14.11.2019 | 13:30
Skaðinn.
Hvernig sem á það er litið þá er ljóst að afhjúpun á meintum ráðgjafagreiðslum Samherja til stjórnmálamanna í Namibíu mun skaða marga, jafnt í Namibíu sem og Íslandi.
Doktor Ásgeir Brynjar kemst vel að orði í þessari frétt um það sem snýr að okkur sem þjóð:
"Þannig sé einna sorglegast varðandi mál Samherja hvaða áhrif það kunni að hafa á orðspor íslenskrar þekkingar og fiskveiðistjórnunar. Hvaða skoðun sem fólk kann að hafa á okkar fiskveiðistjórnunarkerfi er alveg ljóst að það hefur reynst vel til þess að hamla gegn ofveiði. Þátttaka okkar í þróunaraðstoð í þessum efnum undanfarna tvo áratugi hefur byggst á útflutningi á þekkingu okkar og kerfisuppbyggingu.".
Orðspor okkar er nefnilega órofinn hluti af markaðsímynd okkar, að við séum heiðarlegt fólk sem hörðum höndum hefur náð að byggja upp þekkingu og færni á sviði sjávarútvegs, og þessa þekkingu og færni erum við tilbúin að selja öðrum gegn sanngjarni þóknun, ekkert annað hangir á spýtunni.
Þess vegna er ákaflega mikilvægt að við náum að kryfja hvað fór úrskeiðis, að lærum af þessu og við sem þjóð setjum okkur eigin markmið og leikreglur sem við ætlumst til að íslensk fyrirtæki og lögaðilar virði í viðskiptum sínum og samskiptum við aðrar þjóðir. Já, jafnvel þó það kosti málsóknir af hendi ESA, þá mega leikreglur hins frjálsa flæði ekki vera skálkaskjól fjárúlfa sem einskis svífast.
Gagnsæi ætti til dæmis vera helsti lærdómurinn, það ætti strax á morgun að setja löggjöf sem banna íslenskum lögaðilum að nota gervifélög eða aflandsfélög í viðskiptum sínum, og engin slík félög í erlendri eigu ættu að fá að reka starfsemi eða eiga eignir í íslenskri viðskiptalandhelgi.
Heiðarleiki er nefnilega auðlind, ekki síðri en orkan eða fiskimiðin.
Það er einnig augljóst að Samherji hefur skaðast mjög, orðspor fyrirtækisins er í rúst, það á örugglega yfir höfði sér sakamálarannsókn, sem jafnvel gæti endað með ákæru og dómi.
En slíkt er jafnvel aukaatriði við rústirnar á ímynd fyrirtækisins, og hafi eitthvað verið eftir, þá er ljóst að viðbrögð Þorsteins Más og hans manna gengu endanlega frá trúverðugleika fyrirtækisins.
Þeir annaðhvort afhjúpa sig sem lygara, eða ef þeir segja satt, sem algjöra aula sem láta millistjórnanda spila sóló með fjármuni fyrirtækisins án þeirra vitneskju. Eins og ekkert væri bókhaldskerfið, ekkert væri eftirlitskerfið og innri endurskoðun væri kínverskt hugtak skráð á kínversku táknmáli.
Hvað var að því segja að meintar ráðgjafagreiðslur væru forsenda viðskipta í Namibíu líkt og í öllum öðrum Afríkulöndum, það væri þeirra siður, engu síðri eða óheilbrigðari en sú kvöð á evrópsk stórfyrirtæki að þurfa ráða fyrrum meðlimi framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins sem ráðgjafa eða skipa þá í vel launaðar stjórnir fyrirtækja.
Höfum við virkilega ekkert breyst í hrokanum frá því að kristnir trúboðar unnu markvist gegn innlendum siðum og menningu, töldu hana óæðri og þeim bæri skylda að útrýma henni, þó þeir hefðu skýr fyrirmæli í biblíunni að boða aðeins trú sína. Lifir frasinn um hálfnakta villimenn svona góðu lífi??
Kristinn Hrafnsson og Wikileaks afhjúpuðu sig líka sem gerendur með skýr markmið. Í viðtali í morgunútvarpi Ruv segir Kristinn án þess að skammast sín að það hefði ekki verið hægt að bíða eftir umfjöllun Al Jazeera því það væru kosningar í Namibíu bráðlega og meiningin væri að hafa áhrif á þær.
Hvaða rétt hefur Kristinn Hrafnsson til að leika guð og ráðskast svona með fólk í fjarlægu landi?? Ekki getur það verið vegna meintrar spillingar í Namibíu, samkvæmt lista um spillingu ríkja er Namibía í þriðja sæti Afríkuríkja, á eftir Botsvana og Rúanda, svo ljóst er að eitthvað annað gengur honum til. Í þessu samhengi skulum við átta okkur á að það er ekkert sem segir að andstæðingar Swapo, stjórnarflokksins séu á einhvern hátt óspilltari eða hæfari til að stýra landinu, það er því gjörræðisverk að ætla sér að fella ríkisstjórn landsins á þessum forsendum.
Ef fjárhagslegur ávinningur útskýrir ekki slíkt óhæfuverk, þá er ljóst að slíkt athæfi má rekja til persónuleikabresta, hvort sem það er fyrirlitning á íbúum meintra frumstæðra landa, drottnunargirni, eða Neró komplexar.
Persónulega finnst mér illskárra að Kristinn og hans félagar hjá Wikileka séu málaliðar í þjónustu samkeppnisaðila, líkt og blaðamenn Stundarinnar hafa verið frá fyrsta degi.
Hins vegar er ekki augljóst hvort íslenskir stjórnmálamenn hafi skaða sjálfa sig með viðbrögðum sínum og yfirlýsingum.
Því til að geta skaðað orðspor eða ímynd, þarf eitthvað slíkt að vera til staðar. Sem það náttúrulega er en ef hlustað er á raddir götunnar og jafnvel hlerað spjallið við eldhúsborðið þá er ljóst að inneignin er mjög takmörkuð í huga margra.
Eina sem er hægt að deila um með Samfylkinguna er hvort vitið fór algjörlega með brottför Ingibjargar eða endanlega þegar Jóhanna fór eftirlaun. Hvernig geta viðskiptahættir í Namibíu verið forsenda enn einnar aðfarar að landsbyggðinni með stórhækkun veiðileyfisgjalda?? Hvernig er hægt að leggja að jöfnu tekjur landeiganda að laxveiði og tekjum þjóðarinnar af sjávarútvegi, og komast að þeirri niðurstöðu að laxabarónar græði meira en þjóðin?? Eða sú forheimska að leggja til að stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins sé gert óstarfhæft með því að eigur þess séu frystar??
Dugði ein saga af Bakkabræðrum eða þurfti margar??
Eða höfum við ekki heyrt allan ofstopann og yfirlýsingarnar áður??
Eða réttlætingarnar hjá þeim sem Samflokkurinn fól það hlutverk að stjórna í augnablikinu??
Er þetta ekki bara sama leikritið hjá fólki sem fyrir löngu seldi auð og auðmönnum sálu sína og hefur löngu fyrir Hrun unnið í einu og öllu að innleiða nýfrjálshyggju Evrópusambandsins sem kallast hið frjálsa flæði, og hefur með verkum sínum löngu sýnt að því er alveg sama um afleiðingar gjörða sinna.
Er þetta fólk ekki nýbúið að innleiða regluverk um markaðsvæðingu orkuauðlinda þjóðarinnar með tilheyrandi græðgivæðingu??
Endurreisti það ekki fjármálakerfið á sömu forsendum og fyrir Hrun, vann það ekki með hrægömmum að rýja vasa almennings, var ekki sátt meðal þess að auðmenn fengu skuldir sínar afskrifaðar á meðan harkan ein var í boði gagnvart venjulegu fólki.
Ekki tókst það á við regluverkið og kerfið sem leyfði auðnum að flytja gróðann til aflanda á meðan skuldir voru skyldar eftir á eignalausum kennitölum, ekki varðist það fjárkúgun breta, ekki var það samstaða á Alþingi sem felldu hin ólöglegu gengislán.
Þð er ekki úr háum söðli fyrir þetta fólk að falla.
Nei ofstopinn og yfirlýsingarnar hafa heyrst áður.
En ekki alltaf.
Ekkert heyrðist þegar þessi sárgrætilegu orð voru fest á blað af núverandi og fyrrverandi formönnum Hagsmunasamtakanna Heimilanna.
"Réttarríkið Ísland hefur núna í nær 10 ára refsað fórnarlömbum fjármálaglæps af hörku fyrir glæp sem þau ekki frömdu. Gerendurnir hafa hins vegar hagnast stórkostlega á lögbrotum sínum....
Frá hruni hafa 10.000 fjölskyldur misst heimili sín á uppboðum og sennilega eru þær a.m.k. jafnmargar sem hafa misst heimili sín án þess að til uppboðs hafi komið. Varlega áætlað hafa því fleiri en 15.000 fjölskyldur misst heimili sín eða á bilinu 45.000 60.000 einstaklingar sem samsvarar öllum íbúum Kópavogs og helmingnum af Garðabæ. Á sama tíma hafa verið gerð 164.000 fjárnám hjá þessari 360.000 manna þjóð. Þar af voru 127.000 fjárnám árangurslaus.".
Því þetta eru jú bara við, fólkið í landinu.
Hver grætur náungann sem rekinn er út á gaddinn??
Skaði er skeður.
Það er samt óþarfi að magna hann upp.
Hann á að vera lærdómur, á þann hátt að við veltum fyrir okkur hvernig við viljum hafa ímynd landsins.
Hann á líka að fá okkur til að íhuga vitsmuni stjórnmálamann, siðferði þeirra, og hvaða hagsmuni í raun þeir þjóna.
Við eigum að setja spurningarmerki um hvernig við látum keypta fjölmiðamenn stjórna umræðunni, hvernig þeir reyna að sveigja hana frá meintum lögbrotum yfir í umræðu um ofurskatta eða eyðingu landsbyggðar með uppboðskerfi á kvóta, að ekki sé minnst á að þeir nýta svona fréttir til að ná fram markmiðum eiganda sinna, hver svo sem þau markmið eru.
Og við eigum ekki að láta fífla okkur.
Það gilda lög í landinu, það á að framfylgja þeim
Meint lögbrot eiga aldrei að vera forsenda fjölmiðlafárs, þar sem lukkuriddarar og harðsvíraðir málaliðar auðmanna nýta sér sviðsljósið til að ná fram persónulegum ávinningi, sér og sínum til handa.
Þau er aldrei tylliástæða til að ógna lífsafkomu tugþúsunda, eða stefna byggð og búsetu í hættu.
Og þau hafa ekkert með stjórnarskrá landsins að gera.
Áttum okkur á þessu.
Áttum okkur á hagsmununum sem knýja fárið áfram.
Treystum lög og reglu, föllum í ekki í far múgæsingar og skrílshugsunar.
Þá verður skaðinn aldrei svo að ekki megi bæta úr.
Kveðja að austan.
Skaðar orðspor greinarinnar og Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:32 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 11
- Sl. sólarhring: 12
- Sl. viku: 457
- Frá upphafi: 1412819
Annað
- Innlit í dag: 11
- Innlit sl. viku: 396
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 10
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hef meiri áhuga á afleiðingunum ef Samherja þykir nóg komið og selji allt sitt. Skyldu þeir geta selt það úr landi - og kvótann líka?
Ísland er jú bundið fjórfrelsi skv. EES.
Kolbrún Hilmars, 14.11.2019 kl. 15:37
Vel mælt sem svo oft áður.
Merkileg er þessi samúð með namibísku þjóðinni hjá fólki sem pissar stöðugt yfir allt sem hér kallast þjóðarhagsmunir.
Eru jú þó allt Íslendingar þegar kemur að því að opna ginið og gleypa arðinn af auðlind "þjóðarinnar" en í annan tíma skulu þeir kallaast rasistar og nasistar og fasistar sem vilja standa á rétti þjóðarinnar.
Vissulega er illa farið með Namibíubúa að hafa af þeim réttmætan arð af auðlind sinni í formi skatta þ.e. ef rétt er frá skýrt sem væri nokkur nýung í tilfelli Helga Seljan.
En hvert fara skattar þeirra Rattkliffa sem hér fjárfesta í auðlindum, eða rafmagnsbaróna framtíðarinnar þegar kominn verður sæstrengurinn? Hvert færu skattar útgerðarfyrirtækja ef ESB umsækjendum hefði orðið að ósk sinni og við gengið í ESB og lagt sjávarútveginn í hendur Spánverja og annarra ESB landa?
Mér heyrist hæst hóa í því sama fólki nú og vill beyta nákvæmlega sömu brögðum á Íslendinga og Helgi Seljan segir okkur að Samherji noti út í Namibíu í samvinnu við óðþjóðalýðs elítuna þar.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 14.11.2019 kl. 15:47
Sæll Ómar, þú ert snúinn þegar þú tekur undir orð doktorsins. „Hvaða skoðun sem fólk kann að hafa á okkar fiskveiðistjórnunarkerfi er alveg ljóst að það hefur reynst vel til þess að hamla gegn ofveiði."
Ég var svo heppin að vera í "neðra" og kynnast togarasjómennsku síðasta árið fyrir kvóta, það voru ekki allir á því að hafa "héra" um borð, þannig að ég fluttist til Litlu Moskvu, sem var náttúrulega alveg sjálfsagt mál fyrir tíma fjórfrelsisins. En það var nú ekki sjóveiki og hreppaflutningar sem stóð til að rifja upp.
Frá þessum tíma man ég að umræðan snérist um það að heildarafli þorsks á Íslandsmiðum var á leiðinni niður fyrir 400.000 tonn árlega. Það töldu menn ekki hafa skeð frá tímum árabátanna. Öll þau ár síðan, sem hið frábær fiskveiðastjórnunarkerfi hefur verið við lýði, hefur heildarafli þorsks verið ca 50% af því sem áður var og það þrátt fyrir alla gömlu sigrana í landhelgisstríðunum áður en því var komið á.
Hvað aðrar tegundir en þorskinn varðar er flest á sama veg. Á fiskveiðistjórnun rækju og humars í þessu frábæra kerfi er hreinlega ekki hægt að minnast á ógrátandi. Kerfið sjálft, sem upphaflega var fiskverndarkerfi, snérist upp í að bjóða upp á lítið annað en sukk og svínarí. Auk þess sem þeim sem þurfa að kaupa sig inn í það hefur verið nauðugur einn kostur, en hann er sá koma einungis með úrvals afla að landi, eða horfast í augu við gjaldþrot. Úrvals afli var ekki það eina sem kom í pokann þegar ég var til sjós.
Já mér finnst þetta snúinn pistill hjá þér en þú vindur nokkuð ofan af honum með því að minnast á það sem raunverulega skiptir máli. "Eina sem er hægt að deila um með Samfylkinguna er hvort vitið fór algjörlega með brottför Ingibjargar eða endanlega þegar Jóhanna fór eftirlaun. Hvernig geta viðskiptahættir í Namibíu verið forsenda enn einnar aðfarar að landsbyggðinni með stórhækkun veiðileyfisgjalda?? Hvernig er hægt að leggja að jöfnu tekjur landeiganda að laxveiði og tekjum þjóðarinnar af sjávarútvegi, og komast að þeirri niðurstöðu að laxabarónar græði meira en þjóðin?? Eða sú forheimska að leggja til að stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins sé gert óstarfhæft með því að eigur þess séu frystar?? Dugði ein saga af Bakkabræðrum eða þurfti margar??"
Því er fljótsvarað að það hefur aldrei verið vit í Samfylkingunni. Og málum hefur verið umsnúið svo rækilega í umræðunni að fjöldi Íslendinga telur sig eigi að fá sinn skerf af kvótanum, alveg burt séð frá því hvort sú eða sá hafi nennu til að veiða eða vinna í fiski.
Auðlindir hafsins eru fyrir þá sem hafa kunnáttu til að nýta þær og ætti sú atvinnustarfsemi að lúta sömu skattaálögum og önnur atvinnustarfsemi í landinu. En "kerfið", sem doktorinn dásamar, er eins Geiri á gulu Guggunni benti réttilega á "eitt allsherjar spilavíti".
Magnús Sigurðsson, 14.11.2019 kl. 17:40
,,, og að sjálfsögðu með bestu kveðjum úr efra í neðra.
Magnús Sigurðsson, 14.11.2019 kl. 18:33
Í þessum pistli er enga skinhelgi að finna.
Hér er bara sannleikurinn sagður umbúðalaust.
Takk fyrir Ómar Geirsson.
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 14.11.2019 kl. 19:18
Takk fyrir það Símon Pétur, mér þykir vænt um þessi orð þín.
Blessaður Magnús.
Mér finnst þú eyða mörgum orðum í beina tilvitnun sem í raun er fororð þess sem ég sagt vildi hafa, tilvitnun sem þjónar í raun þeim eina tilgangi að vera eitthvað jákvætt áður en ég byrja árásir mínar. Og meira að segja í þessari tilvitnun er ekki gerð nein tilraun til að réttlæta kvótakerfið eða skauta framhjá því að það er umdeilt, það er aðeins réttilega bent á að það hefur reynst vel til að hamla gegn ofveiði. Sett í samhengi við skaða á orðspori sem á beinan og óbeinan hátt hefur hjálpað íslenskum framleiðslufyrirtækjum að selja tæki og tól, lausnir og hugvit víða um heim.
Þessi verðmætasköpun, þessi hliðarafurð veiða og vinnslu, er nefnilega einn mikilvægasti vaxtarbroddur íslensk atvinnulífs síðustu ára, ekki bara vegna þess að hann skapar gjaldeyri, heldur líka vegna þess að hann er forsenda hátæknifyrirtækja sem aftur hafa þá burði til að þróa áfram tækni og hugvit, sem alltaf fyrst nýtist íslenskum sjávarútvegi.
Þetta er inntak orða Ásgeirs Brynjars, ekki kostir og gallar kvótakerfisins, og þetta er skaðinn, hinn raunverulegi skaði, en ekki sá ímyndaði sem bullukollar Samfylkingar og Viðreisnar klifa á, að við séum einhver spillingarþjóð, út í hinum stóra heimi vita allir eins og er að spilling er hluti af viðskiptaumhverfi ríkja Afríku, ekki einu sinni regla, því regla krefst alltaf undantekninga.
Fullyrðing hans tekur ekkert á meintri hagkvæmi þess, ég þekki rök þín vel, en þekki einnig mörg mótrök enda er ég þorpari sem lifði og hrærðist í þessu umhverfi á árum áður, ásamt því að hafa þekkingu til að vega og meta rök með og á móti. En tökum eitt solid dæmi um fiskverndun kvótakerfisins, þegar það kom upp sýking í kolastofninum í Faxaflóanum, þá var kvótinn á landsvísu skorinn niður um 40%, með þeim afleiðingum að til dæmis hérna fyrir austan var útgerð snurvoðabáta ekki lengur hagkvæm. Svo núna er veiðin á óskýktum stofni Austfirða engin, og ef engin veiði hindrar ekki ofveiði, hvað hindrar hana þá??
En það má deila um hagkvæmi slíkrar nýtingar.
Síðan ætti það að vera ljóst að ef fiskstofn hefur gefið af sér 400 þúsund tonn að meðaltali til lengri tíma, að þá er rúmlega 200 þúsunda tonna afli ekki ofveiði, hvernig sem á það er litið. Hámarksafrakstur er síðan annað mál.
En Magnús, það er brýn ástæða til þess að ég blanda mér í þessa umræðu, og hún snýr ekki beint af áhuga mínum á Samherja eða meintum misgjörðum þess ágæta fyrirtækis.
Ómennskan ætlar að nýta sér meintan glæp í Afríku til að vega að mér og mínum, eftirlifandi þorpurum þessa lands sem lifðu af herleiðinguna sem kennd er við frjálst framsal aflaheimilda og skaðaði þúsundir án þess að nokkrar bætur kæmu á móti.
Sá kostnaður og þær þjáningar voru aldrei teknar með í útreikningum á meintri hagkvæmi hins íslenska kvótakerfis, nýfrjálshyggjan hefur alltaf litið á venjulegt fólk sem kostnað sem má missa sig.
En lítill er dugurinn ef fólk snýst ekki til varnar.
Og ég er allavega ekki það duglaus.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 14.11.2019 kl. 22:00
Blessuð Kolbrún.
Blessanlega er sjávarútvegur okkar ennþá undaþeginn fjórfrelsinu, þá hagsmunaöfl rói af því öllum árum að afnema þá undantekningu.
Þau beita fyrir sig Samfylkinguna og Viðreisn í því máli, og nýta sér þennan atburð til að ná fram þeim markmiðum sínum.
Síðan mun Samherji lifa þó fyrirtækið skipti um eigendur, og það er vel, því Samherji er í fararbroddi í landvinnslu í heiminum í dag.
Það er svar þjóðarinnar við þrælahaldið sem kennt er við alþjóðavæðingu, það er ekkert náttúrulögmál að flytja alla framleiðslu til Kína, það er val auðs og auðmanna sem fyrst og síðast arðræna sínar eigin þjóðir.
Það er ekkert gott í því fólki sem dásamar alþjóðavæðinguna og vinnur að því hörðum höndum að eyða allri innlendri framleiðslu.
Eina spurningin er hvort það sé meðvitað um gjörðir sínar.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 14.11.2019 kl. 22:11
Blessaður Bjarni.
Tvískinnungur og hræsni er ekki nýlunda hjá þessu fólki, en það er samt svo að gjörðir lýsa manninum, ekki orð hans eða orðagjálfur.
Þess vegna taldi ég ástæðu til að minna á hvaða glæpi þetta fólk er í besta falli samdauna, en flestir í raun í beinni ábyrgð fyrir. Og réttilega bendir þú á síðustu illvirkin.
Þekki ekki til skattamála í Namibíu, en ég veit þó samt að landið væri ekki talið þriðja óspilltasta landið í Afríku ef Helgi hefði rétt eftir.
Ef lög eru brotin þarna suður frá, þá munu þarlend stjórnvöld takast á við þau lögbrot.
Að halda annað er ekkert annað en yfirlæti og í raun dulbúinn rasismi.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 14.11.2019 kl. 22:21
Sæll Ómar, þakka þér fyrir svarið. Í upphafi skyldi endinn skoða og í mínu innleggi var endirinn spilavítið og Guggan.
Þú segir; "Ómennskan ætlar að nýta sér meintan glæp í Afríku til að vega að mér og mínum, eftirlifandi þorpurum þessa lands sem lifðu af herleiðinguna sem kennd er við frjálst framsal aflaheimilda og skaðaði þúsundir án þess að nokkrar bætur kæmu á móti."
Þetta skil ég mæta vel og tek heilshugar undir, en það er ekki góð latína að skjót sendiboðann sem bendir á að herleiðing helfararinnar var flutt til Afríku sem "besta fiskveiðistjórnarkerfi í heimi".
Þó svo að til séu "brotnar byggðir" á Íslandi, sem lifðu helförina af, þá verða steiktar spýtur, teiknaðar kartöflur og burt flogin hænsni ekki að verðmætum nema með hundakúnstum. Það sama á við um verðmæti þess ofveidda fisks sem enn syndir óveiddur í sjónum.
Magnús Sigurðsson, 15.11.2019 kl. 06:10
Rétt er það Magnús, það er ekki góð latína.
Þér að segja þá hef ég mikið hugsað um fiskveiðistjórnun og er til dæmis mikill aðdáandi Jóns Kristjánssonar fiskifræðings, ber virðingu fyrir rebellum sem þora gegn hagsmunum kerfisins. Ég sé ekki hvernig hægt sé að stýra fiskveiðum nema með einhverju formi af kvóta, smábátar gætu haft eitthvað sóknarsvigrúm, til dæmis hámarks kvóta per skip, og réttinn til að nýta grunnmið, en stór skip þurrka upp ef þau fá óhefta veiði. Og verðmætasköpun þarfnast stýringar yfir ár, ekki að vera eitt stórt síló sem tekur við aflahrotum.
Að mínum dómi liggur meinið í frjálsu framsali og skorti á samfélagslegum markmiðum.
Það tókst þó að hindra að einstakar útgerðir mættu fara yfir 10% sem tryggir ákveðinn lágmarksfjölda, þó hefur Samherji fundið hjáleið sem er meint þykjustu sjálfstæði Síldarvinnslunnar.
En markmið Steina Páls og félaga, sem núna eru flestir í Viðreisn, var Nýja Sjálandsleiðin, þar voru 3 útgerðir eftir 5 ár og sjávarbyggðirnar rústir einar.
Þetta lið stefnir ennþá að því að rústa okkur, og því ber að verjast. Þó Leníngrad væri mikið bombuð, þá vörðu menn hana, og ekki vegna Sovétsins, heldur þrátt fyrir það. Frelsið kom svo 40 árum seinna, ekki fullkomið, en frelsi engu að síður.
Sú barátta er í deiglunni og þá verður annað að víkja. Ég hugsaði samt mitt þegar Sighvatur Björgvinsson sagði stoltur frá afrekum sínum í Namibíu, að þeir hefðu einmitt komið á besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi, og þar væru aflaheimildirnar selda hæstbjóðanda. Svo hefði nýfrjálshyggjan komið og eyðilagt allt.
Aflaheimildir seldar hæstbjóðanda er einmitt nýfrjálshyggja, þá víkur allt annað og þeir sem bjóða leita allra leiða til að ná niður öðrum kostnaði, þess vegna er alltaf fátækt og örbirgð fjöldans í kringum svoleiðis kerfi, þó milliliðir og millistjórnendur geti haft það ágætt.
Ég veit ekki hvort þetta Samfylkingarlið sé svona vitlaust að það fatti ekki hvað nýfrjálshyggja er, eða það er í raun hættulegasti vinnumaður óvinarins, rotið inn að beini.
Þetta Samherjamál tikkar í flest ef ekki öll box þess kerfis sem frjálshyggjan hefur innleitt á Vesturlöndum síðustu áratugina, en í stað þess að menn fókusi á hið undirliggjandi kerfi, þá tekst vinnumönnum auðsins að láta umræðuna snúast um sértækt, og ætla síðan að nýta hana til að herða tökin enn meir, festa græðgivæðinguna enn frekar í sessi, bæði með uppboðsleiðinni á kvótanum sem og að herða róðurinn til að koma þjóðinni í náðarfaðm Brussel.
Þetta væri líkt og menn kæmu ári eftir að Kemrarnir voru hraktir frá völdum, horfðu yfir tómar borgir og lamað atvinnulíf og segðu, heyrðu, við þurfum að fá Pol Pot aftur, sjáiði afleiðingarnar af stjórnarskiptunum.
Það er vissulega lofsvert að afhjúpa ósómann en þetta er eins og í Wintris málinu, það liggur fiskur undir steini. Þá var fiskurinn afslátturinn sem var gefinn frá fyrstu hugmyndum um stöðugleikasáttmálann, hátt í 500 milljarðar króna.
Eina spurningin í þessu dæmi er hvort Helgi sé svona fattlaus, eða er hann svona harðsvíraður?
En hann er allavega ekki í vinnunni fyrir mig eða þig.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 15.11.2019 kl. 08:36
Sæll Ómar, ég sé að við erum hjartanlega sammála í grunnin enda átti ég ekki von á öðru, en tilvitnunin í doktorinn mér Spánskt fyrir sjónir.
Fram hjá því verður ekki litið að Samherjamenn hafa staðið sig afburða vel innan "besta fiskveiðistjórnunar í heimi" og gerðu það reyndar áður en það kom til, og segja má að þeir ástundi viðskiptahætti sem eru góðkenndir af kerfinu. Þó svo að íslenskir stjórnmálamenn kjósi að átta sig ekki á hvernig mútuféð er til þeirra komið. En þau gömlu sannindi verða seint sniðgengin að skítur flýtur, rétt eins og fiskur mun á endanum koma undan steini.
Hvað Helga varðar þá getur hann svo sem verið fattlaus, harðsvíraður loddari og boðberi sannleikans allt í senn, enda uppalinn í neðra. Hann þekkir það jafnvel og við hvernig "besta fiskveiðastjórnunarkerfi í heimi" fór með margann heimahagann. Þessi saga er eins og Sturlunga, að því leiti, að því miður ekki hægt að halda með neinum, kerfið er einfaldlega þannig.
Með kveðju úr efra.
Magnús Sigurðsson, 15.11.2019 kl. 13:34
Tja, eins og ég sagði hér að ofan þá vorum við Ásgeir Brynjar ekki aldrei þessu vant að fjalla um dásemdir besta fiskveiðistjórnarkerfis í heimi, heldur um meintan skaða sem þetta mál getur haft á útflutning á íslenskri tækni og hugvit.
Varðandi Helga þá skulum við ekki láta okkur detta í hug að hann sé að hugsa um kvótakerfið eða afleiðingar þess á þorpin þegar hann vann þessa skýringu sína, eina spurningin er hvort hann geri sér grein fyrir að hann sé verkfæri eður ei.
Svo ég vitni í nýlega samlíkingu, þá upplifum við átök höfðingja, spurningin er hvort Noregskonungur rói undir til ýta undir upplausn og óáran.
John Perkins varaði okkur við svona vinnubrögðum fljótlega eftir Hrun, og ég fæ ekki betur séð en að aðvörunarorð hans hafi gengið eftir. Við erum um margt farnir að minna á þekkt dæmi í Suður Ameríku, þó grunar mig ekki CIA, og reyndar ekki Noregskonung heldur þó hann hafi ekki verið með öllu saklaus á Sturlungatímum.
En hrægammarnir, þeir róa þar til innlend verkfæri þeirra verða tekin og ákærð fyrir landráð.
Svo einfalt er það.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 15.11.2019 kl. 14:14
Nú erum við að tala saman.
Með kveðju úr efra.
Magnús Sigurðsson, 15.11.2019 kl. 14:37
Við höfum alltaf talað saman Magnús.
Spjallið við þig hefur ekki bara dýpkað það sem ég sagt vildi hafa, en gat ekki sagt sökum takmarkana á lengd pistilsins, það hefur líka hjálpað mér að orða hugsanir sem voru þarna einhvers staðar, en ekki alltaf auðvelt að kalla fram þegar ég ætla að pistla, og þú bættir við.
Sem og viðbót þín ásamt umræðu okkar, gerir þennan þráð góðan, fyrir fólk sem vill verja samfélag sitt, í stað þess að vera leiksoppur stýrðar hneykslisumræðu höfðingjanna.
Ég er agressívur rebel Magnús, ágætur til míns brúks, en á köflum eru pistlar þínir Laxness.
Og það er ekki öllum auðgefið.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 15.11.2019 kl. 15:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.