Vér ákærum.

 

Upphaf sjálfstæðisbaráttu Íslendinga má rekja til þingmanna á þjóðfundinum 1851 sem risu upp og mæltu þessu fleygu orð; "Vér mótmælum allir".

Tónn var sleginn sem endaði með stofnun lýðveldisins á Þingvöllum 17. júní 1944.

 

Ísland varð þá sjálfstætt ríki með stjórnarskrá, sjálfstæðu löggjafarþingi og ríkisstjórn sem sótti vald sitt til þjóðarinnar gegnum lýðræðiskjörinn þingmeirihluta sinn.

Og þessi örþjóð út í ballarhafi varð velmegunarríki þar sem jöfnuður og velferð var eins og best gerðist á byggðu bóli.  Ekki sjálfgefið því að öllu jöfnu þá eiga útnárar ríkja erfitt uppdráttar, glíma við fólksfækkun, hlutfallslega fátækt og ekki hvað síst, jafnt menntunar sem menningarskort.

Hvernig sem á það er litið þá er forsenda velmegunar og velferðar þjóðarinnar, sjálfstæði hennar og sá innri styrkur að vilja vera ekki síðri en stærri þjóðir.

 

Síðan þá hafa mörg vötn runnið til sjávar.

Hið frjálsa flæði fjármagns skóp hér fámenna stétt fjármógúla sem náðu á örfáum árum að kaupa helstu stórfyrirtæki þjóðarinnar, ásamt að leggja undir sig banka hennar, þeir skuldsettu allt í botn, fóru á hausinn og tóku þjóðina með sér.

Hörmungarnar í kjölfarið er eins og fellibylur hafi gengið yfir, eða sprengjum hafi verið varpað á borgir og bæi, þessar staðreyndir mega aldrei gleymast;

 

"Frá hruni hafa 10.000 fjölskyldur misst heimili sín á uppboðum og sennilega eru þær a.m.k. jafnmargar sem hafa misst heimili sín án þess að til uppboðs hafi komið. Varlega áætlað hafa því fleiri en 15.000 fjölskyldur misst heimili sín eða á bilinu 45.000 – 60.000 einstaklingar sem samsvarar öllum íbúum Kópavogs og helmingnum af Garðabæ. Á sama tíma hafa verið gerð 164.000 fjárnám hjá þessari 360.000 manna þjóð. Þar af voru 127.000 fjárnám árangurslaus. Þessar tölur tala sínu máli um aðgerðir stjórnvalda eftir hrun.".

 

Nema að þetta voru manngerðar hörmungar, og ábyrgðin liggur alfarið hjá íslenskum stjórnvöldum og Alþingi.

Íslenska stjórnmálastéttin fórnaði þjóð sinni fyrir frið við hið alþjóðlega fjármagn sem krafðist þess að hrægammar mættu gera upp náinn.

Sem þjóð upplifðum við áður óþekkta siðblindu fólks sem naut trúnaðar okkar og trausts, og hefur aldrei hvorki þurft að sætta ábyrgð ómennsku sinnar, eða biðjast afsökunar á henni.

 

Og það er svo að fólk sem hefur rofið sáttmála mennskunnar, slitið öll tengsl við guð og góða siði, að það lætur aldrei staðar numið, fyrr en það er stöðvað.

Eitthvað sem íslenskum almenningi hefur ekki borið gæfa til.

 

Mig langar að vitna í skarpasta penna sem eftir er af mörgum góðum sem skrifuðu í dagblöð okkar á blómaskeiði þeirra, Styrmi Gunnarsson.

 

"Það er óhugnanlegt að fylgjast með því, með hvaða hætti lýðræðið er brotið á bak aftur. Hið sama hefur gerzt hér á Íslandi í eins konar örmynd í samanburði við Bretland vegna orkupakkans.

Hér er það embættismannakerfið í samvinnu við skoðanalausa og viljalausa stjórnmálamenn, sem koma við sögu, með hagsmunaaðila að bakhjarli. Það er aðeins ein aðferð til sem dugar til þess að takast á við þessa nýju innri ógn í lýðræðisríkjum og hún er sú að afhjúpa Djúpríkið og leiða það fram í dagsljósið.".

 

Þessi orð eru þeim mun alvarlegri því þau er skrifuð af einstakling sem alla sína ævi hefur varið hið borgarlega þjóðskipulag.

Og varið borgarastéttina.

 

Tilefnið er ekki bara sú gjörð stjórnmálastéttarinnar að selja forræðið yfir orkuauðlindum þjóðarinnar í hendur Brussel valdsins, heldur líka þau vinnubrögð sem stjórnmálastéttin viðhafði í umræðunni um orkupakka 3.

Það eru gild sjónarmið að taka þátt í orkubandalagi ESB og tengjast hinum sameiginlega raforkumarkaði, og hvernig sem á það er litið, þá eru bæði kostir með, og kostir á móti.

Innihald regluverksins er skýrt, sameiginlegur raforkumarkaður, þar sem orkuverð ræðst af framboði og eftirspurn, og yfirþjóðleg stofnun, ACER, sem mótar stefnu, ber ábyrgð á að einstök ríki framfylgi henni, og sker úr um ágreiningsefni, bæði innan ríkja og milli ríkja.

 

Stjórnmálastéttin kaus hins vegar að ljúga til um allt, afneitaði bæði markmiðum regluverksins, innihaldi þess  og afleiðingum.

Í stað þess að rökræða málin, þá voru þeir sem það vildu, sakaðir um blekkingar, að fara með staðleysur og annað, þegar þeirra eina sök var að segja frá því sem stóð í regluverkinu, og útskýra hvað það þýddi með hliðsjón af reglum Evrópusambandsins um hið frjálsa flæði.

 

Og í krafti fjölmiðla orkumógúlana, og í traust þess að þeir fjármögnuðu framboð núverandi forseta og eiga hann í raun, þá komst hún upp með málflutning og umræðu sem á sér engin fordæmi í vestrænum lýðræðisríkjum frá seinna stríði.  Eina samsvörunin má finna í Berlín í aðdraganda falls Weimars lýðveldisins í upphafi fjórða áratugar síðustu aldar.

Ef lýðræðið og lýðveldið er tré, þá hjó hún ekki aðeins í tréð með því að afhenda Brussel og markaðnum forræði orkuauðlinda þjóðarinnar, heldur sargaði hún rætur þess með árás sinni á staðreyndir og heilbrigða skynsemi.

Því aðeins við ógnarstjórn, í ógnarríkjum eru staðreyndir háðar geðþótta stjórnvalda, og sannindi aðeins rædd ef valdhafin leyfir slíkt.  Þar er litla stelpan sem bendir á hinn nakta keisara höggvinn á staðnum fyrir ósvífnina.

Höggvin fyrir að segja satt.

 

Þetta er alvarleiki málsins.

Sú aðför að lýðræðinu að stjórnvöld reyni, og komist upp með, að ljúga til um stefnu sína og afleiðingar hennar.

Því forsenda lýðræðisins er að stefnur og viðhorf takist á, út frá staðreyndum og túlkun þeirra, ekki falsi og blekkingum.  Slíkt er alltaf jaðar, ekki aðal.

Og út frá þessum alvarleika kallar Styrmir á að Djúpríkið verði afhjúpað, því það virðir ekki lengur leikreglur lýðræðisins.

 

En stjórnmálastéttin sem sveik þjóð sína í hendur innlendum og erlendum hrægömmum eftir Hrun, og hefur núna samþykkt regluverkið sem kennt er við orkupakka 3, er samt ekki hafin yfir lög lýðveldisins.

Hún getur vissulega vanvirt stjórnarskrána ef á Bessastöðum situr leppur orkumógúlana, en hún getur ekki vanvirt almenn hegningarlög.

Hún getur ekki keyrt dauðadrukkin, hún má ekki stela úr búðum, og hún má ekki pissa á almannafæri frekar en aðrir borgarar þessa lands.

Og hún má ekki selja land sitt án þess að breyta lögunum fyrst.

 

Hvað það varðar eru hegningarlögin skýr.

 

"86. gr. Hver, sem sekur gerist um verknað, sem miðar að því, að reynt verði með ofbeldi, hótun um ofbeldi, annarri nauðung eða svikum að ráða íslenska ríkið eða hluta þess undir erlend yfirráð, eða að ráða annars einhvern hluta ríkisins undan forræði þess

.. 87. gr. Geri maður samband við stjórn erlends ríkis til þess að stofna til fjandsamlegra tiltækja eða ófriðar við íslenska ríkið eða bandamenn þess, án þess að verknaðurinn varði við 86. gr., þá varðar það fangelsi ekki skemur en 2 ár eða ævilangt. Sé þetta í því skyni gert að koma erlendu ríki til þess að skerða sjálfsákvörðunarrétt íslenska ríkisins á annan hátt ,.. .".

 

Norðmenn breyttu lögunum sínum áður en þeir gengust undir hið evrópska forræði, en hrokinn í hrokanum sá ekki ástæðu til þess.

Haldreipið er kannski að Evrópusambandið sé ekki erlent ríki, heldur erlent vald, en mér er það til efs að það haldi þegar í það er togað fyrir dómi.

 

Það er vissulega rétt, að á meðan það reynir ekki á regluverkið, þá má túlka það stjórnmálastéttinni í vil.

En þegar boðin koma að utan, þegar Orkustofnun telur sig ríki í ríkinu, óháð innlendu valdi, en lýtur boðvaldi ACER, þá er ljóst að sjálfsákvörðunarréttur íslenska ríkisins er verulega skertur.

Reyndar eitthvað svo svipað og við höfum upplifað í kjötdóminum, en í orkuregluverkinu er forræði ACER skýrt, svo ekki er hægt að þræta að um erlent boðvald er að ræða.

 

Varnarbarátta þjóðarinnar hlýtur því að felast í að ákæra eftir lögum landsins, eftir skýrum ákvæðum hegningarlaga.

Eins og áar okkar sem mótmæltu, þá eigum við að ákæra.

Ákæra fólkið sem seldi landið okkar.

Því í lýðræðisríkjum er enginn hafinn yfir lög, hvorki þingmenn eða ráðherrar.

 

Þegar forsætisráðherra mælir í kvöld, þá skulum við muna að hún er ekki hafin yfir lög þjóðarinnar.

Þó hún í trausti valdhroka síns haldi að hún sé ósnertanleg, þá er það svo ekki.

 

Ekki á meðan það er til fólk sem rís upp og segir;

"Vér ákærum".

 

Vér ákærum.

Kveðja að austan.


mbl.is Stefnuræða forsætisráðherra í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Loksins eygi ég von svo nákvæmlega eins og ég óskaði og bið guð um nánast á hverju kvöldi. Vér ákærum; svo sannarlega guðdómlegur pistill,það sækir að mér höfgi.Góða nótt.

Helga Kristjánsdóttir, 12.9.2019 kl. 01:03

2 identicon

En þingmenn á þjóðfundinum 1851 risu ekki upp og mæltu þessu fleygu orð; "Vér mótmælum allir". Það var ekki fyrr en eftir að þjóðfundinum hafði verið slitið að þingmann risu upp og mæltu hin fleygu orð, þeir sátu þá stundina bara í sal en ekki á þjóðfundi. En eins og venjulega þegar vekja þarf þjóðernisrembing og heitar tilfinningar með bulli og þvælu þá má sannleikurinn víkja ef sagan er betri án hans.

Vagn (IP-tala skráð) 12.9.2019 kl. 02:51

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Mörgu verður Vagn feginn stóð einhver staðar, samt óþarfi fyrir þig að færa sönnur á þessari staðhæfingu.

Óþarfi því gerir ekkert annað en að rugla mig í ríminu.

Tók mig langan tíma að skilgreina þig sem lógaritma, en veit eins og er þó þeir séu ekki skörpustu hnífarnir í skúfunni, eins og annar maður sagði oft, því þeir eru reiknirit ekki vitrit, þá hefði gagnagrunnur þeirra komið með rökréttara bögg en þetta hér að ofan.

Spurning hvort þú  sért blanda af manni og reikniriti, það er þegar reikniritið er latt, þá kalli það á einhvern tilfallandi af skrifstofunni til að leysa það að hólmi. Og þessi tilfallandi geta verið fleiri en einn því ég tekur eftir því að stundum ertu bara leiðinlegur, en uppá síðkastaði hefur þér tekist að vera skemmtilegur, og farið létt með.

Allavega þarf oft miklu minna til að rugla okkur sveitamennina.

En þú fékkst mig til að brosa, takk fyrir það.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.9.2019 kl. 06:56

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Góðan daginn Helga.

Mikið betri viðbrögð getum við smáfuglarnir óskað okkur en þessi orð þín.

En von smáfuglsins felst í söng flokksins og til þess þarf öflugri penna en mig.

En þetta var hugsað sem innlegg í þá umræðu að öldungarnir snúi bökum saman og eyði síðustu kröftum í að verja þjóð sína og framtíð barnabarna sinna, sem og barnabarnabarna.

Á einhverjum tímapunkti þarf fólk að átta sig á að hart þarf að mæta hörðu, einbeittari brotavilja en stjórnamálastétt okkar sýndi í þessum máli er vandfundin.

En alvarleikinn felst í hinni hægfara innlimun í ESB, þar sem kjötdómurinn held ég að hafi verið vatnaskilin.

Menn ákæra ekki í svona málum til að fá dóma, enda slíkt fjarri allri minni hugsun og lífsviðhorfum.

Menn ákæra til að fá umræðu, umræðu um hvað má, og hvað má ekki.

Og að lög eigi að virða.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.9.2019 kl. 07:03

5 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Sæll! Vertu ekki að misskilja mig Ómar en ég reikna ekki með þér í forystu alvöru slagsmála. Ég veit hvað þú ert góður penni en sé þig ekki fyrir mér í hörku andmælum á þingi,en það er engin fullvissa í þeim vangaveltum. það veltist sitt hvað í gegnum huga manns en enga sérstaka ósk um svikara þjóðarinnar sem bandingja okkar í fangelsi,finnst mátulegt að þeir hrökklist frá og ég reyni ekki að lýsa hve miklu minna og færra var að hræðast í uppeldi barna frá miðjum sjötta áratug seinustu aldar,þar til í dag að mönnum flökrar ekki við að ljúga og selja sig auðvaldinu þótt bitni á fjölskyldum lands okkar.  

Helga Kristjánsdóttir, 12.9.2019 kl. 21:46

6 Smámynd: Óskar Kristinsson

Blessaður Ómar!

Þessi pistill þinn er hreinasta SNILLD!!! Værir þú ekki til í að leifa hann sendann inn á öll heimili í landinu?

Það hlítur að vera hægt að koma því við með einhverju móti án mikils kostnaðar.

KV af Suðurlandi

Óskar Kristinsson, 12.9.2019 kl. 21:48

7 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Þakka góðan pistil Ómar.

 Það er kaldhæðni örlaganna, þegar stjórnmálamenn á Alþingi Íslands sjá ekki einu sinni atlöguna að sjálfum sér. Atlögu, sem stendur nú sem hæst og kemur frá sjúklega og ógnvekjandi ofvaxinni embættismannaelítu?

 Elítu sem sleikir út um, því ef næst að fella næsta vígi með orkupakka þrjú og fjögur og fimm og sex o.s.frv. mun hún taka yfir öll störf núverandi pólitíkusa. Alþingi verður óþarft. Kosningar verða óþarfar, nema þegar þarf að velja embættismenn, sem sitja og standa eins og fjórða ríkið skipar. Husjónagelt og heilaþvegið stimpilpúðagengi, sem aldrei nær meiri langdrægni í hugsun eða hugsjón, en sem nemur eigin afturenda?

 Svei þeim gungum og aulum, sem gengið hafa úr skafti hugsjóna og baráttu, fyrir þjóð sína. 

 Var sjálfstæðinu virkilega náð, eftir árhundruða ánauð erlendra afla, til þess eins að drulla í buxurnar eftir aðeins örfáa áratugi, eða slétta eina öld? 

 Fávís tuðari bara spyr.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 13.9.2019 kl. 00:28

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Nei Helga mín, ég er ekki að misskilja þig, og ég er þakklátur fyrir hlý og einlæg viðbrögð.

Athugsemdarkerfið nýti ég mér líka til að hnykkja á efni og hugsunum, og við þína athugasemd spann ég tvennt. 

Annars vegar að það væri umræða ákærunnar sem afhjúpaði falsið og blekkingarnar, og þó vissulega sé það von mín að stjórnmálastéttin fengi rauð spjaldið þá er það aldrei að fara að gerast.  En hún gæti lært, í versta falli gætt betur að sér næst en í betra lagi á einhvern hátt breytt um kúrs í valdhroka sínum.

Og á vissan hátt gæfi umræðan byr fyrir andstæðinga EES samningsins, því hann er meinið, ef hann hefur nokkurn tímann verið viðskiptasamningur, þá hefur hann um margt fyrir löngu breyst í hjáleigusamningu, og með orkupökkunum er hafin vegferð boðvalds sem í laun er hægfara innlimun í Evrópusambandið.

Þá kem ég að hinu atriðinu, fólk þarf að snúast til varnar, nema náttúrulega að það sé sátt við þessa innlimun.

Og von þeirrar varnar felst í að stærri kanónur en ég hleypi af og á öðrum vettvangi en í bloggheiminum. 

Allar alþýðuuppreisnir sem hafa heppnast, hafa byggst á sterkum leiðtogum, og þeir leiðtogar eru til hérna, og þó flestir séu komnir á aldur, þá er það bara betra, þeir eru þó allavega ekki mótaðir af tómhyggju og innihaldsleysi nútímans. 

En þeir þurfa að stíga fram, og meinið í dag virðist vera að allir horfa á hina.

Þess vegna vonum við það besta Helga.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 13.9.2019 kl. 08:54

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Óskar.

Þessi pistill var lengi á teikniborðinu í hausnum, og framlengdi í raun viðveru mína um viku hér í bloggheimum því hann átti að skrifast þegar þingið samþykkti orkupakkann.

En ég vissi bara ekki hvernig ég átti að byrja hann, og því fékk innihaldið ekki að koma út.

Ég er ánægður með hann, og ég sé að þú ert ánægður með hann, en hann á ekkert erindi út fyrir netheima, þeir lesa sem hafa áhuga og eru að hugsa eitthvað svipað og ég, eða þeir sem hafa gaman að því að láta sér misslíka það sem ég er að hugsa.

Og við skulum játa fyrir okkur Óskar að orkupakkaumræðan er ekki sérstaklega inn í dag, og þar sem hún grasserar er fólk aðallega að fá útrás fyrir gremju sína.  Sem er eðlilegt nema að hún skilar engu nema sú gremja sé virkjuð.

Þessi lokapistill minn um orkupakkann er ákall til þess og ég mun mæta þegar ICexit kemst í umræðuna.  Ég vona að svo verði en mér sýnist að þegar á reynir þá er hérahjartað sterkara en viljinn til að gera það sem þarf að gera hjá öldungum þjóðarinnar.  Annars verður þetta bara enn ein bólan sem springur líkt og allar hinar frá Hruni.

Ég er svo fjarri hringiðjunni að ég hef ekki hugmynd um það sem er að grasserast en þau teikn sem ég sé eru ekki sérstaklega sterk.  Dálítill bara svona Píratabragur á þeim.

En það falla öll vötn til Dýrafjarðar þó sprænan sé ekki sérstaklega stór í augnablikinu. 

Það þarf að verja sjálfstæði þjóðarinnar og það sjálfstæði verður ekki varið með væli um að kjósa rétt í næsta prófkjöri eða verðlauna stjórnarandstöðuflokkinn sem hefði hagað sér nákvæmlega eins ef hann hefði verið í stjórn.

Sjálfstæðið verður aðeins varið með því að ráðast á sjálfa meinsemdina, Djúpríkið sem vill Brussel.  Og hefur völd til að koma okkur þangað, og er á fullu við þá iðju sína.

Það þarf bara að feisa það og þá verður sprænan að stríðu fljóti.

Þangað til er það kveðjan, að austan.

Ómar Geirsson, 13.9.2019 kl. 09:14

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Halldór.

Er það bara ekki Amen á eftir efninu.

Hef engu við orð þín að bæta.

Mættu sem flestir lesa þau og skilja.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 13.9.2019 kl. 09:15

11 identicon

,,Vér mótmælum allir"...nýju lögunum frá danska þinginu sem banna þrælahald og vistbönd.☺

GB (IP-tala skráð) 13.9.2019 kl. 14:41

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður GB.

Félagi Vagn, sem er vel útfærður algóritmi, á sér viss takmörk í þjónkun við auðmenn sem og í forriti hans eru ákveðin neðri mörk varðandi heimsku.

Þess vegna veit ég GB minn, að þú ert mennskur.

Og segi menn svo að ég viti ekkert.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 13.9.2019 kl. 15:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 16
  • Sl. sólarhring: 21
  • Sl. viku: 2656
  • Frá upphafi: 1412714

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 2318
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband