Ég er spinnegal.

 

Algjörlega kreisý og trúandi til hvers sem er.

 

Eru efnisleg skilaboð Trump til heimsbyggðarinnar og Írans á tísti sínu.

Og hvort sem það er viljandi eða grunnhyggni, þá skipar hann sér á sjaldgæfan sess sögunnar með Ríki Íslams þegar hann hótar eyðingu menningarverðmæta. 

 

Svona er  staða heimsmála í augnablikinu, leiðtogi voldugasta ríki heims spilar sig klikkhaus og sú hugsun hvarflar að heimsbyggðinni hvort hann sé það ekki í raun.

Og ef það eru efasemdir í röðum Repúblikana á Bandaríkjaþingi um heilbrigði hans eða hæfni, þá mætti ætla að þeir haldi neyðarfund með demókrötum og setji hann af áður en kemst að rauða takkanum.

Eins er ekki hægt að verða hershöfðingi í Bandaríkjaher án þess að vera sæmilega heill á geði og vel gefinn, það gera öll þessi sálfræði- og greindarpróf og þar með vita allir stjórnendur hersins að sá sem hótar að terrorista heiminn, endar með því að heimurinn terroristar hann.  Sem og þeir vita þá skyldu sína að þegar leiðtoginn klikkast, þá er það þeirra skylda að fjarlægja hann.

 

En Trump fær að leika sér á tístinu og ennþá er hann formlega æðsti yfirmaður hersins.

Sem ætti að fá mann til að hugsa dýpra, að þetta snúist ekki um Trump eða persónu hans.

Stórveldi þurfa að tefla sína skák, og ljóst er að Íranar hafa núna um nokkurt skeið ögrað Bandaríkjunum og bandamönnum þeirra í Miðausturlöndum.

Og þegar þeir réðust á olíulindir Sáda með drónum, þá fóru þeir yfir línu sem Bandaríkin geta ekki hundsað ef þau ætla að halda stöðu sinni á þessum slóðum.

 

Ögrun sem var ekki svarað og þá er bara haldið áfram að ögra.

Árásin á bandaríska sendiráðið i Bagdad er síðasta dæmið þar um.

Í þessu samhengi má minnast að þegar Gaddafi Lýbíuforseti gekk svo langt að láta sprengja farþegaflugvél yfir Skotlandi, að þá lét hann ekki af athæfi sínu fyrr en hann slapp naumlega úr loftárás á heimili hans en missti nokkra fjölskyldumeðlimi.

Þá höfðu menn áhyggjur af stigmögnun en í stað þess varð friðvænlegra í heiminum eða þar til Sádar tóku að fjármagna hryðjuverk í gríð og erg, og eru ennþá að.

 

Aðstæður við Persaflóa eru vissulega ólíkar, bæði Íran miklu öflugra ríki og ríkin við flóann sjá heiminum fyrir megnið að olíunni sem hann notar.

Mjög auðvelt er því bæði að stigmagna átök, sem og að valda miklu efnahagslegu tjóni.

Viðbrögð Bandaríkjanna verða að skoðast í því ljósi, þau ráðast að kjarna valdsins í Íran, og um leið hóta þau ógn og skelfingu.

Hvort það dugi á harðlínumenn í Íran verður að koma í ljós.  Og enn og aftur má ekki gleymast að þeir hófu þessa vegferð að ögra voldugasta ríki heims.

 

En endi þessi ógnarskák þannig að Bandarísk stjórnvöld sjái sig tilneydd til að standa við stóru orðin, og sprengja Íran í loft upp, þá er ljóst að gríma lýðræðisins er endanlega farin af þeim og bandamönnum þeirra.

Eftir stendur grímulaus valdbeiting hins sterka líkt og um svæsnasta alræðisríki væri að ræða.  Munum að hótanir hins sterka og valdbeiting hans kom af stað seinni heimstyrjöld, þegar hann neyddist til að standa við hótanir sinar.  Pólland hefði alltaf getað gefist upp fyrir Hitler og leiðtogar Frakklands og Bretlands kropið í auðmýkt við hásæti hans.

Meinið og málið er að sá sem beitir valdi í dag, safnar glóðum elds af höfði sér, og verður beittur valdi á morgun.

 

Til skamms tíma mun tilræðum gegn saklausu fólki fjölga, og aðeins hræsnin ein að kalla slíkt hryðjuverk.

Því varla voru allir andspyrnumennirnir sem börðust gegn alræði og kúgun Þjóðverja, hryðjuverkamenn þó þeir hefðu ekki afl til að mæta þeim á vígvellinum.

Og sem hingað til hefur verið sátt um í siðmenningunni, að beita ekki gjöreyðingamætti, hver notar ekki slíkt þegar andstæðingurinn sker á öll tengsl við hinn siðmenntaða heim.  Drepur í krafti vopnayfirburða, segir að hinn veiki hafi engan rétt, nema þá til að hlýða og þjóna.

 

Og þetta vita menn í Washington, og ég efa ekki að Trump viti þetta líka.

Ógnarskákin sem tefld er á að vinnast án þess að til allsherjarstríðs komi.

Á að vinnast án þess að hún sameini heimsbyggðina gegn Bandaríkjunum.

Án þess að Bandaríkjamenn verði réttdræpir hvar sem til þeirra næst.

 

En ef þessi skák er ekki tefld, hvar hefðu þá Írönsku harðlínumennirnir stoppað??

Höfum það í huga.

Undanlátsemi er ekki eitt af leiðarljósunum sem varðar veginn til friðar.

Um það kann sagan fleiri dæmi en hollt er að muna.

 

Hins vegar legg ég til að það verði hannaður sýndarveruleiki handa þessu fólki sem sífellt þarf að tefla ógnarskákir.

Svo það fái útrásina þar en ekki í raunheimi.

Svo það láti okkur hin bara í friði með það hlutverk sem lífið fól okkur.

 

Að skapa líf.

Og að koma því á legg.

 

Því flóknara er lífið ekki.

Og tími til kominn að við virðum það.

Kveðja að austan.


mbl.is Reiðubúnir að ráðast á 52 skotmörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Af hverju heldur þú að það þurfi að sprengja allt landið í loft upp?  Þeir þurfa ekki að spregnja neiam 1 eða 2 háttsetta embættismenn í viðbót, og þá fer allur vindur úr elítunni þarna.

Ásgrímur Hartmannsson, 5.1.2020 kl. 14:51

2 identicon

@Ásgrímur Hartmannsson

Farðu varlega í að vanmeta hina persnesku þjóð.

Hún er bæði mjög fjölmenn (t.d. eru um 65% af um 83 milljónum íbúa landsins af persneskum uppruna)

og hefur varðveitt og hlúð vel að menningarminjum og bókmenntum stórveldistímabila sinna, sem voru meira eða minna samhangandi frá 550 f.Kr. og framundir 750 e.Kr.  Eftir það ríktu arabar yfir þeim í um 800 ár, en persar viðhéldu allan þann tíma tungumáli sínu, sögu og mikilli menningu.  Eitthvað sem við á margan hátt getum tengt vel við, þ.e.a.s. að varðveita okkar sagnaarf og menningu.  Má ég svo minna á að Zaraþústra var persi, boðberi góðra hugsana, góðra gjörða og góðra orða.  Mættum hafa það núna í huga.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 5.1.2020 kl. 16:16

3 identicon

Boðskapur Zaraþústra gegnsýrði mest allt blóma- og stórveldistímabil Persa.  Það er ekki fyrr en með innrás araba sem nýrri trú er þröngvað upp á persa.  En þeir varðveittu tungumál sitt og þar með alla sína miklu menningu, menningu sem er jafn samofin boðskap Zaraþústra og persneskt teppi.  Minnumst þess Ásgrímur.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 5.1.2020 kl. 16:34

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Ásgrímur.

Það seinna sem þú segir held ég að sé alvarlegt vanmat, og trúi slíku vanmati ekki uppá teflendur í Washington.  Í það fyrsta virðast Shítar þjást af þeirri ónáttúru að reyna komast í biðröð ef þeir frétta af möguleikanum á píslardauða, sem og að valdaelítan er hötuð af stórum hluta þjóðarinnar, og minnsti veikleiki af hennar hálfu gæti þýtt tafarlaus endaloka hennar.

Spurningin er enn og aftur, hve mikil ítök hafa harðlínumen miðað við þá sem hófsamari eru.  Í þessu samhengi verða menn að skilja að sá harðlínumaður sem hóf taflið í Íran, hóf það til að stigmagna átök, til að reita Bandaríkjamenn til það mikillar reiði að þeir réðust á landið.  Og eins og Þjóðverjar ráku sig á þá er óvinsæl harðstjórn heima fyrir ekki nein ávísun á að þjóðin styðji innrásarmenn, þvert á móti eru líkurnar meiri á að hún þjappi sig að baki stjórnvöldum landsins.

Vonin felst í þeim sem sjá að þetta er vitfirring, hvort þeir nái að sjatla málin, leita samninga í stað ófriðar.  Og ég efa ekki að Bandaríkjamenn eru að höfða til þeirra afla, það var engin tilviljun að þessi maður var felldur, en ekki einhver annar.

Og þess vegna er ég líka að tala um ógnartafl, þar sem teflendur eru allt aðrir en þeir sem tísta á samfélagsmiðlum.

Síðan þetta með þessi orð þín; "heldur þú að það þurfi að sprengja allt landið í loft upp.", þá held ég að ég hafi hvergi haldið því fram í pistli mínum.

Hins vegar má lesa þá löngun úr orðum Trump þegar hann talar um að beita öllu afli bandaríska heraflans, og það afl er ekki nokkrir drónar sem eru notaðir til launmorða.

Og það sem ég bendi á, líkt og ég held allir aðrir sem fjalla um þessa hörmung þarna niður frá, er hættan á stigmögnun átaka, þar sem hefndin þarf að vera stærri en það sem hefnt er fyrir. 

Til dæmis ef Bandaríkjamenn standa við þessa hótun Trump þá er ljóst að Íranar eiga enga aðra útgönguleið en að svara fyrir sig, það eru bara Danir sem gefast upp án þess að hleypa af skoti.  Og mér finnst ákaflega líklegt að önnur veldi sem stafar ógn af herskárri stefnu Trump, útvegi þeim vopn, líkt og varð Bandaríkjamönnum að falli í Víetnam.

Það búa fleiri þjóðir yfir hátæknivopnum en Bandaríkjamenn, það geta fleiri þjóðir ógnað með drónum.  Þó að nafninu til láti þeir einhverja andspyrnu eða hryðjuverkahópa bera ábyrgðina.

Síðan eru bara svo mörg vopn sem við höfum aðeins heyrt um af afspurn, en menn þrá að fá að nota.  Þó það væri ekki annað en að auglýsa notagildi þeirra, svo hægt sé að framleiða meira og selja fleirum.

Eina í raun sem Bandaríkjamenn hafa fram yfir Írana, er mátturinn til að sprengja allt í loft upp.  Þar liggur þeirra hótun, og sú staða gæti auðveldlega komið upp að þeir ættu ekki annan valkost en að beita þessum yfirburðum sínum.

Með þeim afleiðingum sem ég lýsti hér að ofan.

Ég trúi því bara ekki að ógnarskákin sé tefld á þeim forsendum þó ég reyndar trúi mönnum sem sendu hundruð þúsunda ungmenna út í opin dauðann í nafni píslarvættisins til að vilja slíkt endatafl.

Þeir hafa ekki þau völd í dag, en þeir þrá þau.

Og þeir voru nógu öflugir að geta beitt landi sínu til að æsa til ófriðar við öflugasta herveldi heims, á þann hátt að því varð að svara.

Biðjum til guðs að mótaðgerðir Bandaríkjamanna komin þeim ekki til valda, þá er fjandinn laus á þann hátt sem mannkynið hefur ekki upplifað áður.

Ég held jafnvel að núna sé tíminn fyrir hina guðlausu að biðja líka.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.1.2020 kl. 16:49

5 identicon

Tekið skal fram að ég hef alla tíð borið mikla virðingu fyrir Bandaríkjunum, en það er skelfilegt ef stjórnvöld þar hóta nú að sprengja upp persnesk menningarverðmæti.  Með fullri virðingu einnig fyrir aröbum, en fyrrgreind menningarverðmæti eru miklu eldri og þar með sögulega en þau arabísku.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 5.1.2020 kl. 16:50

6 identicon

Ef slík stolt og menningarlega merk þjóð

sem enn minnist stórveldistíma sinna

(alls eru nær 170-200 milljónir taldir vera af persneskum uppruna í heiminum í dag)

yrði niðurlægð með því að rústa menningarverðmætum hennar, þá tek ég undir góð orð Ómars um að biðja um liðveislu Guðs, og það í Jesú og kærleikans og virðingarinnar nafni, að virkja alla góða verndarengla og einnig þann hinn sama guð sem persar nefna Ahura Mazda.  Í Guðs nafni.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 5.1.2020 kl. 17:43

7 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Hér sýnis mér gleymast að venjulgir íranskir persar eru ekki í sama liði og klerka gengið sem er að leiða írösku þjóðina til helvítis.

Guðmundur Jónsson, 5.1.2020 kl. 17:50

8 identicon

@ Guðmundur Jónsson

Átt þú von á því að, ef af yrði sprengjur á persnesk menningarverðmæti, að bandarísk stjórnvöld sprengdu moskur???   

En færi svo, þá fyrst myndi allur múslimaheimurinn sameinast í heift sinni og reiði gegn Bandaríkjunum og Vesturlöndum.  Megi þá öll heimsbyggðin biðja allar þær bestu bænir þjóðum heims til bjargar.  

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 5.1.2020 kl. 18:08

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Guðmundur.

Mér finnst þetta hæpin fullyrðing svona í ljósi þess að Persía er kjarni þess svæðis sem hélt tryggð við tengdason spámannsins, og þar erum helgar borgir sjíta átrúnaðarins.  Sem og að næstum allir sem einn fögnuðu komu miðaldamannsins Khomeinis á sínum tíma.  Og þó eitthvað hafi trúarhitinn kulnað þá þurfti ekki að neyða ungmennin sem leituðu dauðans á vígvellinum þegar sókn Husseins var brotin á bak aftur.

Hins vegar er Íran líkt og Tyrkland og fleiri lönd þar sem miðaldamenn hafa hreiðrað um sig, klofin milli nútímans og fortíðar, milli unga fólksins í borgunum og fjöldans á landsbyggðinni.

En það er fátt sem sameinar betur en innrás annars ríkis, ekki nema þá morðárásir þess og sprengjuregn.

Ég ítreka að þetta er ógnarskák sem þarna er tefld, en höldum því enn og aftur til hafa að taflið hóf íranskur harðlínumaður, hver sem hann svo sem er.

Og þeir sem tefla þjást örugglega af mörgu, eins og gigt, bakverkjum eða bakflæði, en örugglega ekki af barnalegri bjartsýni, það eitt er víst.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.1.2020 kl. 18:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 19
  • Sl. sólarhring: 770
  • Sl. viku: 5558
  • Frá upphafi: 1400315

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 4775
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband