Hlustið á okkur í guðanna bænum.

 

Gæti verið yfirskrift þeirrar undirskriftarsöfnunar sem Kári Jónsson stendur fyrir innan Sjálfstæðisflokksins þar sem þess er kraf­ist að fram fari at­kvæðagreiðsla inn­an flokks­ins fyr­ir samþykkt eða synj­un þriðja orkupakka Evr­ópu­sam­bands­ins, sem rík­is­stjórn Íslands vill inn­leiða.

Og af hverju vill hann að sé hlustað??

Jú svo vitnað sé í hans eigin orð; "„Að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn sé kom­inn inn í ein­hverja veg­ferð sem hann hef­ur aldrei verið á áður – að standa ekki í lapp­irn­ar þegar full­veldi þjóðar­inn­ar er ann­ars veg­ar. [...] Ég bara get ekki þolað að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn sé kom­inn á þenn­an stað, það bara geng­ur eng­an veg­inn,“".

 

Stór orð um lítið mál sem snýst um neytendavernd að sögn Þórdísar Kolbrúnar iðnaðarráðherra.  Sem er ekki satt nema að hluta. 

Á vef Alþingis má sjá hvaða tilskipanir varðandi raforkumarkað er verið að innleiða.

1.Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 713/2009 frá 13. júlí 2009 um að koma á fót Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði.

2.Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 714/2009 frá 13. júlí 2009 um skilyrði fyrir aðgangi að neti fyrir raforkuviðskipti yfir landamæri og um niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 1228/2003.

4.Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 543/2013 frá 14. júní 2013 um af-hendingu og birtingu gagna á raforkumörkuðum og um breytingu á I. viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 714/2009.

 

Hin meinta neytendavernd er viðbót frá 2013 en sjálft regluverk orkupakkans er frá 2009 og fjallar augljóslega um stofnun ACER og tengingar yfir landamæri.

 

Stjórnvöld halda því sem sagt fram að viðbótin sé aðalatriði, en meginefni tilskipunarinnar sem verið er að innleiða, eigi ekki við Ísland þar sem landið er ekki tengt hinum innri raforkumarkaði ESB.

Fullyrðing sem slík er röng því regluverkið miðast ekki bara við þegar komnar tengingar, heldur er líka hugsað til að auðvelda nýjar tengingar, enda ekki annað hægt ef tilgangur reglugerðarinnar er að tryggja hindrunarlaus raforkuviðskipti yfir landamæri með því markmiði að koma á einum sameiginlegum raforkumarkaði á evrópska efnahagssvæðinu.

Og þegar stjórnvöld gátu ekki lengur staðið á staðleysunni, þá var á síðustu stundu tilkynnt að meðfram samþykkt orkupakkans yrði sett lög sem banna lagningu sæstrengs til Íslands nema að undangenginni samþykkt Alþingis.

 

Fyrir utan að það má setja stórt spurningarmerki við gáfnafar og skýrleika fólks sem ætlar sér fyrir hönd þjóðar sinnar að innleiða skuldbindandi regluverk og setja síðan sérlög sem eiga hindra virkni viðkomandi regluverks, þá er ljóst að regluverk sem er hugsað til að koma í veg fyrir slíkar hindranir, líður þær ekki.  Enda allt regluverkið tilgangslaust ef það dugar að innleiða það en engin skylda sé að fara eftir því. 

Stjórnvöld halda samt fram þeim firrum og vísa í þau rök að orkupakkinn skyldi ekki íslensk stjórnvöld að tengjast hinum sameiginlega raforkumarkaði með því að leggja sæstreng.  Sem er rökleysa, regluverkið miðast við að markaðsöfl, ekki einstök stjórnvöld, sjái um slíkar tengingar, telji þau slíka tengingu hagkvæmar, þá má ekki hindra markaðinn í að leggja slíkar tengingar.

 

Einkafyrirtæki sem sjá hagnað í að leggja sæstreng til Íslands hafa því lögmætar ástæður til að ætla að leyfi fengist fyrir slíkri framkvæmd, enda ljóst að ekkert fyrirtæki leggur milljarða í undirbúning á slíku verkefni, ef það er háð pólitískum geðþótta á hverjum tíma hvort leyfi fáist.  Nú þegar er vitað að breskt einkafyrirtæki er langt komið með að undirbúa og fjármagna lagningu sæstrengs til Íslands, aðeins er beðið eftir samþykkt regluverksins þar um. 

Ef Alþingi neitar slíkri beiðni, með þeim rökum að það vilji ekki regluverkið sem það er nýbúið að samþykkja, taki gildi, þá er allavega ljóst sú ákvörðun mun verða íslenskum skattgreiðendum mjög kostnaðarsöm vegna væntanlegra skaðabóta ásamt því að slíkt hlýtur í kjölfarið vekja upp spurningar hvort Íslandi sé áfram stætt að vera í EES, ef það telur sig geta handvalið þá löggjöf sem það kýs að fara eftir.

Eiginlega er útilokað að þingið fari í slíka vegferð þó öðru sé haldið fram.

 

En það er enginn sæstrengur, um það þarf ekki að deila.

Það breytir því samt ekki að ACER mun samt hafa ákveðið boðvald yfir Orkustofnun, enda gerir regluverkið ráð fyrir að hinn svokallaði Landsreglari, sem í okkar tilviki verður Orkustofnun, hafi algjört sjálfstæði gagnvart innlendum stjórnvöldum, þau sjái um að tryggja honum fjármuni af fjárlögum, en hafi að öðru leiti ekkert boðvald yfir honum.  Hans leiðsögn komi hins vegar frá ACER, þó ESA verði að forminu áhrifalaus milliliður.

Og yfirþjóðlegt valdboð ACER, óháð millilandatengingum, er svo skerpt í orkupakka 4. Í greinargóðri samtekt Arndísar Ásdísar Kolbeinsdóttur á innihaldi orkupakka Evrópusambandsins, sem hún setti inná síðuna Orkuna okkar, má lesa þessi orð;

"Í orkupakka 4, sem ESB hefur þegar gefið út en er væntanlega ekki kominn inn á borð sameiginlegu EES nefndarinnar virðist stefnt markvisst og ákveðið að tengingu allra ríkja innan svæðisins og mikil áhersla á mikilvægi miðstýringar í orkumálum innan ESB, þ.e. umtalsvert aukin völd ACER og ”óháðra” eftirlitsaðila undir “stjórn” ACER. Einn orkumarkaður með miðstýrðu valdi og eftirliti. Athyglisvert er að í kynningarriti ESB um orkupakka 4 er sýndur sæstrengur milli Skotlands og Íslands.".

 

Þetta ásamt markaðsvæðingu orkuauðlinda þjóðarinnar er stóra ástæða þess að hinn óbreytti sjálfstæðismaður sættir sig ekki við stefnu flokksforystunnar.

Sumir kjósa að yfirgefa flokkinn, aðrir reyna að bjarga því sem hægt er að bjarga, eins og þessi undirskriftasöfnun er dæmi um.

Hvort flokksforystan láti segjast er önnur saga, ljóst er allavega þetta mál er flokknum mjög erfitt.

 

 

Eins er ljóst að í dag er flokkurinn án formanns, hugur Bjarna Benediktssonar er greinilega komin á önnur mið, aldraður frændi hans á eftirlaunum er sá eini sem virkilega reynir að halda uppi vörnum fyrir regluverkið, sem og að sannfæra eldri kjósendur flokksins um að ótti þeirra af afsal fullveldis sé ástæðulaus.

Kannski Björn taki bara að sér formennskuna í haust og láti þar með gamla draum sinn rætast.

Unga fólkið nær allavega engu sambandi við eldri kjósendur flokksins, gerir í raun fátt annað en að hæða þá og lítilsvirða.

 

Það hlustar ekki.

Það fer gegn samþykktum landsfundar.

En treystir það sér gegn Kára ef hann nær nægum fjölda undirskrifta??

Er firringin slík að því fær ekkert haggað??

 

Kemur í ljós.

En þögnin mun ekki lægja öldurnar.

Blekkingar munu ekki fá grasrótina til að styðja flokksforystuna.

 

Aðeins heiðarlegt samtal mun það gera.

Sem verður alltaf með þeirri niðurstöðu að flokksmenn vilja hafna regluverkinu.

Því kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru ekki kjósendur Viðreisnar.

 

Þar er hnúturinn, þar er meinið.

Forystan er i vitlausum flokki.

Kveðja að austan.

 

 

 


mbl.is Forystan einangruð í afstöðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi skrif þín um OP3 minna mig á þegar ég var á hluthafafundi hjá Atorku hér um árið - og reif kjaft

Stuttu síðar var sparnaður minn og litlu hluthafanna algjörlega horfinn

enda Landsbankinn og stóru aðilanir búnir að hirða til sín öll verðmæti og ekkert eftir nema ógreiddar kröfur

Þannig held ég að það verði með Landsvirkjun og tel því að reyna ætti til þrautar að setja í Stjórnarskrá Íslands að Landsvirkjun eigi ætíð að vera í eigu ríkisins. Það hefði meiri fælingamátt en þessu aumu fyrirvara við OP3 sem nú er verið að tala um

Grímur (IP-tala skráð) 9.8.2019 kl. 18:32

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Grímur.

Hængurinn er sá að innlendir fyrirvarar gagnvart regluverki halda ekki, hvort sem þeir eru bundnir í stjórnarskrá eða gamanmálum Halla og Ladda.

Annað hvort ertu með í EES og samþykkir regluverkið, eða þú ert utan þessa samnings líkt og Svisslendingar eru.

Ef EES þjóð af einhverjum ástæðum treystir sér ekki til að samþykkja regluverkið, þá semur það um slíkt á vettvangi sameiginlegu EES nefndarinnar sem er skipuð fulltrúum EES þjóðanna auk Evrópusambandsins.

Þeir sem halda öðru fram, og eiga að vita betur líkt og stjórnvöld, þeir einfaldlega ljúga, þó ég kalli lygarnar á fínu máli, "blekkingar".

Og allt tal um vísan í drögin sem kölluð er hin Nýja stjórnarskrá, er blekking, fals, runnið undan rifjum hörðustu ESB sinna þjóðarinnar, fólksins sem að stærstum hluta studdi fjárkúgun breta kennda við ICEsave.

Það segir allt sem segja þarf Grímur, aðeins einfeldningar vilja ekki sjá hið augljósa samhengi.

Og verja þar með aldrei sjálfstæði þjóðar sinnar.

Kveðja að austan.

 

 

 

Ómar Geirsson, 9.8.2019 kl. 18:50

3 identicon

Takk fyrir þennan pistil Ómar.

Það er kýrskýrt að Sjálfstæðisflokkurinn mun aldrei bera sitt barr, ef 3. orkupakkinn verður samþykktur á þingi í byrjun september 2019.

Það er mál sem aldrei mun gleymast.

Það átta óbreyttir sjálfstæðismenn sig á.

Þessi móðurflokkur íslenskra stjórnmála er, og verður gerður, ábyrgur fyrir því, ef 3. orkupakki ESB verður innleiddur í íslensk lög.

Það er virðingarvert að enn finnist sjálfstæðir menn innan Sjálfstæðisflokksins.  Vonum að enn finnist þar a.m.k. 5.000 sjálfstæðir menn.  Ef ekki, er flokkurinn orðinn liðið lík, ESB hræ.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 9.8.2019 kl. 19:05

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Símon.

Þeir eru 5 sinnum fleiri en það.

Í raun gæfa þessarar þjóðar, kjarni þess að við náðum að leggja vinnumenn breta að velli.

Aðeins fávís maður vanmetur þetta fólk.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 9.8.2019 kl. 19:10

5 identicon

Vonum þá, að sjálfstætt fólk sýni fram á að það sé uppistaðan í flokknum. 

Forystan hefur ítrekað gengið í berhögg við heilbrigða skynsemi sjálfstæðs fólks. 

Þórdís Reykás segist nú í "fréttum" RÚV vera viss um að orkupakkinn verði samþykktur.

Nú er það sjálfstæðs fólks að sýna fram á, að forystan sé einangruð í afstöðu sinni.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 9.8.2019 kl. 19:22

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Hún er einangruð, en hvort hún hlusti er annað mál.

Þetta eru ofboðslega sterk öfl sem takast á, að gera skyldu sína gagnvart Djúpríkinu, og glata bæði flokki og þingsætum, eða ganga gegn Djúpríkinu, og fá alla málaliða auðsins gegn sér.

Þó er í hinu seinna falin von, eða allavega vígstaða.

Það fyrra mun einfaldlega ganga að flokkakerfi Jónasar frá Hriflu dauðu.

Hvað svo verður veit nú enginn, um slíkt er vandi að spá.

Enda þessi vísa ekki ort fyrir haustið.

Hins vegar veit ég að í kjölfarið mun fleira falla en hið rúmlega hundrað ára gamla flokkakerfi, EES er undir, og ég græt ekki þegar spjótin munu beinast að þeim óskapnaði auðs og frjálshyggju.

Svo þú sérð Símon minn, að ég er beggja blands, en auðvitað má maður ekki láta persónulegar skoðanir flækjast fyrir í hinni nauðsynlegu vörn þjóðarinnar gegn landsölunni. 

En ég játa að ég hef oft verið bæði grimmari og aktívari.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 9.8.2019 kl. 21:45

7 identicon

Rétt athugað Ómar.

Þessi staða er bara "win, win"

fyrir okkur sem erum andsnúnir EES/ESB.

2/3 þjóðarinnar vill ekki að Ísland gangi í ESB.

EES samningurinn er ekkert annað en aðlögun að ESB.  Og þar hefur forysta BDV afhjúpað sig sem aðlögunarsinna, í stíl við Samfylkingu, Viðreisn og Pírata.  Tími uppgjörsins er kominn.

Komið er að uppgjöri.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 9.8.2019 kl. 22:35

8 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Tek heilshugar undir fyrirsögn þessa pistils. Hlustið, (forysta góð) eða hljótið verra af. 

 Þakka glimrandi góðan pistil og vona að minnsta kosti einhver sé með meðvitund í ´´forystu´´ Sjálfstæðisflokksins.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 10.8.2019 kl. 03:35

9 Smámynd: Óskar Kristinsson

Heill og sæll Ómar!

Og hafðu allar mínar bestu þakkir fyrir þína pistla,Ómetanlegir.

Þú ert sannarlega einn af landvörðum Íslands,Eg mundi vilja kalla þá Miðflokksmenn LANDVERÐI 'Islands nr 1.Hugsanlega hafa þeir komið í veg fyrir eitt stærsta slys íslandssögunnar.

Hvernig er það í svona grafalfarlegum tilfellum, á ekki forseti vor að vera neyðarhemill???

KV af Suðurlandi

Óskar Kristinsson, 10.8.2019 kl. 10:09

10 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Hlustið á lygar og heimskuþvaður, og mótið stefnu flokksins eftir því. Þetta er krafan.

Þorsteinn Siglaugsson, 10.8.2019 kl. 10:25

11 identicon

Þorsteinn Siglaugsson, getur þú nefnt einhverja kosti fyrir Í

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 10.8.2019 kl. 11:49

12 identicon

Þorsteinn, hvaða kosti getur þú nefnt fyrir Ísland að innleiða 3. orkupakkann?

Enga hafið þið Björn Bjarnason getað fundið, hingað til.  Ekki nefnt einn einasta.

Hvað veldur því?

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 10.8.2019 kl. 11:55

13 identicon

Sæll Ómar æfinlega - sem og aðrir gestir, þínir !

Ómar: og þið aðrir, sem hér hafið lagt til þessarrar þörfu umræðu, að undanförnu !

Fyrir skömmu - átti ég símasamtöl, við þau Harald Benediktsson bónda og þingmann vestur á Reyni (D merktan)/ sem og frænku mína:: Helgu Völu Helgadóttur (af Birtingaholtsætt, í Hrunamannahreppi, S merkta) hvar ég ÍTREKAÐI við þau bæði, að ég skyldi KÆRA hvern 1 og einasta þingmann Suðurkjördæmis, sem leggði III Orkupakka Fjórða Ríkisins (ESB) atkvæði sitt, næði umræðan svo langt að ganga í þinginu, í Ágústlok / September byrjun, og krefðizt ég STOFUFANGELSIS hins minnsta, fyrir viðkomandi þingmenn.

Þau bæði, Harald og Helgu Völu: setti aðeins hljóðan, við þá fortaks lausu yfirlýsingu mína, en, .................... það er jú, orðið löngu tímabært, að Íslendingar, allt of mengaðir af Írska og Skozka þýlindinu (sökum Keltnesku erfðablöndunnar óhollu) fari að láta sjálfskipaðan aðal þessa lands (alþingismenn, og þorri embættismanna kerfisins) fari að finna á sjálfum sér, hvað Pundið getur kostað í því, að svíkjazt trekk í trekk aftan að almannahagsmunum:: bæði núlifandi kynslóða, sem og þeirra hinna, sem á eftir munu koma, inn eftir 3ða árþúsundinu !

Mál - að linni, ofríki og frekju, hinna ráðandi afla í landinu !!!

Með beztu kveðjum: sem endranær, af Suðurlandi, engu að síður /   

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 10.8.2019 kl. 12:06

14 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Halldór.

Ég held að það sé fátt verra en að ríkja yfir rjúkandi rústum.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.8.2019 kl. 23:43

15 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Óskar.

Er ekki forsetinn verndari stjórnarskráarinnar og lýðveldisins??, eða einhver hlýtur tilgangur hans að vera annar en sá að taka í hendurnar á fólki og gróðursetja plöntur.

Allavega hafði Ólafur Ragnar annan tilgang, en hvort hann hefði getað eitthvað í þessu máli, veit ég ekki, þetta er erfitt við að eiga.

Guðni hins vegar er bara Guðni.

Hlýr og skemmtilegur maður, og áheyrilegur sagnfræðingur.

En það er engin vigt í honum.

Fyrir utan að ég held að hann sé fyrir löngu gengin í ESB.  En þó svo væri ekki, þá hefur hann ekki nokkurn þann styrk sem þarf til standast þessa atlögu Evrópusinnanna að sjálfstæði þjóðarinnar.

Ekki frekar en ég þegar ég var uppá mitt besta, hefði haft nokkuð að gera í sjómann við Jón Pál.  Ég var samt ekkert verri fyrir það.

Ég held að fólk ætti að halda forsetaembættinu fyrir utan þessa baráttu, menn hafa aldrei sigrað neina baráttu með ráðum sem virka ekki.

Það liggur í eðli þeirra.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.8.2019 kl. 23:52

16 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Þorsteinn.

Þú ert alltaf í gleðinni og einhver verður að sinna því á þessum síðustu.

Þig vantaði aðeins að skeyta orðinu Mogga- fyrir framan lygar, og þá hefðir alveg náð gömlu Stalínistunum sem ég náði að kynnast í æsku.

Þeir voru sko með allt sitt á hreinu.

Skemmtilegir kallar.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.8.2019 kl. 23:54

17 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Símon Pétur.

Ég sé að þú tekur Þorstein alvarlega, þó eitthvað segi mér að til þess sé ekki ætlast.

En þú veist vel, sem maður sem hefur fylgst vel með þróun umræðunnar, að langt er um liðið síðan nokkur fylgjandi hefur talið upp kosti orkupakkans, eða alveg frá því að hvíslað var í eyru Þórdísar Kolbrúnar að sleppa þessu með neytendaverndina sem fólst í því að birta ársreikninga orkufyrirtækja á skýru og góðu letri.

Meginn þunginn hefur farið í fullyrðingar um að það sé alltí lagi að samþykkja þetta regluverk, því það muni ekki gilda á Íslandi, bara annars staðar.  Jú, vegna þess að það á að setja lög sem á einhvern dularfullan hátt eyða hinum evrópska lagatexta um leið og hann birtist í þingtíðindum.  Eða eitthvað svoleiðis.

Það er þess vegna sem ég setti spurningarmerkið þarna inní pistilinn, en hins vegar ókurteisi að spyrja fólk svona beint út um skýrleika þess eða gáfnafar.

Nær að spyrja það um veðrið.

Kveðja að austan.

 

 

 

Ómar Geirsson, 11.8.2019 kl. 00:05

18 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Óskar Helgi.

Kjarnyrtur að vanda, og ég get svo svarið að ég hefði viljað sjá svipinn á þeim Haraldi og Helgu Völu.

Því innst inni veit ég að skynjar að svona þungi sprettur ekki af neinu.

Hvort það sé svo sjálfrátt gerða sinna, er svo annað mál.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.8.2019 kl. 00:08

19 Smámynd: Benedikt V. Warén

Mjög erfitt er að fá það fram hvaða ávinningur Ísland hefur af því að samþykkja Orkupakka 3.

Báðar fylkingar, með og móti, hafa sterkar skoðanir á málinu.

Rök þeirra á móti eru þó mun rökfastari en meðhópsins, sér í lagi er erfitt að fá með fylgjendur að koma með trúverðugan rökstuðning fyrir því, hver ávinningur Íslands er. 

Það eru billegum rök, að benda á OP1 og OP2 hafi verið samþykktir og því nauðsyn að taka upp OP3 í framhaldinu.  Hvers vegna?

Upphrópanir og hneykslun um að sumir sem eru á móti núna, hafa verið með OP1 og OP2 á sínum tíma.  Hvað með hina, sem voru upphaflega á móti en eru nú með.  Er ekki heilbrigt að skipta um skoðun?

Sæstrengur eða ekki sæstrengur. Vafinn er of mikill hvort afstaða Alþingis hafi eitthvað vægi, með fullri virðingu fyrir þingmönnum. Þeir hafa klikkað í öðrum málum og nærtækt að nefna ICESAVE í því sambandi.  Sporin hræða.

Hvergi hefur því verið svarað; hvað liggur á að samþykkja OP3 svo brátt?

HEr ekki rétt að doka við og sjá niðurstöðu frá Noregi og ekki síður verður fróðlegt að sjá niðurstöðu ESB gegn Belgíu vegna Orkupakka 3.

Orkupakkar eiga ekki að vera trúarbrögð, þar þarf kalt hagsmunamat, Íslandi í hag.

Verst af öllu eru þeir mörgu sérfræðingar sem telja að málstaður þeirra sé sá eini rétti og það sé nánast útilokað að samþykkt OP3 hafi teljandi áhrif og endalaust er fjasað um valdaframsal eða ekki valdaframsal, nú síðast takmarkað framsal.  Getur takmörkuð nauðgun verið léttvægari í einhverjum tilfellum?  

Það er óviðunandi afstaða að málið sé ekki nægjanlega skothelt og af þeim sökum einum ber að stíga varlega niður og fá skýr svör frá ESB. Ekki fara í þá vegferð, sem nú stefnir í, með málaferli hangandi yfir þjóðinni með ófyrirsjáanlegum kostnaði.

Hér verður Ísland að fá að njóta vafans.

Benedikt V. Warén, 11.8.2019 kl. 09:33

20 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir þetta innlegg þitt Benedikt.

Í mínum huga er málið nokkuð skýrt, regluverkið sjálft gerir ráð fyrir yfirþjóðlegri stofnun. ACER, sem bæði leggur línur, og dæmir í ágreiningsefnum.  Ef slíkt er ekki afsal á forræði, þá veit ég ekki hvernig slíkt afsal gæti átt sér stað.

Síðan þarf ekki að rífast um það að allt regluverkið, það er að allt regluverkið um raforkumarkaðinn, gerir ráð fyrir markaðsvæðingu orkunnar, þar sem orkan á að leita til hæstbjóðanda.

Sökum mikilvægis orkunnar fyrir allt samfélagið, þá sé ég að slík markaðsvæðing stendur í hörðustu Friedmanistum, og þá er fokið í mörg skjól auðhyggjunnar.

En margir kjósa að trúa ekki staðreyndum, kjósa að kynna sér þær ekki.

Þeir hljóta nú samt að gera tekið undir þessi orð þín, "Hér verður Ísland að fá að njóta vafans.".

Ef ekki þá er slíku fólki ekki viðbjargandi.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.8.2019 kl. 18:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 27
  • Sl. viku: 2564
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2289
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband