3.9.2019 | 09:00
Grænkeri gegn öllum hinum.
Það er vitað að maðurinn er ekki grasæta og ef hann neyðist sökum fátæktar eða annarra aðstæðna að lifa eingöngu á plöntupróteinum, þá veslast hann upp.
Hægt og hljótt.
Hins vegar er ekkert hljótt við grænkera þessa dagana.
Það er eins og meinlífið skapi ofstopa og yfirgang gagnvart þeim sem aðhyllast annan lífstíl sem er orðalag hins pólitíska rétttrúnaðar yfir venjulegt fólk.
Það er eins og efnaskorturinn í heila skapi viðvarandi pirring sem brýst út með allskonar afkáraheitum.
Þessi frétt er fyndin, ef hún væri einstök, en hún er aðeins aldan sem er undanfari holskeflunnar.
Grænkerinn er í heilögu stríði við okkur hin.
Notar reyndar ekki bombur eins og ofsatrúarmenn, heldur nýtur sér andvaraleysi fjöldans sem birtist í að lýðræðið skolar allskonar sérvitringum og sérviskustóði í valdastól.
Og fátt gleður sérviskustóðið meira en eldmóður sem þess eina markmið er að bögga fjöldann.
Umferðarhnútar, umferðahindranir, umferðarkaós, í landi þar sem allra veðra er von, er dæmi um ofstæki sérviskunnar og núna á að svelta börnin.
Núna á að neyða lífstíl sínum á aðra og réttlætingin er einhver umhverfisvernd.
Ofstopafólk hefur alltaf fundið sér einhverja réttlætingu.
Eitthvað sem gerir það betra en hin, og þess vegna megi það níðast á náunganum.
Einu sinn mátti ekki hlæja, einu sinni mátti ekki dansa, einu sinni mátti ekki vera af einhverjum ákveðnum kynþætti, og núna má ekki borða kjöt og fisk.
Þetta er svona vegna þess að fjöldinn sefur, hann rumskar ekki einu sinni þó skítugir peningar kaupi land hans og mið, og núna síðast orkuna okkar.
Skítugu peningarnir komast upp með þetta vegna þess að þeir hafa gert bandalag við sérviskustóðið og ofsatrúarfólkið, sem reyndar hefur ekkert með trúarbrögð að gera.
Við fjármögnum ykkur, tryggjum ykkur plássið í fjölmiðlum okkar, í staðinn látið þið rán okkar og rupl í friði. Segja skítugu peningarnir.
Þannig að bæði orkan og börnin okkar eru undir.
Grænmeti er ágætt og sannarlega mætti fólk borða meir af því.
Ein leiðin er beina hinni ódýru orku okkar í gróðurhús og matjurtagarða svo þjóðin fái hollt og gott grænmeti í stað þess eiturjukks sem flutt er langar leiðir og á aðeins nafnið sameiginlegt með því sem bóndinn og moldin framleiða.
Önnur leið er að kynna það sem víðast, kenna fólki að matreiða og njóta.
Nýta krafta samfélagsins til að tryggja stöðugt framboð að hollu og ódýru grænmeti þar sem eiturefni sígræðgimarkaðarins koma hvergi nærri. Eins mætti hugsa sér lífsstílssjóði sem gróska hugvitsins getur sótt um styrki til að koma hugmyndum sínum á legg.
Setja þetta allt í hið stóra samhengi hollustu og hreyfingar, þess lífstíls sem skapar lífsgæði og vellíðan.
En ofbeldi og nauðung er ekki leiðin.
Hvað þá vanheilagt bandalag með hinu skítuga fjármagni.
Það er tími til kominn að taka á móti þessu liði.
Gefa því til dæmis hollt að borða, nýveiddan fisk eða safaríkt lambkjöt.
Athuga hvort hörgullinn og sú hegðun sem hann framkallar, lagist ekki af sjálfu sér.
Því það er mikið á sig vinnandi að fækka bandamönnum hins skítuga fjármagns.
Við fengum ekki frelsi til að glata því í hendur ofstopafólks.
Við börðumst ekki gegn alræði kommúnismans og nasismans til að alræði peninganna vinni friðinn.
Frelsi og friður er auðlegð.
Sú mesta auðlegð sem við getum gefið börnum okkar.
Glötum henni ekki.
Kveðja að austan.
Nágrannaerjur á nýtt stig | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 353
- Sl. sólarhring: 760
- Sl. viku: 6084
- Frá upphafi: 1399252
Annað
- Innlit í dag: 299
- Innlit sl. viku: 5154
- Gestir í dag: 280
- IP-tölur í dag: 277
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þetta er nú meiri dellan, eins og þín er svo sem von og vísa:
Umtalsverður hluti mannkyns lifir einungis á grænmeti og hefur gert svo öldum skiptir. Til dæmis borðar þriðjungur Indverja aldrei kjöt eða fisk. Og það hefur nákvæmlega ekkert með fátækt að gera - hjá Hindúum eru það efri stéttir og millistéttir sem hafa flestar grænmetisætur meðan meiri líkur eru á að lægri stéttirnar borði kjöt.
Þorsteinn Siglaugsson, 3.9.2019 kl. 11:24
Þetta er nú meiri þvælan. En engu að síður ákaflega hlægileg lesning og þakka ég fyrir það!
"En ofbeldi og nauðung er ekki leiðin"
Þetta er akkúrat mergur málsins. Grænkerar eru að koma í veg fyrir ofbeldi og nauðung gagnvart dýrum sem er engin þörf á að fara svona með lengur í nútímasamfélagi. Þetta er bara spurning um að sætta sig við breytingar til hins betra og ekki hjakka í sama farinu bara því maður þekkir það.
Anna (IP-tala skráð) 3.9.2019 kl. 11:52
Enda þurfti nú ekki nema örfáar brjálaðar kjötætur á hestbaki til að leggja undir sig meginhluta Indlands, slátra milljónum grasæta, því sem stríðsmenn eru þær varla uppí nös á ketti.
Og eitthvað hljóta þeir að borða líka af korni því ekki hafa allir frétta af glútenóþoli grænkeranna og síðan þarftu að spá í orðalagið, "annarra aðstæðna", það vísar í hin greyin sem hafa ekki fátæktina sem afsökun að veslast upp. Þetta hefur maðurinn vitað frá örófi alda, enda í samfélögum þar sem meginhluti fæðunnar kemur úr jurtaríkinu, þá er ekki þverfótað fyrir hænsnum og svínum og öðrum húsdýrum, að ekki sé minnst á að menn mega ekki sjá smá sprænu eða poll að ekki sé reynt að athuga hvort ekki megi ná í fiskprótín. Og ef ekkert annað býðst, þá er næsta skordýr tekið og étið.
Allt til að losna við hlutskipti grænmetisætunnar, að vera fölur, gugginn og horaður fyrir aldur fram.
Það hvarflar að mér Þorseinn, miðað við heift viðbragða þinna, að þú hafir tekjur af bætiefnasölu sem er víst blómstrandi atvinnugrein hjá þeim sem sjá tækifæri í heimsku náungans, það er að selja vegan þau bætiefni og prótein sem mataræðið útvegar þeim ekki.
Vegan er á því stigi eins og hassreykingarnar voru í Hamrahlíðinni á sínum tíma, þegar stórneytendur dásömuðu neysluna því þeir voru ekki búnir að reka sig á hliðarverkanirnar. Svo þagnaði dásemdartalið, mér skilst seinna meir miðað við viðtöl við nokkra af hinu frelsuðu, að það hafi verið vegna þess að í nokkur ár voru þeir svo uppteknir að leita að ísskápnum heima hjá sér, hann var víst aldrei á sínum stað, sem og að þau týndust svo oft í íbúðinni þannig að það tók oft margar daga að finna sig aftur. Viðtölin voru víst við þá sem hættu að reykja.
Í dag eru fyrstu vegan viðtölin komin, þar sem fyrrum fylgjendur, og jafnvel boðendur, segja frá hvernig þeir frelsuðust úr viðjum vegans, eða eins og hún Virpi Mikkonen, þekkt fyrrum vegan trúboði sagði í viðtali við Daily Mail, "Mér leið eins og ég væri algjörlega bensínlaus. Ég var alveg tóm.". Henni til bjargar var þessi ráðlegging sérfræðings í kínverskum lækningum (venjulegur læknir hefði getað sagt henni þetta en hún hefði aldrei trúað honum) var þessi ráðlegging; "Sérfræðingurinn sagði að ég yrði að elda matinn minn og sagði að hún YRÐI að fara að borga dýraafurðir, daglega.".
Það er ekki löngunin til að drukkna sem skýrir að menn eru að leggja sig í hættu við að ná í fiskprótein, eða að menn elski svo gaggið í hænunni, þetta er bara spurningin um að þrífast.
Kommon sens Þorsteinn, kommon sens.
Kveðja að austan.
P.S. Hvarflaði það nú samt ekki að þér í nokkrar sekúndur að ég væri að fíflast í inngangi mínum??
Ómar Geirsson, 3.9.2019 kl. 12:22
Blessuð Anna.
Takk fyrir að taka eftir að markmið þessa pistils var ekki að vera leiðinlegur, og þó það hafi nú kannski ekki verið sérstakt markmið mitt, þeir sem þekkja til skrifa minna sjá tenginguna, þá tala ég nú nokkuð vel um grænmeti og neyslu þess.
En ekki eins vel um trúboð ofstækisins þó ég skuli játa að ég reikna ekki með að hvefsni hennar Cillu hafi stafað af skorti á B-12, að þá er frelsunarárátta ykkar vegan fólks stórfurðuleg.
Tilvitnuð orð þín voru efnislega um að þetta væri ekki leiðin til að útbreiða boðskapinn, líkt og sérviskustóðið í borgarstjórnarmeirihlutanum virðist halda, en þú kýst að nýta þessi orð til að réttlæta vegansima.
Og kemur þá að kjarna hræsni ykkar, til að bjarga dýrum frá því að vera étin, sem er hlutskipti allra dýra frá því að fyrsti einfrumungurinn fór að éta hinn, þá viljið þið útrýma öllum húsdýrum, nema að þið eruð eins og geimverurnar í einni ágætri bók sem ég las í ensku í gamla daga, það er góðu geimverurnar, sem vildu geyma sýniseintak af mannfólki í sérstökum gróðurhúsum, eftir að þau höfðu umbreytt súrefni jarðar í metan, þið viljið sem sagt leyfa örfáum einstaklingum að lifa í sérstökum húsdýragörðum þar sem þau geta verið frjáls. En frjáls frá hverju?? Lífinu? Því það er forsköpuð örlög lífsins að éta, eða vera étinn.
Minnir svona á Drakúla greifa (þennan raunverulega) sem vorkenndi svo öllum umrenningum og förumönnum landsins, enda lifðu þeir hundalífi, sífellt að berjast við hungurvofuna, að hann bauð þeim öllum til veislu í kastalaborg sinni, og eftir veisluna, lét stjaksetja þá alla sem einn. Batt þar með enda á þjáningu þeirra og tilgangslaust líf.
Það er frekar leiðum að líkjast.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 3.9.2019 kl. 12:46
Virpi Mikkonen var ekki vegan. Hún var með átröskun.
Fólk verslast ekki upp nema borða ekki góða fæðu, skiptir þá engu hvort viðkomandi er grænkeri eða alæta.
Þessi íslenski íþróttamaður er vegan: https://games.crossfit.com/athlete/27236
Þessi íslenska kraftlyftingakona er vegan: https://www.greatveganathletes.com/hulda-b-waage-vegan-powerlifter/
Ættir kannski að reyna segja górillum að þær þurfi smá kjöt í sig til að verða stæltar
Anna (IP-tala skráð) 3.9.2019 kl. 12:56
Takk Anna fyrir að hjálpa aðeins Þorsteini á meðan hann leitar logandi ljósi að grasætuhermönnum sem voru aðeins meir en uppí nös á ketti.
Ég myndi fara varlega í að vísa í vegan íþróttafólk í þessum geira íþróttanna án þess að að sýna um leið töflu og duftskápinn. Hreinn Halldórsson var hins vegar heljarmenni, og át skyr og feitt selspik, með íslenskum kartöflum, fiski og lambakjöti.
Varðandi hana Virpi þá þarftu aðeins að færa rök fyrir máli þínu, án þess að ég þekki hana nokkuð, þá finnst mér það ólíklegt að manneskja sem hefur lífsviðurværi sitt af því að vera skrýtin, skuli ekki nota sér meinta átröskun sína til þess að verða metsöluhöfundur bókarinnar, sjáið þið hvernig ég sigraðist á átröskun minni með því að borða kjöt. Það hefði allavega vakið athygli.
Síðan þetta með górillurnar, þá skil ég ekki í að þú skulir ekki frekar hafa tekið pöndur sem dæmi, þær eru svo krúttlegar þó hörgulskorturinn hafi reyndar næstum því gert þær náttúrulausar. Eða þá nashyrninginn, ekki vantar honum vöðvamassann, en þá hefðir þú líklegast áttað þig á að hann er einmitt dæmi um þá geðvonsku sem var tilefni þessara hugleiðinga minna.
En bæði dæmin, þessi með pönduna eða nashyrninginn, hvað þá góriluna, eiga ekki alveg við eins og þú veist. Þú gerir ekki tígrisdýr að grasætu eða fíl að kjötætu.
Það er nú bara svo.
Já, og Drakúla er hvorki góð fyrirmynd, eða hegðun hans til eftirbreytni.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 3.9.2019 kl. 13:32
Hefur þú aldrei velt því fyrir þér Ómar, að ef þú hefur ekki hundsvit á einhverju málefni fari kannski betur á því að þegja um það?
Þorsteinn Siglaugsson, 3.9.2019 kl. 13:53
Það eru bara tannjaxlarnir núna Þorsteinn, vonandi ekki núnir og slitnir af of miklu grænfæði???
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 3.9.2019 kl. 14:18
Að mínu mati er það nánast glæpur gegn mankyni að nota ekki land sem er ræktanlegt til að framleiða mat. Því er haldið stíft fam að framleiðsla grænmetis og ávaxta fari í öllum tilvikum betur með umhverfið en framleiðsla á kjöti. Með því að horfa algjörlega framhjá öðrum gildum þá er hægt að halda þessu fram. En hvað með land sem er ill mögulegt eða allavega ekki hagkvæmt að rækta ætar plöntur á, sem er raunin á norð- og suðlægum slóðum t.d. á Íslandi? Á íslandi er gras í raun það eina sem við getum með virkilega góðu móti ræktað á stærsta hluta landsins. Gras nýtist hinsvegar ekki til manneldis en ágætlega til mjólkur-, nautakjöts og kindakjötsframleiðslu. Spurningin er hvort er betra fyrir umhverfiða að við étum þessar afurðir sem við getum framleitt eða flytjum grænmeti, korn og ávexti um þveran og endilangan hnöttinn?
Ps: Það er lýgi að fleira sé matur en feitt kjöt.
Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 3.9.2019 kl. 14:18
eF ÞÚ HEFÐIR HELMING AF VITI óMARS ÞORSTEINN MÆTTIR ÞÚ VEL VIÐ UNA.
Óskar Kristinsson, 3.9.2019 kl. 14:27
Þetta er akkúrat mergur málsins. Grænkerar eru að koma í veg fyrir ofbeldi og nauðung gagnvart dýrum sem er engin þörf á að fara svona með lengur í nútímasamfélagi. Þetta er bara spurning um að sætta sig við breytingar til hins betra og ekki hjakka í sama farinu bara því maður þekkir það.
Hugsunarháttur grænkera er á þennan máta : I will teach you of my peaceful ways, by force!
Ég er mjög mótfallinn þessu ofbeldi og nauðung sem grænkerar beita grænmeti og ávöxtum. Eigum við ekki að banna inntöku þess....
Halldór (IP-tala skráð) 3.9.2019 kl. 14:50
Sæll Ómar, ég hef verið ákaflega ánægður með skrif þin sem ég hef kynnst nýlega vegna 3ja orkupakkans. En hér kemur þú inn á svið sem ég geri ráð fyrir að þú sért ekki gjörkunnugur. Þess vegna datt mér í hug að segja þér mína reynslusögu sem smá innlegg í mataræði sem hvorki er kjöt eða fiskur(já, haltu þér nú fast!)
Þegar ég var 19 ára (árið 1955 þá voru tímamót hjá mér er ég eignaðist mitt fyrsta barn, þá vaknaði sú hugmynd hjá mér að hætta að borða dýr! Já líka dýrin í sjónum! Þessi hugmynd náði verulegu flugi er ég giftist konu minni árið 1963 og við hófum búskap. Þá var hún algjörlega blind á það sem var í vændum! Því hún hélt að þetta tal um dýraát eða ekki dýraát gæti hún beðið af sér í nokkra dag eða í mesta lagi nokkrar vikur! En við höfum nú verið gift allan þennan tíma og ef eitthvað er þá hefur mataræðið fengið meiri dýpt, svo að segja, en því má auðvitað þakka að framvinda þjóðfélaga eru á fullum hraða einmitt inn á þennan völl sem ég ákvað að stíga inn í fyrir svona mörgum árum, eiginlega næstum einn í samfélaginu og áratugum saman verið sem í eyðimerkurgöngu því hvergi var hliðstæðu að sjá eða styrk frá umhverifnu og öðru fólki, NEMA NÚNA! Nú eru allar búðir fullar af valkostum sem styðja við þetta lífsmunstur.
Þetta langaði mig aðeins til að leggja inn í málaflokkinn.
Þakka þér innilega fyrir kjarngóðan texta og vertu með okkur í baráttunni fyrir að orkuauðlindirnar munir í framtíðinni þjóna þessu landi og þessari þjóð, og ef þú ert sjómaður þá óska ég þér góðrar veiði! Kveðja úr Hafnarfirði
Sigurður Herlufsen (IP-tala skráð) 3.9.2019 kl. 14:58
Ef fólk hefur áhyggjur af því grænmeti og þeim ávöxtum sem grænkerar neyta þá ætti það að íhuga magn fæðis og landsvæðis sem fer í eldisdýr.
Þessi skrif eru í besta falli kjánaleg og ekki að gera málstað alætanna neitt betri. Það er enginn að þvinga eða beita valdi. Að fræða er ekki valdbeiting.
Búfé á Íslandi og sér í lagi kýr eru að miklu leiti fóðraðar á innfluttu fæði. Kolefnisfótspot plöntufæðis til að fóðra mannfólk beint er því mun minna en kolefnisfótspot kjöts sem ræktað er hér á landi.
Að gefa í skyn að allt grænkera íþróttafólk sé að nota lyf til að ná sínum árangri sýnir bara vanþekkingu þína Ómar. Þetta er kjánaskapur. Hættu nú áður en þú grefur enn dýpra.
Anna (IP-tala skráð) 3.9.2019 kl. 15:46
Anna ert þú viss um þekkingagrunn þinn um fóðrun búfjár á Íslandi?. Sauðfé og nautgripir til kjötframleiðslu eru nær eingöngu fóðrað á heimaöfluðu fóðri og síðustu áratugina, m.a. með betri heyverkunaraðferðum hefur hlutdeild innlends fóðurs aukist til muna í nautgriparækt.
Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 3.9.2019 kl. 16:30
Jamm og jæja kæra fólk, ég sem var farinn að halda að máttur penna míns væri gufaður upp, og skrif mín væru hvorki lesin eða vektu viðbrögð.
Reyndar einbeitt mér að því eina sem skiptir máli fyrir okkur sem þjóð þessa dagana, og reynt að vera hófstilltur og málefnalegur. Að ekki sé minnst á rökviss, það er vitnað í heimildir máli mínu til stuðnings.
Við sem þjóð höfum upplifað fordæmalausa aðför að lýðræðinu, ekki með orkupakkanum sem slíkum, heldur vegna þess að stuðningsmenn hans hafa ítrekað ráðist á heilbrigða skynsemi svo engin fordæmi eru áður í sögu þessara þjóðar.
Og þá þarf að verja skynsemina, verja staðreyndir fyrir staðleysum sem almannatenglar fóðra stjórnmálastétt okkar á.
Því ef það er ekki gert, þá eru forsendur lýðræðisins brostnar.
Jæja, einhvers staðar í þessum pistli má finna tengingu við þetta mál málanna, sem og pent fína gagnrýni á fólkið sem telur sig umkomið að segja öðru fólki til um hvað börn þess eiga að borða.
En jafnvel þó fólki finnist 500 mílur Proclaimers vera stuttur göngutúr, þá er ljóst að jafnvel að honum loknum, þá blasir við að ég er að fíflast í þessum pistli mínum um grænkera og ágæti mataræðis þeirra, þó reyndar sé líka ljóst að mér mislíkar öfgar þeirra og trúboð.
Höfum það á hreinu, að þó mamma spyrji alltaf þegar hún sér viðtal eða umfjöllun um Sollu í Grænum Kosti, hvort hún sé nýbúin að vera með krabbamein, þá er það ekki svo að allar vegan ætur líti út á miðjum aldri eins og þau séu nýsloppin úr fangabúðum, þó andskoti margar geri það. Alhæfing og stríðni er jú alltaf alhæfing og stríðni.
En umræða er jú umræða, og henni reyni ég alltaf að sinna, þó ég hafi talið rétt að ítreka það sem mér finnst blasa við þegar ég les þessa háðsádeilu á fólkið sem vill alltaf frelsa okkur hin.
En á meðan er það kveðjan.
Að austan.
Ómar Geirsson, 3.9.2019 kl. 18:27
Blessaður Óskar, þú mátt ekki gera of miklar kröfur til Þorsteins í rökræðum, samt grunar mig að kaunninn sé tengsl við gróðann að selja hrekklausum bætiefni. Nema náttúrulega að hann hafi reykt gras í MH. Finnst það samt ólíklegt,.
Allavega, eigi skal vanvirða dygga lesendur, og mikilvægt að pistlar mínir höfði til ólíkra lesenda, bæði til stuðnings, sem og ágreinings. Helst að breiddin sé það mikil að lesandinn sé stundum sammála, stundum eitt stórt spurningamerki, og ekki hvað síst, sjái sjónarmið sem hann er ekki alveg tilbúinn að kaupa.
Að ekki sé minnst á það veki viðbrögð þeirra sem verja hið óverjanlega.
Ládeyðan hins vegar kæfir allan neista.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 3.9.2019 kl. 18:35
Blessaður Halldór.
Ætli þetta sé ekki kjarni trúboðsins; " I will teach you of my peaceful ways, by force!".
En tek það skýrt fram að flestir vegan sem ég þekki til eru álíka meinlausir og grænmetið sem þeir níðast á.
Það er eiginlega sérviskustóðið sem misnotar lífstíl þeirra og hugsjónir, fólkið sem sér fáan annan tilgang með afskiptum sínum að stjórnmálum, annan en þann að bögga náungann, og til vara að veita mjög lélega þjónustu með veldisútþenslu skrifræðisins sem gerir öfugan pýramída að tiltölulega beinni línu.
Líkt og góða fólkið sem stjórnar Reykjavík í dag.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 3.9.2019 kl. 18:44
Blessaður Sigurður.
Það er ákaflega sjaldgæft, líkt og Þorsteinn bendir réttilega á, að ég viti nokkuð um það sem ég er að skrifa. Ef fólk vill lesa alfræðiorðabók, þá bendi ég á Britannicu á netinu, eða á næsta góða bókasafni.
Hins vegar hef ég oft verið þeirrar gæfu njótandi að í athugasemdarkerfið hefur komið gott fólk sem vill bæta við og eða leiðrétta þekkingu mína, sem og annarra sem hafa tjáð sig í athugasemdarkerfið. Sumt almennt, annað persónulegt eins og innlegg þitt.
Hins vegar hef ég skoðanir og kann ágætlega að tjá þær. Og mér þykir ekkert verra ef skoðanir mínar vekja þau viðbrögð, að líf sé í athugasemdarkerfinu. Þegar hitinn var fyrst eftir Hrun í þjóðfélagsumræðunni, þá gat rökræðan hér oft spannað tuga athugasemda, sérstaklega teygðist úr umræðunni þegar fólk hafði ánægju af að vera passlega ósammála.
Blogg mitt er tæki, áróðurstæki fyrir ákveðnum málefnum og sjónarmiðum, og því eru pistlar mínir oftast straumlínulaga, hvort sem það er óvægin gagnrýni, eða stuðningur við málefni. Athugasemdarkerfið býður síðan uppá víðari nálgun, og jafnvel sanngirni ef vel liggur á mér. Stundum hefur umræðan kveikt á hugsun, eða fengið mann til að orða hugsun sem var óljós í huga eða ég jafnvel vissi ekki að hefði skotið þar rótum.
En ekki hvað síst, vettvangur fyrir aðra til að ræða málin, ég geymi marga pistla bara út af innhaldi athugasemdarkerfisins, bæði á harða disknum, sem og í djúpminninu.
En það eina sem ég tek skýrt fram í umræðunni Sigurður, er að ég er ólíkindatól, og það er harðbannað að spyrja mig beint út hvort mér sé alvara með skrifum mínum. Þau eiga að ræðast á sínum eigin forsendum, út frá rökunum og sjónarmiðunum sem þar koma fram.
Mér finnst merkilegt að þú skulir svona ungur hafa ákveðið að gerast eingöngu grænmetisæta, dettur einna helst í hug að þú hafir verið undir áhrifum þessa merka manns; Jónasar Kristjánssonar, en um hann var sagt að hann hafi verið langt á undan sinni samtíð.
Og margur fékk nýtt líf eftir dvölina á setri hans í Hveragerði.
Að ekki sé minnst á hina nýju hugsun, að mataræði og holl hreyfing væri lykill að góðri heilsu og þeim lífsgæðum að vera hraustur og heilbrigður.
Ég fletti uppá honum hjá Gúgla frænda, og hann einmitt stofnaði heilsuhælið í Hveragerði 1955.
En þú veist náttúrulega hið rétta.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 3.9.2019 kl. 19:09
Blessuð Anna mín.
Mér finnst þú leita að misskilningi ef þú tekur orð Stefáns þannig að hann hafi áhyggjur af því grænmeti og ávöxtum sem grænkerar neyta, orð hans eru mjög skiljanleg, og réttmæt. Varðandi innflutning á korni og öðrum fóðurbæti, þá er það alveg rétt, en það breytir því ekki að þú hlýtur að hafa séð öll túnin þegar þú keyrir um landið. Varla eru bændurnir að heyja þau öll að gamni sínu??
Varðandi þessi orð þín; " Það er enginn að þvinga eða beita valdi. Að fræða er ekki valdbeiting. ", þá dettur mér annað af tvennu í hug, að þú hafir unnið sem landvörður í sumar, fjarri öllum fréttum og nettengingum, eða þú hafir komið frá útlöndum nýlega, eftir langa dvöl erlendis.
Orð Halldórs eru að því gefnu tilefni að ofstopafólk ætlar að neyða grænmeti ofaní annarra manna börn, sama ofstopafólkið og ætlar að knýja aðra til að nota almannasamgöngur, þó það þekki sjálft slík tæki aðeins af afspurn.
Og hvað ertu síðan að bulla um að ég sé að gefa í skyn að allt grænkera fólk sé að nota lyf, ég benti þér aðeins góðfúslega á um þau dæmi sem þú notaðir, að í þessum íþróttagreinum myndi ég skoða töflu og duftskápinn.
Hins vegar er ég hrifinn af því að þú skulir ekki lengur feta í fótspor Drakúla stjaksetjara og mæla með fjöldamorðum á saklausum dýrum, enda lýsir slík hugsun einfaldlega mannsvonsku. Ég get alveg fullvissað þig um að rollan sem mætir reglulega með lömbin sín og skítur á tröppurnar á Ímastöðum til þess eins að ergja bróður minn, að þegar hún horfir á mig sakleysislegum augum, jórtrandi grasið, að hún á sama tilverurétt og þú, og er örugglega alveg jafn ánægð með lífið, enda skilst mér að þú sért grasæta eins og hún.
Kolefnisspor þetta og kolefnispor hitt er í raun svipuð hugsun og aðferðafræði þegar hámenntaðir vísindamenn fundu út í upphafi 20. aldar að sumt fólk ætti síðri tilverurétt en annað, og þess vegna mætti drepa það. Og það vantaði ekki klikkuðu stjórnmálamennina sem töldu sig umkomna að framkvæma þær ábendingar, það er alltaf til fólk sem telur sig upphafið yfir annað, og hafi því beinan rétt til að bögga náungann.
Hvernig getur dauðleg vera verið svo hrokafull að hún telji sumt líf þarft, og annað óþarft??
En hafi grænkerar svona mikla áhyggjur af kolefnaspori húsdýra, að grasbíturinn sem við borðum sé óþarfa milliliður í fæðukeðjunni, vegna kolefnaspora, þá ættu þeir í eina mínútu að íhuga að hvaða lífvera skilur eftir sig mesta kolefnasporið á jörðunni í dag.
Og líta í eigin barm.
En það er svo auðvelt að benda.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 3.9.2019 kl. 20:19
Blessaður Stefán.
Vissulega er feitt kjöt kjarnamatur, en þú mátt ekki gleyma því að við sjávarsíðuna var lífið saltfiskur, og þó það sem slíkt hafi breyst, það er að í dag er lífið fótbolti, þá er saltfiskur sem og annað fiskmeti líka herramannsmatur, jafnvel matur ef út í það er farið.
En innlegg þitt talar annars sínu máli, og ekkert annað en að þakka þér fyrir innlitið og vörnina fyrir matinn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 3.9.2019 kl. 20:22
En tek það skýrt fram að flestir vegan sem ég þekki til eru álíka meinlausir og grænmetið sem þeir níðast á.
Mikið rétt, vandamálið er öfgafólkið sem finnst það knúið til að breyta lifiháttum allra annara, ég hef ekkert á móti því að fólk sé vegan á meðan það lætur mig í friði með það sem ég neyti. Vandamálið er að það er að aukast mikið aðgengi að fjölmiðlum sem þetta lið hefur, því ver og miður þvi að svona öfgafólk á að hunsa.
Halldór (IP-tala skráð) 4.9.2019 kl. 10:07
Blessaður Halldór.
Þú ert með kjarna málsins, og ég má svo sem alveg eiga að ég var kannski ekki alveg sanngjarn í nálgun minni, en sú nálgun var hugsuð til að ná þessu öfgafólki sem getur ekki í eina mínútu látið annað fólk í friði.
Hvað er að venjulegu fólki í Reykjavík að láta viðrini stjórna sér??
En á mörgu eru sjónarmið, og ég eitt af því var innleggið frá Sigurði hér að ofan.
Ég virði það, en ég virði ekki fólkið sem notar sín lífsviðhorf til þess eins að bögga náungann.
Það er plága, hvort sem það þjáist af næringarhörgul eður ei.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 4.9.2019 kl. 11:37
Halló vinir ég heiti Þórður Sigurðsson ég er frá Hafnarfirði, ég er hér til að dreifa fagnaðarerindinu til þurfandi. Ég var þunglynd þegar konan mín fór frá mér eftir öðrum manni vegna þess að ég var beðinn um að hætta störfum vegna þess að ég var með krabbamein og ég varð brotinn. Hún tók frá mér eina dóttur mína svo að eini kosturinn minn var að deyja, ég reyndi að hringja í hana en hún hunsaði mig, ég sendi henni textaskilaboð og allt í einu svaraði hún og sagði mér að hringja ekki eða senda hana lengur svo einn daginn kem ég í samband við vinur minn á facebook og ég útskýrði allt fyrir honum og hann sagði mér líka að hann væri með sömu mál áður og hann kynnti mér fyrir stafsetjara sem heitir Drigbinovia, hann sendi mér persónulegu tölvupósttengiliðina sína doctorigbinovia93@gmail.com Ég hafði samband við hann og hann svaraði mig, ég útskýrði vandamálin mín honum fljótt og hann sagði mér að hafa ekki áhyggjur af því að hann hafi gert það fyrir svo marga að ég sé maður sem trúði aldrei á álög en ég ákvað að láta reyna á það að hann fullvissaði mig um sólarhring til að koma álögunum á framfæri og læknaði mig líka við krabbameinið og fékk mér betra starf og allt í einu sendi hann mér lyfin vegna veikinda minna ég tók það í bara 2 daga og ég var frjáls ég trúði aldrei augunum mínum daginn eftir, einhver bankaði á dyrnar hjá mér og ég var ekki að búast við neinum þann daginn allt í einu var það konan mín sem hún býr T í tárum og ég gat ekki þolað það hún bað mig og bað um fyrirgefningu mína strax ég fékk símtal frá fyrirtækinu mínu þar sem ég hef unnið í mörg ár. Ég var kynntur sem framkvæmdastjóri Qiagen comapny í Hollandi, vinsamlegast hjálpaðu mér að þakka Drigbinovia fyrir endurreisn allt sem ég hef tapað áður vinsamlegast mun ég ráðleggja öllum sem þurfa hjálp til að hafa samband við Drigbinovia, þú getur líka farið með hann á persónulegu númerið hans +2348144480786 megi guð blessa þá sem taka tíma til að lesa þennan vitnisburð heppni
Þórður Sigurðsson (IP-tala skráð) 7.9.2019 kl. 11:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.