Þegar sannleikurinn er sagður lýðskrum.

 

Þá höfum við vaknað uppí alræðisþjóðfélagi eins og Orwell lýsir svo ágætlega í bók sinni 1984, það er árdaga þess áður en almenningur var sviptur öllum lýðréttindum.

 

Það er staðreynd að regluverk ESB er yfirþjóðlegt og tekur öll völd af einstökum aðildarríkjum, slíkt telur skrifræðið nauðsynlegt til að ná fram markmiðum sínum í orkumálum.

Markmið sem eru hindrunarlaus markaðsviðskipti óháð landamærum, að auka orkuöryggi og hlut grænnar orku af heildarorkuframboði innan efnahagssvæðisins.

Að benda á þetta skrifræðisyfirþjóðvald er kallað lýðskrum.

 

Það er staðreynd að regluverk ESB líður ekki markaðshindranir, og slíkar markaðshindranir hafa ekki haldið þó upphaflega hefur verið samið um þær eins og nýlegur dómur um frjálsan innflutning á sýklum staðfestir.

Einhliða fyrirvari íslenskra stjórnvalda um að banna sæstreng sem mun tengja landið við hið sameiginlega orkukerfi Evrópu mun því ekki halda.  Öll dómafordæmi eru á þá vegu, engin fordæmi til um það gagnstæða enda skrýtið að innleiða reglugerð sem er hugsuð til að stuðla að hindrunarlausum viðskiptum yfir landamæri, að einstök ríki geti undanþegið slíku frjálsu flæði með einhliða fyrirvörum.

En að benda á þetta er kallað lýðskrum.

 

Ríkisrekin einokunarfyrirtæki eru markaðshindrun í hinu frjálsa flæði, þau hindra samkeppni og einkarekin fyrirtæki keppa ekki við þau á jafnréttisgrundvelli. 

Þjóðir sem undirgangast hið sameiginlega regluverk þurfa því að skipta þeim upp og bjóða hluta þeirra til sölu á markaði.  Með öðrum að einkavæða þau.

En að benda á þetta er kallað lýðskrum.

 

Hinir svokallaðir lýðskrumarar vitna í íslensku stjórnarskrána, í lög og reglur Evrópusambandsins, í sögu þess hvernig allt samstarf hefur orðið miðstýrðara undir handleiðslu stofnana sambandsins, um dóma og dómaframkvæmd, máli sínu til stuðnings.

Menn eins og Þorsteinn Víglundsson vitna í fullyrðingar, og lýsa sjálfum sér þegar þeir segja; ", fólk sem er á laun­um við að kynna sér þessi mál af kost­gæfni, fer fram með rök sem er ekki hægt að styðja með ein­um ein­ustu til­vís­un­um í reglu­verk eða staðreynd­ir máls­ins.".

 

En þessi sami Þorsteinn hefur reynt að ræða málin á málefnalegum nótum, ekki með því að hafna hvað felst í reglugerðinni um hið yfirþjóðlega regluvald og hinn sameiginlega orkumarkað.  Menn gera verið sammála honum eða ósammála, en hann lýgur ekki, afneitar ekki staðreyndum málsins líkt og stjórnarflokkarnir þrír gera.

Og næst þegar menn lesa fullyrðingar manna eins og Brynjars Níelssonar eða Guðlaugs Þórs þar sem þeir kannast ekki við regluverkið eða hinna sameiginlega orkumarkað, einkavæðinguna eða annað, þá ættu menn að hafa þessi orð Þorsteins í huga;

" Sú ákvörðun Norðmanna að fjárfesta í tengingu við evrópska markaðinn skýrist nefnilega ekki af því að landinu sé stýrt af ótýndum landráðamönnum heldur af því að tengingin skilar Norðmönnum miklum ábata. Hún er skynsamleg. Hún stuðlar að auknu raforkuöryggi og um leið hagnast Norðmenn ágætlega á þessum viðskiptum. Samningsstaða þeirra gagnvart stóriðju styrkist til að mynda. Orkan er ekki lengur "strönduð" eins og það kallast heldur eiga Norðmenn kost á því að flytja hana út ef stóriðjan vill ekki greiða uppsett verð.

Að einblína á möguleg verðlagsáhrif heima fyrir, líkt og lýðskrumarar gera, er álíka gáfulegt og að banna fiskútflutning okkar þar sem verð á ýsu hér heima kunni að vera hærra fyrir vikið. Við seljum um 80% af raforkuframleiðslu okkar til útflutnings í gegnum stóriðjuna. Við höfum miklu meiri hagsmuni af því að hámarka verð á raforku heldur en að halda því niðri. Og það er hægur vandi að vega á móti mögulegri hækkun á raforkuverði. Til dæmis með því að fella niður virðisauka á sölu raforku til heimilisnotkunar. Ræðum kosti þessa og galla en nálgumst ekki málið með heimóttarskap og hræðsluáróðri.". (Feisbók Þorsteins 7. apríl 2019)

 

Það er vissulega ákveðinn kostur að gamalt fólk hafi ekki efni á að kynda húsin sín á köldustu vetrarmánuðunum, til lengri tíma dregur það úr útgjöldum til heilbrigðiskerfisins því það er bara svo með kulda að hann dregur úr lífslíkum fólks.  Og auðvitað var þetta argasti sósíalismi hjá Sjálfstæðisflokknum á fyrri hluta síðustu aldar að beita sér fyrir ódýru rafmagni og hita fyrir alla, í stað þess að markaðsvæða orkuna strax og tryggja hámarks arð fyrir orkufyrirtæki sem áttu auðvitað að vera í einkaeigu. 

Og stóriðjan er vissulega ölmusuatvinnuvegur á þjóðinni sem fáu eða engu skilar líkt og Indriði G. Þorláksson hefur ítrekað bent á.  Þá borga Þjóðverjarnir hærra rafmagn þegar þeir eru að falsa kolefnisbókhaldið hjá sér, og þeir sem missa vinnuna geta bara flutt til Þýskalands, eða eitthvað.

Síðan vita allir að garðyrkjan og þetta sem nýtir sér ódýra orku, er bara tómstundagaman fólks sem nennir ekki að vinna ærlega vinnu í bönkum eða hjá lögfræðifyrirtækjum.  Og gerir ekkert annað en að draga úr hagnaði heildsala.

 

Aðalatriðið er að málið sé rætt á málefnalegan hátt, og það sé viðurkennt hvað felst í orkutilskipunum Evrópusambandsins, og hvaða afleiðingar það hefur fyrir íslenskan almenning og íslensk fyrirtæki.

Fólk getur deilt um þessa lykilskoðun hans; "Við höfum miklu meiri hagsmuni af því að hámarka verð á raforku heldur en að halda því niðri.", en það á ekki að rífast um forsendur hennar.

Sem er tilskipun ESB um orkumarkaði, innihald hennar og afleiðingar.

 

Það á ekki að ljúga að þjóðinni að það verði ekki lagður sæstrengur.

Það á ekki að ljúga að þjóðinni að orkufyrirtæki í almannaeigu verði  ekki einkavædd að hluta eða að öllu leiti.

Það á ekki að ljúga að þjóðinni að slíkt muni ekki breyta samfélaginu okkar í grundvallaratriðum, að kuldinn hefji innreið sína á íslensk alþýðuheimili og þúsundir munu missa vinnuna þegar iðnaður sem treystir á ódýra orku deyr drottni sínum.

Og það á ekki að ljúga að þjóðinni að stjórnarskráin heimili yfirþjóðlegt regluvald og dómsvald yfir öllu sem lítur að orkumálum.

 

Menn eiga að hafa kjarkinn eins og Þorsteinn og segja að það sé sín skoðun að meintur ávinningur vegi uppi skaðann, og að stjórnarskráin eigi ekki að vera markaðshindrun, eða hindra þróun á alþjóðlegu samstarfi okkar við Evrópusambandið.

Því annað er aðför að lýðræðinu.

Aðför að lýðveldinu, miklu verri en sú að afhenda erlendu valdi orkuna okkar.

 

Því lygin er forsenda alræðisins.

Það var lygin og ógnin sem hélt saman alræðisþjóðfélögum fasista og kommúnista.

Og ef við látum hana viðgangast þá upplifum við í dag árdaga alræðis auðsins.

 

Ef við viljum það, þegjum við.

Ef við viljum vernda lýðræðið, þá mótmælum við .

Vinnubrögðunum og málflutningnum.

Öll sem eitt, hvort sem við erum sammála samrunanum við orkumarkað Evrópusambandsins, eða ekki.

 

Og ekki hvað síst, eiga fjölmiðlamenn að standa vaktina hvað þetta varðar.

Þeir eru jú hluti af samfélagi okkar og geta ekki talið það ákjósanlegt að þjóðin sigli hraðbyri inní alræði auðsins.

Regluverkið er skýrt, dómar um hvort að einhliða fyrirvari haldi eru engir, afleiðingarnar eru skýrar, kostir og gallar.

 

Þess vegna á engin að komast upp með að kalla staðreyndir lýðskrum.

Og það er samsekt að láta einhvern komast upp með slíkt.

 

Það er mál að linni.

Kveðja að austan.

Þ


mbl.is „Það kalla ég ómerkilegt lýðskrum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þennan pistil Ómar.

Og mikið er ég sammála því sem í honum segir um að horfast í augu við sannleikann og að hálfvelgju þingmenn og ráðherrar hætti að ástunda hálfsannleikann sem nær undantekningarlaust er lygin ein.

Sem minnir mig á Opinberunarbókina um að menn skuli vera kaldir eða heitir, en ekki hálfvelgjunnar.  Betra finnst hverjum að glíma við djöfulinn sjálfan, en skinhelga púka sem með fagurgala segja alla fyrirvara halda, en vita samt að þar ljúga þeir.

Svo er það spurningin hvers vegna þingmenn og ráðherrar vilja, og í umboði hverra?, freista djöfulsins, en biðja hann um fyrirvara?  Sá sem semur við djöfulinn hefur þar með selt sál sína.  

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 14.4.2019 kl. 15:17

2 Smámynd: Bjarni Gunnlaugur Bjarnason

Góður pistill og réttur nema að taka undir þann grundvallarmisskilning að við höfum ekki grætt á stóriðjunni. Við höfum einmitt grætt það á stóriðjunni að eiga skuldlausar allar virkjanir nema þá síðustu. Alveg óþarfi að tala það niður eins og Indriði gerir og þá um leið að spila fríu spili upp í hendurnar á þeim sem vilja sölsa þessa eign undir sig fyrir lítið í nafni einkavæðingar. 

Varðandi ESB og stefnu þess er ég sammála þér.  Stefnan er einföld og búin að vera sú sama frá því að EES samningurinn var gerður. Hún er sú að Ísland verði hluti af ESB en fjórfrelsið án undantekninga leiðir óhjákvæmilega til þess.

Frjálst flæði fjármagns setti þessa þjóð næstum á hliðina fyrir tæpum 10 árum. 

Frjálst flæði vöru tekur sinn toll með frjálsu flæði sýkla eins og þú réttilega nefnir það og svo nú með því að afnema ákvörðunarvald okkar um eigin orku. 

Frjálst flæði vinnuafls hefur að vísu gagnast þjóðinni mjög en um leið valdið gríðarlegri misskiptingu vegna hækkunar á húsnæði. 

Við erum á hraðleið inn í ESB það er alveg óþarfi að ljúga öðru að fólki eins og margir gera þó. 

Dómsvaldið er farið, sbr. Landsdóm. 

Lögjafavaldið svo til alveg, aðeins eftir að innleiða þá aðferðafræði að lög hér í landi þurfi fyrst samþykki ESB.

Framkvæmdavaldið sömu leiðis á útleið um slíkt má t.d. fræðast í orkupakka 3. 

Eina leiðin til að stöðva þessa ESBun Íslands er að segja EES samningnum upp og semja við aðrar þjóðir sem frjáls og fullvalda þjóð. 

Ef menn vilja það ekki þá er slíkt þeirra afstaða og lítið við því að segja þó heimskulegt sé, verra er að ljúga að sjálfum sér og öðrum að við séum á einhverri annarri vegferð með því að gleypa svona spægipylsurnar frá Evrópu (með ónæmu sýklunum) hverja á fætur annarri. 

Tek undir það meginstef í pistli. 

Bjarni Gunnlaugur Bjarnason, 14.4.2019 kl. 15:36

3 identicon

Þorsteinn segir það sína skoðun að meintur ávinningur vegi uppi skaðann,

og að stjórnarskráin eigi ekki að vera markaðshindrun,

eða hindra þróun á alþjóðlegu samstarfi okkar við Evrópusambandið.

Þar höfum við það.

Og að því séu allir þingmenn og ráðherrar núverandi ríkisstjórnarflokka sammála?

Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og VG?

Að stjórnarskráin verði brotin,

að virkjað verði hér í drep,

að "sam-evrópsku" markaðsverði verði leyft að keyra hér upp í topp orkureikninga heimilanna,

allt í boði nokkurra yfrþjóðlegra og ókosinna embættismanna í Brussel og leppa þeirra hér?

Ha?

... og að því séu allir þingmenn og ráðherrar núverandi ríkisstjórnarflokka sammála?

Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og VG?

Er nema von að þeir flokkar séu nú í frjálsu falli, því hver getur treyst þeim sem svíkja

sína eigin flokksmenn og kjósendur og reka svo rýtingana í bak þeirra. 

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 14.4.2019 kl. 15:49

4 identicon

Ekkert getur útskýrt svik Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og VG, nema alræði auðsins.

Björn Bjarnason vitnar í dag í Gula Keisarann:

Að buga óvininn án vopnaviðskipta, það er snilld.

Slíkt er einungis hægt með því að spila á lægstu hvatir mannskepnunnar, græðgina og illskuna.

Að múta, eða gylla svo um fyrir mönnum gróðann, beinlínis íslenskum þingmönnum, lagasetningarvaldinu, 

framkvæmdavaldinu og dómsvaldinu.  Og staðan er nú þessi sem Bjarni Gunnlaugur lýsir í aths. sinni:

Við erum á hraðleið inn í ESB það er alveg óþarfi að ljúga öðru að fólki eins og margir gera þó. 

Dómsvaldið er farið, sbr. Landsdóm. 

Lögjafavaldið svo til alveg, aðeins eftir að innleiða þá aðferðafræði að lög hér í landi þurfi fyrst samþykki ESB.

Framkvæmdavaldið sömu leiðis á útleið um slíkt má t.d. fræðast í orkupakka 3. 

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 14.4.2019 kl. 16:08

5 identicon

Bara í einu orði sagt um þennan pistil:  Frábær.

Mæli eindregið með því að þú "sjérir" honum á feisið, í hópinn: orkan okkar.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 14.4.2019 kl. 16:45

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Er ekki bara máli möndla keisið með nýjum Landspítala, svona svipað og með Landsímann um árið?

Eða hefur þetta hyski kannski ekkert nef lengur fyrir lýðskrumi?

Magnús Sigurðsson, 14.4.2019 kl. 18:49

7 identicon

TEK UNDIR ORÐ PETURS ARNARS BJÖRNSSONAR og bið þig vinsaml að setja þennann frabæra pistil inná :Orkan Okkar   .

rhansen (IP-tala skráð) 14.4.2019 kl. 18:50

8 identicon

Þegar lýðskrum er sagt vera sannleikur ætti bloggið að heita.

Eitt dæmi um lýðskrumið og rangfærslurnar er að fyrirvararnir sem settir eru, en eru óþarfir, haldi ekki. Eins og frjálst flæði vöru og þjónustu gefi Svíum leifi til að bora göng í Alpana, að Frakkar geti einhliða ákveðið að leggja gasleiðslu um Þýskaland og Þjóðverjar strengt háspennulínu gegnum Frakkland til að selja Spánverjum rafmagn. Allt er þetta er háð samþykki viðkomandi lands. Og að halda því svo fram að til séu dómafordæmi sem heimila þetta allt er alger þvæla.

Annað bullið er að hér á landi er aðeins eitt ríkisrekið einokunarfyrirtæki, Áfengis og Tóbaksverslun Ríkisins. Þannig að það er ekkert sem kallar á uppskiptingu "einokunarfyrirtækisins" Landsvirkjunar, Landsvirkjun hefur ekki neinn einkarétt og er engin markaðshindrun því öllum er frjálst að virkja, leggja línur og selja rafmagn.

Fleira mætti telja sem er helber vitleysa ykkar lýðskrumaranna en ég veit að staðreyndir málsins og skynsamleg rök vekja engan áhuga hjá ykkur. Skoðun ykkar og málflutningur byggir akki á þannig hlutum.

Vagn (IP-tala skráð) 14.4.2019 kl. 20:03

9 Smámynd: Júlíus Valsson

Þetta 3.Orkupakkamál á líklega eftir að valda meiri breytingum á viðhorfi almennings (les: kjósenda) til þeirra stjórnmálmanna, sem flytja málið en þeir virðast gera sér grein fyrir. 

Júlíus Valsson, 14.4.2019 kl. 21:29

10 identicon

Fyrst Ómar minnist á Brynjar Níelsson, má spyrja hvort það sé tilviljun að fregnir herma að brátt verði hann settur, akkúrat á sama tíma og hann er kominn í já-kór hjarðmennsku höfðingjanna, og hækkaður til tignar sem ráðherra, dómsmálaráðherra?  Ekki mun virðing nokkurs siðviturs manns aukast í hans garð við það.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 14.4.2019 kl. 22:06

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Áður en lengur er haldið, og athugasemdir lesnar, og gleði lýst yfir karlmennsku strákanna í boltanum, eða að Liverpool skyldi halda haus og fækka stigum Chelsea, sem upplýsir hvað ég var að gera í dag, þá langar mig að peista link á enn einn stórgóðan pistil Gunnars Heiðarssonar, sem dregur um margt það saman sem ég segi í fleiri orðum hér að ofan;

Hvað er lýðskrum?

Og allir ættu að lesa, allavega gerði ég það.

Kveðja að austan.

 

 

 

Ómar Geirsson, 14.4.2019 kl. 22:47

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Bjarni.

Þú færð þann heiður að hafa vakið mesta athygli mína, með því að draga hluta af kaldhæðni út úr sviga, og gera við hana ágreining.

Ekki að ég ætli á nokkurn hátt að tjá mig um hagkvæmni stóriðju, eða taka upp þras við Indriða eða þig um það efni, að þá held ég að ef þú kaust á annað borð að vera ósammála, að þú hefðir þá frekar átt að spyrja í forundran hvort ég vildi virkilega spara heilbrigðisútgjöld með því að drepa gamalmenni úr kulda, eða hvort ég tryði því virkilega að innlendur iðnaður eins og gróðurstóriðjan, væri tómstundagaman fólks sem nennti ekki að læra til lögfræðings eða viðskipta.

Ég hefði nú getað skilið reikniritann sem kallar sig Vagn að hnjóta um slíkt, að ég væri ekki alveg sanngjarn gagnvart þeim sem sæju heildarhaginn við hið evrópska regluverk, en flestir aðrir hefðu nú átt að kveikja.

En við höfum kannski rifst svo oft nýlega, um önnur mál, að þú gast ekki séð að þar áður vorum við líka alveg rosalega oft sammála, og erum það aftur í dag.

Hins vegar, þó ég hafi verið kaldhæðinn, þá  hélt ég mig við sannleikann.

Höldum því til haga.

Þjóðin sem er, verður þjóðin sem var, gangi þessi illræðisverk eftir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 14.4.2019 kl. 22:56

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Símon 1.

Það var allavega meginstef þjóðsagna okkar, að djöfullinn gæfi engan afslátt.

Einu undantekningarnar sem ég þekki, þær voru ekki með fyrirvörum, heldur vísuðu í snilldargáfu mannsandans.

Sú fyrri var þegar Kolbeinn kraftaskáld vann rímkeppni við þann í neðra og seinna þegar Djöfullinn skrapp niður til Georgíu, og laut í lægra haldi í gítarsólókeppni, en líklegast vegna þess að sú snilld var nýtilkominn, og lítt æfð í neðra.

Hann hefði ekki látið taka sig í annað sinn, og ég myndi ekki veðja á að hann sleppti takinu núna, þó hann hafi látið í minni pokann í ICEsave deilunni, þetta pakk er að koma öllu í eigu Örfárra, á þann hátt að jafnvel lénstíminn virkar ligeglad miðað við hvernig almannaeigur eru rændar og ruplaðar í dag, og allskonar stólar eru settir fyrir hurðar og dyr hins venjulega manns, og fyrirtækja hans.

Þeir voru allavega ekki með reglur um allan andskotans á þeim tíma.

Enda ekki búnir að finna upp regluverk andskotans.

Við erum ekki svo heppin í dag.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 14.4.2019 kl. 23:05

14 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Símon þriðji.

Það sem Þorsteinn sagði beint, setti ég innan gæslalappa, það sem þú vísar í er mín orð, mín túlkun á orðum hans.

Og eiginlega þarf að bera þau undir Þorstein ef maður ætlar að leggja honum fleira í munn.

En þetta er ekki óvarlega túlkað miðað við feisbókarfærslu hans, en túlkað engu að síður.

Frekari túlkun er síðan túlkun á mínum orðum, ekki hans.

Í pistli um sannleikann, verðum við líka að heiðra hann.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 14.4.2019 kl. 23:09

15 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Símon fjórði.

Hef ekki lesið Björn í dag, enda var hann ekki á íþróttarásum, reikna samt með því að flestir séu farnir að sjá í gegnum Trójuhest umræðunnar, og bíð spenntur eftir að honum verði hent út úr Heimsýn, eða snúast þolmörkin þar um að segja Nei við sendiherra ESB þegar hann vill ganga í samtökin og hefja einarða og sanna baráttu gegn því að Ísland gangi í ESB??

En smáatriðatínslan hefur oft fylgt mér, og vil benda á misvægi í þessari setningu þinni.   Ekki spyrja mig samt hvað ég á við með orðinu misvægi, skil það ekki alveg sjálfur en puttarnir slógu þessu inn svo öllu sé haldið til haga.

"Slíkt er einungis hægt með því að spila á lægstu hvatir mannskepnunnar, græðgina og illskuna."

Illskan er ekki hvöt, hún er eðlislæg, og það er hún sem höfðar til hinna lægstu hvata, eins og græðginnar og ágirndarinnar, svoleiðis var vinnugangurinn þegar sparisjóðskerfið var fellt í aðdraganda Hrunsins, og hver var ávinningurinn af því???

Bætum græðginni og ágirndinni við forheimsku og hugsanaleti, þá fáum við út stuðningsfólk þriðja orkupakkans.

Síða eru það algróritmarnir, en það er önnur saga. 

Þeim er jú ekkert sjálfrátt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 14.4.2019 kl. 23:21

16 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Pétur Örn.

Það er nú bara svo að ég pistla aðeins fyrir áhugasama sérvitringa sem ástunda þennan afkima umræðunnar sem kallast Moggabloggið.

Og uppfylla það skilyrði að vera fastir lesendur pistla minna.

Fámennt, góðmennt, engin lognmolla, engin rétthugsun.

Aðeins góðlegur ágreiningur og kitrur, ásamt því að vera sammála síðasta ræðumanni, þegar fólk er sammála honum.

Ég banna alls ekki öðrum að lesa og vissulega er meira lesið en minna þegar einhver hiti er í áhugamálum mínum sem ég pistla um.

En það er bónus, svipað og hin ágætu tilboð Kjörbúðarinnar á helgarsteikinni, eðli málsins vegna versla ég hvort sem er alltaf í þeirri ágætu búð, enda sú eina á staðnum.

En bónusinn alltaf vel þeginn, stundum svo vel að ég fer uppí Bónus til að kaupa ódýrara suðusúkkulaði, popp og súkkulaðirúsínur, að ekki sé minnst á Kellogs special, sem yngri sonur minn étur í kassavís.

Það sama gildir um skrif mín, ég skrifa þau yfirleitt af þörf, eða ástæðu, en samt alltaf fyrir lesendur mína.

Hinn ytri heimur er síðan utan míns sviðs, veit ekki annað en að það sé allt í góðu standi á þeirri síðu sem þú vitnar í, nema að það ágæta fólk fattaði ekki að móta strax viðbrögð við hinu eitraða peði Guðlaugar, enda liggur þar diffinn.

Við höfum málstaðinn með okkur, en hinir eiginlega allt annað.

En það er samt gaman að hafa rétt fyrir sér.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 14.4.2019 kl. 23:32

17 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Þú meinar að lofa okkur nýjum Landsspítala fyrir ávinninginn af landsölunni??

Var þá ekki bara málið að þá var fólk almennt eldra, það er unga fólkið í dag, aðeins börn að aldri, eða ófædd, en eldra fólkið í dag, yngra, og síðan fullt af eldra fólki þá sem núna er farið á vit feðra sinna.

En þessu eldra fólki, bæði því sem er eldra í dag, og því sem er farið, sammerkt að það var ekki eins auðtrúa, eða því þótti vænna um landið og hag þess en yngra fólkinu í dag, sem þá var annað hvort ekki fætt, eða ennþá með bleyju.

Ég sæi allavega ekki krakka eins og Þórdísi Kolbrúnu, segja það þá, sem hún segir í dag.

Því miður virðist feigðin magnast með tímanum.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 14.4.2019 kl. 23:37

18 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Vagn minn.

Einu sinni hélt ég að þú væri hundfúll atvinnurekandi sem hefðir verið tekinn í bólinu fyrir mannsal.

Síðan sá ég að það var ekki líklegt, líklegast værir þú strákgrey í vettvangi, líkt og tíundubekkingar hérna á Norðfirði, í Valhöll, það passaði við óregluna í innslögum þínum, en núna er ég alveg sannfærður.

Þú ert ný gerð að reikniriti sem er hönnuð til að búmma umræðu.

Svona eins og nýja módelið í Terminator 2, sem var alveg magnað, svona miðað við Arnold í 1..

En samt ekki eins og það í sömu seríu númer 3, en þú verður kannski uppfærður.

Býð spenntur eftir þeirri týpu, þú verður kannski sexý líka??

Og jafnvel skemmtilegur.

Ef ég þarf samt að velja, þá vel ég stelpulúkkið, það er ef það er í boði.

Þú gætir kannski spurt??

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 14.4.2019 kl. 23:45

19 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Júlíus.

Það gæti alveg hugsanlega verið, en þá á auðurinn alveg nógu peninga til að hanna nýja, og svo nýja.

En þú kýst alltaf það sama.

Sem er ein birtingarmynd alræðis auðsins.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 14.4.2019 kl. 23:46

20 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Símon síðasti.

Ég minnist aðeins á Brynjar því hann var í þessum sama þætti, og tókst víst eitthvað að sármóðga grasrót flokksins.

Svo mikið að það er stutt í að sagt verði; "blessuð sé minning hans".

En ég spáði, því það er augljóst, að ef Flokkurinn vill landa því klúðri sem áfellisdómurinn um Landsdóm var og er, að þá þyrfti hann hæfan mann í það embætti.

Og burt séð frá öllu, það er pólitík og annan ágreining, þá er Brynjar einfaldlega það besta sem er í boði í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, það er í embætti dómsmálaráðherra.

Eini ágalli hans er að hann er of hæfur, gæti því skyggt á Bjarna.

Svo líklegast sitjum við uppi með stelpuna í einhvern tíma í viðbót.

Og það er synd, svo ég vitni í Pet shop boys.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 14.4.2019 kl. 23:52

21 Smámynd: Ómar Geirsson

Púff, og það held ég nú.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 14.4.2019 kl. 23:53

22 Smámynd: Ómar Geirsson

Fyrirgefðu mér rhansen, að ég skyldi púffa áður en ég kláraði andsvör mín, skrifast allt á fljótfærni og löngun til að deila rúmi með betri helmingnum.

Ítreka svar mitt til Péturs, með þeirri viðbót að ég hef aldrei deilt einu eða neinu.

Það er enginn dómbær á sín eigin skrif, hvað á erindi og hvað ekki.

Mínir bestu pistlar eru sjaldan fjöldans, en þeim mun vænna þykir mér jákvæðar athugasemdir sem þeir fá í athugasemdarkerfið, enda trúi ég á góðmennið, en fyrtist heldur ekki við fjölmennið.

En sáttastur er ég við mína eigin sátt.

Ásamt þeirri vitneskju að góður hópur heldur tryggð við blogg mitt þrátt fyrir óregluleg skrif, og mjög sérviskuleg á köflum, fyrir utan textatroð og annað sem ég skil stundum fátt í.

Ef þetta er talið eiga erindi út fyrir minn góðmenna hóp, þá er það bara svo, og þeir sem telja, verða þá að gera eitthvað í því.

Ekkert flóknara en það, og getur ekki verið öðruvísi.

Vísa svo í lokin aftur í stórgóðan pistil Gunnar Heiðarssonar.

Megi sem flestir hann lesa og linkur á hann er hér að ofan í athugasemd 11.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 15.4.2019 kl. 00:06

23 identicon

Sæll Ómar, tók mig til og "sjéraði" þessum skelegga pistli þínum á feisbókarsíðu orkunnar okkar.  Og "gerði þar með eitthvað í því" að dteifs honum áfram, til fleiri.  Tek svo undir góð orð þín um stórgóðan pistiæ Gunnars Heiðarssonar.  Honum hefur einnig, að því mig minnir, verið dteift áfram.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 15.4.2019 kl. 00:29

24 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Tuttugasta og fjórða( Veit ekkert hvað ég á að segja; Guð blessi stuðningsmenn Íslands!

Helga Kristjánsdóttir, 15.4.2019 kl. 02:25

25 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir svarið Ómar. 

Já krakkarnir lofa unga fólkinu "eiginfjárlánum " til hreiðurgerðar svona nokkurskonar nýju 100%. "Því miður virðist feigðin magnast með tímanum." segir þú.

En eitt hefur einnig magnast með tímanum og kannski 100% með sölunni á símanum. Það er að fram hafa komið magnaðir álagabloggarar og pistlahöfundar á við þig, sem hafa fengið hljómgrunn og náð að leggja stein í götu lýðskrumsins.

Með kveðju úr efra.

Magnús Sigurðsson, 15.4.2019 kl. 06:31

26 identicon

Eitt það besta sem ég hef lesið!

Ólafur (IP-tala skráð) 17.4.2019 kl. 00:06

27 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Ólafur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 17.4.2019 kl. 07:09

28 identicon

Frábær alltaf .þakka þer ´´Omar 

rhansen (IP-tala skráð) 18.4.2019 kl. 01:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 229
  • Sl. sólarhring: 677
  • Sl. viku: 5813
  • Frá upphafi: 1399752

Annað

  • Innlit í dag: 199
  • Innlit sl. viku: 4963
  • Gestir í dag: 195
  • IP-tölur í dag: 195

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband