Velkomin í hópinn Ólína.

 

Ég man eftir þér fyrst þegar ég var að móta mínar skoðanir á unglingsárunum, þú varst þá eldrauður kvenskörungur sem trúði á betri heim, og taldir hann þess virði að berjast fyrir.

Svo leið tíminn, ég þroskaðist, og sannfærðist um að mennskan og mannúðin, trúin á jöfnuð og réttlæti, sanngirni og rétt allra til mannsæmandi lífs, væri leiðin, ekki útópíur eins og kommúnisminn, sem tók kerfi fram yfir fólk, og nýtti sömu fjötrana og helsið og yfirstéttir aldanna sem höfðu kúgað og níðst á fólki frá árdaga siðmenningarinnar.

Þá var tónn hins herskáa jafnaðarmanns sem ferskur blær innan um allan róttæklingavaðal sófakommúnismans.

 

Kommúnisminn dó, en ný Útópía reis á legg.

Kennd við Evrópu og Evrópusamvinnu.

 

Hugsuð til að koma í veg fyrir ófrið og lagði vissulega áherslu á félagslegt réttlæti, mannréttindi, velferð og margt annað sem átti að gera heiminn betri en hann hafði verið.

En tók kerfið fram yfir fólk, reglur og regluverk fram yfir fjölbreytileika mannlífs og þjóða.

Og hljótt fór að regluverkið var byggt á hugmyndafræði þeirra Friedmans og Hayek.

Frjálshyggja í sinni tærustu mynd, hið frjálsa flæði auðs og fjármagns.

 

Þú féllst fyrir þessari Útópíu Ólína, og þú studdir hana í ICEsave deilunni.

Taldir þig hafa sama rétt og hinir fornu konungar Germanna, að þú gætir selt hluta þjóðar þinnar í skuldaþrældóm til að gera upp við keisara Rómar.

Gleymdur var hugsjónaeldurinn, gleymdur var eldmóðurinn, gleymd var gagnrýnin á auðvald allra tíma.

Völdin, Útópían, ekkert annað komst að.

 

Kannski þurfti rýtingsstungu í bakið til að þú vaknaðir af þessum myrka svefni.

Að þú sæir aftur ljósið, að þú skyldir að það skiptir ekki máli hver það er sem níðist á venjulegu fólki, og í nafni hvers það er gert, að það er alltaf rangt að níðast á fólki.

Alltaf rangt að arðræðna, gera það að féþúfu auðs og fjármagns.

 

Hvað sem það var, þá skiptir það ekki máli.

Aðalatriðið er að þú ert kominn í hópinn.

Hætt að þjóna auðnum, hætt að þjóna frjálshyggjunni.

Blekkir ekki lengur sjálfa þig, hvað þá að þú reynir að blekkja aðra.

 

Þú ert í góðum hópi.

Við erum hópurinn sem tökum líf fram Útópíur.

Fólk fram yfir fjármagn.

Og við biðjum þess eins að fá að lifa í friði fyrir ásælni þess, í samfélagi þar sem fólkið sjálft ræður hlutskipti sínu og örlögum.

 

Vinnumenn fjármagnsins kalla okkur lýðskrumara, vitleysinga og eitthvað þaðan af verra.

Við vöndumst þessum ónefnum í ICEsave deilunni, og þau bíta ekki í dag.

Hafa í raun aldrei bitið, aðeins hert þann ásetning að standast atlögur þeirra.

Þú munt léttilega venjast þessu, og þarft ekki að réttlæta þig með einhverjum afsökunarorðum.

Skattyrði þeirra er aðeins hrós fyrir okkur sem eigum ekki annan húsbónda en lífið sjálft.

 

Við verjum samfélag okkar.

Við verjum auðlindir þess og sjálfstæði.

Rífumst svo um allt hitt, en sem fólk, ekki þrælar.

 

Það er ekki Útópía.

Það er bara eins og lífið á að vera.

Frjálst, fjölbreytt, margslungið.

Ekkert meira, ekkert minna.

 

Eins ólík og við erum, þá erum við eitt.

Fólkið sem segir Nei við auðinn.

 

Þetta er góður hópur.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


mbl.is Hafnar ásökunum um popúlisma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Hugsuð til að koma í veg fyrir ófrið" ? - í upphafi var kol og stálbandalag viðskiptajörfa sem sammælast um að arðræna almenning án samkeppnin og það varð ESB með andlitslausum skrifstofublókum í Brussel

Nú á að leggja íslenskar auðlindir undir skósveina auðvaldsins sem eru þessir búróKRATAR í Brussel. Ég bara skil ekki hvernig fólk treystir þessu liði, sjáið brara hvernig búið er að vinda alla sjálfsvirðingu úr May Síðustu fréttir segja að hún sé að grenja út frest til að reyna semja um að vera í tollabandalagi en fara úr ESB!

Breska heimsveldið hafði mikil ítök allsstaðar á byggðu bóli svo það er auðveldara fyrir Breta en flesta aðra að gera tvíhliða samninga og jafnvel hefja viðskipti við Rússa sem ESB (og við illu heilli) bannfærðum að sið páfans í Róm

Grímur Kjartansson (IP-tala skráð) 10.4.2019 kl. 18:57

2 Smámynd: Júlíus Valsson

Frábær ritgerð Ómar Geirsson. Ólafur heitinn Oddson íslenskukennari minn í MR hefði verið stoltur af þér, jafnvel Jón Gúm líka. 

Júlíus Valsson, 10.4.2019 kl. 18:58

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Æ, vertu nú ekki að hártoga mig Grímur, ég er ekki að leggja fram doktorsritgerð, aðeins að bjóða gamlan fjandvin velkominn.

Takk Júlíus.

Held samt að Ólafur hafi gert réttmætar athugasemdir við málfar og stíl, en vonandi samt metið viljann sem að baki býr.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.4.2019 kl. 19:25

4 identicon

frábær pistill Ómar.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 10.4.2019 kl. 19:27

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Pétur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.4.2019 kl. 19:32

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Fantagóður pistill Ómar. 

"Vinnumenn fjármagnsins kalla okkur lýðskrumara, vitleysinga og eitthvað þaðan af verra. Við vöndumst þessum ónefnum í ICEsave deilunni, og þau bíta ekki í dag. Hafa í raun aldrei bitið, aðeins hert þann ásetning að standast atlögur þeirra. Þú munt léttilega venjast þessu, og þarft ekki að réttlæta þig með einhverjum afsökunarorðum. Skattyrði þeirra er aðeins hrós fyrir okkur sem eigum ekki annan húsbónda en lífið sjálft."

Þetta kallast kjarnyrt íslenska.

Með kveðju úr efra.

Magnús Sigurðsson, 10.4.2019 kl. 20:23

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Magnús.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.4.2019 kl. 23:09

8 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ég sem ætlaði að taka til.en þetta er svo spennadi og um leið grafalvarlegt fáar konur af minni kynslóð skilja áhugann.
 En takk fyrir þetta er mitt frelsi.

Helga Kristjánsdóttir, 12.4.2019 kl. 17:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 592
  • Sl. sólarhring: 641
  • Sl. viku: 6323
  • Frá upphafi: 1399491

Annað

  • Innlit í dag: 507
  • Innlit sl. viku: 5362
  • Gestir í dag: 463
  • IP-tölur í dag: 457

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband