18.8.2019 | 14:31
Heimskra manna ráð.
Hafa sjaldnast gefist vel og sagnfræðingar hafa oft greint hnignun og jafnvel fall mikilla velda til misvitra ráðgjafa einvaldanna, hvort sem þeir sköruðu eld að eigin köku eða vegna þess að einvaldurinn þoldi aðeins jámenn í kringum sig, og þá voru bara fíflin ein eftir.
Á Íslandi í dag upplifum við þá furðu að íslensk stjórnvöld ætla að aflétta fyrirvörum á regluverki Evrópusambandsins kennt við orkupakka 3, sem þýðir að viðkomandi regluverk öðlast lagagildi á Íslandi, jafnframt því að þau ætla setja lög sem þau segja að komi í veg fyrir að helstu ákvæði regluverksins gildi á Íslandi.
Í ljósi þess að Evrópuréttur er æðri en innlend lög, þar með talið stjórnarskrá, þá er slíkt fáheyrð heimska sem gæti örugglega gert kröfu um að koma til greina á topp tíu heimskulistann, eina spurningin væri hvort það væri á þessari öld, síðustu hundruð árin, í sögu nútíma lýðræðis, eða vestrænni sögu síðust 1.000 árin.
Vissulega er heimska mannanna mörg, en yfirleitt reyna menn að fela hana á einhvern hátt, en hreykja sér ekki af henni á almannafæri.
Sér til varnar þá vísa stjórnvöld sem og megameirihluti Alþingis í lögfræðiálit ýmiskonar, flest úr ranni einstaklinga sem tengjast hagsmunum eða eru þekktir fyrir þægð við stjórnvöld. Þau vantaði ekki þegar Hagsmunasamtök heimilanna börðust gegn gengislánunum, þau vantaði ekki þegar áróðurinn um hinar meintu ICEsave skuldbindingar dundu á þjóðinni.
Þau eru hin heimskra manna ráð.
Eiga það sammerkt að fyrirfram niðurstaða býr til rökleiðsluna.
Það þarf ekki að deila um að regluverkið allt, bæði það sem er komið, sem og það sem er í bígerð, og á eftir að koma, felur í sér grundvallarbreytingu, frá samvinnu í orkumálum, yfir í orkubandalag, þar sem markmiðið er að öll ríki evrópska efnahagssvæðisins séu tengd í einn sameiginlegan orkumarkað og raforkan flæði hindrunarlaust eftir þeim tengingum.
Hugsunin er að efla neytendavernd því kerfið á að geta brugðist við orkuskorti á einum stað með því að flytja orku frá svæðum þar sem er ofgnótt á henni, sem er til dæmis reyndin með EES löndin Ísland og Noreg, og til að ná markmiðum sambandsins um aukna hlutdeild endurvinnanlegra orkugjafa af heildarorkunotkun.
Og það þarf heldur ekki að deila um það að regluverkið ætlar markaðnum og markaðsöflum að sjá um að eiga og reka þessar tengingar, líkt og það ætlast til að raforkuverð stjórnist af framboð og eftirspurn.
Til að flýta fyrir þessari þróun og til að ná þessum markmiðum á sem skilvirkasta hátt er í regluverki nr. 3 kveðið á um stofnun ACER, sem hægt er að kalla Orkusamvinnustofnun Evrópu eða bara Orkustofnun EU, sem fær það hlutverk annars vegar að skera úr um ágreiningi um millilandatengingar sem og að útfæra og hafa umsjón með regluverkinu um nýjar tengingar, og hins vegar að fylgjast með að Landsreglarinn svokallaði, sem er æðsti yfirmaður orkumála í hverju aðildarríki, sjái til að regluverkinu sé framfylgt.
Hlutverk ACER er síðan skerpt í orkupakka 4, sem verður lögfestur á þessu ári, og í drögum að orkupakka 5 er ljóst að ACER fær því sem næst algjört vald yfir orkumálum einstakra ríkja, verður miðlæg yfirþjóðleg stofnun sem leggur línur, tekur ákvarðanir og sker úr um ágreiningsefni.
Þetta er sú vegferð sem Evrópusambandið er í með reglusetningu sinni og EES þjóðir sem undirgangast regluverkið verða að sjálfsögð að taka þátt í henni.
Landsreglari okkar verður óháður íslenskum stjórnvöldum, hann mun vinna að markaðsvæðingu raforkukerfisins, hann mun vinna að því að fjarlægja hindranir sem hugsanlega verða settar á tengingar við nýjar virkjanir, sem og að sjá til þess að einkaaðilar sitji við sama borð við að virkja eða eiga virkjanir.
Og ekki hvað síst, þá ber honum að samþykkja beiðni um sæstreng ef markaðurinn vill ráðast í slíkar tengingar.
Allt tal um að íslenskum stjórnvöldum beri ekki skylda til að leggja sæstreng eða þeim sé ekki skylt að samþykkja beiðni frá hinum enda millilandatengingarinnar, er út í hött.
Því regluverkið fjallar ekki á neinn hátt um aðkomu stjórnvalda, og með samþykkt orkupakka 3 hafa íslensk stjórnvöld afsalað sér völdum sínum til Landsreglarans.
Þeir sem halda öðru fram, vita betur, þó kannski séu heiðarlegar undantekningar þar á. Það er viðkomandi viti ekki betur.
Þegar lögfræðingar skrifa grein og fá birta í blaði sem er í eigu fjárfesta í væntanlegum sæstreng, og láta svona orð út sér eins og lesa má í þessari tilvitnun ;
"Samkvæmt framansögðu er ljóst að í þriðja orkupakkanum er ekki að finna nein lagaákvæði sem leggja þá skyldu á herðar íslenska ríkinu að heimila einstaklingum eða lögaðilum að leggja sæstreng frá Íslandi til annars aðildarríkis EES. Af fullveldisrétti ríkja leiðir að þau ráða hvort lagður er sæstrengur inn fyrir landhelgi þeirra eða ekki.".
Þá verður maður að spyrja, í hvaða heimi eru þeir??
Eru þeir í réttarsal að fá mafíósa sýknaðan með hártogunum? "Við efum ekki að upptakan af morðinu er sönn, en hún var tekin upp á ólöglegan hátt, því ber að sýkna".
Að ætla að vísa í fullveldisrétt ríkja um yfirráð yfir landhelgi sinni, þegar viðkomandi ríki er bundið samkvæmt EES samningnum að virða það regluverk sem það innleiðir af fúsum og frjálsum vilja, er tilraun til sniðgöngu laga af áður óþekktri hugarleikfimi úr lendum heimskunnar.
Þegar slíkt kæmi fyrir dóm yrði aðeins spurt um tvennt. Genguð þið í EES af fúsum og frjálsum vilja?, og ef svarið er Já, þá er spurt; samþykktuð þið regluverkið af fúsum og frjálsum vilja?
Ef svarið við þeirri spurningu er líka Já, þá er augljóst hver niðurstaða dómsins verður.
Regluverk á að virða, menn samþykkja ekki eitthvað sem þeir eru ósáttir við og treysta sér ekki til að fara eftir eða óttast afleiðingar þess.
Haldreipi þeirra sem slíkt ætla að gera er önnur furða, að halda því fram að meginhluti orkupakka 3 gildi EKKI því engin er millilandatengingin. Absúrd í ljósi þess að til ná fram markmiðum um einn raforkumarkað, þarf tengingar milli landa, og regluverkið fjallar um hvernig þeim er komið á.
Það fjallar ekki um hvernig hægt er að hindra þær eins og heimskra manna ráð snúast um.
Norski lagaprófessorinn Peter Örebech orðar vel rökleysuna að baki þessarar fullyrðingar, sem er hið augljósa að reglugerð taki gildi þegar hún er samþykkt, ekki þegar reynir á einstök ákvæði hennar.
Texti Örebechs er skýr og auðlesinn, og gott að hafa hann til hliðsjónar í þeirri umræðu sem framundan er.
"1. Höfundurinn staðhæfir í fyrsta lagi, að þar sem Ísland sé ekki tengt útlöndum með neinum aflstrengjum, þá sé Ísland, varðandi orkuviðskipti, heldur ekki háð neinum hinna mikilvægustu EES-reglum. Eins og þetta er sett fram, eiga þannig reglur um orkuviðskipti að vera háð einni raunstöðu, nefnilega, hvort de facto Ísland sé tengt útlöndum með aflstrengjum. Þessu er ómögulegt að halda fram. EES-samningurinn gildir ekki bara fyrir aðstæður í nútíð, heldur einnig í framtíð. Það, sem virkjar reglurnar, er innleiðing Íslands á Þriðja orkupakkanum, en ekki, hvort raforkukerfi Íslands sé tengt erlendum raforkukerfum beint. Reglurnar spanna þær aðstæður, að Ísland neiti t.d. einkaaðila, sem rekur millilandastrengi, um að leggja slíka. Ef hagsmunir mismunandi landa rekast á, þá tekur ACER ákvörðun um það, hvort leggja skuli sæstreng til útlanda, ESB-gerð nr 713/2009, grein 8.1:
Varðandi innviði, sem tengja saman lönd, tekur Orkustofnun ESB, ACER, aðeins ákvörðun um stjórnunarleg viðfangsefni, sem falla undir valdsvið Landsreglaranna í viðkomandi löndum, þ.m.t. hugsanlega kjör og skilyrði fyrir aðgangi og rekstraröryggi, a) þegar viðkomandi stjórnvöld, Landsreglararnir, hafa ekki náð samkomulagi í síðasta lagi 6 mánuðum eftir að málið var lagt fyrir seinni Landsreglarann.»
Skipulag ACER verður fest í sessi, þegar orkuáætlun 2019-21, Project of Common Interest (PCI), verður samþykkt. In 2013, the TEN-E [Trans-European Energy Network] Regulation introduced a new framework for the developement of critical energy infrastructure PCIs -, foreseeing a role for the Agency in the process for identifying PCIs and in assisting NRAs [National Regulatory Authority] in dealing with investment requests including for cross-border cost allocation submitted by PCI promoters.
Við sjáum sem sagt, að gripið verður til reglnanna í Þriðja orkupakkanum við aðstæður, eins og þær, að t.d. finnski rafmagnsrisinn Fortun hafi í hyggju, í samstarfi við HS Orku, að leggja rör eða strengi frá Íslandi til t.d. Skotlands. Setjum svo, að af hálfu íslenzka ríkisins verði lagzt gegn þessu. Ef Landsreglarinn framlengdur armur ESB á Íslandi sem á að sjá til þess, að reglum ESB-réttarins verði framfylgt á Íslandi og sem íslenzk yfirvöld geta ekki gefið fyrirmæli getur ekki leyst úr deilunni, verður um hana úrskurðað innan ACER, eða jafnvel í framkvæmdastjórn ESB samkvæmt ESB gerð nr 713/2009, sjá grein 4 d), sbr grein 8.1 a) og innganginn, málsgrein 10).".
Stofnunin sem vísað er í er ACER og PCIs er kerfisáætlunin yfir nýtengingar.
Þetta er regluverkið og þess vegna eru fjárfestar að undirbúa sæstreng til landsins, í góðri sátt við íslensk stjórnvöld, eða alveg þangað til að þau áttuðu sig á andstöðunni við orkupakkann, og þóttust þá ekkert kannast við sæstreng eða það stæði til að leggja hann til landsins.
Hver er trúverðugleiki fólks sem svona hagar sér og þykist núna ætla að koma í veg fyrir sæstreng, þvert gegn markmiðum þess regluverks sem það er að samþykkja??
En látum sem svo að þau séu ekki að ljúga um hina meintu andstöðu sína, heldur bara um allt hitt, þá er ljóst að það er önnur vegferð en Evrópusambandið er á í regluverki sínu.
Hvort Evrópusambandið líði slíka hundsun og hvort þeir fjárfestar sem hafa lagt mikla fjármuni í að undirbúa sæstreng til landsins sitji uppi með það tjón sitt óbætt, veit náttúrulega tíminn einn.
Forsendur hins frjálsa flæðis er að einstök ríki komist ekki upp með að vinna gegn því, en hvort það nái þessu miðstýrða valdi yfir raforkumálum einstakra ríkja, það veit tíminn einn.
En skynsamt fólk á að geta sagt sér, að ríki sem vilja ekki lúta þeim reglum sem þau hafa samþykkt, eiga fáa aðra valkosti en að segja sig frá hinum innra markaði, í okkar tilviki að segja upp EES samningnum.
Skynsamt fólk lætur aldrei út sér orð eins og "langsótt að lesa úr þriðja orkupakkanum að í honum væri lögð skylda á íslensk stjórnvöld um lagningu sæstrengs.", "Það sé enn fremur kýrskýrt að innleiðing orkupakkans feli ekki í sér neinar kvaðir um lagningu sæstrengs", eða "mögulegu skaðabótamáli vegna sæstrengs sem lögfræðilegri vísindaskáldsögu og leikhúsi fáránleikans." svo ég vitni í fyrirsagnir.
Það er örugglega engin þjóðréttarleg skuldbinding að flytja inn sýkt kjöt sem ógnar bæði lýðheilsu og heilbrigði einangraða búfjárstofna landsins og slíkt stendur hvergi í EES samningnum. Eins er vandséð hvernig heildsali sem þekkir lögin og hefur því aldrei flutt inn hrátt kjöt ófrosið, getur ætlað sér tjón af atvinnustarfsemi sem hann hefur aldrei staðið í.
Samt fékk viðkomandi heildsali dæmdar skaðabætur, ESA krefur stjórnvöld um að aflétta hindrunum á hinu frjálsa flæði, og stjórnvöld leita allra leiða til að sniðganga þá kröfu.
Fræðimenn sem vanvirða þunga löggjafarinnar, um hvernig hið frjálsa flæði virkar, og hve rík skyldan er að virða þá löggjöf sem ríki hafa innleitt, ekki bara hinn beina lagatexta, heldur líka markmið þeirra og tilgang, og ljá ekki máls á vafanum.
Það eru ekki góðir fræðimenn.
Hvað þá ráðgjafar.
Og það er ekki að ástæðulausu að heimskra manna ráð þykja ekki góð ráð.
Sem og þau segja margt um þann sem þiggur.
En því miður mest um þjóð sem honum lýtur.
Því slíkt er val í lýðræðisríki.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 30
- Sl. viku: 446
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 385
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll Ómar: sem jafnan og fyrri, sem og aðrir gestir, þínir !
Ómar !
Nú í nótt - (aðfararnótt 18. Ágúst) dreymdi mig, hvar ég var ásamt fjölda annarra Sunnlendinga á fundi austur á Selfossi, hvar Sigurður Ingi Jóhannsson var á fleti fyrir, til þess að verja samþykkt III. Orkupakkans, m.a., og fannst mér, sem mér hefði tekist að ausa skömmum og hrakyrðum yfir Sigurð, sökum undirgefni hans og hans valhoppara ýmissa, fyrir snörum Fjórða ríkisins (ESB) - fannst mér hann verða hvumsa mjög og reyna að draga sig í hlé (fara í felur), frá minni nærveru, á fundinum.
Í hinum sama draumi: þóktist ég hitta einn Blaðamanna Fréttablaðsins (sem gaf sig út fyrir að vera Íþróttafréttamann) og færðizt hann mjög undan, að reifa Orkupakka umræðuna, við Sigurð Inga, á nokkra vegu.
Bar þá að - Magnús Hlyn Hreiðarsson, Fréttamann Stöðvar 2 á Suðurlandi, og fannst mér hann snöggtum áhugasamari, að veita Sigurði Inga rækilega ofanígjöf, fyrir afstöðuna til III. Orku pakkans jafnframt því, sem Magnús Hlynur falaðizt eftir frekara viðtali við mig, sem hann hugðizt birta síðan, í næsta Helgarblaði Fréttablaðsins (hvar: Fréttablað og Stöð 2 eru jú, undir sömu útgáfu).
Hvað: skyldum við lesa, út úr þessu berdreymi mínu Ómar, sem er nú frekar sjaldgæft, að komi upp hjá mér:: svona, yfirleitt ?
Um Nónbil - (Föstudaginn 16. Ágúst s.l.), átti ég tæpra 7 Mínútna símaspjall við Rósu Björk Brynjólfsdóttur, eina lagskvenna VG terrorista hóps Steingríms J. Sigfússonar og Svavars Gestssonar fjölskyldunnar, hvar ég gaf henni til kynna, að Arnar Þór Jónsson Héraðsdómari, sem komið hafði fyrir fund Utanríkismálanefndar um Hádgisbilið þann sama dag, hefði fyllilega á réttu að standa, varðandi umræðuna um III. Orkupakkann, en, ............. hafði orðið það á, að móðga nefndarmenn:: sérílagi, þær Rósu Björk og Silju Dögg Gunnarsdóttur með því einu, að segja SANNLEIKANN um starfshætti alþingis, svona yfirleitt.
Í spjalli okkar Rósu Bjarkar: viðurkenndi hún greiðlega, SLEIFARLAG alþingis, í undanfara Orkupakkanna, nr. I og II fyrrum t.d., sem urðu undanfarar hins illræmda auka- rukkunar batterís Orkusölunnar, sem spyrt hefur verið við RARIK innheimtukerfið, undanfarin 12 ár liðlega, sem kunnugt er.
Átti ég marg órætt við Rósu Björk - hvar tími hennar var fremur knappur það sinnið en vera má, að ég fái annað tækifæri síðar til, að benda henni enn frekar á TOSSAleg vinnubrögð hennar / sem og Silju Daggar Gunnarsdóttur og annarra samþingmanna þeirra, fjölmargra.
Gnægð er tilefnanna alla vega: Austfirðingur mæti.
Með beztu kveðjum - sem endranær, af Suðurlandi /
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 18.8.2019 kl. 15:33
Blessaður Óskar.
Það eina sem mér dettur í hug er þitt eigið svar, ég held að hugur þinn sé í draumvitund að eggja þig til verka.
Ef kurteisi er gætt, þá er þarft verk að tjá kjörnum fulltrúum óánægju sína, og ekki verra að slíkt sé gert á kjarnyrtu máli.
Ég fyrir mitt leiti geri það á þessari síðu, og allavega Óskar, getum við átt góðan svefn með samvisku okkar.
Sem og margir aðrir því óánægjan með skrílslætin í utanríkismálanefnd er djúpstæð, fólki var misboðið.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 18.8.2019 kl. 23:35
....
Ómar !
Þakka þér fyrir: ekki væri að að ófyrirsynju, að þú hefðir rétt fyrir þér, þessi Orkupakkamál eru búin að vera eins og mara yfir mér, síðan á Vordögum, fjarri því:: að ég sé að hugsa um einhverja staka hagsmuni mína eins og sér heldur, og miklu fremur afkomenda okkar / og frændgarða, sem okkur fjarskyldari, sem og hinna komandi kynslóða allra, sem Skaðræðis öflin eru að reyna að hengja á strengi Fjórða ríkisins og þeirra fjárplógs afglapa:: innlendra sem og útlendra, sem eftir Púka blístrum (flautum) stjórnenda þess danza - hvort heldur eru : Heiðar Már Guðjónsson (tengdasonur Björns Bjarnasonar af Engeyjar ætt) Ásgeir Margeirsson HS- Orku og Vesturverks braskari eða aðrar ámóta ófrýnilegar Gull ætur: yfirleitt.
Þetta lið - verður að STÖÐVA, með góðu eða þá illu, ef ekki vill betur til takast, Ómar síðuhafi.
ÓHH
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 18.8.2019 kl. 23:53
Það er töggur í okkur Óskar.
Sjáum hvernig þetta endar.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 19.8.2019 kl. 00:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.