1.8.2019 | 14:54
Það er þarft að kunna að skammast sín.
Og þeir sem það kunna, þeir skammast sín, í stað þess að mæla hegðun sinni bót.
Hún getur átt sér skýringar, og örugglega hafa margir ekki verið síðri í hegðun sem full ástæða er að skammast sín fyrir.
Og með því að skammast sín, þá er hugsanlegur möguleiki að aðrir skammist sín líka, jafnvel þó seint sé.
Þetta vita allir sem hafa þurft að skammast sín, og lært á eigin skinni, að í raun er engin önnur yfirbót í boði.
Hvenær hins vegar skömm Alþingis linnir er annað mál.
Og hræsnin í kringum siðanefnd Alþingis og Klausturmálið bendir til að aðeins yngra fólk getur gert sér von um að upplifa þá stund, við sem eldri erum þurfum víst að sætta okkur við að Alþingi er ekki vel skipað í dag.
Fólk sem gerir ekki greinarmun á hleruðu fyllerí og opinberum athöfnum, er ekki líklegt til að breyta skömminni sem meginhluti þjóðarinnar hefur á þingheimi okkar.
Upphlaup, upphrópanir, dægurþras, en þögn um það sem máli skiptir.
Alþingi fékk verkefni eftir Hrun, en það brást algjörlega.
Það voru áhugasamtök út í bæ sem felldu hin ólöglegu gengislán, og björguðu þar með tugþúsunda manna frá vergangi, það var uppreisn fjöldans sem varði þjóðina gegn fjárkúgun breta kennda við ICEsave.
Alþingi hins vegar bauð innlenda og erlenda hrægamma velkomna og greiddi götu þeirra á alla lund. Auðmenn og fyrirtæki þeirra fengu skuldir sínar afskrifaðar, börn í vanda voru hins vegar borin út á götu. Þó var samanlagður vandi foreldra þeirra álíka og ein afskrifuð skuld auðmanns, en upphrópanir á Alþingi voru um iðnaðarsalt eða eitthvað álíka sem fjölmiðlar auðsins blésu upp, en hlutskipti barna sem sættu Útburði var aldrei ræddur.
Hvað þá að einhver hefði efasemdir um að endurreisa hið fallna kerfi hins frjálsa flæðis, reglur voru vissulega hertar, en aðeins í þá veru að festa í sessi arðrán leiguliðans, hindranir á götu ungs fólk að eignast sitt eigið húsnæði slógu elju Góða fólksins í Reykjavík við að hindra umferð á götum borgarinnar.
Og ennþá er róið í sömu knérum.
Núna á að afhenda spariútgáfu hrægammanna, hinum svokölluðum fjárfestum, orkuauðlindir þjóðarinnar í gegnum innleiðingu á markaðspökkum Evrópusambandsins kennda við orku.
Markaðurinn á að ráða, markaðurinn á að eiga, markaðurinn á að stjórna.
Markaðurinn á að féfletta okkur hin.
Um það er næstum því þegjandi þverpólitískt samkomulag, þögnin aðeins rofin til að ljúga að þjóðinni.
Með því að kalla markaðsvæðinguna neytendavernd, með því að fullyrða að það sé hægt að samþykkja markaðspakkann, en setja svo lög eftir á um að ekki eigi að fara eftir þegar samþykktum lögum.
Sú lygi kemst ekki til kasta siðanefndar, enda sögð opinberlega, óhleruð, og lygararnir með öllu ódrukknir.
Þar með forsendur hræsni og yfirdrepskapar ekki til staðar.
Það á ekki að kalla ráðherra druslu, það á ekki að kalla ráðherra gungu.
Og það á ekki að kalla ráðherra tík.
Slíkt er alltaf dónaskapur, og kyn þess sem segir, eða kyn þess sem verður fyrir, er ekki aukaatriði málsins, það er ekki atriði málsins.
Það á heldur ekki að ljúga blákalt.
Slíkt er ekki einu sinni dónaskapur, slíkt er hrein vanvirða.
Markaðsvæðing orkuauðlinda þjóðarinnar er pólitísk afstaða, stefna sem á að ræðast á sínum forsendum.
Út frá forsendum hins frjálsa flæðis, út frá forsendum þess valdaafsals sem á sér stað með samþykkt orkupakkans.
Treysti þingmenn sér ekki til að réttlæta stuðnings sinn við þetta regluverk Evrópusambandsins, þá eiga þeir að þegja.
Ekki ljúga.
Það þarf enga siðanefnd til að benda á að þingmenn eigi ekki og megi ekki ljúga uppí opið geð á kjósendum sínum, uppí opið geð á þjóð sinni.
Það er ekki viðurkennd hegðun í daglegu lífi.
Og Alþingi er þar ekki undanskilið.
Það er mál að linni.
Kveðja að austan.
Drusla í lagi en ekki tík? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 2
- Sl. sólarhring: 14
- Sl. viku: 1226
- Frá upphafi: 1412780
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 1085
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Amen á eftir efninu. Þakka góðan pistil.
Það er undarlegur andskoti, að fólk skuli komast upp með að ljúga nánast út í það óendanlega, úr sölum Alþingis og fá fyrir það barasta þokkalega vel greidd laun. Andskotinn bara að horfa upp á þessa óværu grassera ár eftir ár.
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 1.8.2019 kl. 15:34
Já það er af sem áður var, jafnvel þó það hafi aðeins verið í minningunni.
Sæi Vilmund heitinn blómstra við þessar aðstæður, skarpgreindur eins og hann var, hélt sig við kjarnann í spurningum sínum.
Ég held að ég sé meira að segja farinn að sakna Ólafs Ragnars í stól fréttamanns, hann hefði gripið þessa gæs.
En í dag er hægt að segja hvað sem er, fréttamen segja bara Ha.
En almenningur hefur fengið nóg af kjaftæðinu, bæði á þingi sem og í borgarstjórn. Ef flokkshollir eru teknir frá, þá hefur ekki ennþá fundist maður í skoðanakönnun sem segist bera traust til stjórnmálamanna. En þeim er líklegast alveg sama, það snýst allt um bitlinginn eftir þing, eftir ráðherra.
Og í raun þá spila allir, eða næstum því allir með.
Enda þeir sem gera það ekki, líflátnir af auðmiðlum.
Hafi það ekki öllum verið ljóst, þá afhjúpar samtryggingin um hjáleiguaðildina að ESB að hér er auðræði, ekki lýðræði, hagsmunir auðs og fjármagns stjórna öllu, og öllum.
Lygarnar eru samt óþarfar fyrir það.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 1.8.2019 kl. 18:20
Var að enda við að horfa á fréttir á Rúv,sem ég annars sleppi oft. Að sjá Vigdísi fréttaþul spyrjandi Sigmund Davíð út í álit hans á niðurstöðu siðanefndar í Klausturmálinu svo nefnda var hrein hörmung- Vegna endurtekinna framm í kalla meðan Sigmundur svaraði. Fréttastofan er svo yfirþyrmandi esbéisk að andstæðingar þess sæta kúgunn nái þeir að komast nálægt hljóðnemanum og opinbera tilganginn með upptökunni sem var að ná "braveheart"....
Helga Kristjánsdóttir, 1.8.2019 kl. 20:03
Frábær pistill; segir allt sem segja þarf
um hræsnina sem hér ræður ríkjum.
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 1.8.2019 kl. 20:20
Takk fyrir gódan pistil ad venju Ómar.
Thví midur í dag eigum vid ekki lengur til
bladamenn, heldur eingongu bladursmenn.
Apa og gapa framan í embaettis og stjórnmála menn og
spyrja svo aulaspurninga um eitthvad sem kemur efninu ekkert vid.
Halda svo ad thad sé svo eitthva mark takandi á theim.
Enginn metnadur. Bara kjána og aulaskapur.
Sigurður Kristján Hjaltested, 2.8.2019 kl. 05:25
Druslur og gungur stjórna þessu landi.
Júlíus Valsson, 2.8.2019 kl. 10:17
Hjúhh Júlíus, eins gott að þú notaðir ekki té-orðið, ég hefði fengið siðanefnd bloggheimsins á mig.
En takk fyrir innlitið kæra fólk, núna glittir í sólina bak við þokuna, og hver veit hvað gerist í dag í okkar mystíska landshluta, þoku og súldar.
Það er stund milli stríða, njótið helgarinnar.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 2.8.2019 kl. 11:43
Þetta er magnaður pistill félagi Ómar.
Hafðu mikla þakkir fyrir að lyfta umræðunni upp á eilítið hærra plan en tíðkast í fjölmiðlum landsins.
Mbkv., Pétur Örn
Ps. Leyfði mér að deila pistlinum á feisbókarhópinn Orkan okkar - baráttuhópur
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 2.8.2019 kl. 22:27
Takk fyrir það Pétur Örn..
Það er annarra að meta hverju þeir deila á Orku síðuna, það skýrir líklegast umferðina, en þessi skrif voru innlegg í hræsniumræðuna en ekki orkupakkaumræðuna þannig séð.
En það birtist mögnuð grein í Mogganum í dag, enn og aftur rammar Arnar Þór Jónsson umræðuna upp þannig að allir skilja, og geta dregið ályktanir af.
Viðbrögðin við greinum hans afhjúpa nauðvörn Evrópusinna, eins og Arnar bendir réttilega á þá reynir enginn í fullri alvöru að halda fram að eftirásettir heimatilbúnir fyrirvarar haldi gagnvart löggjöf sambandsins, eftir að hún hefur verið innleidd. Þess í stað birtist samræmdur áróður um að ekkert væri að marka hvað ESB segði um löggjöf sína i aðfaraorðum þeirra, og jafnvel væri það ekki að marka hvað stæði í lögunum sjálfum. Þetta væri allt mjög flókið og óljóst, yrði að skoðast í samræmi við önnur lög og reglur, túlkanir dóma sem gætu verið mjög mismunandi og bla bla bla. Slíkur Ruglandi umræðunnar gerir fátt annað en að grafa ennþá dýpri gröf fyrir almenning að jarða álit sitt á þeim lögmönnum sem slíkan þokumálflutning stunda.
Núna síðast hefur svo hafréttarákvæðum verið blandað inní umræðuna, líkt og menn haldi í fullri alvöru að EES þjóð geti innleitt löggjöf og síðan neitað að fara eftir henni með vísan í þjóðréttarsamninga sem leyfi þeim að hundsa viðkomandi löggjöf.
Með fullri virðingu fyrir stjórnmálamönnum okkar, þá er þessi fókus umræðunnar, stilla upp staðreyndum og fá Ruglandann á móti, mikið til verk Arnars Jónssonar.
Stundum er sagt um góðar greinar að þær eigi að vera skyldulesning, ég held að þessi þurfi ekki að treysta á skyldu, hún mun auglýsa sig sjálf, og berast þannig á milli fólks.
Nú er það sólin og grillið, taka 2. Á eina tilvísun ókíkta (flott nýyrði yfir eitthvað sem maður hefur ekki gefið sér tíma til að skoða), hún bíður því sólin skín svo glatt eins og gömul sniðug frænka sem maður hefur ekki séð í mörg ár, en yljar manni alltaf í hjartaræturnar þegar hún kíkir við.
Sólarkveðjur suður að austan.
Kveðja, Ómar.
Ómar Geirsson, 3.8.2019 kl. 13:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.