9.12.2019 | 11:58
Ofurskattur á eina atvinnugrein.
Sem er undirstöðuatvinnugrein heilla landshluta, er arðrán.
Arðrán fjöldans á minnihluta sem getur ekki varist í lýðræðisþjóðfélagi þar sem afl atkvæða ræður.
Arðrán þar sem fjöldinn vill gera öðrum, fjarlægum minnihluta, það sem hann vill ekki gera sér sjálfum.
Það er siðleysi af svæsnustu gerð að taka eina atvinnugrein út, og skattleggja sérstaklega "... rétt rúmlega helmingi af hreinum hagnaði".
Atvinnulíf höfuðborgarsvæðisins myndi aldrei sætta sig við slíka skattlagningu á hagnað, talað yrði um sósíalisma, rán og rupl.
Sem það er, ofurskattur er lengri leiðin i fátækt fjöldans.
Siðleysi á illt með að horfa á sjálft sig í spegli, og bankar því uppá dyr heimskunnar og biður um rök fyrir arðráni sínu.
Heimskan svaraði að bragði og sagði; "bendið á mikinn hagnað Samherja".
Og notið hann sem rök fyrir að skattleggja hundruð smærri útgerða svo þær hrekist út rekstri, selji kvótann til hinna stærri, og sjá, þar með fáið þið staðfestingu á því að stórfyrirtæki eigi allan kvótann.
Bæta böl með því að auka það.
Ráðast á þá sjávarútvegsbyggðir sem lifðu af samþjöppun kvótans.
Eyðileggja lífsgrundvöll fólks, gera eignir þess verðlitlar.
Heimska eða siðleysi, skiptir ekki máli.
Niðurstaðan er sú sama.
Og afhjúpar þá sem þykjast tala í nafni réttlætis þessa dagana.
Í raun þegar þeirra eina hugsun er þeirra eigin frami og metnaður.
Höfum það hugfast.
Kveðja að austan.
Í besta falli villandi framsetning | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 597
- Sl. sólarhring: 743
- Sl. viku: 6181
- Frá upphafi: 1400120
Annað
- Innlit í dag: 542
- Innlit sl. viku: 5306
- Gestir í dag: 517
- IP-tölur í dag: 507
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Góð greining á heimskulegri umræðu. Alltaf þegar Samfylkingin er spurð um fjármögnun á stórkarlalegum loforðum og yfirlýsingum er svarið alltaf að hækka skatta á sjávarútveg - ansi ódýrt hjal sem virðist samt sem áður ganga í ótrúlega marga
Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 9.12.2019 kl. 14:28
Já Stefán, það er margt mannanna meinið, og til dæmis örbirgð mikil í Afríku.
Hvað ætli það væri hægt að grafa marga brunna, eða mennta mörg munaðarlaus börn, ef ég persónulega tæki þá ákvörðun, að allir þeir sem eiga heima í póstnúmer, 101. 108 og 202, og nafn þeirra byrjaði á samhljóða, að þeir seldu eigur sínar fyrir jól, og gæfu það til hjálparstarfs í Afríku.
Það er ekkert mál að gefa annarra manna eigur, eða slá sig til riddara með því að krefjast ofurskattlagningar á eina atvinnugrein, ef sú atvinnugrein er í nógu mikilli fjarlægð að þú þurfir ekki að horfast í augun á fórnarlömbum gjafmildar þinnar.
Hin svokölluðu sægreifafyrirtæki eru ekki bara nafnið og kennitala eigandans, það vinnur fólk af holdi og blóði hjá þessum fyrirtækjum, það er fólk af holdi og blóði sem vinnur hjá fyrirtækjunum sem þjónusta þau.
Og því miður er skrumið ekki bara bundið við Samfylkinguna.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 9.12.2019 kl. 15:09
Það vill líka gleymast að margir núverandi "sægreifar" þurftu að kaupa gjafakvótann af uppgjafa útgerðum á okurverði eftir "frelsið". Það var einmitt þá sem sumir urðu ríkir. Nær hefði verið að allur upphaflegi og úthlutaði gjafakvótinn rynni sjálfkrafa aftur til ríkisins til endurúthlutunar.
Kolbrún Hilmars, 9.12.2019 kl. 15:19
Blessuð Kolbrún.
Þetta er ein af þeim staðreyndum sem gleymist ákaflega glatt í umræðu skrumsins og upphrópana.
Mjög margar útgerðir frá því í árdaga kvótakerfisins hafa hætt starfsemi, og kvóta þeirra hafa aðrar útgerðir keypt.
Það er síðan mjög misjafnt hvernig menn komust frá rekstri sínum, það má ekki gleymast að bæði voru miklar skuldir í sjávarútveginum, sem og að daginn sem kvótinn var settur, þá urðu skip og hús verðlaus.
Hvernig leikreglurnar áttu að vera má endalaust ræða, en reyndin er sú að þær urðu svona, en ekki hinsegin.
Og þær hafa stýrt þróuninni í sjávarútveginum og skýra hvernig hann er í dag.
Ég get ekki að því gert að þegar margir eldri tjá sig um leikreglurnar, þá rifja þeir upp ástandið sem var þegar kvótinn var settur. Vísa til dæmis í grein Ingu Snælands núna nýlega, það skemmdi mjög fyrir henni að hún áttar sig ekki á að í dag er árið 2019, ekki 1989, þegar ennþá þraukaði smærri útgerð í hverri byggð.
Eigum við að gefa mönnum sem sumir hafa jafnvel tvíselt kvóta, fyrst í aflamarkskerfinu og síðan úr sóknarkerfinu, og eiga sumir ennþá báta sína sem tómstundagaman, tækifæri á að komast inní kerfi þar sem þeir kannski í náinni framtíð fá tækifæri til að selja kvóta sinn i þriðja skiptið??
Allavega þá er bæði byggðamynstrið annað, og hafnirnar meira eða minna tómar af skipum og bátum, síðan eru línu og færabátar margfalt afkastameiri en þau voru í den.
Veit ekki, það væri ákaflega gott ef það næðist sátt um eitthvað form af strandveiðum sem nýtti grunnmið landsins, og gæfi ungu fólki tækifæri á að hefja útgerð.
En það er flókið, sérstaklega þegar hreinræktuð fífl stjórna umræðunni og andófinu gegn núverandi kerfi.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 9.12.2019 kl. 17:08
Algjörlega sammála Ómar. En það virðist alltaf vera svo að ef að eitthvað gengur vel þá kemur öfundin og reynir að níða það niður í skítinn.
Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 9.12.2019 kl. 18:04
Blessaður Jósef.
Ég hef ekkert á móti umræðu um hvenær arður fer að verða óeðlilegur, og síðan hefur alltaf verið full þörf á að ræða um áhrif þess þegar kvóti er seldur úr byggð.
Tökum Grímsey sem dæmi, þar er reglulega kippt undan byggðinni sjálfum tilverurétturinum, að fá að veiða fisk í sátt við guð og menn.
En ef menn vilja skattleggja umframarð, þá á það gilda í fyrsta lagi um alla, hvort sem arðurinn myndast í fasteignaviðskiptum, hlutabréfaviðskipum, eða annars staðar þar sem háar tölur heyrast.
Og í öðru lagi þá eiga menn að skattleggja þá viðkomandi sem þetta á við um, en ekki nota einstök dæmi til að ráðast á heila atvinnugrein.
Síðan má alveg hafa það bakvið eyrað að í árdaga kvótans, voru margir tilkallaðir, en fáir urðu svo útvaldir að lokum. Eins og Kolbrún benti á hér að ofan, þá seldu margir kvóta sinn, og þeir sem keyptu borguðu háar upphæðir fyrir aflamarkið. Það er ákaflega auðvelt að fara flatt á svona viðskiptum, og það gerðu margir og neyddust til að selja frá sér.
Núna þegar sjávarútvegurinn borgar niður skuldir, skapar mikinn arð í þjóðarbúið, þá er Gróa á Leiti gerð út til að níða hann niður.
Til hvers??, það hefur aldrei þótt mikil speki að slátra góðri mjólkurkú vegna þess að hún mjólkar of mikið.
Hvað þá mjólkurkú náungans af öfundinni einni saman.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 9.12.2019 kl. 18:31
Ómar. Að mínu mati er arður eitthvað sem atvinnugreinin borgar fyrir fjármagnið sem hluthafarnir setja í reksturinn. Þessir hluthafar geta eins sett peninginnæi banka og fengið vexti. Eftir því sem arðurinn er hærri fæst meira fjármagn í rekstur sem er af hinu góða. Það er eðlilegt að eigandi auðlindarinnar fái sinn hlut af arðgreiðslunum en þegar útgerðin er farin að borga óheyrilega mikið þá er það farið að koma niður á rekstrinum. Varðandi kvóta sem seldur er úr byggð: Það er ekkert vit í því að halda áfram rekstri ef hann skilar tapi. En þetta mætti vel leysa með því að skylda kvótaeigendur að landa ákveðnum hluta kvótans í heimabyggð þar sem kvótinn var upphaflega. að myndi að sjálfsögðu ríra hagnaðinn.
Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 10.12.2019 kl. 09:25
Blessaður Jósef.
Persónulega finnst mér brask vera meinsemd líkt og krabbamein á heilbrigðum viðskiptum, og mín vegna má skattleggja það til andskotans.
Bendi bara á að ef menn vilja eitthvað slíkt, þá á jafnt yfir alla ganga.
En er eitthvað óeðlilegt að það sé arðsemi af rekstri stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna, eins og þú bendir réttilega á þá er arðsemi forsenda heilbrigðs rekstrar.
Blóðmjólkun fyrirtækja er svo allt annar handleggur og einhver bönd þyrfti að vera á slíku athæfi.
En þetta er flókið með kvótann og það gátu bara ekki allar byggðir lifað af.
En það er þetta með smábátana, grunnmiðin og svo framvegis, engin skynsemi í að þurrka þessar veiðar út, og mættu alveg hugsa sem mótvægi við samþjöppun kvóta.
Ég er fullviss um að margt sé hægt að laga í núverandi kerfi, en böl er ekki bætt með því að gera slæmt, óbærilegt.
Við erum örugglega sammála um það.
En því miður hafa fíflin tekið yfir umræðuna, og það er synd.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 10.12.2019 kl. 09:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.