Þegar hvíti maðurinn leikur guð.

 

Hefur ekki allt alltaf farið vel.

 

Horfum bara yfir nútímann, hvert tæknin hefur leitt okkur.

Það er samkeppni í dag um hvort loftslagið, drápsvopnin, útrýming skordýra, manngerðar ofurveirur, eða tilgangsleysi mannsandans eftir að við veltum guði úr sessi, og sögðum, við þurfum engan guð, við erum guðir, gangi fyrst af mannkyninu dauðu.

 

Allt þetta á sínar skýringar, líklegast sú stærsta að við áttuðum ekki okkur á að þegar okkur var sagt að hrokinn væri dauðasynd, að þá þýðir það að hann er dauðasynd.

Sem og guðleysið sem er líklegast sú stærsta.

 

En birtingarmynd hroka okkar er margskonar, og þá er ég ekki að vísa í hvernig við drápum guð, hjarðir vísundana í Norður Ameríku, eða menningu frumbyggja yfir höfuð í Ameríku, jafnt þeirri í suðri, norðri eða miðri.

Eða hvernig við voguðum okkur að láta hið skítuga fjármagn kaupa upp idolin okkar í fótboltanum, eða við létum mútur miðaldafólks kaupa HM 2022, keppni sem er þegar mörkuð í blóði tuga fátækra farandverkamanna að ekki sé minnst á hið nútímaþrælahald sem býr að baki hinum glæsilegu mannvirkjum í Katar.

Eða hvernig við látum illmenni í skjóli peninga hins svarta fjármagns flytja árlega inn tugþúsundir, eða jafnvel tali í hundruð, fátækra kvenna til velmegunarríkja okkar og þræla þar til að svala fýsum okkar.

 

Og ekki er ég að tala um keypta byssumorðingja sem drápu jafnt karla, konur og börn í Tasmaníu þar til enginn af ætt frumbyggja var eftir.

Eða þann hroka að skilja börn frá foreldrum sínum á Grænlandi svo þau gætu lært góða siði hins stórmerkilega fyrirmyndarfólks, Dana.

Sami hroki og fjarlægði þúsundir frumbyggjabarna frá fjölskyldum sínum í Ástralíu og skar á öll menningartengsl, sem fjölskyldutengsl svo þau gætu lært hætti hvíta mannsins.

Eða að í velmegunarborginni Osló skuli vera flestir heróínneytendur í Evrópu miðaði við höfðatölu.

Að þunglyndi, depurð og ótti sé að verða fararnesti fleiri en færri barna okkar í dag.

 

Hvað getum við kennt hinum svokölluðum frumstæðum þjóðum eða hvaða rétt höfum við að fordæma menningu þeirra og hefðir??

Höfum við sjálf gengið það vel götuna til góðs að við sé til þess bær að setja niður við annað fólk, aðra menningu, sem er ekki eins og við??

 

Við þekkjum sögu nýlendutímans í Afríku.

Þar var ekki verst arðránið, eða hvernig innlend samfélög voru markvisst brotin niður og reist upp aftur sem uppspretta gæða eins og málma eða hráefna frá Móður jörð.

Hvernig landamæri skáru sundur þjóðir, eða allt sem fyrir var var annað hvort eytt, eða aðlagað að arðráninu, eins og samgöngukerfið var aðeins byggt upp til að flytja hráefni frá innlandi til sjávar, og þar skipað út fyrir lítinn auri, en selt með miklum hagnaði á mörkuðum heimshagkerfisins.

 

Verst var hrokinn og yfirdrepsskapurinn, hvernig við þóttumst vera betri.

Þóttumst vera æðri.

 

Frumstæðast af öllu þótti okkur nektin eða hálfnektin, af hverju klæddist þetta fólk ekki fötum, buxum, skyrtu og jakka, eða kjólum og undirfötum, í hitanum og rakanum, líkt og siðað fólk hafði þróað með sér í kaldara loftslagi.

Í Namibíu útrýmdu Þjóðverjar næstum því Herúlfum, sem þeir kölluðu Hottintotta eða Búskmenn, skutu þá af færi eða lögðu þá sem eftir lifðu í bönd og þrælkun, sökin var nekt þeirra og meint frumstæð hegðun. 

Samt hefði þýskur maður ekki lifað vikuna af upp á eigin spýtur í eyðimörkinni, en þetta fólk hafði lifað þar á annað þúsund ár, eða frá því að Banton ættflokkar úr norðri hröktu þá af löndum sínum út í eyðimörkina.

 

Hvar sem fæti var stungið niður í Afríku, trú og siðir, menning og mannlíf, allt lét undan hroka okkar og yfirgangi.

Við höfðum réttinn, við voru ekki aðeins betri, við vorum æðri.

Svo æðri að við töldum okkur geta leikið guð.

 

Eitthvað vatn hefur runnið til sjávar síðan.

Og fréttir hafa borist af því að gömlu nýlenduveldin sjái eftir sumu, og jafnvel iðrist annars.

Jafnvel Belgar eru farnir að viðurkenna að hluti af velmegun þeirra í lok 19. aldar og upphafi þeirrar 20. eigi rætur að rekja í viðurstyggð ómennskunnar, vegur arðránsins var lagður af þrælkun, limlestingum og drápum.

 

Og þá sagði einhver á Íslandi.

Shit maður, nú fer hver að verða síðastur að leika guð.

 

Og guð var leikinn.

Hrokinn það mikill að það var viðurkennt.

 

Kristinn Hrafnsson sagði í fréttaviðtali að Rúv og Wikileki hefðu ekki getað beðið eftir vandaðri umfjöllun Al Jazeera því það þyrfti að upplýsa um meinar mútugreiðslur Samherja fyrir kosningarnar sem núna hafa farið fram.

Eins og hann eða Helgi Seljan, eða allir hinir litlu guðirnir væru þess megnugir að ákveða hverjir ættu að stýra Namibíu næstu árin.

Í hverra þágu var það, og hver segir að þeir sem græddu á því væru eitthvað betri en þeir sem átti að hrekja frá völdum?

Ef saga Afríku þekkir eina staðreynd öðrum álfum betur, þá er það sú sorg að sá sem hefur það eina sér til ágætis að gagnrýna spillingu, hefur þó þann hæfileika að vera ennþá spilltari en sá sem fyrir var.

 

Hvernig fólk í eyju norður við ballarhaf, þar sem almenningur hefur marga fjöruna sopið, sá eftir stjórnmálastétt sinni í svarthol gjörspillingarinnar, getur talið sig uppkomið að ráðskast með líf og örlög fólks í öðru landi, fjarlægu landi, er illskiljanlegt, jafnvel óskiljanlegt.

Er þetta rasismi í bland við hroka sem fær það að réttlæta hegðun sína og inngrip.

Eru þau sæl í sínu sinni eins og trúboðarnir forðum sem sögðu sögur að frumstæðu fólki sem þyrfti að kristna og siða.

Eða er þeim nákvæmlega sama.

Bara það að geta leikið guð sé alveg nóg.

 

Ég veit það ekki.

En ef ég hefði verið spurður fyrir ekki þó nokkrum árum síðan hvort ég teldi góða fólkið á Íslandi vera upphafna rasista, að það myndi í hroka sínum taka upp beina samkeppni við Seif og Óðinn, þá hefði ég svarað eins og er.

Að ég gæti ekki ímyndað mér það.

Vissulega vann það með bresku fjárkúgurunum í ICEsave stríðinu, og vissulega gekk margt af því í þjónustu hrægammanna sem höfðu keypt sér veiðileyfi á íslenskan almenning.

 

En á öllu er mörk, jafnvel takmörk.

Og að leika guð í fjarlægum löndum, þó fátæk séu og fólk með annan húðlit en við, það var eitthvað sem heilbrigð skynsemi sagði mér að ég gæti aldrei logið upp á þetta vel meinandi góða fólk.

Ekki bara vegna þess að ég tryði ekki slíku athæfi uppá það, því slíkt athæfi væri í dag eitthvað sem sagan geymdi og myndi, líkt og ég rakti lauslega hér að ofan, heldur líka hreinlega vegna þess, að ég hefði ekki hugmyndaflug til að ímynda mér slíkt.

Þó víðáttur þess séu miklar og dreifi jafnvel úr sér þannig að reyni á óendanleikann, þá er slíkt handan við hann.

Því þannig er ekki Ísland í dag, þannig erum við ekki á 21. öldinni.

 

Eða það hefði ég haldið.

En hef mér það til afsökunar á lítt spámannshæfileikum mínum, að ég var aldrei spurður þessarar spurningar.

Það hafði bara enginn hugmyndaflug til þess.

Og ég þori að veðja síðustu jólabjórsflöskunni minni um að slík spurning var aldrei spurð.

 

Og er heldur ekki spurð í dag.

Því það er ekki spurt um það sem þegar hefur verið svarað.

 

Guð er kannski dauður.

En það eru guðir meðal vor.

 

Ég myndi ekki tilbiðja þá.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Kvarta undan kosningasvindli í Namibíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Þetta er svoddan þrumupistill að það tekur tíma að safna kjarki í svör.  En þeir sem þekkja söguna vita að hér er engu logið.

Kolbrún Hilmars, 1.12.2019 kl. 12:31

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir það Kolbrún.

Veistu að aldrei þessu vant er ég ánægður, ég náði að segja það sem ég ætlaði að segja, undirbjó með rökum, og náði að draga upp myndir sem þeir skilja sem þekkja söguna.

Þetta er ekki léttmeti inní dægurumræðuna, á ekki að vera það.

Þetta er alvara, og slík umræða er alls ekki allra.

En ef við ætlum ekki endalaust að vera leiksoppar, þá þurfum við að kafa aðeins dýpra.

Nauðsynlegt fyrir skrifara sem og lesara.

Stundum skipta gæðin meira máli en magnið.

Takk fyrir innlitið og athugasemdina.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 1.12.2019 kl. 16:05

3 identicon

Þú skalt koma fram við aðra eins  og þú vilt að komið sé fram við þig. elska skaltu náunga þinn eins og sjálfan þig. Ef hver og einn færi eftir þessum orðum væri heimurinn öðruvísi og miskunnsamari, ásamt mildi í hvers annars garð væri meira innprentað í huga mannsins.Sjálfur hef ég trú á að guðsmáttur sé til en hafi gefið manninum frjálsan vilja og síðan er það mannsins að vinna sem best úr því.Maðurinn kemur nakinn í heiminn fer héðan jafnnakinn eftir stendur reynsla hans og framkoma í annarra garð.Sjálfur hef ég trú á að við fæðumst aftur og aftur og erum þá í tengslum við sálir er við höfum kynnst áður og vinnum í uppgjöri við þær bæði gott og illt þar til jafnvægi er á komið með fyrirgefningu og sátt,hver veit nema þetta sé lögmál guðdómsins.

Sigurgeir Árnason (IP-tala skráð) 1.12.2019 kl. 18:18

4 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Þvílíkur snilldarpistill sem þú Ómar setur hér fram.

Sjaldan hef ég lesið eins góðar hugrenningar eins manns

í opnu bloggi. 

Hafðu svo sannarlega þökk fyrir.

Vildi óska þess, að sem flestir myndu lesa þennans pistil,

því hann er svo sannarlega upvakning fyrir marga ef ekki alla.

M.b.kv.

Sigurður Kristján Hjaltested, 1.12.2019 kl. 20:28

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Guðdómlegur pistill Ómar, orð í tíma töluð til góða fólksins.

Með kveðju að ofan.

Magnús Sigurðsson, 1.12.2019 kl. 21:12

6 Smámynd: Hörður Halldórsson

Það var og ,takk fyrir.

Hörður Halldórsson, 1.12.2019 kl. 22:26

8 Smámynd: Halldór Jónsson

Ég tek undir með Sigga vini Hjaltested. Djúpur pistill og kn´æuinn innri sannfæringu.

En:" En birtingarmynd hroka okkar er margskonar, og þá er ég ekki að vísa í hvernig við drápum guð, hjarðir vísundana í Norður Ameríku, eða menningu frumbyggja yfir höfuð í Ameríku, jafnt þeirri í suðri, norðri eða miðri.

Eða hvernig við voguðum okkur að láta hið skítuga fjármagn kaupa upp idolin okkar í fótboltanum, eða við létum mútur miðaldafólks kaupa HM 2022, keppni sem er þegar mörkuð í blóði tuga fátækra farandverkamanna að ekki sé minnst á hið nútímaþrælahald sem býr að baki hinum glæsilegu mannvirkjum í Katar.

Eða hvernig við látum illmenni í skjóli peninga hins svarta fjármagns flytja árlega inn tugþúsundir, eða jafnvel tali í hundruð, fátækra kvenna til velmegunarríkja okkar og þræla þar til að svala fýsum okkar."

Allt er afstætt. Þrældómur eins manns getur verið léttir frá því sem hann hafði sem var miklu verra. Er það ekki meðvirkandi að menn notfæra sér eymd einstaklings sem tekur brauðmola fagnandi í stað þess að fá ekkert og svínið sem finnst þetta alveg mátulegt fyrir hann miðað við að hann hafði ekkert fyrir. Maðurinn virðist hafa litla miskunn og samúð til að bera. Menn eru þjófar og illmenni upp til hópa. Ef Fróði kóngur er ekki með brugðið sverðið þá eru menn tilbúnir til glæpaverka og kærleikurinn er af skornum skammti. Samherji borgar frekar en að vera afskiptur hvað sem móralnum líður. Er það ekki svoleiðis Ómar minn, að þó náttúran sé lamin með lurk þá leitar hún út um síðir.

Halldór Jónsson, 2.12.2019 kl. 08:57

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Halldór, náttúran er seint lamin úr með lurki, en það er langur vegur frá því og hins viðbjóðslega mannsals, eða það sem kallað var hvít þrælasala í mínu ungdæmi, svona líkt og það er langur vegur frá líffæragjöf, sem sannarlega sinnir þörf, og þess sem albanskir glæpahópar gerðu fyrst eftir að járntjaldið féll, til að koma sér á kortið, að taka úr umferð fátæk, umkomulaus börn, ala þar til þeim var slátrað til að mæta sömu þörf.

Við verðum að mæta illskunni og megum ekki réttlæta hana á nokkurn hátt með einhverja vísan í mannlega hegðan. Það réttlætir samt ekki þá áráttu að setja allt mannlíf í fjötra ofstjórnunar og regluverks, tala ekki um þegar drifkrafturinn er hræsni og yfirdrepskapur.

En ég er ekki sammála þér með mannlegt eðli, hef ekki rekið mig á annað en fólk er upp til hópa gott, þó vissulega séu margir sem vita ekki að því.

Aðstæður hins vegar ýta hins vegar undir margt slæmt í mannlegu atferli, en það er önnur saga. 

En þess vegna skóp mannsandinn siðinn, þess vegna fór hann að líta til himins fyrir um 40.000 árum síðan, eitthvað innra með honum rak hann til þess.  Síðan hefur leitnin verið í þá átt að gera heiminn betri, við erum allavega ekki étnir lengur.

En ég var nú samt bara að fjalla um eina af dauðsyndunum, mér finnst hún hafa yfirtekið marga þessa dagana.

Það erum margar skýringar á því hvernig hlutirnir eru í Afríku, en varðandi mútugreiðslur þá þekkjum vel eina úr okkar sögum.  Kom hann þar við í konungsgarði og færði gjafir, og þáði veglega gjöf úr hendi konungs.

Ætli það sé ekki stutt í að sagnir okkar kenndar við Íslendinga verði endurskrifaðar á tungumál rétthugsunarinnar og orðið gjöf verði breytt í mútur. 

Vissulega er gjafakerfið ekki up tú deit í dag, og hamlar mörgu í Afríku, en álfan sjálf verður að finna sinn takt.

Hún þarf ekki hroka góða fólksins á Íslandi til þess.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 2.12.2019 kl. 11:55

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk annars fyrir innlitið félagar og hlýleg orð.

Sigurgeir, mér finnst þín sýn á sið vera falleg og sönn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 2.12.2019 kl. 13:55

11 identicon

Hef verið í smá önnum undanfarna daga svo mér gafst ekki tóm til að lesa þennan pistil þinn fyrr en núna og eina athugasemd mín er þessi:  

Hjartans þakkir fyrir aldeilis frábæra pistil.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 3.12.2019 kl. 18:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 730
  • Sl. sólarhring: 762
  • Sl. viku: 6314
  • Frá upphafi: 1400253

Annað

  • Innlit í dag: 665
  • Innlit sl. viku: 5429
  • Gestir í dag: 631
  • IP-tölur í dag: 617

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband