Ríkisútvarpið tók loksins til máls.

 

Um orkupakka 3 í dag.

Umdeilt regluverk sem hefur sviðið fylgi ríkistjórnarflokkanna þannig að það stefnir í hrun, sérstaklega hjá Sjálfstæðisflokknum.

 

Regluverk sem fjallar um hindrunarlaus raforkuviðskipti yfir landamæri með því að koma á einum samevrópskum raforkumarkaði, og til að hafa umsjón með og stjórn á, stofnun ACER sem verður yfirþjóðlegt tæki Evrópusambandsins til að ná þeim markmiðum.

Og augljóst mál að ríkisfjölmiðli ber skylda til að fjalla um, til að upplýsa um innihald regluverksins, sem og hvað þýðingu það hefur fyrir íslenskan raforkumarkað, fyrir almenning og fyrirtæki hans. 

 

Hvað felst í hinum samevrópska raforkumarkaði, hver eru áhrif hans á íslenskan raforkumarkað, til skamms eða langs tíma??

Burtséð frá hinu pólitíska þrasi, hverjar eru staðreyndir málsins??

Þó formaður utanríkismálanefndar, þó formenn stjórnarflokkanna, þó aðrir stuðningsflokkar orkupakkans á Alþingi, segi að málið sé fullrætt, þá hefur sú umræða ekki síast út í þjóðfélagið nema á þá í gegnum misvísandi fullyrðingar stjórnmálamanna.

 

En frétt dagsins, sú fyrsta í langan tíma þar sem orð stjórnmálamanna var ekki útgangspunkturinn, fjallaði ekkert um neitt af því sem rakið var hér að ofan.

Hún fjallaði um þöggun á dómara sem vogaði sér að leiðrétta augljósar rangfærslur stjórnvalda og meirihluta Alþingis um að EES ríki geti innleitt regluverk Evrópusambandsins, og sett síðan samhliða lög sem hindra að farið sé eftir viðkomandi regluverki.

Rök dómarans voru ekki krufin, honum var ekki þakkað að sinna þeirri lýðræðislegri skyldu hvers borgara að nýta þekkingu sína til að koma í veg fyrir að staðleysa sé forsenda löggjafar sem mun hafa gífurleg áhrif á nýtingu orkuauðlinda þjóðarinnar, heldur var hann settur í gapastokk fyrir það eitt að segja satt.

 

Og maður getur spurt sig, hvenær hafa blaðagreinar í dagblað með tiltölulega litla útbreiðslu, verið tilefni þess að sérstök fréttaskýring sé samin um að viðkomandi einstaklingur megi ekki skrifa slíkar greinar sökum starfa sinna??

Hvaða þungi var í greinum Arnars Jónssonar sem kallaði fram þessi harkalegu viðbrögð, að sjálfur ríkisfjölmiðillinn var látinn ganga erinda þeirra hagsmuna sem sjá mikinn hagnað í markaðsvæðingu orkuauðlinda þjóðarinnar???

Og hvernig dettur starfsfólki Ruv að láta nota sig eins og húsbóndi þeirra héti Pútin eða Erdogan??

 

Sannleikurinn getur sviðið.

Og í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það að hagsmunirnir haldi úti gjammandi lögfræðingum á samfélagsmiðlum eða kaupi Stundina eða Kjarnann til að níða niður þann sem sagði að keisarinn væri nakinn.

En það er þjóðin sem borgar starfsmönnum ríkisútvarpsins laun, ekki auðmennirnir, ekki hagsmunirnir sem vilja féfletta okkur hin.

Þetta er svo aumt að í raun er það skammaryrði að vera starfsmaður Ruv og sitja undir svona misnotkun þegjandi.

 

"Ég get ekki lesið þessar lygar lengur" sagði sjónvarpsþula í ríkissjónvarpi Rúmeníu í árdaga byltingarinnar gegn alræðisstjórn kommúnistaleiðtogans Nicolae Ceausescu, og enginn veit hvort hún lifði þann dag af. 

En lygarnar stóðu bara í henni, hún gat ekki meir.

Starfsfólk ríkisútvarpsins hefur samt ekkert lært, eins og páfagaukar lásu þeir endalaust upp fréttir þar sem fjárkúgun breta var kölluð ICEsave skuldbindingar þjóðarinnar, líka eftir að dómur féll gegn þeirri fjárkúgun, í dag vinnur það svipuð skítverk í orkupakkamálinu.

Hvernig getur þetta fólk horfst í augu við okkur hin??

 

En skítur og hroði kæfir ekki sannleikann, kæfir ekki heiðarleikann.

Eða hindrar borgara þessa lands að snúast til varnar þegar að þeim er sótt, þegar vegið er að lýðræðinu, eða sjálfstæði þjóðarinnar.

Það hefur sýnt sig áður, það sýnir sig í dag, og mun svo verða á meðan sjálfstætt fólk byggir þetta land.

 

Við erum eins og við erum, en okkur þykir vænt um landið okkar, sjálfstæði þess, og um hvort annað.

Og þetta viðhorf er auðlind, ekki síður en fiskurinn okkar eða raforkan.

 

Í raun sú verðmætasta.

Skýring tilveru okkar og sjálfstæðis.

Þess að við erum þjóð.

 

Hafi Arnar Jónsson mikla þökk fyrir skrif sín.

Kveðja að austan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Einstaklega réttsýn og gefandi grein, Ómar Geirsson! með góðu yfirliti málsins og tekur þessa dæmalausu hlutdrægni Rúvsins réttlátlega á beinið, með málsvörn þinni fyrir hinn frábæra málflutning hins afar færa lögfræðings Arnars Þórs Jónssonar.

Ríkisútvarpið hefur enn og aftur málað sig út í horn fyrir andstöðu sína við lagalegan rétt þjóðarinnar og almannahagsmuni, já, og andstöðu Rúvara við hið frjálsa orð. Skömm sé þeirri stofnun, í þessu máli rétt eins og í Icesave-málinu!

En heiður sé þér og Arnari Þór!

Jón Valur Jensson, 5.8.2019 kl. 04:33

2 Smámynd: Júlíus Valsson

Hættum að kalla Ríkisútvarpið “RÚV” og hækkum útvarpsgjaldið á einstaklinga og fyrirtæki sem um munar og þá lagast þetta.

Júlíus Valsson, 5.8.2019 kl. 04:48

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Góður og réttsýnn Ómar. Ég komst við er ég horfði á brekkusöng þjóðhátíðar í Vestmanaeyjum. Þegar þjóðsöngur okkar var sunginn héldu margir með hendi sinni á hjarta stað. 

Helga Kristjánsdóttir, 5.8.2019 kl. 06:55

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Heyr, heyr.

Magnús Sigurðsson, 5.8.2019 kl. 08:19

5 identicon

Samhljómur forystu Sjálfstæðisflokksins og fréttastofu RÚV er nú orðinn  algjör.  

Með því að hóta ítrekað að einkavæða RÚV hefur forystu Sjálfstæðisflokksins nú algjörlega tekist að gera fréttastofu RÚV að kúgaðri puntudúkku sinni.  Fréttastofa RÚV = His Master's Voice.

Vildi bara nefna þetta, um leið og ég þakka þér Ómar, kærlega fyrir greinargóðan og þarfan pistil.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 5.8.2019 kl. 11:38

6 identicon

Í stuttu máli sagt:

Það er beinlínis orðið pínlegt hversu fréttastofa RÚV er hlutdræg. 

Einhliða áróður fyrir ESB orkupakka-forystu Sjálfstæðisflokksins og núverandi ríkisstjórn.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 5.8.2019 kl. 11:44

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið kæra fólk.

Glæpur Arnars er að segja satt í máli sem stjórnvöld telja að þoli ekki sannleikann, þá verði uppreisn meðal kjósenda stjórnarflokkanna.  Hann gerir það á svo skýran og málefnalegan hátt, að fólk tekur eftir skrifum hans.  Andóf okkar hefur fengið rödd sem vegna stöðu sinnar og menntunar er ekki hægt að hundsa.

Það er ekki ennþá komið svo fyrir lýðræði okkar að Arnar sé rekinn líkt og vísindamaðurinn sem afhjúpaði blekkingar stjórnvalda í Brasilíu varðandi skógarhögg í Amazone, en hver veit hvað er handan sjóndeildarhringsins.

Það hefði allavega þótt saga til næsta bæjar fyrir ekki svo margt löngu að fjölmiðill þjóðarinnar gengi erinda stjórnvalda og tæki þátt í skipulagðari rógsherferð á hendur grandvörum manni fyrir það eitt að segja satt.

Og mér finnst þetta ennþá saga sem vert er að minnast á, og ég tel það skyldu okkar að andæfa slíku gjörræði og standa vörð um þann sem þorði þegar svo margir sem vissu, kusu að þegja.

Lýðræði okkar ver sig ekki sjálft.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.8.2019 kl. 12:05

8 identicon

 

Það er ekkert feimnismál að segja eins og er, að í EES-samstarfinu hafa Íslendingar verið móttakendur reglna, en ekki tekið þátt í mótun þeirra.  Það er heldur ekkert ljótt að segja það hreint út, að slík staða er engu lýðræðisríki sæmandi til lengdar.  Slík staða er heldur ekki í neinu samræmi við þann lagalega grunn, sem lagður var að stofnun Alþingis árið 930 og mótað hefur lagahefð Íslendinga alla tíð, þrátt fyrir löng tímabil niðurlægingar, undirokunar og kúgunar.

Í þessu samhengi blasir líka við, að það er alger öfugsnúningur á hlutverki löggjafa og dómstóla, ef hinum síðar nefndu er ætlað að taka á sig nýtt hlutverk og fara að marka samfélagslega stefnu.  Dómurum er ætlað það stjórnskipulega hlutverk að finna og beita lögum þess samfélags, sem þeir þjóna til að verja rétt þeirra, sem brotið hefur verið gegn.  Þetta er mikilvægasta skylda dómara, en ekki að vera viljalaust handbendi ríkjandi valdhafa eða þeirra, sem telja sig vera fulltrúa siðferðilegs meirihluta á hverjum tíma.

Skilaboð alríkisins eru þau, að menn eigi fremur að hlýða en að andæfa, því að í alríkinu kemur valdið  ofan frá og niður, en ekki öfugt.  Þegar svo er komið, hefur gjörbylting átt sér stað, frá því sem áður var lýst.  Í stað þess að reglur séu settar af fjölskyldum, í nábýli manna og mótist innan eins og sama samfélagsins, koma lögin frá yfirvaldi, sem vill þröngva sér inn í hversdagslíf okkar, jafnvel hugsanir okkar.  Nútímatækni gefur slíku miðstýrðu valdi nánast takmarkalausa möguleika á slíkri áleitni.  Jafnvel einveldiskonungar fyrri alda blikna í samanburði.  Í stað umhyggju í nærsamfélagi býr alríkið til stofnanir, sem sýna okkur gerviumhyggju, en krefja okkur um algjöra hollustu.

Þegar ríkisvald sýnir tilburði í þá átt að  umbreytast í alríki, eru margar ástæður fyrir því, að viðvörunarbjöllur hringi.  Yfirþjóðlegt lagasetningar-, framkvæmda- og dómsvald rýfur það samhengi, sem hér hefur verið lýst milli laga og samfélags, rýrir lagalega arfleifð, lítur framhjá hagsmunum þeirra, sem standa næst vettvangi, og vanvirðir í stuttu máli samhengi lýðræðishugsjónarinnar við réttarríkið.  Slíkt er augljóslega á skjön við stjórnskipun Íslands.

Afleiðingarnar blasa við í málum eins og O3.  Þingmenn hyggjast taka að sér að innleiða í íslenzkan rétt reglur, sem erlendir skriffinnar hafa samið út frá erlendum aðstæðum og erlendum hagsmunum; lögfræðingar taka að sér hlutverk einhvers konar spámanna og freista þess með kristalskúlum að segja fyrir um, hvernig íslenzkum hagsmunum muni reiða af við framkvæmd hinna erlendu reglna; löggjafarþing tekur hinar erlendu reglur ekki til efnislegrar umræðu og endurskoðunar, en lætur sér nægja að leika hlutverk löggjafans.

Á móti spyr stór hluti íslenzkrar þjóðar, hvað sé lýðræðislegt við það ferli, sem hér um ræðir.  Fyrir mitt leyti sé ég ekkert lýðræðislegt við það, að maður í teinóttum jakkafötum rétti upp hönd til samþykktar á lokuðum fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar og málið eigi þar með að heita "lýðræðislega útkljáð".  Þetta er í mínum huga afskræming á lýðræðislegum rétti fullvalda þjóðar, og mætti með réttu kallast lýðræðisblekking.

Íslendingar eru ekki í neinu raforkusamfélagi með þjóðum, sem búa handan við hafið.  Við höfum því ekki haft nein áhrif á eða aðkomu að reglum, sem þar hafa verið samdar um raforku og flutninga raforku milli ríkja.  Í ljósi alls framanritaðs er vandséð, svo [að] ekki sé meira sagt, hvers vegna við eigum að innleiða þessar reglur í íslenzkan rétt og veikja auk þess um leið stöðu okkar í hugsanlegum samningsbrotamálum, sem höfðuð verða í kjölfarið.

Ég rita þessar línur til að andmæla því, að Íslandi sé bezt borgið sem einhvers konar léni ESB eða MDE, sem lénsherrar, ólýðræðislega valdir, siði til og skipi fyrir eftir hentugleikum, án þess að Íslendingar sjálfir fái þar rönd við reist.  Slíkt verður ekki réttlætt með vísun til þess, að Íslendingar hafi kosið að "deila fullveldi sínu" með öðrum þjóðum.

Ofanritað eru stiklur úr afbragðsgóðri grein, Fullveldið skiptir máli, sem Arnar Þór Jónsson skrifaði og birtist í Morgunblaðinu 27. júlí 2019.  Ef þessi orð hans eiga ekki erindi við íslenska þjóð, hvaða orð eiga þá erindi við þjóðina? 

Hverra erinda gengur eiginlega Ríkisútvarpið þegar það vill þagga niður í manni sem Arnari Þór og hans þörfu skrifum um sjálfstæði og fullveldi lands okkar og þjóðar?

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 5.8.2019 kl. 13:06

9 identicon

Okkur Íslendingum vantar í raun stefnu sem markar skilfleti (interfaces) milli okkar sjálfstjórnar sem örsamfélags og ákvarðana alþjóðasamfélagsins (EES, ESB, WTO, SÞ og fl) ef til vill verður það verkefni næstu Alþingiskosninga?

Grímur (IP-tala skráð) 5.8.2019 kl. 13:39

10 identicon

Einstaklega Miðflokksleg og afvegaleidd umræða

thin (IP-tala skráð) 5.8.2019 kl. 17:05

11 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka þér Ómar fyrir þetta.

Skál Hriflungur!

Kveðja að vestan

Gunnar Rögnvaldsson, 5.8.2019 kl. 17:23

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Við Hriflungar erum ólíkindatól Gunnar, en það er of seint að skála (shunk), grilltímanum lauk í gærkveldi.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.8.2019 kl. 22:03

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður thin minn.

Þú ert líka nokkuð ólíkindatól, núna hefur tekið að þér að staðfesta ein hlið af kenningum Darwins, það er þá sem snýr að pólitískum gáfulegheitum.

Nú er þetta blá eitthvað orðið að Miðflokki, hvar endar þetta eiginlega??

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.8.2019 kl. 22:05

14 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Grímur.

Við höfum þau skil, kallast stjórnarskrá Íslands.

Meinið er að nútíma stjórnmálamaðurinn telur sig ekki þurfa að virða hana.

Og alveg öruggt að hann sýni öðrum skilum sömu virðingu.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.8.2019 kl. 22:07

15 Smámynd: Ómar Geirsson

Stórt spurt Pétur Örn, og frekar ólíklegt að nokkur þar innanborðs viti svarið.

Nær væri að spyrja málaliðana á Stundinni hver sendi innágreiðsluna.

Óþefur af skipulagðri rógsherferð finnst langar leiðir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.8.2019 kl. 22:08

16 Smámynd: Daníel Sigurðsson

Saell Omar.

Var rett i thessu ad detta um frabaera og maklega ofanigjöf thina a hendur RUV og öllum theim aragrua svefngengla (og ekki engla) sem maettu og aettu ad taka ofanigjöfina til sin.

Nei, eg er ther ekki alltaf sammala, en tho oftar en ekki og sjaldnast svona algerleg hjartanlega sammala sem nu.

Kaer batattukvedja,

Daniel 

Daníel Sigurðsson, 6.8.2019 kl. 11:59

17 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir það Daníel.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.8.2019 kl. 22:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 1226
  • Frá upphafi: 1412780

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 1085
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband