Ásakanir eigi að stór­um hluta ekki við rök að styðjast.

 

Segir starfandi forstjóri Samherja við starfsfólk sitt.

Svona láta menn ekki út úr sér nema þeir geti staðið við stóru orðin.

Annað er vitlausara en vitlaust er.

 

Nú þegar hefur Samherji hrakið tvennt í málflutningi Ruv.

Viðbrögð stofnunarinnar bendir til þess að sannleikur málsins sé aukaatriði, krossfesting Samherja aðalatriðið.

Annars hefði náttúrulega ríkisútvarpið leiðrétt góðfúslega fréttaflutning sinn, jafnvel skýrum getur skjöplast.

 

Við Íslendingar eigum nákvæmlega þrjú fyrirtæki sem eru í fremstu röð í heiminum á sínu sviði.

Marel, Össur og Samherja.

 

Af einhverri sjálfseyðingarhvöt hefur samfélagið ákveðið að snúa Samherja niður.

Það náttúrulega gengur ekki að grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar sé í innlendri eigu, sé arðsöm og skili bæði samfélagi og eigendum arði.

Slíka ósvinnu þarf að stöðva tafarlaust og þjóðin að bakka áratugi afturábak til veiðimannasamfélagsins, þar sem allir höfðu í sig og á, unnu reyndar langan vinnudag og höfðu ekki valkost um störf.

En góðir tímar engu að síður.

 

Það er nefnilega þannig að það er þjóðin sem ákveður múgæsinguna.

Það var hún sem ætlaði að aflífa meinta ræningja Lúkasar, það var hún sem grýtti Seðlabankann sem bjargaði henni frá gjaldþroti en bauð hrægammanna sem rændu og rupluðu heimilin velkomna.

Það er hún sem þagði þegar handbendi samþykktu braskaravæðingu orkunnar kenndan við orkupakka 3, en stíflar núna samfélagsmiðla með kröfum um ofurskattlagningu megaauðlindagjaldsins eða arðráns kvótauppboðsins.

Aðförin að Samherja er aðeins undanfari aðfarar að öðrum fyrirtækjum i sjávarútvegi sem eru hryggjarstykki atvinnulífs sjávarbyggðanna.

 

Þannig séð er ríkisútvarpið þjónn, reyndar hagsmunaafla, en um leið þjóðarinnar.

Fóðrar hana á brauði og leikum á meðan gírugt fjármagn leggur drög að algjörum yfirráðum hugmyndafræði braskaranna, kennda við frjálshyggju.

Orkan féll í sumar, sjávarútvegurinn á að falla á morgun.

Alþingi var löngu innlimað.

 

Svo koma veggjöld, landbúnaðurinn rústaður með frjálsum innflutningi á sýklum og niðurgreiddum verksmiðjumat.

Heilbrigðiskerfið veitir alltof mörgum þjónustu, það verður braskaravætt, örugglega undir merkjum hins frjálsa flæðis.

Og einn daginn eigum við ekkert í samfélagi okkar, og búum við hugmyndafræði sem lítur ekki á okkur sem fólk, heldur kostnað sem markvisst má skera niður.

 

Það leiðir nefnilega eitt af öðru þegar andskotinn er kominn inn á gafl.

Því spái ég að nóg verði um brauð og leika á næstunni og múgurinn mun fagna.

 

Nema, nema ef einhverjir hafi kjark og dug til að snúast til varnar.

Var Lúkas annars ekki lifandi??

Kveðja að austan.


mbl.is Björgólfur: Erfiðara en Seðlabankamálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bara þessi litla athugasemd vegna góðs pistils þíns:

Nú þegar er VG heilbrigðisráðherrann

byrjuð að tala mjög um fráflæðisvanda.

Þar er skeggið skylt hökunni, 

og enginn vafi að VG ráðherrann

stefnir að frjálsu flæði sem "lausn":

"The Final Solution"

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 5.12.2019 kl. 16:46

2 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Ómar,

Mér finnst nú ekki líklegt ef að Samherji eða önnur félög eru sek um eitthvað misjafnt að þau taki sig saman í andlitinu og gefi úr yfirlýsingar um eigin sekt.  Þetta mál minnir mig mjög á bankaruglið, þar sem óendanlegar fléttur skúffufyrirtækja voru notuð til að fela hluti og yfirmenn töldu sig hafa grafið þetta nógu djúpt.  Mér finnst að fólk eigi að sjá hverju rannsókn á þessu máli fram vindur bæði á Íslandi og erlendis áður en menn fara að lýsa yfir sekt EÐA sakleysi Samherja, eigenda eða starfsfólks.  Menn fengu að éta ýmislegt ofan í sig á haustdögum 2008 um undrabörn bankanna.  Held það sé best að vera með sem minnstar yfirlýsingar þar til amk. fleiri kurl eru komin til grafar í þessu máli.  Eða eins og Danirnir segja, slå koldt vand i blodet, og bara taka þessu rólega :)  Sekt eða sakleysi verður ekki gerð upp á Moggablogginu, heldur í réttarsölum, sem betur fer!

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 5.12.2019 kl. 16:48

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Arnór.

Þú vilt sem sagt meina að Bubbi sé vitlausari en allt sem vitlaust er??

En persónulega finnst mér það ólíklegt að hann taki uppá þeirri vitleysu á gamals aldri.

Hins vegar skil ég ekki af hverju þú ert að hnýta í mig greyið varðandi einhverja sakleysisyfirlýsingu, það eina sem ég segi um málið er að starfandi forstjóri Samherja segir að ásakanir eigi að stórum hluta ekki við rök að styðjast, og mér finnst það lýsa svo mikilli kokhreysti, að ég vek athygli á þeim orðum hans.

Er bara með svona miklu betra fréttanef en blaðamaður Mbl.is því það liggur í hlutarins eðli að ef menn geta ekki staðið við stóru orðin, þá eru þeir jafnvel vitlausari en það sem vitlaust er, og jafnvel rúmlega það.

Þetta er fréttin Arnór, síðan spinn ég út frá henni, bendi á augljósa staðreynd, að Ruv heyktist á að leiðrétta rangan fréttaflutning, eins og slíkt gæti ekki komið fyrir besta fólk í flóknu  og yfirgripsmiklu máli.  Sem því miður fær mann til að efast um annað, og þá fer maður að tengja við áður þekkta múgæsingu, rifjar upp gamla húsbændur Ruvara, hið skítuga fjármagn og eitthvað  fleira.  Lúkas já.

Að sjálfsögðu nota ég tækifærið og segi vinum mínum til vamms, því það er miður að Andófið skuli kappkosta sig um að sanna að það sé vitlausara en það sem vitlaust er og eitthvað fleira.

Og já Bingó, enda á að hnýta í frjálshyggjuna.

Geri aðrir betur af meira tilefni.

En að ég sé að tjá mig um sekt eða sakleysi, tek heilshugar undir orð þín um hlutlausa rannsókn.

Minni svo á einn fyrsta pistil minn um þetta mál sem hér Skaði;

https://omargeirsson.blog.is/blog/omargeirsson/entry/2242305/

Þetta er sko ekki grín að vera tekinn í bólinu með svona mál.

En aðför og múgæsing er heldur ekkert grín Arnór.

Það er nú bara það.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.12.2019 kl. 17:23

4 Smámynd: Ómar Geirsson

The final solution Símon minn góður.

Minni á stórgóðan pistil eftir hann Kára hjá honum Ögmundi.

Hann afhjúpar rækilega frjálshyggjuna sem er innvinkluð í allt hið frjálsa flæði, skömm að allir þessir gömlu jafnaðarmenn, sem alla sína ævi börðust við íhaldið, og undir lokin afskræmið sem það fóstraði og sendi heimdragann, frjálshyggjuna, skuli daga uppi sem stuðningsmenn mestu frjálshyggjutilraunar sögunnar.

Og fatta það ekki einu sinni greyin.

En hann Kári annars, eins og hann varar við frjálsa flæðinu og frjálshyggjunni, þá fellur hann sjálfur í þann fúla pytt þegar hann ræðst að landsbyggðinni á þeim forsendum að rústa megi tilveru hennar vegna þess að kapítalistar eiga fyrirtæki hennar.

Eins og hann átti sig ekki á að það er ekki hægt að spóla til baka, en það er hægt að gera gott úr hlutunum.

Og þó að kommarnir í Rauðu khemrunum hefðu trúað því að þú bættir heiminn með því að rústa öllu því sem fyrir er, þá er það bara ekki svo.

En það er enginn fullkominn Símon minn.,

Kári á samt að vera skyldulesning.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.12.2019 kl. 17:34

5 identicon

Réttilega og vel athugað Ómar.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 5.12.2019 kl. 18:27

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það er býsna gildishlaðin ályktun að Kári Stefánsson hafi ráðist að landsbyggðinni í

pistli sínum.

Það, að gagnrýna þá stjórnsýslu sem flytur meginstoðir lífsafkomu íbúa sjávarþorpa

til moldríkra útgerða kalla ég ekki aðför að landsbyggðinni. 

Og ályktunun "ekki hægt að spóla til baka". Þetta skil ég svo að þú teljir að

afleiðingar kvótakerfisins séu óafturkræfar. Og hafi eg rétt fyrir mér í því efni þá

finnst mér dálítið bratt að kveða upp úrskurð um að óframkvæmanlegt sé að breyta um

stjórnkerfi fiskveiða og taka upp dagakerfi og sóknarmark. 

Árni Gunnarsson, 5.12.2019 kl. 19:54

7 identicon

@ Árni Gunnarsson

Sá "Kári", sem Ómar vísar til í athugasemd, á síðu Ögmundar er, að ég tel, alls ekki Kári Stefánsson.  Enda má nokkuð ljóst vera að Kára Stefánssyni leiðist ekkert að skrifa undir fullu nafni. 

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 5.12.2019 kl. 20:08

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Ja hérna Árni.

Hvernig gastu vitað að ég sé ný kominn af fjöllum, skrapp í fyrradag yfir heiðina í Vaðlavíkina, að vísu ekki nema 400 metra hækkun og samtals um 16 kílómetra labb, en fyrir mig krypplinginn er það næstum því eins og að koma niður Kilimanjaro.  Þú getur ímyndað þér axarskaftið sem rak mig í þá neyðarferð.

Já sem sagt ég kom að fjöllum þegar ég las nafnið hans Kára Stefánssonar, það veit enginn hver Kári hans Ögmundar í reynd er, þó örugglega ekki Ögmundur sjálfur því Kári er greinilega löglærður.  Svo mundi ég eftir landráðsgreinina hans Kára Stefáns og þú telur líklegast að ég sé vitna í þá smásögu.

Nei, Kári hans Ögmundar er ekki gróðapungur með samviskubit eins og sonur hins mikla ritsnillings, Stefáns Jónssonar, kennara og sósíalista með meiru.

Hann er rödd sannleikans í orkupakkaósómanum og hefur óbeit á frjálshyggjunni líkt og fleiri.

Þeir sem hafa þessa dagana mært Pírata og frjálshyggjudelana í Viðreisn ættu að lesa þessi orð Kára, og læra svo að skammast sín;

"Þarna birtast „staðreyndir“ markaðsaflanna. Frjálshyggjan bókstaflega skín út úr þessum texta. Fyrsta spurningin er þessi: hvers vegna skyldu þjóðþing og stjórnvöld ríkja reglusetja ýmsa atvinnustarfsemi? Er það vegna mannvonsku? Er það til þess að gera atvinnulífinu erfitt fyrir? Svar: nei, það er gert til þess að koma böndum á starfsemi braskara og fjárglæframanna og hafa tiltækan viðbúnað [lagaramma] þegar eitthvað ber út af. Afreglun [deregulation] felur hins vegar í sér hið gagnstæða, að afnema reglur og gefa bröskurum og fjárglæframönnum frjálsar hendur [sem stundum hefur endað með hruni!].

            Sú fullyrðing að heimamarkaðir séu „sundurlausir“ (og jafnvel óskilvirkir) á sér enga stoð í raunveruleikanum ef t.d. er miðað við Ísland. Núverandi fyrirkomulag í framleiðslu og dreifingu á raforku hefur virkað ágætlega á lokuðum innanlandsmarkaði. Hins vegar má færa gild rök fyrir því að það hafi verið mistök að aðskilja framleiðslu og dreifingu skömmu eftir síðustu aldamót. Þar hófst óvissuferð sem betur væri ófarin. Af vegferðinni hlaust einungis hækkun raforkuverðs og flóknari yfirbygging og að sjálfsögðu enginn ávinningur fyrir neytendur [enda er „neytendavernd“ einungis „tálbeita“ í þessu sambandi]. Reynslan af markaðslausnum í raforkuframleiðslu er víða langt undir væntingum í sumum fylkjum Bandaríkjanna. Þar hefur t.a.m. framboðsöryggi minnkað og verðið hækkað.[iii]

            Í inngangi umræddrar tilskipunar er skömmu síðar [para 11] vísað til Lissabon-sáttmálans (TFEU) sem tryggi borgurum Evrópusambandsins m.a. frjálsa vöruflutninga, „staðfesturétt“ (freedom of establishment) og þjónustufrelsi. Einungis fullopnir markaðir geti tryggt þetta sem geri neytendum fært að velja þjónustuaðila (supplier) og þjónustuaðilum að veita þjónustuna.

            Þetta kann að virka aðlaðandi í augum einhverra. Hins vegar verður að skoða svona markmið með mjög gagnrýnum huga og ævinlega gera greinarmun á sýnd og reynd. Markmið á blaði eru ekki hið sama og veruleikinn. Spurningin í þessu sambandi snýst ekki síst um það hvaða öfl róa þarna undir. Því er nokkuð fljótsvarað. Það eru að sjálfsögðu markaðsöflin – það eru braskararnir og fjárglæframennirnir sem nú þegar ráða bankakerfi heimsins og heilu atvinnugreinunum. Þessi þróun á sér ekki stað vegna þess að almenningur, hinn almenni kjósandi, sé að biða sérstaklega um þetta! Það er ekki svo. „Neytendavernd“ er síðan notuð sem „gulrót“ til þess að blekkja almenning til fylgis við áformin.

            Auðvitað vilja neytendur fá sem hagstæðast verð, hvort heldur er á rafmagni eða öðru. En halda menn að fjárglæframenn geti best tryggt það? Er það lærdómurinn af bankahruninu og öllu því braski sem því fylgdi? Það er einmitt opinbert eignarhald á virkjunum og dreifikerfi á Íslandi, ásamt með nægu vatnsafli, sem hefur tryggt neytendum mun hagstæðara verð á rafmagni en almennt þekkist í ríkjum Evrópusambandsins. Fólk þarf að safna liði og hrekja þennan áróður allan saman til baka, til föðurhúsanna. Ekki láta ómerkilega stjórnmálamenn og fjárglæframenn ljúga því að sér að neytendur muni græða á þessum tilfæringum. Neytendur munu einmitt tapa á þeim, sérstaklega þegar til lengdar lætur.".

Þessi ósómi er reyndar samkvæmt hugmyndafræði Viðreisnar en Píratar voru það ákafir sporgöngumenn að frjálshyggjuliðið í Viðreisn gat bara hallað sér og geispað á meðan Píratar gerðu ákafa tilraun til að ljúga og bulla meiru en börnin í Sjálfstæðisflokknum.  Líkt og þeir héldu að hægt væri að klífa ókleyft fjall.

Enda eins og ég benti Arnóri á þá á eftir að reyna á hvort Björgólfur sé vitlausari en allt það sem vitlaust er, og persónulega finnst mér það óskhyggja hjá þeim sem ganga erinda hins skítuga fjármagns, en Andófið í dag sem hæst hrópar er því miður búið að sanna að það er hægt að vera vitlausari en það sem vitlaust er.

Pistillinn er annars hjá Ögmundi og er ekki aðeins holl lesning um viðrinishátt fólksins sem þykist berjast gegn spillingu en er á mála hjá fjárglæframönnum og gengur erinda frjálshyggjunnar í reynd í öllum sínum störfum.

Hann er líka skyldulesning allra sjálfstæðra manna og kvenna.

Og það er rétt Árni, það er ekki hægt að spóla tímann til baka.

En lengi má böl bæta, en það er önnur umræða, sem maður tekur ekki þegar fjárbraskarar hafa virkjað fíflagenið til höfuðs landsbyggðinni.

Þú ert því miður ákafalega fáliðaður í þinni nálgun enda fáir sem tjá sig í dag sem hafa migið í saltan sjó, eða flatt fisk í salt.

En meðal annarra orða, þá las ég Sveinbjörn eftir spjallið okkar um daginn.

Góð grein.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.12.2019 kl. 20:30

9 Smámynd: Árni Gunnarsson

Dæmalaus fljótfærni olli því að ég tók skakkan Kára inn í þessa mynd og bið fyrst og

fremst sjálfan mig afsökunar á þeim óvinafagnaði.

Ég hygg að næsta ár muni leiða í ljós hvort ég er eins fáliðaður í baráttunni gegn

blekkingarleik SFS, Hafró og stjórnvalda og í fljótu bragði sýnist þessa dagana.

En kvótakerfið hefur séð fyrir því að þær eru að verða margar Vaðlavíkurnar.

Árni Gunnarsson, 5.12.2019 kl. 22:08

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Þær koma ekki til baka Árni, fásinna að ætla það.

Og jú, þú ert fáliðaður, ég efa að af þeim sem tjá sig á samfélagsmiðlum, hafi náð tug sem skyldi til dæmis umfjöllun Sveinbjörns, til dæmis þá ábendingu hans að Hafró tryggði sér fjármuni með því að leggja til dauðakvóta nokkur ár í röð, meðan einyrkjar og minni útgerðir voru knúnar í sölu.

Það eina sem hægt er að segja um flesta, er hvort þeir séu látnir njóta þann vafa að þeir spili sig fífl, eða hafa sýkst af einhverri frjálshyggjuveiru og séu fífl.

Þú ræðir ekki við þetta fólk um dagkerfi eða sóknarmark.

Og botninum er náð þegar þó þeir sem þekkingu hafa, og ættu að hafa vit til að vita betur, skora á menn að kjósa Viðreisn eða Pírata.

Þorsteinn Pálsson, guðfaðir Viðreisnar og í raun sá eini sem getur talist hugmyndafræðingur hennar, hann grét Árni, hann grét vegna þess að honum tókst ekki að leggja sjávarbyggðir landsins í auðn í nafni hagræðingarinnar.

Þetta er svo aumt, að aumara getur það ekki orðið.

Þetta er ekki einu sinni gjallandi í tómri tunnu.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.12.2019 kl. 22:33

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Við fáum ekki byggð í byggðir þar sem fólk hefur þegar flúið, við fáum ekki í útgerð í pláss þar sem hafnir eru þegar tómar.

Sú varnarbarátta tapaðist á síðustu öld.

En við eigum að verja það sem við höfum.

Okkur ber skylda til þess.

Og burtséð frá núverandi kerfi, þá er alltaf ákveðið sóknarfæri að nýta sér þau fáráð að kvótinn vannýtir mið næstum því hringinn í kringum landið, og það er lygi þegar Kristján Ragnarsson sagði að fiskurinn hefði sporð og synti þangað þar sem kvótinn var að veiða hann.

Þá þegar hafði Björn Björnsson fiskifræðingur sýnt fram á að með merkingum að fiskur á grunnslóð væri staðbundinn, og það væri lítið flakk á honum.

Fáráðin eru slík, að þegar það kom upp sýking í kolastofninum í Faxaflóanum, þá snarminnkaði stofninn þar.  Viðbrögð Hafró var að skera niður kolakvótann um 40% á línuna, og þar með var grundvellinum fyrir snurvoðaveiðar á Austurlandi horfnar, kvótinn var of lítill, þó kolastofninn þar væri ósýktur og braggaðist vel.

Og hvert var kvótinn seldur??, jú til báta á Faxaflóasvæðinu því þeir gátu borgað betur sökum betri aðgangs að mörkuðum (lausir við flutningskostnaðinn á markað, fiskvinnsla gat borgað betur vegna nálægðar við flugið), og hvar veiddu þeir viðbótarkvótann?? Jú, í Faxaflóanum.

Kringum 1990 lögðu yfir 30 línubátar línu frá Gletting að Skrúð, og fiskuðu vel þegar gaf.  Á öðrum árstíma var reytingur.  Núna er ekki einn eftir og eina nýting miðanna er þegar þrælaskipin koma frá Grindavík og víðar, og taka inn toppinn. Þessi þrælaskip gerðu ekki út ef lögum um ávana og fíkniefni væri framfylgt.

Þetta eru bara rök sem ég þekki frá minni heimabyggð Árni, þau eru örugglega fjölmörg hringinn í kringum landið.  Og hvernig sem á það er litið, þá útrýma krókar engu.

En þessi rök eru ekki nýtt, vegna þess að fífl stjórna umræðunni.

Hreinræktuð fífl, og það er miður.

Ef vitborið fólk snéri bökum saman, verði byggðirnar fyrir ágangi hins skítuga fjármagns sem vill þær dauðar, þær eru ekki nógu hagkvæmar samkvæmt fræðunum sem hin gjörspillta stjórnamálastétt okkar étur upp, og héldi sig við staðreyndir, og raunveruleikann, þá ætti að vera hægt að losa um krókaveiðar á grunnmiðum, í það minnsta, og það er augljóst að til dæmis hérna fyrir austan gætu 4-6 snurvoðabátar gert það gott á kola, skráp og steinbít, hugsanlega með smá bolfiskkvóta með, til dæmis er oft góð ýsuganga hérna í fjörðunum og kring.

Þá fengir þú aftur líf þar sem ekkert líf er.

Ef það er þá ekki of seint, því í dag eru flestir smábátarnir í eigu gamalmenna sem lifa leiðindalífi af afrakstri kvótasölu sinnar.

En það er bara ekki áhugi á svona umræðu, hún er ekki nógu heimsk til að múgurinn leggi við eyra.

Og Andófið í dag ber öll einkenni þess að vera múgur, sem er stjórnað af gírugu fjármagni.

Það er bara því miður svo.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.12.2019 kl. 23:08

12 Smámynd: Halldór Jónsson

Átti Samherji um eitthvað annað að velja í Namibíu annað en að borga þeim ráðamaönnum sem skrifuðu reikninga sem skilyrði fyrir kvóta? Var hinn kosturinn annar en að leggja skipinu og fara heim veiðilaus?

Halldór Jónsson, 6.12.2019 kl. 07:51

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Halldór.

Það er allavega fyndið þegar múgæsingin er komin í þær hæðir að því er haldið fram að Samherji hafi fundið upp spillinguna í Afríku.  Það er ekki hægt að lesa annað út úr fullyrðingum eins og að fyrirtækið sé að arðræna fátæka þjóð.

Þegar staðreyndin er sú að fyrirtækið kom inní fiskveiðstjórnunarkerfi sem var þegar mótað, sem og viðskiptaumhverfi.

Menn segja þá, Samherji átti ekki að taka þátt í leiknum.

Gott og vel, en margt má segja um Samherja, en þeir fóru ekki illa með fólkið sem vann hjá þeim, það veit ég frá fyrstu hendi. En hvernig er hegðun samkeppnisaðila þeirra við fátækt fólk??  Það voru ekki neinir englar á svæðinu ef fólk heldur það.

Og var hin meinta heimaútgerð fátt annað en útvistuð skip frá Suður Afrískum auðhring, líkt og þegar Spánverjar skráðu skip sín í Bretlandi til að fá líka kvóta heimamanna?

Veit ekki Halldór, en mér finnst varnarbarátta Björgólfs athyglisverð.

Hvort hann stendur undir henni, það kemur í ljós.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.12.2019 kl. 08:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 587
  • Sl. sólarhring: 641
  • Sl. viku: 6318
  • Frá upphafi: 1399486

Annað

  • Innlit í dag: 502
  • Innlit sl. viku: 5357
  • Gestir í dag: 460
  • IP-tölur í dag: 453

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband