29.8.2019 | 20:13
Þegar vitið er ekki meira en guð gaf.
Þá er gott að vitna í ræðu Sigríðar Andersen um orkupakkann á Alþingi í dag. Heimildin er Ruv, því af einhverjum ástæðum þá kaus ritstjórn Morgunblaðsins að segja upp hlutverki Mbl.is sem fréttamiðils, og hannaði þess í stað einhvern örfréttamiðil sem sinnir þörfum sjónskertra og lesblindra, því bæði er stafagerðin óeðlilega stór, innihald frétta á Tvitter formi og framsetning líkt og lesblindir sjá skýrt framsett ritað mál. Það er allt í rugli.
Áður en lengra er haldið þá er sú grundvallarbreyting með orkupakka 3, að í stað orkusamvinnu Evrópuþjóða er komið á fót orkubandalagi þar sem orkan á að flæða hindrunarlaust yfir landamæri, á forsendum hins sameiginlegar markaðar. Til að ná markmiðum sínum þá er yfirþjóðlegri stofnun, ACER komið á fót, sem bæði markar orkustefnuna, hefur eftirlit með framkvæmd, og sker úr um ágreiningsefni. Í hverju landi fer síðan sérstakt embætti, Landsreglari með æðsta vald í orkumálum, og hann er algjörlega óháður innlendum stjórnvöldum, hans eina boðvald er ACER.
Hvernig sem á þetta er litið er um grundvallarbreytingu að ræða, og um það deilir ekki nokkur maður nema á Alþingi Íslendinga.
En gefum Sigríði orðið, og þá styðst ég við glefsur sem fréttarritari Ruv hripaði niður jafnóðum og ræður og andsvör voru flutt.
"Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sagði í umræðu um orkupakka þrjú að henni sýndist að hann hefði ekki mikil efnisleg áhrif hér á landi. Hún sagði umræðuna hafa á köflum verið óvægna og óþarflega mikil gífuryrði verið látin falla. Það sem mér finnst standa upp úr eftir sumarið er þetta viðhorf fólks, að standa vörð um auðlindir þjóðarinnar og fölskvalaus ótti fólks við framsal á valdi.
Þetta væri eitthvað sem þingmenn þyrftu að hlusta á, hvort sem óttinn væri ástæðulaus eða ekki. Sigríður sagði að þau frumvörp sem iðnaðarráðherra væri að leggja fram hefðu allt eins getað verið lögð fram fyrir mörgum árum. Þau væru ekki bein afleiðing af sérstökum orkupakka heldur efnislega bara hefðbundin þingmál.
Sigríður nefndi að aðrar reglur um orkumál hefðu verið innleiddar sem hefðu haft miklu meiri áhrif en orkupakki þrjú. Sigríður nefndi sem dæmi lagabreytingu um endurnýjanlega orkugjafa. Sett hefði verið það skilyrði að blanda þyrfti allt eldsneyti með endurnýjanlegum orkugjöfum þrátt fyrir að hlutfall endurnýjanlegrar orku hér á landi væri 80 prósent. Beinn kostnaður ríkisins af þessu væri um einn milljarður á ári sem rynni beint til erlendra framleiðenda á lífeldsneyti.".
Þá vitum við það, þessi grundvallarbreyting á orkumálum álfunnar hefur óveruleg áhrif á Íslandi, hvað okkur varðar þá er reglugerðin bara í plati.
Verð samt að taka undir með Styrmi í morgunpistli hans; "Er þetta ekki alveg skýrt? Hvernig stendur á því að ráðherrar tala að því er virðist gegn betri vitund? Þeir hljóta að hafa lesið þá álitsgerð, sem þeir sjálfir vitna mest í." og er hann þá að vitna í álitsgerð þeirra Stefáns og Friðriks.
Menn hljóta að tala gegn betri vitund, það er enginn svona vitlaus, eða er það???
Annar snillingur, Þorsteinn Víglundsson, sem til skamms tíma var hlynntur markaðsvæðingu orkunnar og tengingu Íslands við hinn sameiginlega Evrópska orkumarkað (það er crossborder og single market), fann afstöðu sinni nýjan farveg í þingræðu í dag. "Flestir sérfræðingar í hafrétti væru sammála um að hafréttarsamningar tækju fram yfir allar reglur Evrópusambandsins.".
Þá vitum við það, við þurfum ekki að lúta regluverkinu um crossborder vegna þess að við getum neitað slíkum tengingum á forsendum hafréttarsáttmálans sem tryggir okkur yfirráð yfir landgrunninu.
Til hvers erum við þá að innleiða regluverkið??
Hins vegar er það mikil vanþekking að halda að alþjóðasamningar eins og hafréttarsamningurinn brjóti hina evrópsku reglugerð á bak aftur, slíkum fullveldisákvörðunum afsala ríki sér með því að ganga í Evrópusambandið, og það sama gildir um aðildarríki EES.
Til að átta sig á ruglandanum í umræðunni þegar hálmstráið er að regluverkið um crossborder skyldi ekki ríki að samþykkja millilandatengingu, þá er gott að lesa þessi orð sem má finna í pistli á síðu Ögmundar Jónassonar, en greinilegt er að þar heldur fróður lögfræðingur á penna, því hann færir rök fyrir fullyrðingum sínum, ólíkt hinum meinta orkusérfræðingi Ríkisútvarpsins.
"Málið er einfalt: fyrirvarar sem ekki er samið um og fá staðfestingu innan sameiginlegu EES-nefndarinnar hafa ekkert lagalegt gildi að Evrópurétti. Jafnvel þótt slíkum fyrirvörum væri fyrirkomið í íslenskum lögum (þ.e.a.s. ekki í reglugerð) þá hefðu þeir samt ekkert laglegt gildi gagnvart Evrópurétti. Enn fremur, ákvæði í stjórnarskrá víkja fyrir Evrópurétti stangist þau á við hann. Um það eru dómafordæmi. Af þessu ætti að sjást hve fráleit umræðan um trygga fyrirvara er, nær ekki nokkurri átt.
Varðandi lagningu sæstrengs, og fullveldi Íslands, er rétt að fólk hafi í huga að það er ekki hægt að framselja hluta fullveldis (ríkisvalds) en telja þó að ríki hafi áfram óskert fullveldi. Með aðildinni að EES var ákveðnum hluta fullveldisins afsalað. Ísland varð skuldbundið til þess að taka upp m.a. reglur um fjórfrelsið svokallaða. Flutningur rafmagns um sæstreng (innri markaður Evrópu) lýtur m.a. reglum fjórfrelsisins um frjálst flæði vara. Þ.e.a.s. hluti þess fullveldis sem afsalað var er á sama sviði, á sviði viðskipta með vörur innan Evrópska efnahagssvæðisins.
Þar af leiðandi er afar sérkennileg nálgun að hægt sé að afsala sér hluta fullveldis (EES) en telja að íslenska ríkið geti síðan beitt fullveldisrétti á sama sviði til þess að hefta markmið þriðja orkupakkans, um samtengingu aðildarríkjanna. Þetta verður enn augljósara ef Ísland hefði afsalað sér öllu fullveldinu til erlendrar stofnunar (eða annars ríkis). Í krafti hvaða fullveldisréttar ætti Ísland þá að skáka á eftir? Það verður ekki bæði sleppt og haldið.".
Það er ekki bæði sleppt og haldið, og þeir sem grípa til hálmstráa til að blekkja jafnt þjóð sína sem kjósendur, þeir eru ekki beint líklegri að standa í lappirnar þegar ESA bankar á dyrnar á þinghúsinu og segir að núna sé kominn tími til að fara eftir regluverkinu.
Þá verða milljón ástæður týndar til að nauðsyn beri að fara eftir regluverkinu, og í kjölfarið verði lagning sæstrengs heimiluð.
Enda hefur verið stefnt að því í mörg ár.
Það hefur sína kosti og galla, en lygi eða vísvitandi fáviska er alltaf ókostur í lýðræðisríkjum.
Slíkt er alltaf aðför að lýðræðinu.
Þar liggur alvarleiki orkupakkaumræðunnar.
Forheimska hennar á engin þjóð skilið.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 39
- Sl. sólarhring: 624
- Sl. viku: 5623
- Frá upphafi: 1399562
Annað
- Innlit í dag: 32
- Innlit sl. viku: 4796
- Gestir í dag: 31
- IP-tölur í dag: 31
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þú ert ekki einn um að hafa farið frá mbl.is yfir á ruv.is eftir óráðsæði vefstjórans. Það kom að því að þú gerðir eitthvað af viti, þó skammlíft væri.
Vagn (IP-tala skráð) 30.8.2019 kl. 02:25
Hvaða þingmenn, sem sitja á Alþingi í dag eru reiðubúnir til að banna lagningu sæstrengs þegar á reynir? Er þetta ekki sorglegt? Það er verið að lítillækka íslensku þjóðina með heimsku.
Júlíus Valsson, 30.8.2019 kl. 06:17
Vagn minn.
Kveðja að austan.
PS. ég kann ekki að gera þumal í blogginu.
Ómar Geirsson, 30.8.2019 kl. 10:16
Blessaður Júlíus.
Veit það ekki alveg vona þó samt að þingmenn Miðflokksins standi á sannfæringu sinni um skaðsemi reglugerðarinnar.
Um hina þarf ekki að ræða.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 30.8.2019 kl. 10:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.