2.5.2019 | 09:36
Á reynsluna má ekki hlusta.
Því hún hefur ekki próf, ekki gráðu sem sannar að viðkomandi hafi lært allar sínar glósur.
Reynslan nefnilega afhjúpar oft að skilningur á bak við prófin er enginn.
Þess vegna er þjóðfélag sem hefur sett það í lög sín, að fólk eigi að fá embætti eftir fjölda prófa og gráða, en ekki reynslu og kunnáttu, í öngstræti fáfræðinnar.
Jafnréttislögin geirnegla slíka fáfræði þar sem próf eru talin, og ef þau eru jafnmörg, þá eru kynfæri skoðuð.
Að reisa hús á sandi þótti heimskra manna ráð og oft vitnað í þó sjálfsagt hafi fáir eða engir séð slíkt hús byggt.
Þess vegna ákváðu menn að byggja höfn í sandi, fyrir utan ólgandi úthaf, við strönd sem er mótuð af sandburði jökuláa.
Sjálfsagt til að hafa áhrif á þróun málsins, að ekki yrði lengur sagt um vitleysu að hún væri eins og að reisa hús á sandi, heldur eins og að byggja höfn á Landeyjarsandi, og allir hrista hausinn yfir vitleysunni.
En það vantaði ekki prófin og gráðurnar, það eitt er víst.
Engin sætir samt ábyrgð og vitleysan heldur bara áfram, til dæmis er vegargerðin alræmd fyrir að byggja sínar hafnir á Landeyjarsandi.
Í Berufirði er sturtað og sturtað efni til að fylla upp set í botni fjarðarins sem árþúsundin hafa safnað upp og er eins og keldan, tekur endalaust við án þess að þéttast.
Árþúsunda reynsla mannsins að tjara og bik sé besta efnið til að binda saman eða tjarga, er kastað út um gluggann og jurtaolía notuð þess í stað. Sem sannarlega hefur enga bindingu og klæðningin sem hún er sett í hverfur jafnóðum með tilheyrandi óþægindum og óhreinindum fyrir bíleigendur. Að ekki sé minnst á að vegbótin er engin.
En versta dæmið um vanhæfnina, þeirra Landeyjarhöfn snýr að lagningu vegar að hinum nýju Norðfjarðargöngum þar sem staðhættir og veðrátta er algjörlega hundsuð á þann hátt að vegurinn hefur oftar verið lokaður en var um gamla veginn um Oddskarð sem náði í um 600 metra hæð.
Og það sem verra er, að prófgráðan veit ekki að þar sem er brött hlíð, fellur snjór þegar snjóar, eitthvað sem er kallast snjóflóð.
Mikið lán var að mannfall var ekki þegar snjóflóð féll að öðrum gangnamunanum þegar var verið að grafa göngin, menn voru í kaffi og sluppu því.
Þá var hundskast til að reisa varnargarð í flugumynd, eitthvað sem reynslan benti strax á að þyrfti að gera, og sá garður hefur þegar sannað sig, hann hefur stöðvað snjóflóð að hluta.
En bara að hluta, svo naumur er hann á breiddina.
Hvað hefði gerst ef rúta full að börnum hefði fengið þetta flóð á sig??
Hefðu menn þá verið stoltir af sínum Landeyjarhöfnum??
Af hverju er ekki hægt að hlusta og gera það sem blasir við að þurfi að gera??
Þarf einhver að deyja til að svo sé gert??
Þess þurfti með Boeing Max, og það er margt sem bendir til þess að vegagerðin komist upp með að draga lappirnar í að gera vegstæði að Norðfjarðargöngum öruggt allri umferð.
Vegna þess að þó íbúar bendi á þetta, þá er ekki hlustað á þá.
Þó reynslan bendi, þá er hún aðeins í besta falli hædd, ef henni er þá á annað borð svarað eins og var tilfellið með réttmætar ábendingar skipherra Landhelgisgæslunnar með Landeyjarhöfn.
Vegna þess að kjörnir fulltrúar okkar eru mannleysur hvað þetta varðar.
Þeir þora ekki gegn sérfræðiveldinu, það á víst alltaf að hafa rétt fyrir sér.
Enda með prófin og gráðurnar.
Við sjáum þetta í umræðunni um orkutilskipanir Evrópusambandsins.
Hver vill í alvörunni markaðsvæða orkuauðlindir þjóðarinnar fyrir utan örfáa keypta einstaklinga í þjónustu þess auðs sem sér gróðann í markaðsvæðingunni??
Kerfið er gott og það virkar, hví á það að verða bröskurum að bráð??
Jú, hinir meintu sérfræðingar segja að það standi í regluverkinu að við eigum að samþykkja allt sem að okkur er rétt. Að það standi í EES samningnum að annar aðilinn eigi að ráða, en hinn að samþykkja.
Að hann sé einhvers konar uppgjafasamningur líkt og Þjóðverjum var boðið í Versölum á sínum tíma.
Landeyjarhafnirnar eru nefnilega víða og þeim virðist bara fara fjölgandi.
Með ómældum kostnaði og jafnvel eru mannslíf undir.
Það veit enginn hvað hefði gerst ef Herjólfur hefði farið á hliðina hérna um árið í briminu við hina einu sönnu Landeyjarhöfn.
Hver er þá ábyrgur, hver axlar þá ábyrgðina??
Við eigum alla vega ekki að sætta okkur við þær.
Ekki frekar en við sættum okkur við markaðsvæðingu orkuauðlindanna.
Það er óþarfi að reka sig alltaf á til að læra.
Höfum það í huga.
Kveðja að austan.
Hafnarmynnið þarf að verja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.1.): 7
- Sl. sólarhring: 13
- Sl. viku: 136
- Frá upphafi: 1412834
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 116
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Vel "mælt" Ómar að vanda.
En þó að fólkið geti verið hið mætasta á marga vegu, þá er nú kannski ekki von á mjög góðu þegar ráðherra samgöngumála er menntaður dýralæknir og forstjóri Vegagerðarinnar einnig menntaður dýralæknir, en Landeyjahöfn var svo sem á teikniborðinu og ákveðin fyrir þeirra embættistíð.
Kv. frá Hveró.
Jón Ingi Kristjánsson (IP-tala skráð) 2.5.2019 kl. 10:17
Sem og það eru margar Landeyjarhafnirnar.
Kæruleysið við munna Norðfjarðagagna er allavega vítavert bæjarstjórn Fjarðabyggðar og þingmanna kjördæmisins til mikilla vansa.
Því þrátt fyrir allt eru hinir meintu sérfræðingar eftir allt, embættismenn, ekki valdsmenn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 2.5.2019 kl. 11:26
Þarfur og hressilegur pistill Ómar.
Ein af Landeyjarhöfnum Vegagerðarinnar kallast Þröskuldur, vegur sem liggur milli Barðastrandar og Steingrímsfjarðar. Heimamenn benntu sérfræðingum á að sennilega væri erfitt að finna snjóþyngra vegstæði á vestur hluta Íslands. Ekki var hlustað, heldur framkvæmt fyrir mikla peninga.
Og auðvitað höfðu heimamenn rétt fyrir sér. Þessi vegur lokast fyrstur allra vega á vesturhelmingi landsins og miklum fjármunum sóað á hverju ári til að halda honum opnum. Bennt var á aðra leið, ódýrari í framkvæmd, með meiri styttingu fyrir vestfirðinga og allur á láglendi. Allt kom fyrir ekki.
Það eina sem þó tókst nokkuð vel til hjá Vegagerðinni, var nafngiftin. Deilur komu upp um hvað leiðin skyldi kölluð. Norðan við hana vildu menn fá nafnið Arnkötludalur en að sunnanverðu vildu menn nota nafnið Gautsdalur. Milli þessara dala, sem vegurinn liggur um, var til kennileyti sem kallast Þröskuldar. Til að leysa deiluna komst Vegagerðin að því að það nafn væri best.
Og vissulega á það vel við um þann vegspotta sem er einn hellsti þröskuldur norðanverðra Vestfjarða í vegamálum.
Kveðja
Gunnar Heiðarsson, 2.5.2019 kl. 12:02
Já, þeir eru víða Þröskuldarnir Gunnar, ætli annar sé ekki nýi vegurinn upp úr Jökuldalnum, ég man að ég gapti fyrir nokkrum árum þegar ég sá flutningabíl feta sig niður gamla veginn að vetrarlagi og þegar ég ræddi það við bróður minn, þá sagði hann að þeir notuðu þann gamla mikið.
Bæði er sá nýi snjóþyngri og vindasamari, sem og að brekkan er erfið flutningabílum í hálku.
Kallast þetta ekki að greiða atkvæði með dekkjunum??
En verst er ábyrgðarleysið, því án þess er enginn lærdómurinn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 2.5.2019 kl. 13:32
Því miður getur það reynst dýrkeypt að vera vitur eftirá!!!
Tómas Ibsen Halldórsson, 2.5.2019 kl. 13:42
Já, stundum er gjaldið þannig að enginn vill greiða það.
Og það á ekki að þurfa að lenda í þeirri stöðu.
Sbr. Boeing Max.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 2.5.2019 kl. 14:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.