4.12.2019 | 09:19
Óhreinu börnin hennar Evu.
Bættu meðaltölin hjá þeim sem höfðu þau ekki til sýnis, eitthvað sem skólar á landsbyggðinni virðast ekki vera góðir í.
Eða við Íslendingar yfir höfuð, að láta bjánana taka líka próf þegar skólar eða lönd eru vegin og metin, þykist víðast hvar ekki vera góð latína.
Hvað þá að bjánarnir séu síðan látnir taka umræðuna á niðurstöðuna.
Lesskilningi íslenskra barna hefur hrakað frá árinu 2000 er sagt, en bíddu við, eru íslensk börn eitthvað mæld sérstaklega í þessari könnun??
Er ekki verið að mæla lesskilning allra barna sem erum í íslenskum skólum, óháð þjóðerni eða hvort þau hefðu íslensku á móðurmáli??
Fengu börn pólska minnihlutans próf á sínu móðurmáli??, og ef svo var, hvernig áttu þau að standa sig vel þegar þau fá ekki lágmarkskennslu í hvernig á að skrifa og beita málinu??
Það er ótrúlegt að hver spekingurinn á fætur öðrum komi fram og tjái sig um þessa niðurstöðu Pisa könnunina án þess að benda á leitnina milli stórfjölgunar innflytjenda, og síðan lakari útkomu á prófum sem mæla íslenskukunnáttu.
Frá því að vera prómil yfir í að vera hátt í 30% þjóðarinnar, þá í raun ótrúlegt hvað skólakerfið hefur þó náð að tækla vandann, og einn besti mælikvarði þess er að börn innflytjanda virðast aðlagast samfélaginu upp til hópa mjög vel.
Það ætti að þakka, og síðan má spyrja hvað má betur gera.
Í hátt í 50 ár hefur það verið vitað að góð kunnátta í notkun móðurmálsins er forsenda góðrar kunnáttu í öðrum tungumálum.
Þetta er til dæmis skýring þess að íslensk börn í sænskum skólum á áttunda áratugnum fengu sérstaka íslenskukennslu, og sama gilti um börn sem höfðu aðra tungu en sænsku að móðurmáli.
Kostaði vissulega, en skilaði sér margfalt til baka.
Og þessar rannsóknir þekkti íslenskt skólafólk þegar hið frjálsa flæði innflytjenda skall á íslenskan vinnumarkað, það benti á að bæði þyrfti þetta fólk kennslu í íslensku, en ekki síður væri mikilvægt að börn þess fengju kennslu á móðurmáli sínu, það auðveldaði þeim að ná tökum á íslenskunni.
Mátti örugglega gera betur, en þetta var samt allt á réttri leið, og ekki má gleyma að álagið jókst á undan flæði fjármuna til að takast á við það.
Svo kom Hrunið, og þá var allt skorið niður.
Sérstaklega urðu óhreinu börnin hennar Evru illa úti, við vildum vinnuafl foreldranna, því frjálsa flæðið leyfði okkur að svína á því í kaupi og kjörum, en við vildum ekki fjárfesta í framtíð barna þeirra.
Og afleiðingarnar blasa við, þær hafa verið mældar.
Þess vegna eigum við ekki að láta bjánana sem skáru niður, komast núna upp með að bömmera börnin okkar.
Þau eru klár, þau eru flott, þau eru fín.
Þau bera ekki ábyrgð á fjölmenningunni, hvorki íslensku börnin eða börnin af erlendum uppruna.
Þau bera ekki ábyrgð á skammsýninni og heimskunni, hvað þá að þau beri ábyrgð á þeirri áráttu hinna fullorðnu að vilja mæla það sem var, en ekki það sem er.
Ég á tvo syni sem tóku þetta próf.
Þeim gekk ágætlega, en það gekk ekki alveg eins vel hjá þeim sem áttu annað móðurmál en því sem prófað var úr.
Það er miður því það eru líka klárir og flottir krakkar.
En djóklaust, til hvers er verið að prófa uppúr forníslensku spurði sonur minn, og nefndi mér nokkur dæmi. Og ég játa að svarið var ekki alltaf augljóst, og þó er ég af annarri kynslóð sem ólst upp við bækur en ekki tölvur.
Í raun er þetta eins og bjánarnir slægju því upp í fréttum á morgun að verkkunnáttu Íslendinga hefði stórlega hrakað samkvæmt lauslegri könnun sem var gerði síðastliðið sumar, en þar var farið með orf og ljá niður á Klambratún, og fólk sem þar lá í sólbaði, var beðið að brýna ljáinn og taka svo eina brýnu. Á sama tíma hefði verið farið með línubala og óskorna síld niður á Granda, og kaffigestir þar beðnir að beita nokkra króka.
Alveg augljóst mál að útkoman yrði ekki góð úr því, enda myndu flestir líta á slíkt sem brandara.
Nema bjánarnir, þeim verður allt að alvöru, sérstaklega þegar þeir sjá tækifærið að slá um sig með froðu og frösum.
"Ég mennta krakkana til að takast á við störf morgundagsins, kenni þeim að afla sér upplýsinga, og nýta þær." sagði bekkjarkennari strákanna við okkur í síðasta foreldraviðtali.
Og hvernig sem á það er litið, þá eru strákarnir mínir klárari en ég var á þeirra aldri, nema reyndar í forníslensku, sem var nú reyndar bara málið sem við notuðum dagsdaglega þá.
Krakkarnir sem hún hefur sent frá sér í gegnum tíðina hafa staðið sig vel þegar í framhaldsnám er komið, og sveitaskólinn okkar á framhaldsskólastiginu, sem og sveitaskólinn á Egilstöðum, þurfa ekkert að skammast sín fyrir frammistöðu nemenda sinna þegar þeir hafa tekist á við alvöru háskólanámsins.
Sannast hið fornkveðna, að lengi býr að fyrst gerð.
Samt er til fólk sem vogar sér að skíta niður þessa skóla og þessa kennara.
Ég fullyrði að við fáum enga betri sendingu að sunnan en það sem strákarnir mínir hafa nú þegar.
Tvítyngd börn glíma við vanda sem þarf að takast á við.
Slíkt er ekki gert með því að tala niður það sem vel er gert.
Síðan megum við ekki gleyma að snjalltæki gera aðra kröfu til tungumálsins en við fullorðna fólkið erum vön.
Eftir stendur að besta veganestið er brosandi heilbrigð börn, sem halda útí lífið full af trú og tilhlökkun.
Slíkt er ekki mælt í Pisa könnunum.
Og það sem er mælt þar, má ekki verða þess valdandi að stressið og streitan taki yfir, að börn séu brotin niður í stað þess að vera byggð upp.
Ég get ekki að því gert að mér finnst tilhneigingin vera í þá átt.
Stytta nám, auka hraðann, útrýma gleðinni.
Útrýma þeim tíma sem börn hafa í leik og líf.
Og það er ekki gott.
Kveðja að austan.
Útkoman er umhugsunarverð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.1.): 0
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 129
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 113
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hér er mælt af heilbrigðri skynsemi.
Málið reifað og bent á hið augljósa, eða a.m.k. það sem ætti að vera öllu fólki með heilbrigða skynsemi algjörlega augljóst.
Hafðu miklar og góðar þakkir fyrir þennan pistil sem allir þeir, sem íslensku móðurmálu sínu unna, ættu að lesa og reyndar einnig, og jafnframt, pistil Gunnars Rögnvaldssonar um sama málefni.
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 4.12.2019 kl. 10:47
Blessaður Símon Pétur.
Fór og kíkti á pistilinn hans Gunnars og ég glotti þegar hann sagði að besti undirbúningur stráka fyrir lífið væri að taka þetta próf, og falla.
Veit það svo sem ekki alveg, en ég veit að drengirnir mínir sáu engan tilgang í að undirbúa sig fyrir Pisa prófið, ekki frekar en samræmdu prófin, til hvers að læra fyrir eitthvað sem er ekki metið þeim til tekna??
Það var allavega ekki himinn og haf að farast af stressi út af þessum prófum.
Það er rétt ábending hjá Gunnari að Danir lærðu að taka þessi próf, og margir íslenskir skólar leggja metnað sinn í slíkt.
Aðrir leggja hins vegar metnaðinn sinn að skila frá sér brosandi krakka út í lífið, gengur náttúrulega misvel og margt spilar inní. En þessi 2004 árgangur hér á Norðfirði er stórkostlegur, og það fá engir lúsablesar fyrir sunnan að skíta hann út. Eða skólann sem hefur fóstrað hann til manns.
Stundum þarf að mæta kjaftæðinu.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 4.12.2019 kl. 11:01
Já, svo sannarlega, stundum þarf að mæta kjaftæðinu. Og það gerið þið báðir, þó efnistökin séu vissulega ólík. En í reynd er niðurataðan sú sama, að hið frjálsa flæði skapar vanda sem innviðir lands og þjóðar eru ekki undirbúnir fyrir. Síðan er það notað sem rök hins illa, að tala allt íslenskt niður, og með þeim undirliggjandi áróðri glóbalískra innlendra búrakrata um hið ónýta ísland. Vanda sem þeir sjálfir bjuggu til, með niðurbroti innviða.
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 4.12.2019 kl. 11:17
Láta vaða á súðum hefur verið sagt af minna tilefni. Hverjir eru það sem fá hjá þér heitið "bjáni?"
Hefurðu nokkuð lesið skýrsluna?
Esja frá Kjalarnesi (IP-tala skráð) 4.12.2019 kl. 12:46
Nú bjánar auðvitað, af hverju spyrðu Esja??
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 4.12.2019 kl. 13:13
Þú ýjar að því að rannsakendur hafi ekki gert greinarmun á íslenskum börnum og börnum innflytjenda. Ef þú hefðir lesið skýrsluna áður en þú lést vaða á súðum hefðirðu fundið svörin við spurningum þínum.
"Í PISA svara nemendur spurningum um hvort þeir og foreldrar þeirra séu fædd á Íslandi eða í öðru landi, hversu gömul þeir voru þegar þau fluttu til landsins ef þeir fæddust annarsstaðar og hvort þau tali oftast íslensku eða annað mál á heimili sínu. Samkvæmt skilgreiningu OECD eru innflytjendur í PISA þeir nemendur sem eiga foreldra sem báðir eru fæddir utan landsins sem prófað er í. Þeir eru flokkaðir í annarrar kynslóðar innflytjendur en það eru þeir sem fæddust í landinu sem prófað er í (og eiga foreldra sem báðir fæddust erlendis) og fyrstu kynslóðar innflytjendur, sem eru þeir sem fæddust erlendis (og eiga foreldra sem báðir fæddust erlendis). Aðrir nemendur eru þeir sem fæddust í landinu sem prófað er í og eiga að minnsta kosti eitt foreldri sem einnig fæddist þar."
97% nemenda svaraði spurningum upp uppruna sinn og foreldra sinna og flokkast 179 eða 5,6% sem innflytjendur. 99 nemendur eru af fyrstu kynslóð og 80 nemendur af annarri kynslóð.
Rannsóknin leiðir m.a. í ljós að þegar "frammistaða nemenda sem hafa engan erlendan bakgrunn er borin saman við frammistöðu allra þátttakenda í PISA 2018 [má] sjá að hnignun í frammistöðu í lesskilningi síðan 2009 er svipuð í þessum hópum (23 og 26 stig) og er marktæk í þeim báðum. Því er ljóst að hnignun frammistöðu í lesskilningi í heild á Íslandi á þessu tímabili er ekki afleiðing fjölgunar innflytjenda meðal þátttakenda í PISA."
Nánari greining á tölum leiðir í ljós að "[r]úmlega helmingur eða 51,2% innflytjenda í heild er undir hæfniþrepi 2 og telst því ekki búa yfir lágmarkshæfni í lesskilningi. Hlutfallið er rúmlega tvöfalt hærra en hlutfall nemenda sem hafa engan erlendan bakgrunn (23,9%)."
En ætlun þín með þessari bloggfærslu var kannski ekki að fjalla efnislega um málið og byggja á skýrslunni heldur að nota fyrirsagnir til að hella úr skálum reiði þinnar!
Esja frá Kjalarnesi (IP-tala skráð) 4.12.2019 kl. 13:23
Jæja Esja minn, þú ert bara orðinn lestrarhestur, það er alltaf gaman að sjá jákvæð áhrif af bloggi mínu, ég get þakkað mér að allavega einn almennur borgari hefur lesið þessa skýrslu.
Ég er reyndar hissa á að þú skulir ekki reyna að reka ofaní mig fullyrðinguna "hátt í 30% þjóðarinnar" sem er hraustleg túlkun á rúmlega 20% þjóðarinnar er af erlendu bergi brotinn.
Þar fyrir utan þá skil ég ekki athugasemd þína.
Hvar hef ég mótmælt því að meintum lesskilningi hafi hrakað, hélstu að klausan um forníslenskuna væri bara djókari hjá mér, og samanburðurinn við könnun á hrakandi verkkunnáttu þjóðarinnar væri dæmi út í loftið?? Ég var að benda á aðferðafræðina, að mæla það sem var, en ekki það sem er. Krakkarnir nýta tungumálið á allt annan hátt en við gerum, þau lifa í núinu, mótast af tækninni sem haldið er að þeim, kunna að nýta hana, og eru undirbúin undir það sem koma skal. Spurningar um lesskilning sem ég þokkalega lesinn maður á erfitt með að svara, til dæmis vegna þess að spurningahöfundur áttar sig ekki á blæbrigðum málsins, hefur ekkert með nútímann að gera og því tek ég undir orð Gunnars Rögnvaldssonar að besti undirbúningur drengja undir lífið sé að falla á svona prófi.
Ég get hvergi séð í þeim texta sem þú peistar að innflytjendur séu teknir út fyrir sviga í útreikningi á frammistöðu einstakra skóla eða landa í heild, og ef svo er ekki, þá stendur það sem ég segi.
Í það fyrsta set ég spurningamerki um lesskilning þegar svarað er um uppruna, rúm 20% af þjóðinni en aðeins 5,6% af fjölda barna. Það rifjar ennþá sterkara upp fyrir mér frásögn kennara sem hafði það frá fyrstu hendi að í skóla í Reykjavík (prófið á undan þessu) hefði slökum nemendum verið sagt að þau þyrftu ekki að mæta og taka prófið. Það er svona nálgun sem Gunnar Rögnvaldsson átti við þegar hann benti á að Danir hefðu lært að taka prófin, og þá hefði útkoman snarbatnað, þó ekkert hefði breyst í skólanum, enda Danir í fremstu röð að tileinka sér nýja tækni og þekkingu.
Alveg eins og við Íslendingar sem út af fyrir sig segir allt um fáráðin að tala allt niður í kjölfar svona alþjóðlegra mælinga. Það eru allt aðrir þættir sem segja til um gæði menntunar og skólastarfs.
En hvort fjöldinn sé þetta prósent eða hitt er aukaatriði, aðalatriðið er að börn af erlendum uppruna eru hlutfallslega fjölmenn, og sum staðar mjög fjölmenn í skólum á landsbyggðinni. Eðli málsins koma þau illa út úr svona könnunum, og á því eru skýringar, sem ég rek lauslega hér að ofan.
Það er því augljóst að skólar landsbyggðarinnar komi illa út í svona mælingum. Hefur ekkert með starf þeirra að gera, nema þá til að hrósa þeim fyrir að ástandið er ekki verra en það er.
Og Esja minn, geðvonska á sér margar birtingarmyndir, en að snúast til varnar gegn þeim sem tala niður það sem gott er, kerfi sem skilar frá sér mannvænlegum unglingum, er ekki ein af þeim.
Hins vegar er ég farinn að hafa áhyggjur af tánum þínum, ég hlýt, og þá algjörlega óvart, stigið ofaná eina eða tvær og bólgan í þeim ekki ennþá farin að hjaðna.
Mæli með Vöðva og liðagaldri, rammíslenskt krem, miklu áhrifaríkara en Voltaren, sem er útlenskt í þokkabót.
En svo lagast þetta bara með tímanum.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 4.12.2019 kl. 14:42
Enn lætur þú vaða á súðum. Augljóslega hefur þú ekki lesið skýrsluna og þess vegna er tilgangslaust að reyna að ræða efni hennar við þig.
Esja frá Kjalarnesi (IP-tala skráð) 4.12.2019 kl. 14:53
Hvernig datt mér það í hug að þú myndir svara svona Esja minn.
En hvar fékkstu þá flugu að ég vildi eitthvað sérstaklega ræða efni hennar við þig?? Eða efni hennar yfir höfuð??
Það eru eins og tvær flugur séu sveimandi um á milli eyrnanna hjá þér þar sem ætlast er til að eitthvað annað sveimi.
Passaðu þig að fá ekki suðverk fyrir eyrun.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 4.12.2019 kl. 15:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.