Lýðræði er ekki auðræði.

 

En lýðræðið er heldur ekki lýðskrum og þar verður Sólveigu Önnu, formanni Eflingar mikið á.

Það er rétt að það er kapítalismi á Íslandi, flest fyrirtæki eru í einkaeigu og eigendur þeirra mega ráðstafa bæði eignum sínum, sem og hagnaði eftir sínum geðþótta.

Samfélagsleg ábyrgð þeirra er að fara eftir lögum og reglum, og kannski að haga sér á ábyrgan hátt, bæði gagnvart starfsfólki, umhverfi, og ekki hvað síst nærsamfélagi sínu.

Ég segi kannski því um þetta eru deildar meiningar hjá kapítalistunum sjálfum.

 

Sólveig Anna kaus að stökkva upp á lest hagsmunaafla sem gera út ákveðna lýðskrumsflokka til að skapa hér ólgu og upplausn, með því markmiði að veikja viðnámsþrótt þjóðarinnar, annars vegar gagnvart algjöri frjálshyggju hins frjálsa flæðis Evrópusambandsins, sem og að hún haldi sjálfstæði sínu gagnvart Evrópusambandinu.

Sem verkalýðsleiðtogi á Sólvegi Anna að vita að öll félagslegu undirboðin eru vegna regluverks ESB, sama regluverk er að knýja byggðaeyðingu í landbúnaði með tilheyrandi fækkun starfa í vinnslu, hefur knúið fram markaðsvæðingu orkuauðlindarinnar, og öll skattaskjólin og annað eru beintengd inní fjármálaregluverk sambandsins.

Eins ætti hún að vita að lestarfélagar hennar mættu ekki niður á Austurvöll að mótmæla markaðsvæðingu orkuauðlindanna, enda hver mótmælir þeim sem fjármagnar mann, og það sem verra er, þetta fólk steinþagði þegar hrægömmunum var gefið veiðileyfi á almenning, sem er mesta hryðjuverk á friðartímum í Evrópskri nútímasögu.

 

Þegar þú mætir á torg í svona félagsskap þá má virkilega spyrja hvað býr að baki, hver er hinn undirliggjandi hvati. Og því miður kvikna hugrenningartengsl við nýsósíalistann Gunnar Smára, sem vann beint fyrir útrásarvíkinga, þáði hundruð milljónir í mútur frá þeim, og ekkert í hans málflutningi bendir til þess að hann þjóni ekki ennþá sínum gömlu húsbændum, sé svona dobbel.

Og þegar félagsskapurinn leggur til upptöku kvóta, ekki til að dreifa út til fólksins, sem reyndar er ekki beint skynsamlegt en ágætis sósíalismi, heldur til að bjóða hann út til hæstbjóðanda, þá kemst ekki jafnvel mesti einfeldningur  hjá því að átta sig á í hvaða félagsskap hann er.

Kvóti seldur hæstbjóðanda er argasta frjálshyggja sem jafnvel Steini Páls lét sig ekki einu sinni dreyma um í sínu blautasta blæti þegar hann var sjávarútvegsráðherra og þó dásamaði hann opinberlega hina meintu hagræðingu kvótakerfisins i Nýja Sjálandi þar sem 3 fyrirtæki eignuðust allan kvóta á um 5 árum.

Í slíku uppboði felst arðrán á sjávarbyggðum sem er áður óþekkt á Íslandi, og líklegast í öllum frjálsum löndum, þó evrópsk nýlenduveldi teldu slíkt arðrán góða siði í nýlendum sínum.

Arðrán á samlöndum sínum, arðrán á einstökum byggðum, er í engu réttlætanlegri þó meintur arður eigi að renna í sameiginlega sjóði.

Arðrán er alltaf í eðli sínu siðlaust, það er ein birtingarmynd þrælahalds.

Í raun óeðli sem formaður Eflingar virðist ekki á nokkurn hátt bjóða við.

 

Samt hefur fólk gott af því að hlusta á orð hennar, vega þau og meta og taka afstöðu til;

"„Kæru fé­lag­ar, kæra fólk. Þetta er slag­ur, slag­ur um grund­vall­ar­gerð sam­fé­lags­ins. Slag­ur um hver fær að reikna og hvaða formúl­ur eru notaðar. Slag­ur um það fyr­ir hverja er stjórnað. Slag­ur um það hverju megi fórna; lífs­gæðum fjöld­ans fyr­ir græðgi fárra eða græðgi fárra fyr­ir lífs­gæði fjöld­ans,“ sagði Sól­veig í ræðu sinni. „Lýðræði ekki auðræði. Við sætt­um okk­ur ekki við að niðurstaða hins fjár­hags­lega út­reikn­ings sé að sí­fellt meira af auðæfum sam­fé­lags­ins renni til nokk­urra manna og af­kom­enda þeirra.".

Frjálshyggjan hefur snert þjóðfélag okkar, og auðurinn safnast á æ færri hendur.

En félagsskapurinn sem Sólveig Anna er í, er svona hjálparsamtök hans um að flýta þeirri þróun.

 

Breytir samt ekki réttmæti þess sem hún er að segja.

En því miður er þessi orð aðeins nýtt til að æsa upp lýðinn gegn einni atvinnugrein, og skaða lífsafkomu hinna brothættu byggða  með því að vega að fyrirtækjunum sem eru undirstaða í atvinnulífi þeirra.

Og þá er gripið til lýðskrumsins, að sjávarútvegurinn skili ekki arði í samfélagið, að einhver óeðlilegur arður lendi í vasa kvótaeiganda, og honum sé komið úr landi til skattaskjóla.

Svona í hnotskurn sem sagt var á múgæsingarfundinum á Austurvelli, vissulega ekki allt af munni Sólveigu Önnu, en hún var hluti af þessu lýðskrumi sem gírugir hagsmunir kostuðu.

 

Skoðum nokkrar staðreyndir.

Sjávarútvegurinn hefur greitt rúma 60 milljarða í arð frá Hruni, bankarnir rúmlega 500 milljarða.

Sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnuvegur, skapar lífsnauðsynlegan gjaldeyri, bankakerfið, ja það er nauðsynlegt en það sýgur fjármagn úr kerfinu en skapar sem slíkt enga nýja fjármuni fyrir efnahagskerfið.

Ósanngjarn samanburður því hluti af guðsspjalli frjálshyggjunnar er að fjármálakerfið sé birtingarmynd guðdómsins og um það gildi önnur lög en mannanna lög, en berum þá arðgreiðslur sjávarútvegsins árið 2017 við arðgreiðslur heildsölunnar.

Heildsalar greiddu sér 16 milljarða í arð, kvótagreifarnir 17 milljarða.  Samt eru engar kröfur um að heildsalan verði leyfisskyld og leyfin boðin út til hæstbjóðanda.  Enda sjaldgæft að múgur í múgæsingarástandi vilji skaða sjálfan sig eða nágranna sína, þó hann telji það í góðu lagi að skaða aðra sem búa lengra í burtu.

 

Heildsalan er samt aðeins ein af mörgu atvinnugreinum á höfuðborgarsvæðinu, svæðið sem fóðrar að stórum hluta þennan öskrandi múg, smásöluverslun er með 10 milljarða, þar sem örfá stórfyrirtæki skipa markaðnum því sem næst alveg á milli sín. 

Og margar atvinnugreinar aðrar má telja upp sem greiða sér út arð, án þess að sérstakur fundur sé haldinn sem krefst þjóðnýtingar á þeim.

 

Lýðskrumararnir eða réttara sagt þessir vinnumenn hins gíruga fjármagns gætu þá í nauðvörn gegn staðreyndum, reynt að benda á að arðurinn sé of mikill í sjávarútvegi og þá í samanburði við aðrar atvinnugreinar.

En það er þá enn eitt bullið, arðgreiðslur af hagnaði er 21% í sjávarútvegi miðað við 31% að meðaltali í atvinnulífinu.

Og þeir geta ekki heldur vitnað í að sjávarútvegurinn borgi illa, stærstu útgerðirnar eru í hópi þeirra fyrirtækja sem borga hæstu meðallaunin.

 

Hvar er þá þetta meinta arðrán sem á að stöðva, sbr auglýsingarnar um að stöðva auðlindaránið.

Það kemur ekki fram í arðgreiðslum sjávarútvegsfyrirtækja, það kemur ekki fram í launagreiðslum þeirra, hvar þá??

Að það séu kapítalistar í greininni sem græða, en gildir það ekki líka um allar aðrar atvinnugreinar á Íslandi??

 

Og hvaðan koma allflestir útrásarvíkingarnir??, ekki úr sjávarútvegi, það eitt er víst.

Komu þeir ekki úr fjármálageiranum eða urðu ríkir af hlutabréfabraski eða öðru braski??

Eigendur Samherja eru vissulega auðugir menn í dag, en þeir standa uppúr stórum hópi sem lagði að stað í upphafi kvótakerfisins, og væri það ekki óeðlilegt að í undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar yrði enginn ríkur á rúmum 30 árum??

Fyrr mætti arðránið gegnum ranga gengisskráningu vera ef svo væri ekki.

 

Það er ekki steinn yfir steini í öllu þessu skrumi og bulli.

Múgástandið og upphlaupið minnir miðaldra mann eins og mig á þegar allt varð brjálað í Chile nokkrum mánuðum eftir að fyrsti sósíalistinn var kjörinn þar forseti í lýðræðislegum kosningum.

Það reyndi aldrei á stefnu hans, því uppúr þurru logaði allt í verkföllum og deilum, eins og hann væri ábyrgur fyrir öllu því sem miður fór í 50 ára stjórnartíð íhaldsmanna þar á undan.

Síðan var það upplýst að CIA skipulagði og kostaði alla þá upplausn og óáran.

Allar lygarnar, allar blekkingarnar, og lagði grunn að valdaskiptum sem herinn stóð fyrir.

 

Hvað er langsóttara en meintar mútur í Namibíu, sem voru forsenda viðskipta þar, urðu tilefni þess að múgur safnaðist saman og réðist að sjávarbyggðum landsins.

Að krefjast þess að undirstöðu atvinnugrein þeirra yrði þjóðnýtt og nýtingarrétturinn síðan seldur hæstbjóðanda líkt og um þræla og þrælahald væri að ræða.

Og hvernig var hægt að tengja meintar mútugreiðslur við stjórnarskrána, og nýta þær sem kröfu um nýja sem hefur þann eina tilgang að koma í veg fyrir að þjóðin geti hafnað í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu ólögum frá Brussel.

Hefði Jóhönnustjórnin náð að plata hana uppá þjóðina strax eftir Hrun þá hefði ICEsave ekki farið í þjóðaratkvæði.

 

Þetta er of heimskt til að vera sjálfsprottið.

Ekki frekar en hin skyndilegu mótmæli sem blossuðu upp gegn Allende á sínum tíma og voru öll fjármögnuð af bandarísku leyniþjónustunni.

Hvað býr að baki, hvaða hagsmunir fóðra.

Hverjir græða á niðurbroti samfélagsins, hverjir græða á hinu svæsna arðráni sem felst í þjóðnýtingu kvótans og hann síðan seldur hæstbjóðanda??

 

Bull og heimska er kannski vefnaðurinn sem múgæsingin er ofin úr.

En hver er vefarinn??

Það eina sem ég veit að það er ekki CIA.

 

Lýðræði er ekki auðræði.

Lýðræði er ekki lýðskrum.

Lýðræði er réttur okkar til að ráða málum okkar sjálf.

 

Það er vegið að þessum rétti í dag.

Og okkur ber ekki gæfa til að verja hann.

 

Tek undir með Pet Shop Boy;

"It´s a sin".

Kveðja að austan.


mbl.is „Lýðræði ekki auðræði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær pistill.

Heyr, heyr Ómar.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 24.11.2019 kl. 01:09

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ómar, magnaður pistill að venju. Eins og þú bendir á þá virðist auðlind í þjóðareign fyrir þá íbúa landsins sem hana nýta ekki duga lengur til, heldur virðist þjóðnýtingar hugmyndir ríða röftum, notuð til að hámarka gróða enn færri, og til þess eru notuð skítug trix.

Austurvöllur var sem siðferðileg eyðimörk í gær ef "almennur" skilningur þeirra sem þar voru er sá að breyta þurfi stjórnarskránni svo þeir sem hafa hvorki dug, kunnáttu, né nennu til að skíta sig út á slori fái sinn kvóta refjalaust til að höndla sitt mútu fé úr sameiginlegum sjóðum.

Með kveðju úr efra.

Magnús Sigurðsson, 24.11.2019 kl. 08:08

3 identicon

Af hverju heldur þú að uppboð á kvóta rústi sjávarbyggðum, en núverandi kerfi ekki? Ég held að uppboð á kvóta sé betra en núverandi kerfi. Í fyrsta lagi byggir núverandi kerfi á einhverskonar uppboði, útgerðin þarf að kaupa eða leigja kvóta til að veiða. Þar hafa þeir sem fengu í upphafi úthlutað ókeypis kvóta, hafa yfirburða stöðu. Þeir geta keypt varanlegan kvóta með hagstæðum lánum með veði í kvótanum sem þeir fengu ókeypis. Verð á varanlegum kvóta í þorski er nú um 2500 Kr. Kg. Sem þýðir miðað við 3% lánsvexti 75 Kr. á ári sem útgerðin borgar í kvóta. Hinir sem hafa ekki sama aðgang að fjármagni þurfa að borga um 245 kr. í leigu fyrir sömu heimildir. (sjá vef Fiskistofu). Í öðru lagi, hvert fer féð sem varið er í kvótakaup í núverandi kerfi? Fer það til uppbyggingar á landsbyggðinni? Notuðu þeir sem seldu frá sér kvótann peningana til að byggja upp í heimabyggð eða eitthvað álíka. Svarið er nei, og líklega hefur mest af kvótasölunni brunnið upp í efnahagshruninu 2008. Ef farið væri að bjóða upp kvóta þannig að allir sætu við sama borð, þá gæti stórútgerðin ekkert boðið betur en smærri útgerðir og trúlega stæðu einyrkjar best og trilluútgerð stóraukast.

Jónas Kr. (IP-tala skráð) 24.11.2019 kl. 10:18

4 identicon

Hvað segja þessi orð þín: "Sjávarútvegurinn hefur greitt rúma 60 milljarða í arð frá Hruni, bankarnir rúmlega 500 milljarða." Ómar, eru þetta rök í umræðunni gegn því að markaðurinn ráði verði á kvóta?

Esja frá Kjalarnesi (IP-tala skráð) 24.11.2019 kl. 10:58

5 Smámynd: Þórhallur Pálsson

Þakka fyrir góð skrif.

Þórhallur Pálsson, 24.11.2019 kl. 14:37

6 identicon

Ég er af þeirri kynslóð sem þurfti að endalust vera að borga undir útgerðina annaðhvort beint úr ríkiskassanum eða gegnum gengislækkanir - svo núverandi kerfi er betra

En mér finnst málfutningurinn á Austurvelli vera einsog hjá "vinum" litlu gulu hænunnar

enginn nennir að ná  í fiskinn í sjónum en allir vilja fá að borða hann þegar hann er tilbúinn á disknum

Grímur (IP-tala skráð) 24.11.2019 kl. 18:45

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Grímur.

Mikið rétt, en hin hliðin á arðráninu var of hátt skráð gengi, sem saug fjármuni frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins.

Fair play er uppboð á gjaldeyri og láta síðan fyrirtækin í friði.

Það er auðvelt að gera alla að beiningamönnum með því að ræna þá fyrst.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.11.2019 kl. 08:21

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir það Þórhallur.

Blessaður Esja, ef þú hefðir tekið upp lesgleraugun og lesið í stað þess að taka stikk, þá hefðir þú aldrei látið þessi orð út úr þér.

Tilvísun þín er í umfjöllun mína um hina meintu ofurarðsemi eða réttara sagt ofurarðgreiðslur sem er tilefni þessi skrums að að það eigi annað að tvennu, að ofurskattleggja landsbyggðina umfram höfuðborgarsvæðið, eða arðræna hana hinn að blóðmerg með innköllun kvótans og síðan útdeila honum með kvótauppboði.

Spurning þín er hins vegar barnaleg, markaðurinn ræður verðinu á kvóta.

Deilan okkar á landsbyggðinni snýst um hvaða rétt höfðu stjórnvöld að láta einn afmarkaðan hóp, mjög fámennan, fá réttinn til að nýta sjávarauðlindina, og ráðskast svona með líf okkar og limi.

En það er önnur saga og hinir gjammandi lýðskrumarar eru ekki að skrifa kafla í þá sögu.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.11.2019 kl. 08:30

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Jónas, ég svaraði sömu spurningunni frekar ítarlega í þræði fyrir nokkrum dögum, spurning hvort ég nenni aftur að leggja á mig vinnu við skrifa langt svar sem ekki er lesið, og fæ síðan aftur og aftur sömu spurninguna.

Prófum hvort ég geti verið stuttorður, mér hefur eiginlega aldrei tekist slíkt.

Uppboð þar sem verðmæti eru sogin fyrirfram úr atvinnugrein er alltaf arðrán, og það er hagfræðilögmál að slíkt skapar alltaf leitni til að ná niður öðrum kostnaði

Greiða sem lægstu laun, kosta sem minnstu til í kostnað við umhverfi og samfélag.

Þess vegna er ein forsenda svona arðráns bönd eða fjötrar, til dæmis þrælahald, ánauð, átthagafjötrar, nauðungarvist til dæmis í fangelsum og svo framvegis.

Að öllu jöfnu fær mesta skepnan, sá sem er tilbúinn að sína mesta skepnuskapinn gæðin sem boðið er í. 

Í nútímanum lætur fólk ekki bjóða sér slíkt umhverfi, það forðar sér, og ef þjóðfélagið er gegnumsýrt af slíkri markaðshugsun, í því samhengi má hafa í huga að það má bjóða upp flest ef ekki öll gæði, til dæmis réttinn til að reka verslun og þjónustu, að þá gerir fólk alltaf uppreisn gegn slíku kerfi.

Að greiða atkvæði með fótunum er eitt form byggðareyðingar.

Annað lykilatriði er stöðugleiki, nútíminn krefst stöðugleika, fólk er ekki að fjárfesta á stöðum þar sem enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér.  Jafnvel þó vinnan sé í boði í augnablikinu þá er leitnin að forða sér. 

Nýfjárfestingar krefjast stöðugleika, bæði fyrir þann sem ræðst í þær, sem og þann sem lánar.  Kvótauppboð fjarlægir slíkt á einni nóttu, nema náttúrulega leigutíminn er til langs tíma, og til hvers er þá leikurinn gerður? Sem og aftur stendur spurningin um hve mikið fjármagn er þegar farið úr greininni.

Þá komum við að þriðja atriðinu, óvissunni.

Ef þú veist ekkert um morgundaginn þá eru engar áætlanir gerðar fram í tímann, allt snýst um að bjarga sér frá degi til dags, og þú getur bókað að ef skynsemi er í áætlunargerð þinn, þá mun einhver vitleysingurinn yfirbjóða þig.  Til skamms tíma getur þú haft einhverja samkeppnisyfirburði líkt og einyrkinn, en slíkt er aldrei neitt leyndó, aðrir geta tileinkað sér þekkinguna, útgerðarformið eða annað, og síðan byrjar lögmálið um mesta fíflið eða mestu skepnuna að tifa.

Fjórða atriðið og ekki hvað síst er að sá stóri hefur besta aðganginn að fjármagninu, eða sá sem er best tengdur.  Einyrkinn er sá fyrsti sem deyr, það er einyrkinn sem er til staðar í útgerð í dag.  Stórfyrirtækin sem borga best munu knýja á allt, að þurfa ekki að taka tillit til byggða, til aðbúnaðar, til launa.  Þau mun gernýta sér evrópska regluverkið til að brjóta niður hlutaskiptakerfið, þau munu enn frekar safna saman útgerð og vinnslu á færri verstöðvar, jafnvel ganga skrefið til fulls og flytja lítt unnin fisk í þrælabúðir globalhagkerfisins, og þau hafa algjörlega réttinn sín meginn, því þau hafa borgað fyrir hann.

Þegar allt þetta er lagt saman, þá erum við að tala um eyðingu þess samfélags sem við þekkjum, öll lögmálin að baki eru þekkt, afleiðingarnar í gegnum söguna eru þekktar, þetta eru birtingarmynd þrælahalds og arðráns, þetta er hugmyndafræði ómenna.

Sem góða fólkið og Andófið hefur tekið uppá arma sína.

Kannski er heimska þeirra afsökun, en ég efa það.

Það er vissulega rétt hjá þér Jónas að það er sama leitni í núverandi kerfi, slíkt er alltaf þegar gæði eru kvótasett, og ganga kaupum og sölu.

En hún er hægfarari og það eru öryggisventlar á henni.

Kannski sú stærsta er óvissan sem kerfið býr við, ef það gengur of langt, þá er alltaf hætta á inngrip almannavaldsins. 

Slík hætta var verulega í græðgivæðingunni á árunum fyrir Hrun, enda var kvótaverð knúið uppúr öllu valdi með ódýru lánsfé eða hlutabréfabraski.  Hættumörkin voru augljós, fjármunir fóru í kvóta en ekki eðlilega endurnýjun, eigið fé rýrnaði og vinalausum mönnum fjölgaði. 

Eftir Hrun þá lagaðist ástandið, eiginfjárhlutfall hefur snarbatnað, greinin hefur nýtt góðærið til að borga niður skuldir, og til að endurnýja tól og tæki.  En slíkt er forsenda hinnar raunverulegu arðsemi.

Frá Hruni er aðeins hægt að benda á ein megaviðskipti með kvóta þar sem óeðlileg tengsl inní bankakerfið fjármögnuðu meint hagræðingarkaup eignalaus manns, sem átti aldrei að lifa Hrunið af.

Að ná böndum á braskið, að beina greininni inná þær brautir sem hún á að vera á, það er sinna veiðum og vinnslu, það er verkefni stjórnmála, það er verkefni þeirra sem vilja sem mestu arðsemina af sjávarauðlindinni, og verkefni þeirra sem vilja tryggja byggð og búsetu á landsbyggðinni.

En ekkert af því kom til umræðu á Austurvelli á laugardaginn.

Fíflin og skrumararnir áttu sviðið.

Og það er ekki einleikið.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.11.2019 kl. 09:17

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Við vitum báðir að mikið er að.

Það þarf að koma braskinu út úr greininni og þó ég geri mér grein fyrir að kvótakerfið sem slíkt var nauðsynlegt á sínum tíma, kom okkur úr veiðimannasamfélaginu inní nútímann, það þurfti eitthvað til að koma okkur úr gúanóverksmiðjunum sem voru hannaðar til að takast á við aflahrotur, að þá eru bolfiskmiðin illa nýtt. 

Það eru til fleiri mið en togaramið, og það syndir fiskur í sjónum á fleiri stöðum en þeim sem hafa aðganginn að verðmætustu mörkuðunum.  Vannýting grunnmiða hringinn í kringum landið er ótrúleg heimska.  Fiskurinn á grunnmiðunum er staðbundinn, og hann er lítt nýttur eða ónýttur.  Þrælaskipin koma og taka kúfinn, og þar með er það búið.

Endurnýjunin, kynslóðaskiptin, allt leitar í eina átt, að smærri útgerð leggst af, og þá er ég ekki bara að tala um smábáta, heldur líka fjölskyldufyrirtæki sem gera út stærri báta.

En þeir sem gjamma hæst í dag hafa ekki hugmynd um eitt eða neitt sem viðkemur sjávarútvegi, og þeim er nákvæmlega sama.

Frjálshyggjan mótaði kerfið með tilheyrandi manngerðum hörmungum, núna þegar jafnvægi hefur náðst þó viðkvæmt sé, þá fjármagnar hún öfl sem ráðast á það til að ná lokamarkmiðum sínum.

Að markaðsöflin ráði öllu, að fólk sé ekki manneskjur, heldur aðeins kostnaður.

Sem á að lágmarka.

Þetta er ekki félegt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.11.2019 kl. 09:33

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Símon Pétur.

Eitthvað var í hann spunnið fyrst að the grand old man endurbirti hann, án þess að hnýta í okkur Hriflungana.

En við vitum það báðir að þetta er bara sérviska, algjörlega úr takt við meinstrím umræðu.

En ég hafði gaman að skrifa hann, og er þakklátur að einhverjir höfðu gaman að lesa.

Þau eru breið banaspjótin í dag, og því miður hafa ógnaröfl fjárfest í Andófinu.

Og aðeins leifarnar af gömlu borgarastéttinni berjast á móti.

Þetta er eiginlega fyrsta skiptið frá Hruni þar sem ég sé ekki einu sinni ljóstýru í sortanum, og hefur þó oft áður verið dimmt yfir.

Þá er það bara áttavitin Símon Pétur, þá er það bara áttavitinn.

Ég held áfram mínu tuði þegar tilefnið kemur.

Á meðan er það kveðjan.

Að austan.

Ómar Geirsson, 25.11.2019 kl. 09:40

12 identicon

Ómar, ég las færsluna þína og afþakka ókurteisi í minn garð.

Esja frá Kjalarnesi (IP-tala skráð) 25.11.2019 kl. 12:34

13 identicon

Áttavitinn og andablástur þinn efla okkur,

sem rýnum með þér út í sortann, ljóstýruna

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 25.11.2019 kl. 12:45

14 identicon

Hugmyndir mínar um uppboð á kvóta eru eftirfarandi.

Það verði boðinn upp 5. Til 10% af kvótanum á hverju ári. þá missa fyrirtækin ekki allan kvótann ef það á ekki hæsta boð. Í öðru lagi kvótaleigan verði greidd eftir á,  eins og söluskattur. Þetta tryggir að allir hafi jafnan aðgang að kvóta óháð aðgangi að fjármagni.

Í núverandi kerfi þurfa fyrirtæki í sjávarútvegi að binda fé í kvóta og/eða að borga vexti að lánum tengt kvótakaupum. Sá sem selur kvóta þarf ekki endilega að leggja neitt til samfélagsins. Hann gæti búið á Spáni í vellystingum. Uppboð á kvóta tryggði að þetta fjármagn færi til ríkis og sveitarfélaga.

Þeir hæfustu komast af sama hvert kerfið er, en núverandi kerfi hefur gefið þeim sem voru fyrir yfirburðastöðu, ekki í krafti þekkingar eða hæfni heldur krafti ókeypis kvóta í upphafi og þar með geta þeir keypt meiri kvóta, því þeir geta boðið góð veð fyrir lánum.

Hverir eru að leigja kvóta í dag á um 250 kr. kg. Svar það eru litlu útgerðirnar. Þær mundu vafalítið kaupa varanlegan kvóta, sem kostaði þær minna en 100 kr. kg. ef þær hefðu aðgang að fjármagni. Stórútgerðin getur ekki borgað 250 kr.

Þá er það spurningin: hverjir mundu koma best út úr kvótauppboði? Þú getur velt þessu fyrir þér.

Jónas Kr. (IP-tala skráð) 25.11.2019 kl. 12:51

15 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Esja

Það er alltaf hollt að byrja á byrjuninni, útúrsnúningur, sem ég veit að var viljandi, krefst beinskeyttar svara.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.11.2019 kl. 16:11

16 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Jónas.

Ég nenni ekki að elta  ólar við svona rugl, þetta er tækt í fantasíu leik, hvort sem það er borðspil eða í rafeindaheimi.

Þú fattar ekki að þú ert að færa þig frá raunveruleik yfir í tilbúinn heim, en hvernig sem ég lít á mig eða fólkið sem á heima í byggðarlagi mínu, þá erum við ekki þátttakendur í slíku, jafnvel ekki aukaleikarar í Jumanji.

Í því felst rökvilla þín.

Sem og hún sannar að þú hefur fyrirfram mótaðar skoðanir, fattar ekki ábendingar um hvers eðlis raunveruleikinn er þegar slíkar tillögur eru útfærðar.

Arðrán og meint tilraun til nútíma þrælahalds.

Veit ekki þína afsökun, en fólk sem telur sig marktækt eins og rebellar verkalýðshreyfingarinnar, hafa enga, nema að velja milli hvort þau séu fífl, eða ómenni frjálshyggjunnar.

Veit ekki hvort er skárra.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.11.2019 kl. 16:18

17 identicon

Ég reyndi að eiga rökræður við þig en það hefur greinilega mistekist. Í staðin fyrir að reyna að svara með efnislegum rökum, þá svarar þú með dylgjum. En ég vill benda á eitt, og um það getur þú lesið þér til um t.d. hjá Hannesi Hólmsteini, sem er að núverandi kvótakerfi er draumur frjálshyggjunnar.

Sólarlagið ku vera fallegt í Urðarseli.

Jónas Kr. (IP-tala skráð) 25.11.2019 kl. 17:13

18 Smámynd: Ómar Geirsson

Nei Jónas, þú varst ekki að rökræða við mig, þú spurðir mig af hverju "heldur þú að uppboð á kvóta rústi sjávarbyggðum, en núverandi kerfi ekki" og ég svaraði þér enn og aftur í hverju arðrán uppboðskerfis er falið, og afhverju það er öruggt að það leiði til byggðareyðingar.

Það er ljóst að núverandi kerfi hefur ekki haft slíkar afleiðingar í för með sér, þó það vissulega gæti gert það.

Og það þarf að takast á við þetta "gæti", en það er ekki gert með því að taka upp arðránskerfi sem mun örugglega leiða til þess.

Þú andmælir þessu andsvari mínu ekki efnislega á neinn hátt, en það er einmitt það sem rökræður gera, heldur útskýrir fyrir mér þínar hugmyndir um útfærslu á kvótauppboði.

Eitthvað draumórakennt gegn raunveruleikanum sem fólk býr við. 

Fyrir utan það að slík innköllun gengur alltaf gegn eignarrétt sem er verndaður af stjórnaskránni (veðin í kvóta var heimilaður með lögum, og þó kvótinn sem slíkur teljist sameign þjóðarinnar, þá afsalaði löggjafinn þeirri sameign með því að heimila veðsetningu) þá virkjar kvótauppboðið sömu óreiðulögmálin og ég lýsti í andsvari mínu.

Síðan verður vitleysa ekki rétt þó Hannes sé borin fyrir henni.

Kvótakerfið er ekki skilvirkt samkvæmt lögmálum markaðarins á meðan þak er á eignarhaldi. 

Sem og hélt hlutaskipakerfið í því, en meint hagræðing frjálshyggjunnar næst ekki fyrr en laun eru komin að sultarmörkum.

Á þetta benti Steini Páls á sínum tíma, en hann hafði ekki pólitískan styrk til að ná þessum markmiðum, en hann var samt nógu ósvífinn að dásama kerfið á Nýja Sjálandi þar sem þessum markmiðum var náð.

En Steini og blautlegu draumar hans eru afturgengnir í dag, og ég fæ ekki betur séð Jónas að þú sért hluti af þeim draugagangi.

Og að vitna í Hannes fær þar engu breytt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.11.2019 kl. 18:26

19 identicon

Ómar, mér finnst ókurteisi þín og geðvonska ekki vera þess virði að móðgast við þig, en leyfi mér að hafa efasemdir um að þessi orð þín: "Það er alltaf hollt að byrja á byrjuninni, útúrsnúningur, sem ég veit að var viljandi, krefst beinskeyttar [sic] svara" hjálpi þér við að eiga í efnislegum samræðum við aðra um mjög mikilvægt samfélagslegt málefni.

Esja frá Kjalarnesi (IP-tala skráð) 25.11.2019 kl. 19:18

20 Smámynd: Ómar Geirsson

Ha, ha Esja, bara húmor.

Ég gaf þér efnislegt svar um útúrsnúning þinn, og þar sem mér leiðist slík stílbrögð, þá hvarflaði ekki annað að mér en að hæðast að því hvernig þú settir hann fram.

"..eru þetta rök í umræðunni gegn því að markaðurinn ráði verði á kvóta? ".

Ég get svo sem alveg endurtekið svar mitt án þess að benda þér hvað spurning þín er barnaleg, og svarað þér aftur að markaðurinn ræður verð á kvóta.

Og sú staðreynd var hvergi til umfjöllunar hjá mér.

Og ef þú skyldir vera svo ungur að árum að þekkja ekki til efnislegrar umræðu, þá telst það ekki vera efnislega umræða að leita með logandi ljósum að höggstað til að snúa út úr, og telja sig hafa skorað bombu fyrir vikið.

En ef þú ert ekki ungur að árum, heldur fastur í umræðuhefð skotgrafanna, þá verð ég bara að segja að þér hefur tekist betur upp.

Og síðan minnir mig að þú hafir reynt endrum og eins að ræða mál efnislega, en þér er það ekki tamt Esja.

Það er bara svo.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.11.2019 kl. 20:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 6
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 208
  • Frá upphafi: 1412827

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 174
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband