Esja frá Kjalarnesi (IP-tala skráð) 27.6.2020 kl. 11:51
Takk Magnús.
Og ég held svei mér þá að það sé að birta hér í neðra, viðrar jafnvel til fótboltaáhorfs.
Sameiginlegt lið Hattar og Fjarðabyggðar (þriðja flokki) er að taka á móti Stjörnu 2 í dag í flokki B liða og A liðið svo á morgun ÍR/Létti.
Er á meðan er, óvitarnir eru ekki ennþá búnir að láta loka mótum yngri flokka, þó óljóst sé á þessari stundu um Pepsi deildina núna í sumar, erfitt að spila með annað hvert lið í sóttkví.
Í þessum töluðum orðum spurði sonur minn hvort ég hefði séð hvað væri að koma á feisbókarsíðuna, það er búið að fresta leiknum við Stjörnuna vegna smits hjá meistaraflokki félagsins.
Það eru kannski ekki framferði óvitanna sem svíður mest, heldur hvað var fullorðið fólk í fótboltaheiminum að hugsa þegar það kippti smituðum leikmanni beint inní lið sitt, hvað þá þegar önnur lið spiluðu við vitleysingana.
Það er ekki afsökun, þegar svona mikið er í húfi, að vísa í að óvitar í stjórnarráði segðu að fólk frá smitsvæðum þyrfti ekki í sóttkví, aðeins að láta reka einnota kínverska pinna uppí kok sitt, og sjá, þú ert smitlaus orðinn.
Heimska er ekki náttúrulögmál, og hún snarlagast ef hún þarf að axla ábyrgð.
Beri fótboltaheiminum gæfu til að útskurða að leikir fari 0-3 hjá þeim liðum sem mæta ekki í leiki vegna tilvísunar í að liðið eða hluti þess sé í sóttkví, þá sæjum við eina sneggstu lækningu frá því að austurrískir hermenn á sjúkralista voru læknaðir með stólpípu eða hótun um hana, dugði vissulega ekki á góða dátann Sveik, en alla hina.
Ætli að óvitarnir séu búnir að panta pláss á Hrauninu?
Kveðja úr næstum því sólinni í neðra.
Sem og að austan.
Ómar Geirsson, 27.6.2020 kl. 11:56
Steini minn.
Leiðindi út úr kú hafa max þrjú innlegg, síðustu ófréttir gerðu mig það fúlan að þú færð aðeins 2.
Sorrý.
Ómar Geirsson, 27.6.2020 kl. 11:57
Þrátt fyrir að vera sammála innihaldi pistilsins, þá er ég sammála Steina, -ferðaþjónustan var besta bólan.
Magnús Sigurðsson, 27.6.2020 kl. 11:57
Steina hvað??
En mig minnir að stóra skýringin á mannfallinu þarna suður frá, hafi verið sú að menn óttuðust að niðurskurður smitleiða hefði skorið ferðaþjónustuna.
Og með því aðferðaleysi drápu menn ferðaþjónustuna.
Svo um hana er sagt eins og um Steina og jólasveininn.
Jóla hvað.
Aftur kveðjan.
Ómar Geirsson, 27.6.2020 kl. 12:02
Verða menn ekki bara að flytja inn margnota orðu Esja?, svona til að spara á krepputímum.
En almenningur er þakklátur, það vantar ekki.
Leitt að vera ekki hluti af honum.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 27.6.2020 kl. 12:04
Leitt að heyra Ómar, því hugmyndin var góð. En endalok nútíma fótboltamóta og ferðaþjónustu fylgja sóttkvínni og smitrakningar appinu.
Vonandi ná drengirnir að höndla boltann með því að líta til liðinna tíma þegar Þróttur, Höttur, Austri, Huginn, Valur, Leiknir, Súlan, UMFB, Einherji, Neisti, Sindri, Hrafnkell Freysgoði og jafnvel Egill Rauði náðu að spila í Íslandsmóti sem bragur var á.
Þar þurfti hvorki sóttkví né skimun.
Með kveðu úr efra.
Magnús Sigurðsson, 27.6.2020 kl. 12:06
Segir ekki sagan að á þeirra slóðum í stjórnsýslunni þarf ekki að spara? Þar þarf að halda áfram eins og ekkert hafi breyst.
Esja frá Kjalarnesi (IP-tala skráð) 27.6.2020 kl. 12:14
"Lattelepjandi lýður" Miðflokksins í miðbæ Reykjavíkur:
Þorsteinn Briem, 2.7.2012:
Í Kvosinni í Reykjavík er fjöldinn allur af veitingastöðum, skemmtistöðum, krám og verslunum.
Til landsins kemur nú árlega rúmlega hálf milljón erlendra ferðamanna, um 1.500 manns á dag að meðaltali, og þeir fara langflestir í Kvosina vegna þess að hún er miðbærinn í Reykjavík en ekki til að mynda Kringlan.
Í Kvosinni, á Laugaveginum, sem er mesta verslunargata landsins, og Skólavörðustíg dvelja erlendir ferðamenn á hótelum, fara á veitingahús, krár, skemmtistaði, í bókabúðir, plötubúðir, tískuverslanir, Rammagerðina í Hafnarstræti og fleiri slíkar verslanir til að kaupa ullarvörur og minjagripi, skartgripi og alls kyns handverk.
Margar af þessum vörum eru hannaðar og framleiddar hérlendis, til að mynda fatnaður, bækur, diskar með tónlist og listmunir. Og í veitingahúsunum er selt íslenskt sjávarfang og landbúnaðarafurðir, sem eru þá í reynd orðnar útflutningsvara.
Allar þessar vörur og þjónusta er seld fyrir marga milljarða króna á hverju ári, sem skilar bæði borgarsjóði og ríkissjóði miklum skatttekjum.
Þar að auki fara erlendir ferðamenn í hvalaskoðunarferðir frá gömlu höfninni í Reykjavík. Þar er langmestum botnfiskafla landað hérlendis og jafnvel öllum heiminum, um 87 þúsund tonnum árið 2008, um tvisvar sinnum meira en í Grindavík og Vestmannaeyjum, fimm sinnum meira en á Akureyri og fjórum sinnum meira en í Hafnarfirði.
Við gömlu höfnina og á Grandagarði eru til dæmis fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtækin Grandi og Fiskkaup, Lýsi og CCP sem selur útlendingum áskrift að Netleiknum EVE Online fyrir um 600 milljónir króna á mánuði sem myndi duga til að greiða öllum verkamönnum í öllum álverunum hérlendis laun og launatengd gjöld.
Cafe Latte er kaffi með mjólk, sem hvorutveggja eru landbúnaðarvörur, og hvergi í heiminum hefur undirritaður drukkið meira kaffi með mjólk en í norðlenskum afdal, þar sem ég bjó í áratug.
Þorsteinn Briem, 27.6.2020 kl. 12:16
Steini, urr, farðu að kjósa Guðna og hættu þessum leiðindum, spyrðu mig frekar hvort ég eigi sixpensara eins og Jón Bjarna, eða hvort ég hafi sofið í tímum hjá Hjörla Gutt, eða fræddu mig um tilurð Miðríkisins, fyrst þú á annað borð ert lagstur í Britannicu.
Hættu svo að ljúga að þú hafir átt heima í norðlenskum afdal, efa að þú hafir jafnvel séð einn slíkan á landabréfi.
Hvað þá að bera það uppá vammlausa bændur þar nyrðra að vera latte lepjendur, þar nýta menn sér sykurinn líka ef þeir á annað borð vilja nýta fleiri en eina landbúnaðarafurð í fantinn sinn.
Og hana nú.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 27.6.2020 kl. 12:29
Samtök iðnaðarins:
"Mikilvægi hátækniiðnaðar fyrir atvinnulíf framtíðarinnar speglast í því að fimmtungur allra nýrra starfa sem urðu til í landinu á árunum 1990-2004 sköpuðust vegna hátækni.
Á sama tíma fjölgaði aðeins um 500 störf í stóriðju og fækkaði um fjögur þúsund í sjávarútvegi..
Í lok tímabilsins störfuðu 5% vinnuaflsins, 6.500 manns, við hátækni, 900 við stóriðju (0,7%) og ríflega 10 þúsund í sjávarútvegi.
Í hátækni eru 40% starfsfólksins með háskólamenntun og um 60% með háskóla- og iðnmenntun.
Ef borinn er saman virðisauki Íslendinga af stóriðju og hátækni sést að virðisauki framleiðslunnar í hátækni er rúmlega þrefalt meiri en í stóriðju.
Þetta skýrist af því að hátæknigeirinn er vinnuaflsfrekur og í innlendri eigu, einungis þriðjungur virðisaukans í stóriðju verður eftir í landinu en um 70% eru flutt úr landi."
Skapandi greinar hér á Íslandi veltu 189 milljörðum króna árið 2009, útflutningstekjur þeirra voru þá 24 milljarðar króna og ársverk voru 9.371.
Kortlagning á hagrænum áhrifum skapandi greina - Maí 2011
Þorsteinn Briem, 27.6.2020 kl. 12:38
Aðeins leitt Magnús vegna þess kólgubakka sem skyggir á sjóndeildarhringinn, þetta gæti verið upphaf af endinum, fer eftir hve bráðsmitandi bandaríska veiran er sem stelpan bar með sér, sem og hvort þjóðin ætli virkilega að líða frekari innflutning á smiti án sóttvarna.
Strákarnir í B liðinu fá sinn leik seinna, en minn leikur er á morgun, er svo heppinn að aðeins annar er meiddur í augnablikinu, hinn er óðum að ná sér eftir síðasta fótbrot og mun spila á annarri likt og hann hefur gert síðustu vikur.
Það þýðir ekki að gráta forna tíma, það vantar börn í þorpin, hefur eitthvað með kvóta, smokk og pillu að gera, eða leti, veit ekki.
En það er mikill misskilningur að sóttvörn drepi fótbolta eða ferðaiðnað.
Það er óheft útbreiðsla veirunnar sem gerir það, hún sem slík lifir ekki sjálfstæðu lífi og það tekur 12 vikur að útrýma henni þar sem hún á ekki griðland i umhverfinu (náttúrunni).
Og alveg eins og það var líf fyrir snjallúrið, þá var líf þegar það tók tíma að ferðast milli landa.
Þeir sem eru það óheppnir að búa í löndum þar sem lýðskrum og afneitun á staðreyndum er við stjórn, sem og þeir sem ferðast til slíkra landa, þurfa að sæta því að fara í sóttkví þar til ljóst er að þeir bera ekki smit á milli.
Því miður fyrir indíánana þá lifði fólk það af að ferðast yfir Atlantshafið, þó það tæki lengri tíma en sóttkvíin vegna Kovid veirunnar, og það voru sjúkdómar þess sem drápu, því innfæddir höfðu ekki burði til að vernda samfélög sín með sóttvörnum.
Frumbyggjarnir sem skutu trúboðann um daginn þarna í Indlandshafinu, þeir hafa hins vegar burðina, og halda því ennþá velli. Það er ekki mannvonska sem rekur þá til að aflífa þá sem virða ekki nálgunarbannið, heldur hvötin til að lifa af, bitur reynsla banvænna smitsjúkdóma kenndi þeim þá lexíu.
Þetta eru ekki geimvísindi, og það er ekki hægt að búa í sátt við drepsótt, ekki frekar en að deila búri með tígrisdýri.
Það er töluð útlenska á Eskjuvelli í dag þegar Fjarðabyggð spilar heimaleik sinn, og það er enginn smitaður, galdurinn var sóttkvíin, sem engan drap þó hún ærði taugakerfi þjálfarans, enda lítið gaman að æfa unglinga í stað þess liðs sem átti að spila sumarið.
Við ráðum kannski við þessa bylgju, svo kemur bara næsta og næsta.
Því það þarf aðeins eitt smit að ganga laust, svo sé veldisfallið um restina.
Staðreynd.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 27.6.2020 kl. 12:53
Það er víst rétt Esja.
Þetta fólk sparar á kostnað annarra, ekki sín sjálfs, þá finnst alltaf þúsund kallinn.
Alveg eins og það telur að það muni ekki deyja í næstu bylgju, aðeins einhverjir aðrir.
Svo tala menn um kynbótastefnu nasista.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 27.6.2020 kl. 12:56
Hjá Norðuráli á Grundartanga unnu um 500 manns í árslok 2009, þar af um 400 félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness, og á vef félagsins er tekið sem dæmi að starfsmaður, sem unnið hefur í sjö ár hjá Norðuráli, hafi fengið 308.994 króna mánaðarlaun í nóvember 2010.
12. 6.2008:
"Á vefsíðu Fjarðaáls kemur fram að meðallaun framleiðslustarfsmanna eru tæpar 336 þúsund krónur á mánuði, með innifalinni yfirvinnu, vaktaálagi og fleiru."
Samkvæmt launakönnun VR, sem gerð var í ársbyrjun 2009 og tæplega ellefu þúsund manns svöruðu, voru heildarmánaðarlaun á hótelum, veitingahúsum og ferðaskrifstofum 362 þúsund krónur, í samgöngum á sjó og landi og flutningaþjónustu 377 þúsund krónur og flugsamgöngum 391 þúsund krónur.
(Og í matvæla- og drykkjariðnaði voru heildarmánaðarlaunin 391 þúsund krónur, lyfjaiðnaði 411 þúsund krónur, ýmsum iðnaði og byggingastarfsemi 441 þúsund krónur, byggingavöruverslunum 363 þúsund krónur og stórmörkuðum, matvöruverslunum og söluturnum 352 þúsund krónur.)
Félagssvæði VR nær yfir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Seltjarnarness, Mosfellsbæjar, Álftaness, Kjósarhrepps, Akraness og nágrennis, Húnaþings vestra, alls Austurlands og Vestmannaeyja.
Launakönnun VR 2009 - Grunnlaun, heildarlaun og vinnutími á hótelum, veitingahúsum, ferðaskrifstofum, í samgöngum á sjó og landi, flutningaþjónustu og flugsamgöngum, bls. 23-25
Þorsteinn Briem, 11.2.2015:
Að minnsta kosti 1.600 íslenskir flugmenn, flugfreyjur, flugþjónar, flugvirkjar og flugumferðarstjórar starfa hér í ferðaþjónustunni við innanlandsflugið og millilandaflugið.
Þeirra laun hafa ekki verið tekin hér með í reikninginn og þau hækka að sjálfsögðu meðallaunin töluvert í ferðaþjónustunni.
Rúmlega 600 eru í Félagi atvinnuflugmanna (FÍA), rúmlega sjö hundruð í Félagi flugfreyja. um 200 flugvirkjar vinna hjá Icelandair og Flugfélagi Íslands og um 100 flugumferðarstjórar starfa hér á Íslandi.
Meðallaun flugmanna virðast vera um ein milljón króna á mánuði, samkvæmt Tekjublaði Frjálsrar verslunar 2009 og þar má finna flugfreyjur með 400 og 500 þúsund krónur á mánuði, flugvirkja með 400 og 700 þúsund krónur á mánuði og flugumferðarstjóra með um eina milljón króna á mánuði.
Ræstingafólk vinnur í öllum fyrirtækjum, bæði í þjónustu- og framleiðslufyrirtækjum, álverum sem ferðaþjónustu.
Og á móti þeirra launum koma mun hærri laun flugmanna, flugfreyja, flugþjóna, flugvirkja og flugumferðarstjóra.
Þorsteinn Briem, 27.6.2020 kl. 12:59
Takk fyrir góðan og þarfan pistil.
Tek heilshugar undir orð þín Ómar.
Steini er hins vegar óvenjulega leiðinlegur í dag.
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 27.6.2020 kl. 13:41
Takk fyrir það Símon Pétur.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 27.6.2020 kl. 18:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.