Svona fór um sjóferð þá.

 

Eitt af stóru kosningaloforðum Donalds Trump var að draga Bandaríkin út úr hernaðarátökum í fjarlægum löndum og átti þá við Afganistan og púðurtunnuna í Miðausturlöndum.

Vandséð er hvernig hann getur staðið við það loforð núna þegar hann hefur tendrað þráðinn í púðurtunnunni.

Að segja að hann sé að koma í veg fyrir stríð er álíka öfugmæli og að þú kveikir í púðri til að koma í veg fyrir að það springi.

Það sem verra er að hafi Bandaríkjamenn haft einhverja siðferðislega yfirburði yfir kolbrjálaða hryðjuverkamenn, þá er það vandséð hvernig svo er eftir að þeir drepa leiðtoga annarra ríkja úr launsátri.

 

Rök Trump, óljósar fullyrðingar um að hryðjuverkið hafi þjónað þeim tilgangi að koma í veg fyrir yfirvofandi og illgirnislegar árásir á Bandaríkjamenn, er endurvinnsla á þeim rökum sem Rumsfeld, þáverandi varnamálaráðherra notaði þegar hans fyrstu viðbrögð eftir árás Sáda á Tvíburaturnana var ákall um að stöðva Alkaida með því að ráðast á Írak. En Saddam Hussein var líklegast sá maður sem sýndi liðsmönnum Alkaida minnstu miskunn, þeir voru réttdræpir hvar sem náðist til þeirra innan landamæra Íraks.

Rumsfeld notaði þessi rök að koma í veg fyrir hryðjuverk á Bandaríkin og bandaríska þegna, tengsl sem hann gat ekki sýnt framá, en urðu að raunveruleika þegar óvinur hryðjuverkasamtakanna var fjarlægður og samtökin fylltu svo uppí tómarúmið í Írak. Síðan kom svo Ríki Íslams og allir þekkja þá sögu.

Af hverju ætti fólk núna að trúa svona fullyrðingum eftir allar lygarnar í kringum innrásina í Írak er spurning sem erfitt er að svara.

 

Það er augljós trúnaðarbrestur milli Bandaríkjanna annars vegar og fyrrum bandamanna þeirra á Vesturlöndum hins vegar.

Og það er nokkuð öruggt að leiðtogar þeirra ríkja sem hafa talist keppinautar Bandaríkjanna eða meintir andstæðingar, hugsa stíft, hvern myrða þeir næst?

Eins styrkir þetta harðlínuöfl í Íran sem voru á fallandi fæti vegna bágs efnahagsástands, og voru farin að skjóta mótmælendur handófskennt til að brjóta mótmæli þeirra á bak aftur.

 

Framtíðin er því óviss og öll ríki þurfa að hugsa sinn gang.

Fyrst og síðast spyrja sig hvort þau séu undir það búin að mæta kreppuástandi ef hnökrar verða alþjóðlegum viðskiptum vegna stríðsátaka.

Þegar kól sem mest í kaldastríðinu þá voru byrgi grafin, brúsar og tankar fylltir af olíu, matvælum safnað í geymslur.

Þannig bjuggu einstök lönd sig undir hugsanleg stríðsátök, að eiga matvælaforða og eldsneyti sem dygði einhverja mánuði eða ár.

 

Íslensk stjórnvöld fara hins vegar hina leiðin, vinna markvisst að því að eyða innlendri matvælaframleiðslu svo landið sé algjörlega háð snurðulausum alþjóðaviðskiptum.

Og mér er til efs að það sé mikill olíuforði í landinu ef allt springur í bókstaflegri merkingu í loft upp við Persaflóann.

Við erum það firrt að við höldum að saga mannsins sem er meira eða minna skráning á stríðsátökum, að henni sé lokið með varanlegum friði.

Sem er fjarri lagi.

 

Og við eigum að feisa það.

Fyrsta skrefið þar um er að tilkynna Evrópusambandinu að við ætlum ekki að innleiða reglugerðina um frjálst flæði á sýklum og búfjársjúkdómum.

Næsta skrefið er að setja þjóðinni þau markmið að vera sjálfbær varðandi matvæli og orku sem er ekki flókið í þessu tæknivædda landi sem er að springa úr orku með hitann vellandi úr iðrum jarðar.

 

Auðvita eigum við að vona hið besta, að glóran nái aftur völdum í Hvítahúsinu og hryðjuverkamenn þar verði dregnir fyrir dóm.

En við eigum að búa okkur undir það versta.

Því hvort sem það eru loftslagsbreytingar eða óbærilegur þrýstingur sem leiðir til stríðsátaka, þá er ekki hægt að reikna  með friðsemdinni sem er forsenda snurðulausra alþjóðlegra viðskipta.

 

Hvernig sem fer mun glóbalið deyja enda alltaf galin hugmynd, fullreynd í Sovétríkjunum sálugu.

Við munum upplifa umbreytingaskeið sem vonandi skilar af sér nýjum og betri tímum.

Við munum upplifa átök, það er öruggt, það eina sem er ekki öruggt er hvort við lifum þau af.

Og þá er betra að vera ekki tekinn í bólinu með allt niðrum sig.

 

Það er raunverulega ekki val.

Kveðja að austan


mbl.is Trump: Komum í veg fyrir illgirnislegar árásir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú, þegar mörgum okkar er brugðið, finnur þú hinn rétta tón. 

Og það er að við sem þjóð, við sem ríki, hugsum okkar gang.  Hugum að því að vera okkur sjálfbær, sjálfstæð þjóð og fullvalda ríki,

en leyfum ekki erlendu valdi að sölsa undir sig yfirráðum yfir orkuauðlindum okkar.  Og þvinga okkur, með aðstoð innlendra leppa og lagastimplara, að selja okkur maðkað korn og kjöt.

Það má aldrei aftur verða, að við verðum ósjálfbær hvað eigin orku og matvælaframleiðslu varðar.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 4.1.2020 kl. 13:31

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Símon.

Þjóðskáldið sagði einu sinni að nú yrði Íslands óhamingju allt að vopni, en má ekki til sannvegar færa að það sé líka hægt að vopnvæða hamingju landsins??

Ekki veit ég hvað þeir eru að hugsa þarna í Hvíta húsinu, líklegast eru þetta skýr skilaboð um að Íranar hafi farið yfir ákveðin mörk þegar þeir fóru að sprengja olíulindir og olíuskip.  Samt óþarfi hjá þeim að haga sér eins og alræðisríki sem telur sig engan sið þurfi að virða, og það megi allt í krafti valds síns.

En þetta er allavega ekki gæfulegt, það eitt er víst.

En þá er enn ríkari ástæða að hugsa um okkar vegferð, og ég hef þegar tjáð þá skoðun mína að aðeins fávitar leyfi frjálst flæði á sýklum og sjúkdómum á þessum síðustu og verstu, og reyndar yfir höfuð ef útí það er farið.

En af einhverjum ástæðum sem ég get ekki skýrt, þá virðist þjóðin ekki þekkja gegnheila idjóta þó þeir séu beint fyrir fram nefið á fólki, og flestir virðast í raun kóa með vitleysunni.

Þá er það bara að tengja Símon, þá er það bara að tengja.

Vonandi rumska einhverjir og ná að sameinast um andspyrnu gegn voðafólkinu sem stjórnar landinu í dag.

Á meðan þarf að andæfa.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 4.1.2020 kl. 14:02

3 identicon

Tek heils hugar undir orð þín um að einungis

"fávitar leyfi frjálst flæði

á sýklum og sjúkdómum"

Verst er að það skuli vera íslensk stjórnvöld

sem eru þeir fávitar.

Vel má vera að Kári Stefánsson hafi rétt fyrir sér að þjóðin sé vitlaus,

en þá er hún einungis vitlaus að leyfa fávitum að stýra landi og þjóð til eigin bjargarleysis og ósjálfstæðis og að lokum eigin tortímingar.

Það er skelfileg tilhugsun, ef svo er komið.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 4.1.2020 kl. 14:26

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það má kannski segja sem svo "já sko sagði ég ekki" þegar púðurkellingin sprakk. En mikið hefði ég viljað gefa til að Trumpin hefði verið sá þjóðrækni friðsemdar maður sem hann vildi vera láta, en ekki úr sama sauðahúsi og hver hver önnur Hillary. Var meir að segja farin að leiða hugann að því hvort mér hefði skjöplast um ruanveruleikarann.

Það er því miður búið að fábjánavæða þjóðina, framleiða meira hundrað þúsund fávita í fáviskufabrikkunum. Orðið sjálfbærni á aðeins við kolefnisjafning og glóbalinn í hugum fábjánanna, enda hefur öðru ekki verið haldið á lofti í fáviskufabrikkunum kynslóðum  saman.

Máltækin sem allir skildu fyrir mannsaldri s.s. að vera sjáfum sér nógur, hollur er heima fengin baggi og þar fram eftir götunum er ekki einu sinni lengur talin til afdalamennsku, heldur flokkast nú undir örgustu þjóðernis pólitík einangrunarsinna.

Og ef sú pólitík verður ofan á, hvað verður þá um blessuð exel börnin, HM, IKEA, Viðskiptaráðið og öll hin?

Magnús Sigurðsson, 4.1.2020 kl. 15:05

5 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Það er mjög rakt púðrið í þessari tunnu, sýnist mér.

Ásgrímur Hartmannsson, 4.1.2020 kl. 15:10

6 identicon

"að tilkynna Evrópusambandinu"  tók ESB nokkuð mark á því að þegar við vildum draga umsóknina til baka?

Ef ekki væri olía í miðausturlöndum nær þá væri flestum sama um hver væri að drepa hvern þarna  í sandauðninni

En þarna er olía og ótakmörkuð fjárráð sem nægja til að kaupa þjónustu allra málalíða heims

Væringja í Miklagarði þar með talda

Grímur (IP-tala skráð) 4.1.2020 kl. 17:59

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Grímur.

Sé ekki alveg samhengið í orðum þínum í tilvitnuð orð mín.

Það eina sem ég vildi gera var að við myndum tilkynna Evrópusambandinu að við myndum ekki leyfa frjálst flæði á sýklum og búfjársjúkdómum og það skiptir engu máli hvort þeir hlusta á það eða ekki, þetta er okkar ákvörðun, og snýr að okkar matvælaframleiðslu.

Og ég setti þetta inní það samhengi að á víðsjárverðum tímum þá er ekki fyrstu viðbrögð að vega að grunnforsendum tilveru þjóða, sem er matvælaframleiðsla þeirra.

Slíkt gerir aðeins fólk sem gerir fábjána að skýrleiksfólki.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.1.2020 kl. 16:53

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Skiptir það máli Ásgrímur, tendra menn þá ekki kveikiþráð sem dugar.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.1.2020 kl. 16:54

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Máttur nútímans er margskonar og mörgu hefur hann breytt í tækni og upplifun okkar á notkun hennar.

En hann er ekki svo mikill að hann breyti visku kynslóðanna í kvæðamuldur sem helst er hlustað í Árbæjarstofu.

Og menn reka sig á það núna.

Og varðandi þá forheimsku að ætla sér að bregðast við ógnum náttúrunnar með pappírsjöfnunum eða ofursköttum að þá skal ég ekki útiloka að áar okkar hafi ætlað að leysa praktísk vandamál með slíkum hætti, en þegar menn til dæmis sá muninn á að hindra flóð með flóðgörðum versus reiknistokki sem jafnaði út flóð á einum stað með því að ímynda sér að eyðimörk þar sem voru engin flóð, og því meðaltalið eðlilegt rennsli eða eitthvað sem ímyndun manns getur ekki séð, og ekki nokkur maður hefði séð fyrir nokkrum árum að nútíminn ætli að bregðast við hlýnun andrúmsloftsins með sköttum og reiknikúnstum, að þá byggðu þeir flóðgarða eftirleiðis. 

Vandi kallar alltaf á lausnir, og ef lausn býr til nýjan vanda, þá reyna menn að bregðast við honum með nýjum lausnum. 

Þú talar ekki niður eldsvoða, þú bregst við honum. 

Það má vel vera að offjölgun og mengun muni að lokum ganga að mannkyninu dauðu, en aumt er það er það bregðast ekki við með því að leita lausna, raunhæfra lausna en ekki talaðra lausna, ímyndaðra lausna.

Tökum Ástralíu sem dæmi.  Þar er hafa menn kosið hagfræði andskotans til valda, hennar boðskapur er niðurskurður til hins opinbera og aukið flæði auðs í vasa Örfárra.  Út frá þeirri hugmyndafræði voru varnir við skógareldum í flugumynd, þó vitað væri að hitastig jarðar væri að hækka, og jarðalönd hins byggilega heims yrðu fyrst fyrir barðinu.

Aðeins örfáir slökkviliðsmenn með lágmarks tækjabúnað börðust við nýkviknaða elda, sem er einmitt það stig þar sem allt er undir að ná strax tökum á þeim.  Núna þegar allt er orðið óviðráðanlegt, og aðeins breytt veðurskilyrði með minnkandi vind og einhverri rigningu geta slökkt eldana, þá er herinn kallaður út, og einhver kraftur i slökkviliðsstarfinu.  Í millitíðinni var það aðeins fórnfúst starf sjálfboðaliða sem bjargaði því sem bjargað var, og menn voru að monta sig af því að ætla að setja einhverja fjármuni í að þeir yrðu ekki bornir út af heimilum sínum vegna ógreiddra reikninga í millitíðinni.

Það er svo sorglegt að sjá hvernig menn hafa kosið andskotann til að eyða jörðinni, en svarið við því er ekki að láta hugmyndafræði hans um kolefnisjöfnun, mengunarkvóta eða græna skatta, allt á Vesturlöndum þar sem framleiðslan veldur minnstri mengun, verða einskonar trúarbrögð í baráttu okkar við hækkandi hitastig jarðar.  Svarið í Ástralíu við skógareldum er ekki að flytja restina af framleiðslu þjóðarinnar til Kína eða Indlands, og banna nútímann. 

Svarið er að nýta tæknina og slagkraftinn sem býr í samfélaginu til að hafa stjórn á eldum, halda þeim í skefjum, slökkva þá.  Til þess þarf fjármuni, ekki afturhvarf til hestaldar.  Hitinn minnkar ekkert við það, öfgarnar í veðurfarinu hverfa ekki þó lítill hluti heimsbyggðarinnar verði hagfræði andskotans að bráð.

En nóg um það, ætlaði aldrei að pikka svona mikið inn.

Varðandi Trump, þá er það bara svo, hvort sem það er hann eða hinn friðelskandi Obama sem fékk friðarverlaun eftir nokkrar vikur á valdastól, að stórveldi þurfa að svara þegar á þau er ráðist eða þeim ögrað, og ef þau hörfa inní litla kassa, þá fylla bara aðrir og verri uppí tómarúmið.

Trump lofaði því sem hann gat ekki lofað.

En það er ekki sama hvernig málið er höndlað.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.1.2020 kl. 17:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.4.): 12
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 98
  • Frá upphafi: 1438649

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 85
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband