28.4.2019 | 18:39
Hver eru ósannindin?
Það er ekki oft sem hinn almenni sjálfstæðismaður þurfi að sitja undir svívirðingum ráðherra síns eigin flokks, vanari að slíkt geri ráðherrar annarra flokka, þar sem Jóhanna Sigurðardóttir var þar fremst meðal jafninga.
Á nýlegum fundi í Háskólanum um alþjóðasamvinnu, sakaði Guðlaugur Þór meginhluta flokksmanna um að láta stjórnast af erlendri einangrunarhyggju, því þeir vilja ekki afhenda stofnun Evrópusambandsins forræði yfir orkuauðlindum landsins.
Og núna bætir Þórdís Kolbrún um betur, og kallar þá lygara.
Hvort tilefnið er grein Tómasar Inga Olrich í Morgunblaðinu í gær, skal ósagt látið.
En grein Tómasar var sterk, og hún afhjúpaði svo margt í málflutningi Þórdísar og Guðlaugs, sérstaklega þá áráttu ráðherrana að svara rökum með skætingi.
En ég efa að þegar Tómas skrifaði grein sína að hann hafi reiknað með að viðbrögðin væru að kalla hann ósannindamann.
Og hver eru hin meintu ósannindi??, "Að halda því fram að þetta snúi að einkavæðingu Landsvirkjunar eða sölu á auðlindum eru bara hrein ósannindi.".
Það er eins og ráðherra sé svo bernsk að hún þekki ekki til reglna Evrópusambandsins eða hvernig hið frjálsa flæði virkar. Og ef hún er ekki vísvitandi að ljúga uppá fólk, þá er hún algjörlega óhæf til að fara með ráðherraembætti því þá bara veit hún ekkert.
Hún viti ekki að "Það er hins vegar andi allrar orkulöggjafar ESB að koma á fót sameiginlegum orkumarkaði aðildarlandanna og flytja orku yfir landamæri til að fullgera þann markað." svo ég vitni í Tómas Olrich sem bætir við "Þótt engin skylda hvíli á íslenskum stjórnvöldum að leggja sæstreng, þýðir það ekki að íslensk stjórnvöld geti hindrað lagningu sæstrengs þvert á tilgang orkutilskipana ESB/EES.". Og ráðherra getur ekki hundsað þessi rök nema benda þá á dæmi þar sem einstök aðildarríki evrópska efnahagssvæðisins hafi getað gengið gegn efni tilskipana sambandsins og dómafordæmi þar um.
Og á sameiginlegum orkumarkaði eiga fyrirtæki að keppa á jafnréttisgrundvelli, og þess vegna hefur regluverkið krafið einstök aðildarríki um að leysa upp markaðsráðandi ríkisfyrirtæki.
Til dæmis eru Frakkar búnir að beygja sig undir þessa kröfu regluveldisins og eru að leysa upp ríkisfyrirtækið sem á flestar vatnsaflsvirkjanir í landinu. Og ef Frakkland, næst stærsta ríkið í Evrópusambandinu þarf að lúta regluveldinu, þá er það mikill barnaskapur að halda að við Íslendingar komist upp með að gera það ekki.
Enda eru engin dæmi um það í samskiptum okkar við regluveldið.
Orkutilskipanir Evrópusambandsins hafa það markmið að markaðsvæða orkuna á einum sameiginlegum markaði, þar sem ekkert ríki getur undanskilið sig þátttöku, með einu sameiginlegu verði.
Markaðsverði sem ræðst af framboði og eftirspurn.
Og til að ná þessum markmiðum sínum, afsala einstök aðildarríki sér yfirstjórn orkumála sinna í hendur á yfirþjóðlegri stofnun, Orkustofnun Evrópu, ACER.
Að afneita þessu er veruleikafirring, að halda öðru fram er bein lygi.
Í þeim sporum er Þórdís Kolbrún í dag.
Að saka aðra um lygi, bætir ekkert hennar málstað.
Henni væri nær að ræða grein Tómasar Olrich á málefnalegan hátt, koma með dæmin þar sem ríki hafa ekki þurft að virða regluverkið, eða játa að það sé ekki hægt.
En segja kannski á móti að hún sem frjálshyggjumanneskja aðhyllist opinn samkeppnismarkað og það gildi líka um orkuauðlindina enda sé orkan aðeins eins og hver önnur vara. Sagði til dæmis í útvarpsviðtali að þetta væri bara eins og að selja ýsu. Einu sinni hefði allir getað keypta hana, en eftir að hún varð dýr útflutningsvara, þá sé hún munaður, en heildarhagurinn sé meiri fyrir samfélagið.
Það eru nefnilega rök með orkutilskipunum Evrópusambandsins, en þau eru aldrei rædd ef raunveruleikanum er afneitað.
Hvað þá að kalla þá lygara sem benda á staðreyndir málsins.
Það er ákaflega aumur málstaður sem krefst slíkra vinnubragða.
En aumast af öllu er að saka aðra um það sem maður er sjálfur.
Hvort sem hún sakar samflokksmenn sína um það eða aðra.
Það er ekki von þó Tómas Ingi sjái líkindi með vinnubrögðum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur í ICESave málinu.
Það er ekki góð vegverð.
Og vondum að líkjast.
Kveðja að austan.
Þetta var óþægilegt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:43 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.1.): 7
- Sl. sólarhring: 23
- Sl. viku: 109
- Frá upphafi: 1412887
Annað
- Innlit í dag: 7
- Innlit sl. viku: 89
- Gestir í dag: 7
- IP-tölur í dag: 7
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það var svakalegt að verða vitni að heyra
ráðherra og varaformann Sjálfstæðisflokksins
kalla eigin flokksmenn og kjósendur sína lygara
og það í drottningarviðtali í Silfri RÚV.
En vafalaust kjósa þeir hana aftur, og aftur
því þeir virðast njóta þess að varaformaðurinn,
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir,
kalli þá alla lygara sem andæfa áróðri
hennar og Silfurs RÚV, á kostnað okkar allra.
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 28.4.2019 kl. 19:57
Og í þessum sama Silfur RÚV þætti, fóru almannatenglar Samfylkingar og forystuliðs Sjálfstæðisflokksins, Andrés Jónsson og Friðjón R. Friðjónsson, hamförum í að níða sjálfstæðismenn niður og kepptust við að kalla þá populista, einangrunarsinna og þjóðrembufasista.
Í dag gekk áróðursdeild RÚV langt út fyrir öll siðleg mörk, með því að básúna einhliða áróðri almannatengla Samfylkingar og forystuliðs Sjálfstæðisflokksins og varaformanns hans, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur.
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 28.4.2019 kl. 20:36
Þetta er magnaður pistill Ómar. Á hvaða vegferð eru eiginlega þessir tveir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins þegar þeir kalla eigin flokksmenn lygara? Er það gert með vitund og vilja formanns flokksins?
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 28.4.2019 kl. 20:47
Blessaður Símon Pétur.
Ruv-ararnir eru í vinnunni sinni, það var ljóst í ICEsave deilunni að þetta er ekki lengur þjóðarmiðill, heldur auðmiðill.
Almannatenglarnir eru líka í vinnunni, og greinilega telja þeir það ekki ganga nógu vel að níða niður andstæðinga orkupakkans, svo þeir taka það að sér sjálfir. Hvort þeir hafi erindi sem erfiðið, kemur bara í ljós, en mér hefur alltaf þótt sá einstaklingur aumkunarverður í umræðunni sem hefur Andrés Jónsson fyrir einhverju.
En Þórdís Kolbrún er ekki í vinnunni sinni, hún er trúnaðarmaður flokksins, valinn af honum til trúnaðarstarfa í ríkisstjórn Íslands.
Og þessi vanstilling hennar er stór mistök.
Því hún er jú ekki í stöðu Jóhönnu Sigurðardóttur, að leiða flokk sem átti eiginlega fátt annað til að sameinast um en undirlægjuháttinn gagnvart ESB, og hatrið á Sjálfstæðisflokknum. Svo að sjálfsögðu hatrið á Davíð.
Það sem aflaði Jóhönnu fylgis í sínum röðum, aflar ekki Þórdísi Kolbrúnu fylgis í sínum röðum.
Þetta er ótrúlega bernskt, og verður ekki aftur tekið.
En ég reikna með að hún biðjist afsökunar á orðum sínum á morgun eða hinn, þegar einhver eldri hefur rætt við hana málin, og svona vitkað hana ef svo má að orði komast.
Ef ekki, þá grefur það beint undan Bjarna.
Guðlaugur gerir það vissuleg brosandi alla daga, en Þórdís er skjólstæðingur hans, ef það væri ekki fyrir hans trúnað, þá væri hún núna bara lærlingur á lögfræðistofu, að sanna sig.
Þetta gengi örugglega hjá VinstriGrænum, því þar er einhver ára sem stækkar þá sem svíkja sín helgu vé, en ég efa að þetta gangi í Sjálfstæðisflokknum.
En það skýrist.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 28.4.2019 kl. 23:13
Takk Pétur.
Ég fékk útrás fyrir galgopann fyrr í dag, að ekki sé minnst á pistilinn um Báru, sem reddaði algjörlega vikunni hjá mér í lognmollunni.
Þess vegna allt í góðu að vera stilltur og prúður og sitja á strák sínum þegar alvaran er annars vegar, ég held Þórdís hafi sært marga sér eldri og reyndari með þessum orðum sínum.
Varðandi Bjarna, þá held ég að þessi orð séu ekki að hans vilja, og hann er örugglega sá fyrsti sem gerir sér grein fyrir skaðsemi þeirra.
Hvernig hann tæklar þetta kemur í ljós, en ég tel hann ekki þannig leiðtoga að hann vilja ríkja yfir rjúkandi rústum sundurlyndis og innbyrðis deilna.
En fyrir hann er þetta erfitt mál, og verður æ erfiðara með hverjum deginum.
Ætli hann endi ekki á því að setja alla í þagnarbindindi.
Það hefur svo sem áður verið gert.
Skýrist.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 28.4.2019 kl. 23:20
Það er óskandi að Þórdísi verði boðið á hverjum degi í sjónvarp til að tala alveg frjálst, alveg óhindrað og af fingrum fram um "hetjur lyklaborðsins." Hún anar áfram og hefur ekki nokkra stjórn á því sem hún segir. Hún verður svo sérkennilega hraðmælt þegar hún verður reið "hetjum lyklaborðsins" fyrir að hlýða henni!
Guðlaugur þyrfti helst að vera í sjónvarpi alla daga, allan daginn, svo við hin fáum að njóta fýlusvipsins sem óþekkt okkar kallar fram á andliti hans.
Það er enginn betri en þau sjálf í að skýra út vondan málstað þeirra í orkupakka 3.
Esja frá Kjalarnesi (IP-tala skráð) 29.4.2019 kl. 00:43
Hún verður svo sérkennilega hraðmælt þegar hún verður reið "hetjum lyklaborðsins" fyrir að hlýða henni ekki!
Esja frá Kjalarnesi (IP-tala skráð) 29.4.2019 kl. 00:46
Já, þau skemma ekki fyrir, það eitt er víst.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 29.4.2019 kl. 06:56
Jæja, það er alveg vel kominn tími á að segja sig úr þessum blessaða flokki, með þetta lið innanborðs ásamt formanni flokksins þá er ekkert þar sem heldur í mann.
Halldór (IP-tala skráð) 29.4.2019 kl. 08:44
"Það er ekki mitt að halla mér fram
og hlusta á þá."
(Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir í Silfri RÚV, aðspurð um andmæli mikils meirihluta hennar eigin flokksmanna gegn 3. orkupakkanum)
Þessi orð hennar eru undarlega samfylkt í hrokanum og fleyg orð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur:
"Þið eruð ekki þjóðin."
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 29.4.2019 kl. 11:36
Blessaður Halldór.
Það hefur hingað til ekki vera talið mikið sjálfstæði að greiða atkvæði með fótunum, og undanhald í þessu máli endar allt á einn veg.
Uppgjöf.
Þá er nær að skunda á Þingvöll og strengja vort heit, líkt og áar okkar gerðu í sjálfstæðisbaráttu sinni.
Þetta fólk er ekki flokkurinn.
Þið eruð flokkurinn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 29.4.2019 kl. 11:47
Blessaður Símon.
Ég ætlaði einmitt að leggja út frá þessum orðum Ingibjargar í svari mínu til Halldórs, en rifjaði þá bara upp ættjarðarljóð í staðinn.
Ég held að það sé kominn tími á þau.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 29.4.2019 kl. 11:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.