Sóttvarnarlæknir hafnar hugmyndinni.

 

Og þá er það eins og guð hafi sagt það.

 

En hver eru afrek hans??

Undir styrkri stjórn hans erum við sýktasta þjóð heims miðað við hausatölu.

Þjóðir sem hafa notað þá aðferðafræði sem hann hafnar, að loka á smitleiðir, þær eru minnst sýktar þjóðir heims miða við hausafjölda.

Og lögreglan sem á að gæta öryggi borgaranna étur upp orð hans þó raunveruleikinn æpi á að þau séu bábiljur.

 

Lögreglan á Austurlandi, sem hefur fengið svipað ákall frá íbúum fjórðungsins, hafnar beiðni um lokun með þessum orðum; " .. þjóni ekki tilgangi sínum fremur en að loka landinu öllu. Það muni fremur fresta vandanum en leysa hann enda óvíst þá hversu lengi landshlutinn yrði að vera lokaður.“".

Sama dag og myndir bárust frá Whuan sem sýndu fólk á ferli.

Jafnvel lögregla, sem ekki veður í vitinu, á að geta talið á puttum sér dagana frá því að Whuan var sett í sóttkví og allsherjar útgöngubanni var komið á og þar til opnað var aftur.  Og ef hún getur það ekki þá hlýtur einhver kennari veitt þeim aðstoð við að telja. Það er gert svona; einn, tveir, þrír, fjórir, alveg þar til síðasti dagur sóttkvíarinnar er talinn.

Það er ekkert óvíst í þessu, veiran lifir ekki sjálfstæðu lífi og ef lokað er á allar smitleiðir hennar þá deyr hún út.

 

Ábyrgð lögregluyfirvalda á Austurlandi og Norðurlandi Eystra er mikil.

Deyi fólk á þessu svæði, þá er ábyrgðin þeirra.

Þau höfðu valdið til að grípa inní, en gerðu það ekki.

 

Það sárgrætilega er að það enda öll byggðarlög meira eða minna í sóttkví vegna smæðar og nálægðar.

Munurinn á sóttkvínni á norðausturhorninu og Húnaþingi vestra er sá að fólki var leyft fyrst að sýkjast í Húnaþingi, og svo var lokað. 

Þar sitja menn uppi með óttann og áhyggjurnar af afdrifum ættingja sinna og vina.

Og meðan er ekki lokað á smitleiðir þá er alltaf hætta á að sagan endurtaki sig.

 

Vissulega er fólk miklu meira á varðbergi núna, en halda menn að fólk hafi ekki gætt að sér í Vestamannaeyjum??

Að þetta séu bara sóðar sem kunni ekki að þrífa á sér hendurnar??

Meinið og málið er að veiran finnur sér smitleiðir líkt og hópurinn sem fór í skíðaferðalag fyrir norðan komst að.

Eina örugga sóttvörnin er að loka á öll samskipti við hana.

 

Íslensk sóttvarnaryfirvöld loka á öll samskipti við veiruna eftir að fólk er sýkt.

En sóttvörn felst í því að gera það áður.

Og hefur verið gert með góðum árangri í mjög fjölmennum löndum.

 

Það er ekki hægt að loka augunum fyrir þessari staðreynd.

Mjög fjölmenn lönd hafa náð að halda veirunni í skefjum og það er ekkert sem bendir til þess að hún brjótist þar stjórnlaust út.

Geri hún það samt í einhverri ókominni framtíð þá hafa viðkomandi stjórnvöld keypt þjóðum sínum tíma, hindrað ótímabær dauðsföll meðal íbúanna, og stytt þann tíma sem er í óhjákvæmilega lækningu.

Við lifum jú á 21. öldinni og þetta er ekki drepsótt eins og Svarti dauði sem gengur aftur og aftur.

 

Í vörn sinni fyrir hinu óverjanlega er þá gripið til staðleysa eins og það sé ekki hægt að loka samfélög inni, útgöngubann raski daglegu lífi fólks og stöðvi í raun allt samfélagið.

En er það ekki hvort sem raunveruleikinn í dag, æ fleiri á leið í sóttkví, aðrir lifa í viðvarandi ótta um að sýkjast??

Og hver tekur á móti fólki frá sýktasta landi í heimi??

Við erum að fá á okkur svipaðan stimpil og holdsveikir höfðu á öldum áður eins og íslenskir ferðalangar hafa reynt á eigin skinni í fjarlægum löndum.  Og það er rétt að byrja.

 

Það er því grátlegra en nokkrum tárum tekur að beiðni læknanna sem standa vaktina á norðausturhorninu hafi verið hafnað með vísan í órök og bábiljur, þvert gegn reynslu þjóða sem hafa gripið til slíkra aðgerða.

Hvort skyldi vera erfiðara að loka Raufarhöfn eða Peking??

Íslendingar í Peking segja borgina ósýkta og lífið sé farið þar að ganga sinn vanagang.

Samt á að sýkja byggðirnar fyrst áður en þeim er lokað.

 

Það er verið að gambla með líf fólks.

Og allir sem ábyrgðina bera eiga að skammast sín.

 

Skammist ykkar.

Kveðja að austan.

 

PS. Tölulegar staðreyndir ljúga ekki og orðavaðall um að aðrar þjóðir líti til okkar sem fyrirmynd í baráttunni við kórónaveiruna geta ekki vísað í slíkar staðreyndir. 

Ísland.  Smit 648 eða 1.899 per milljón íbúa.  Dauðsföll 2 eða 6 per milljón íbúa.

Singapúr.  Smit 558 eða 95 per milljón íbúa.   Dauðsföll 2 eða 0,3 per milljón íbúa.

Hong Kong. Smit 387 eða 52 per milljón íbúa.   Dauðsföll 4 eða 0,5 per milljón íbúa.

Taivan   Smit  235 eða 10 per milljón íbúa.    Dauðsföll 2 eða 0,08 per milljón íbúa.

 

Þessi Austur Asíu ríki fengu fyrsta smitið um mánuði á undan okkur, hafa mikil samskipti við Kína, bæði vegna nálægðar sem og að íbúarnir eru flestir af kínverskum ættum.  Við höfðum mánuð til að undirbúa varnir okkar og læra af þeim.

Tölfræðin segir að það hafi ekki verið gert.


mbl.is Læknar vilja loka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það er mikil synd að þér skuli ekki verið veitt alræðisvald til að leysa þessi mál. Með öll þessi fífl og favita við stjórvölinn er kominn tími til að fá einn að austan sem er alvitur til að redda málunum. Allavega lesa langlokurnar og bölmóðinn frá þér og fara eftir þeim.

Jón Steinar Ragnarsson, 25.3.2020 kl. 08:42

2 Smámynd: Ágúst Kárason

Ég er sammála þér Ómar. Það er alveg greinilegt að kallin hefur mikið meiri áhuga á að stjórna dreifingunni á veirunni heldur en að reyna að loka á hana. Hann lekur henni hingað og þangað á meðan allstaðar annarstaðar er verið að reyna að stöðva hana. Það fer að koma að því að fólk loki bara sjálft og standi með haglabyssurnar við hliðin svo smitberar sóttvarnalæknis komist ekki í bæina.

Ágúst Kárason, 25.3.2020 kl. 08:42

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Íslendingar og Suður-Kóreumenn hafa verið duglegasttir við að taka sýni hjá fólki. Því fleiri sýni, sem eru tekin, því fleiri smit uppgötvast. 

Bandaríkjamenn tóku hundrað sinnum færri sýni miðað við fólksfjðlda og auðvitað varð hlultfall sýktra margfalt lægra, en gaf hins vegar kolranga mynd um raunverulega stöðu. 

Ómar Ragnarsson, 25.3.2020 kl. 08:48

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Jón Steinar.

Ég hélt að þú hefðir hraðlæknast eftir shockmeðferð mína sem ég veitti í andsvari mínu  vegna fyrri athugasemdar frá þér, en svo sá ég tímasetninguna, hún er ekki svo hraðlæknandi að hún virki aftur á bak í tímann.

Þannig að þú hefur bara séð ljósið á eigin spýtur og það er jákvætt, því segjum sem svo að einhver taki mark á orðum þínum, þá á ég ekki heimangengt, ég er kominn í sóttkví, er greinilega komin með flensu og virði því tilmæli um að halda mig heima við. Þá dettur mér ekki í annan sérfræðing en þig þar sem þú hefur samviskusamlega þrautlesið langhunda mína og ættir því að vera gjörkunnugur þeim aðferðum sem virka.

Eigir þú ekki heimangengt, þá getur Þórólfur alltaf hringt í kollega sína í Taivan eða Hong Kong, þeir tala víst ágæta ensku.

Það eru mörg víg fallin þegar sauðþráir eins og þú sjá bæði ljós og villur sínar, með þessu áframahaldi verður komið útgöngubann fyrir helgi.

Eða vonum það.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.3.2020 kl. 09:29

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Já það er hætt við því að það fari að styttast í haglabyssurnar Ágúst, og ótrúlegt að menn skuli halda að það sé hægt að stýra drepsótt, að menn skuli tala um hana eins og hverja aðra flensu.

Mér fannst þú orða kjarnann vel í pistli þínum frá 23. og ég ætlan leyfa mér að endurbirta það hér fyrir neðan með von um að einhver (lesist ekki Jón Steinar) lesi sér til skilnings.

"Var stefnan í upphafi virkilega tekin á bjartsýnisspána? Venjulega þegar um mannslíf er að tefla er unnið frá svörtustu spánni og svo slakað á eftir að menn gera sér betur grein fyrir hættunni. Og þarf virkilega að gera reiknilíkan til að búa til einhverja bjartsýnisspá sem er svo unnið eftir þegar við höfum biksvartan raunveruleikan æpandi á okkur frá Ítalíu og víðar? Ég bara átta mig ekki á þessu. Halda menn að þessi veira hafi kannski slappast eitthvað við ferðalagið til Íslands?

Ég vona bara að þessi nýji/gamli lyfjakokteill sem var verið að prófa komi að gagni þegar þetta verður komið á fullt skrið eftir nokkrar vikur því ég reikna ekki með að menn séu undirbúnir undir það sem koma skal.

Sú stefna sem menn enda með í svona bardaga er stefnan sem átti að taka í upphafi.". Tekið af bloggi Ágústs Kárasonar.

"Sú stefna sem menn enda með í svona bardaga er stefnan sem átti að taka í upphafi", sorglegt en satt og hræðilegt að það skuli vera sátt um þessi afglöp.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.3.2020 kl. 09:35

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður nafni.

Bandaríkjamenn eiga virkilega eftir að reka sig á og þó Trump hafi farið á námskeið um handþvott, þá dugar það ekki þegar á reynir.

Það er síðan ekki góð staða að hafa þurft að taka flest sýni per haus, betra er að vera í þeirri stöðu sem Austur Asíu ríkin eru í, taka þau sýni sem þarf til að fylgjast með útbreiðsluna og stöðva smitleiðir.

Eftir því sem sú stefna er árangursríkari, því færri prufur þarf að taka, bæði í fjölda sem per haus.

Af þeim eigum við að læra.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.3.2020 kl. 09:39

7 identicon

Tek heils hugar undir þína þörfu og réttmætu gagnrýni.  En við erum grýttir fyrir að voga okkur að setja fram spurningu sem þessa:

"Hvort skyldi vera erfiðara að loka af Raufarhöfn eða Peking?" 

Hvað þá að nefna á hið augljósa svar.  Svo bilað er hjarðeðli þeirra sem leyfa veirunni að dreifast um allt landið, án þess að grípa til varna, mannslífum til varnar, að þeir vilja helst hálshöggva sendiboðana fyrir að voga sér að svara spurningunni rétt.  Þvílík er afneitun þeirra.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 25.3.2020 kl. 12:06

8 identicon

Ef við lokum hvað gerist þá þegar við opnum aftur? Og hvað ert þú tilbúinn að loka lengi? Er hugsanlegt að neikvæð áhrif af lokunum og öðrum öfgafullum aðgerðum verði verri en af sjálfri veirunni?  Hvað telur þú að samfélag og hagkerfi þoli að vera lamað lengi?  Ert þú alveg sannfærður um að þú sért sjálfur best til þess fallinn að vita hvaða leið er okkur fyrir bestu?

Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 25.3.2020 kl. 13:09

9 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Held að ástandið sé eiginlega betra en búast mátti við.  Af 11727 teknum sýnum hafa 737 reynst sýktir, eða 6.3%.
Rúmlega 9000 manns eru í sóttkví og gera ekkert af sér á meðan - amk á meðan þeir fara ekki á skíði hér eða þar.
Sóttkvíin virðist þannig ekki síðri hemill á útbreiðslu en allsherjar útgöngubann. 

Kolbrún Hilmars, 25.3.2020 kl. 13:33

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Pétur Örn.

Ég bara grýti á móti eins og þú hefur tekið eftir.

Ég var að henda inn pistli áðan sem skýrir kannski reiðblossann sem sprakk út í gær, en dropinn sem yfirfyllti bikarinn var svo hvernig forheimskir kerfisþrælar flækjast fyrir nauðvörn mannsandans.

Þannig að afskiptaleysi mitt stóð í 2 daga, svo útrás og núna er það aftur rólegheitin eða þannig.

Fólk á að geta rætt málin af hógværð án þess  að vera sakað um að grafa undan, leika sjálfskipaða sérfræðinga eða annað sem þú fékkst yfir þig í gær. 

Ekkert að því að vera ósammála og tjá það, en það er ekki ræða, hvorki umræða eða skoðanaskipti að hjóla í skoðanir fólks með þeim orðum að sérfræðingar okkar viti best og við hin eigum svo að halda kjafti, en gagnrökin síðan engin. Helst að við megum  þakka fyrir. 

Sem við gerum Pétur, við þökkum fyrir það sem vel er gert, mér hefur stundum þótt þú meir að segja vera óþarfa þakklátur en er ekki að mæta á feisbók til að ritskoða þig.

En ég er góður í grjótkasti, það veistu.

Hitti meir að segja einu sinni kríu, en það var alveg óvart því ég hélt að það væri ekki hægt.  Hef ekki kastað grjóti í fugla síðan.

En Hroka hjarðhegðunarinnar, name it.

Hér á þessari síðu er enginn hálshöggvinn því böðlar eru ekki leyfðir.

En svo ég fari í fasa bjartsýnarinnar þá held ég að það sé aðeins tímaspursmál þar til samfélaginu verði lokað, það er hvort sem er hálflokað i dag, og veiran drepin á svona 6-8 vikum.

Og þá byrjar fótboltasumarið og strandhögg gerð á Sunnlendinga.

Alltaf að halda í vonina.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.3.2020 kl. 14:50

11 identicon

Takk kæri vinur.  Já, höldum í vonina.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 25.3.2020 kl. 15:05

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Stefán Örn.

Það fór nú aldrei svo að það fyndist enginn í hjarðhegðuninni sem réði ekki við gagnrök umræðunnar.

Tek spurningar þínar lið fyrir lið, en kannski ekki í réttri röð.

Ert þú alveg sannfærður um að þú sért sjálfur best til þess fallinn að vita hvaða leið er okkur fyrir bestu?".

Það var einu sinni maður (þetta er sönn saga) sem hristi oft hausinn þegar sveitungar hans fóru að róa, sagði að það væri ekki veður þó engin væri kólguskýin á veðurtindi, eins fór hann ekki alltaf að slá túnið í sólarglætu, sagði að það myndi rigna svo ekki yrði hægt að hirða heyið.  Hann var einmitt spurður að þessu "hvað er þetta maður, þykist þú alltaf vita best".  Nei svaraði hann, ég er nýbúinn að fá mér útvarpsviðtæki og hlusta á veðurlýsingar.

Lestu tölurnar í PS. mínu og athugaðu þó útvarpið sé ekki sama uppspretta fróðleiks og það var, þá eru til aðrar leiðir til að afla upplýsinga og lestu þér svo til um hvernig aðrir sérfræðingar sem hafa náð árangri hafa staðið að málum.  Kjarninn er að þeir gera réttu hlutina fyrir en ekki eftir.

"Ef við lokum hvað gerist þá þegar við opnum aftur? Og hvað ert þú tilbúinn að loka lengi?".

Ég skal játa að ég nennti ekki að telja dagana sem lokunin í Hubei héraði stóð yfir, en ég benti á aðferðafræðina hér að ofan, sbr. einn, tveir og svo framvegis.  Eru ekki sirka átta vikur síðan skellt var í lás, og í netmiðlum í gær var birt mynd af ungri kínverskri fjölskyldu með 2 börn á leið út í lífið.  Mig minnir að Ítalir og Spánverjar stefni á svipaðan tíma, en væri samt ekki hissa á að hann yrði lengri því þessu var leyft að smitast út um allt og veiran er orðin illvígari.

Hvað gerist þegar er opnað??

Nú lífið heldur sínum vanagang, hvað annað??  Nema náttúrulega með þeim takmörkunum að samskipti við smituð svæði eru ekki leyfð nema í gegnum sóttkví og það er stíft eftirlit og inngrip ef það koma upp ný smittilvik.

Já og meðan ég man, ég man ekki til þess að yfirvöld á Ítalíu eða Spáni hafi komið að máli við mig þegar þau tóku þessa ákvörðun, að loka, þannig að þau telja mig ekki best til þess fallin að stýra sóttvörnum, hissa ég.

"Er hugsanlegt að neikvæð áhrif af lokunum og öðrum öfgafullum aðgerðum verði verri en af sjálfri veirunni?". 

Nei því drepsóttir lama samfélög hvort sem er, það að verjast þeim lágmarkar ekki bara manntjón, heldur líka efnahagstjón því mannlíf kemst miklu fyrr í eðlilegan farveg.  Og þér að segja Stefán þegar lokun er eina þekkta ráði, þá er það viss vanþekking að nota orðið "öfgafullt" í því samhengi.

"Hvað telur þú að samfélag og hagkerfi þoli að vera lamað lengi?".

Veit það ekki, þeir þraukuðu helv. leng í Leníngrad á sínum tíma en kjarninn er sá að það er ekki val, sbr. að drepsóttir lama hvort sem er.

Það er með svona aðgerðir sem og aðrar sem þjóðir þurfa að grípa til á stríðstímum (sbr. landlæknir sem sagði að við eigum í stríði við veiruna) að samfélagið aðlagar sig að þeim.  Grunnstarfsemi er til dæmis lengi hægt að halda gangandi ef menn feisa staðreyndir og láta það starfsfólk sem sinnir henni einangra sig frá hinu smitaða samfélagi.  Svona svipað eins og menn fóru á vertíð í Seley í gamla daga, nema menn þurfa ekki að sofa í köldum torfkofum, og þá komu allir aftur, nema náttúrulega þeir sem sjórinn tók. 

En menn fóru samt því annað var ekki í boði.

Það versta við hjarðhegðunina er það Stefán að í fyrsta lagi þurftum við ekki að sýkjast og í öðru lagi, fyrst að því var leyft að gerast, þá værum við núna hægt og hljótt komin yfir það versta ef við hefðum feisað útbreiðslu smitsins í tíma.

Hong Kong, íbúar 7,6 milljónir, á svæði sem er um 2.700 km2, heildarfjöldi sýkinga 387, dauðsföll 4.  fengu samt þessa veiru rúmum mánuði á undan okkur þegar alvarleiki hennar var ekki þekktur.

Samt ekki fleiri smit.  Og meðan ég man, þeir höfðu heldur ekki samband.

Það er ekki hollt fyrir hausinn að lemja honum oft við stein.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.3.2020 kl. 15:24

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Kolbrún, vonum það.

Það breytir því samt ekki að við erum að upplifa veldisaukningu í fjölda smita.

Í dag var það upplýst að starfsmaður HSA hér fyrir austan væri smitaður og kona hans líka.  Þessi starfsmaður er svona Andri á flandri heilbrigðisstofnunarinnar okkar.

Engin veit hvort hann hafi valdið smiti sem lami HSA eins og leggur sig, höggið er allavega þungt.

Þetta þurfti ekki að gerast.

Það versta er samt að hann þurfti bara að vera starfsmaður á hjúkrunarheimili, og þá værum við farin að telja, einn, tveir, þrír, fjórir, og það væri tala látinna.

Það gengur ekki að stýra drepsótt, það er staðreynd og það  þýðir ekkert að rífast við hana.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.3.2020 kl. 15:30

14 identicon

Heldur þú með fullri vissu haldið því fram, Ómar, að Kinverjar geti komið í veg fyrir að fólk muni koma inn fyrir landamæri Hubei héraðs og að sýkingin geti ekki blossað upp aftur? Hubei var lokað um tvo mánuði að ég held. Getur verið að stjórnvöld í Ítalíu og Spáni séu að bregðast við með þessum þætti því þau brugðust svo seint við og misstu tökin á því að stýra hraða útbreiðslunar og heilbrigðiskerfið í þessum löndum ræður ekki við fjölda þeirra sem þurfa meðhöndlun? Hefði ekki verið heppilegra fyrir þessi lönd ef þau hefðu brugðist við með sambærilegum hætti og við. Hvað varðar meint vanþekkingu eða ekki þá er ljóst að aðgerðir stjórnvalda hér eru mun meira í takt við þekkingu faraldsfræða heldur en t.d. Ítala þó svo að þau ráð sem þeir eru að beita núna séu eflaust nauðsynleg vegna þess hve seint þau brugðust við.

Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 25.3.2020 kl. 15:48

15 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Stefán.

"Heldur þú með fullri vissu haldið því fram, Ómar, að Kinverjar geti komið í veg fyrir að fólk muni koma inn fyrir landamæri Hubei héraðs og að sýkingin geti ekki blossað upp aftur? Hubei var lokað um tvo mánuði að ég held".

Fyrst svona smáforvitni, af hverju varst þú að spyrja mig um lengd lokunarinnar þegar þú vissir svarið??, en annars hélt ég að óttinn væri að ennþá væri sýkt fólk meðal íbúa Hubei héraðs og að það myndi aftur breiða út vírusinn.  Vandamál sem er ekki hægt að útiloka og í versta falli hefst sama ferli uppá nýtt, en þá verður slegist við hvert tilfelli líkt og gert er í öðrum ríkjum Austur Asíu, og hefur heppnast vel hingað til þó aldrei skyldi maður segja aldrei þegar smitandi veirusjúkdómur á í hlut.  Reikna svo með að vísindi 21. aldar muni fljótlega finna ráð til að greina einkennalausa smitbera en þeir eru í raun vandinn varðandi stjórnlausa útbreiðslu veirunnar.

En eins og þú setur dæmið upp, þá er það auðleystur vandi, ferðum inní héraðið verður stjórnað líkt og núna er með Peking, 14 daga sóttkví þar til menn telja að smitið sé það lítið prómil að hægt sé að eltast við sérhvert tilfelli.

"Getur verið að stjórnvöld í Ítalíu og Spáni séu að bregðast við með þessum þætti því þau brugðust svo seint við og misstu tökin á því að stýra hraða útbreiðslunnar og heilbrigðiskerfið í þessum löndum ræður ekki við fjölda þeirra sem þurfa meðhöndlun? .".

Já það er augljóst en þetta er eina leiðin þegar smit eru orðin stjórnlaus.  Þau höfðu allar upplýsingar til að grípa til þessa aðgerða strax þann 28. febrúar, eða mjög fljótlega upp úr því.

"Hefði ekki verið heppilegra fyrir þessi lönd ef þau hefðu brugðist við með sambærilegum hætti og við. ".

Nei því við brugðumst rangt við.  Í sjálfu sér gerði Ítalía svipað, eltist við veika einstaklinga og beitti svo takmarkaðri sóttkví líkt og við erum að gera í Vestmannaeyjum og Húnaþingi vestra.  En skar ekki á smitleiðir í tíma líkt og restin af þjóðum Vestur Evrópu, sem eru allar sem ein í djúpum skít.  Varðandi Ítali þá gleymist stundum að heilbrigðiskerfi þeirra á Norður Ítalíu er á pari við það besta í heiminum, það er ekkert sem við vitum sem þeir vita ekki.

"Hvað varðar meint vanþekkingu eða ekki þá er ljóst að aðgerðir stjórnvalda hér eru mun meira í takt við þekkingu faraldsfræða heldur en t.d. Ítala þó svo að þau ráð sem þeir eru að beita núna séu eflaust nauðsynleg vegna þess hve seint þau brugðust við.".

Enn og aftur Ítalir brugðust ekki seint við, þeir brugðust rangt við svo veiran fékk að dreifa sér óáreitt.  Þó er spurning hvort yfirvöld hafi gert sér grein fyrir fyrstu smitunum sbr. rannsóknin sem greint var frá 28. febrúar um að veiran hefði stökkbreyst, en það tekur alltaf ákveðinn faraldsfræðilegan tíma, eða það var fullyrt í frétt Guardian og maður með einhvern titil borinn fyrir.

Við erum líka að bregðast rangt við, því við skárum ekki strax á smitleiðir.  Réttar ákvarðanir, að loka, voru teknar of seint og eru því rangar ákvarðanir þó prinsippið sé rétt.  Frumforsenda sóttvarna er að skera á smitleiðir, en hroki nútíma mannsins um að hægt sé að elta veiruna uppi með nútímatækni varð okkur að falli.

Það fóru þjóðir eftir fræðunum og taldi upp nokkrar í Ps mínu.  Þær náðu árangri þó ekki sé ennþá ljóst til dæmis í Singapúr hvort þau hafi náð að hemja smitið en þá er öruggt að stjórnvöld þar muni grípa til hertra aðgerða.

Sú aðferðafræði sem þú kallar "í takt við þekkingu faraldsfræða ", að reyna stýra útbreiðslunnar til að minnka kúfinn, en loka ekki á smitleiðir, var hin opinbera stefna á Evrópusambandsins, núna halda aðeins Svíar fast við þá stefnu, á einhverjum tímapunkti hafa aðrar þjóðir tekið upp einskonar útgöngubann þó engin þjóð hafi gengið eins langt og Ítalir. 

Og allar glíma við það sama, stjórnlausa útbreiðslu.

Á sama tíma er mannlífið allt að komast í eðlilegt horf í fjölmennasta ríki heims, segir það þér ekki eitthvað Stefán???

Kveðja að austan.

PS, lestu fyrstu athugasemd þína og berðu hana svo við þá seinni.  Í þeirri fyrri léstu hroka hjarðhegðunarinnar villa þér sýn og varst óttalega bjánalegur, í seinni þá ræddir þú bara málin af skynsemi.

Þetta er alveg hægt.

Kveðja engu að síðri.

Ómar Geirsson, 25.3.2020 kl. 19:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 9
  • Sl. sólarhring: 16
  • Sl. viku: 455
  • Frá upphafi: 1412817

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 394
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband