Regnhlífasamtök virka ekki.

 

En hafa virkað í VR vegna þess að það má deila um hvort VR hafi í mörg ár rekið einhverja verkalýðspólitík.

Og í samfelldum uppgangi eru raunverulega allir ánægðir.

Sérstaklega vegna þess að það er tiltölulega auðvelt að koma sér uppúr láglaunastörfum í betur borguð störf.

VR hefur því verið svona kjaftaklúbbur um samskiptareglur á vinnustað, og jú gætt réttinda félagsmanna.

Annað ekki.

 

Núna er bara kreppa.

Djúp kreppa.

 

Hjá stórum hluta launafólks duga ekki laun fyrir brýnustu lífsnauðsynjum sem er fæði, klæði og húsaskjól.

Þar sem kostnaður við húsnæði er að sliga mjög marga.

 

Þá springa svona regnhlífasamtök.

Annað hvort fer láglaunafólkið, því eitthvað verða menn að gera ef þeir geta ekki lifað mannsæmandi lífi.

Eða hálaunafólkið, því ef það er eitthvað sem það getur ekki hugsað sér, þá er það að vera í félagi sem rekur verkalýðspóltík. 

Enda lýtur það ekki á sig sem verkalýð, heldur menntalýð.

 

VR er í dag stjórnað af fólki sem er í verkalýðsbaráttu.

Viðskiptafræðingarnir fara.

Ofsalega er VR heppið.

 

Laus við dragbítana.

Laus við hugmyndafræði frjálshyggjunnar.

 

Farið hefur fé betra.

VR er komið til að vera.

Kveðja að austan.


mbl.is Hætta í VR og ganga í KVH
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn H. Gunnarsson

Viðkomandi sem eru að ganga úr VR óttast að fara í verkfall. Hræddir um að fá ekki launin sín. Nú skilst mér að verkfallsjóður VR sé mjög öflugur og gæti það verið að þetta yrðu smá jákvæð áhrif á VR. Það væri þá meir til skipta innan félagsins ef kæmi til verkfalla og VR-félagar hefðu meir úr að spila, ef kæmi til verkfalla. Verkfallsjóðurinn entist lengur.

Þorsteinn H. Gunnarsson, 23.1.2019 kl. 10:25

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Þorsteinn.

Þegar ég sagði að farið hefur fé betra, þá átti ég við að þetta fólk er eðli málsins vegna dragbítur á allri félagastarfsemi, því egóisminn, ekki samkenndin drífur það áfram.

En það er gott að það skilur þó eitthvað jákvætt eftir sig.

Hins vegar vona ég að ekki komi til verkfalla, að það myndist einhver sátt hjá atvinnurekendum og stjórnvöldum að hlusta á sanngjarnar kröfur verkalýðshreyfingarinnar.

Og ef tungutakið breytist, og raunverulegur vilji er sýndur, líkt og það virðist með tillögunum í húsnæðismálum, að þá verður samið. 

Því verkalýðshreyfingin vill byggja upp, ekki rústa.

Ég held að sporin frá Evrópu hræði, og fólk vilji ekki sömu gliðnun hér og er greinilega komin í ljós þar. 

Því þrátt fyrir allt er hið hefðbundna lýðræðisþjóðfélag með stöðugleika sinn og frið, það besta sem við höfum til að byggja upp velmegun þjóðanna.

En þá gengur ekki að skilja stóran hluta eftir úti á gaddinum.

Þetta fatta held ég allir nema gamaldags íhaldsmenn sem horfa í spegil og telja sig aðeins sjá steinrunnin tröll. 

En það er misskilningur, þeim vantar aðeins ný gleraugu.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 23.1.2019 kl. 11:38

3 identicon

Innan við 1% með undir 300þ í laun árið 2017 samkvæmt Hagstofunni 

og miðað við þá stálfáka sem eru hér á götum Reykjavíkur þá hefur landinn það bara almennt helvíti gott með nokkrum utanlandsferðum árlega plús annað bruðl

svo hvers vegna ætti fólk að fara í verfall - það tapa allir á því og að lokum verður að semja

Grímur (IP-tala skráð) 23.1.2019 kl. 14:21

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Viðskipta- og hagfræðingar eru sagðir óánægðir með baráttu stéttarfélaga fyrir því að hægt sé að lifa á lægstu launum.

Ætli það standi skrifað í kennslubækurnar sem þeir lærðu að fátækt sé æskileg og góð fyrir viðskipti og efnahag?

Eða er þetta kannski fremur birtingarmynd skorts á siðferði í viðkomandi fagstéttum?

Guðmundur Ásgeirsson, 23.1.2019 kl. 18:15

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Góðar spurningar Guðmundur, virkilega góðar spurningar.

Ég persónulega tel að þetta sé skortur á sið.

Síðan vitum við að þjöppun auðs á æ færri hendur er bein afleiðing af hugmyndafræði andskotans sem er sú hagtrú, trú því hún á ekkert skylt við hagfræði, sem er kennd í viðskiptaháskólum heimsins.

Það er meinstrím kennslan en vissulega er margir góðar hagfræðingar sem tala gegn þessum andskota, en í heimi kostunar fara raddir þeirra hvorki hátt eða vítt um hinn akademíska heim viðskiptaskólanna.

En ef þetta fólk á börn, þá mun það einn daginn uppgötva að siður er forsenda framtíðar þeirra, og þá hættir það að binda trúss sitt við þann í neðra.

Siður segir að þú eigir að gæta bróður þíns, og þú átt ekki að gera honum það, sem þú vilt ekki að þér sjálfum sé gert.

Og siður er forsenda siðmenningarinnar, og án siðs mun mannkynið útrýma sjálfu sér.

Svo ég er bara bjartsýnn á að þetta breytist innan ekki svo skamms.

Það eiga jú flestir börn, eða allavega hund eða kött, eða bæði.

Þannig að þetta reddast.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 23.1.2019 kl. 20:35

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Grímur.

Það er nú stóra spurningin, af hverju ætti fólk að fara í verkfall??

Ætli þeir sem ætli í verkfall svari því bara ekki, en ekki ég eða þú.

Hins vegar ef vandinn er svona pínulítill, þá ætti ekki að koma til verkfalla.

Því vitiborið fólk hlýtur þá að gangast í að leysa hann, og ekki ætti það að kosta svo mikið.

Það er allavega skrýtin mótsögn að fullyrða að það sé ókleyft að leysa pínulítinn vanda, því ef hann er leystur, að þá fari allt á hliðina.

Svo skrýtin að fólk þarf að vera virkilega auðtrúa til að bekenna hana.

Svo ef rétt er, þá verða ekki verkföll.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 23.1.2019 kl. 20:41

7 Smámynd: Halldór Jónsson

Aldrei getið þið kommatittirnir skilð það að það er ekki hægt að gera neitt úr engu. Það verkefni er óleysanlegt að lyfta þeim lægstlaunuðu.

BHM og BSRB eru alveg eftir að koma með menntun til launa þegar búið er að gea allt fyrir alla í VR og Eflingu. Þá leysir verðbólgan dæmið fyrir ykkur sem gerir það að verkum að endarnir eru verri fyrir öreigana í lok þess tíma sem það tók að vinna upp tapið af verkfallinu.

Hálfrar aldar reynsla frá því að Gvendur Jaki heimtaði hundraðþúsund króna lágmarkslaun og byggja mislæg gatnamót á Kringlumýrarbraut.Alveg óþarfi að tala um frjálshyggjuna í því sambandi.

Hún er ekki vandamálið heldur heimska ykkar kommatittanna.

"Því verkalýðshreyfingin vill byggja upp, ekki rústa." Hámark heimskunnar er þessi setning ef reynslan er skoðuð.

Halldór Jónsson, 24.1.2019 kl. 02:40

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Halldór.

Núna er ég búinn að laga mér gott kaffi, og áður en amstur dagsins tekur við, þá ætla ég að svara þér eins mín er von og vísa.

Ég var áðan að grufla aðeins í Sjálfstæðu fólki til að leita þar að tilvitnun í sambandi við spjall mitt við Magnús Sigurðsson sem kom í kjölfar stórgóðs og fróðlegs pistils hans um Sænautasel og umhverfi, og þar kom ái minn og frændi, Bjartur í Sumarhúsum til tals.  Ég veit ekki hvort þú hafir lesið Sjálfstætt fólk Halldór, en þeir sem vilja skilja okkur Hriflungana, ættu að gera það.  Það er nefnilega fyndið að sú bók fór ákaflega í taugarnar á Jónasi, líklegast sá hann of mikið af sjálfum sér í þeirri bók, sjálfur uppá kant við allt og alla í sérvisku sinni.

En hvað kemur þetta við því sem ég ætla að segja??, eiginlega ekki neitt, var aðeins að útskýra tilurð hins góða kaffis sem ég er að drekka.  En gott kaffi gerir mann friðsaman, ekki að ég er það yfirleitt, nema þegar menn byrja á að skamma mig, og svo að spjalla, þá þarf að tækla það.  Síðan fylgir það áreitis og áróðursbloggi, að það er oft um bölvaðan ófrið, og þá þjónar það lítt tilganginum að vera friðsamur í athugasemdarkerfinu.

En ekkert slíkt er í gangi núna, ég er bara að bíða eftir umræðunni um orkupakkanum, og held því lífi í blogginu endrum og eins.  Og jú, ég er líka um víðan völl til að athuga langlundargeð þitt í lestri.

Víkjum samt að andsvari mínu. 

Þér er tíðrætt Halldór um kommatitti, og þá fór ég að velta því fyrir mér hvort þú hafir einhvern tímann hugsað út í hvað kommúnismi er.  Ég vona að þú gangir ekki um með þá ranghugmynd að kenna hann eitthvað við hugmyndir Marx og Engels, mér best vitanlega voru þeir hálfmislukkaðir félagsvísindamenn, sem höfðu ekkert vit á hagfræði, og áttu örugglega í einhvers konar platónsku sambandi, ef það hefur þá ekki verið nánara.

Kommúnismi er það þjóðfélagskerfi sem bolsévikar komu á illu heilli í Rússlandi eftir byltinguna sem þeir stálu vopnaðir gulli frá Þjóðverjum.

Ef allt kjaftæði sem þeir skrumskældu frá Marx er tekið út úr dæminu, þá má draga fram nokkur megineinkenni þessa hryllings, og ég ætla að telja upp sum þeirra, svona svo við áttum okkur á hverjar eru samsvaranirnar í dag.

Kommúnismi er ofurskattlagning.  Áður en samyrkjubúum var komið á, þá var megnið af framleiðslu bænda tekið af þeim til að ríkið gæti dreift þeim að nýju, á sinn hátt.  Svipað eins og Jón Gunnarson er að gera í dag með baráttu sinni fyrir veggjöldum. 

Kommúnismi er örfá stórfyrirtæki sem ráku alla framleiðsluna.  Svipað eins og var í evrópskum landbúnaði á lénstímanum, og svipuð þróun og á sér stað í globalismanum í dag.  Þar nota stórfyrirtækin tvennskonar meðul til að drepa af sér alla samkeppni einstaklingsins og fyrirtækja hans.  Keyptir stjórnmálamenn ofurreglusetja allan andskotann til að skapa markaðshindranir fyrir smærri fyrirtæki, allt miðast að samþjöppun þar sem nákvæmlega sömu röksemdirnar eru notaðar og í Sovétinu, stóran einingar lækka kostnað, eru hagkvæmastar.  Hitt meðalið er að eftir að allur andskotinn er regluvæddur með tilheyrandi kostnaði, þá komast þau upp með þau föðurlandssvik að flytja arðvænleg fyrirtæki úr landi í þrælabúðir fátækra landa, þar sem engar reglur íþyngja og launakostnaður miðast við að þrællinn skrimti, og flytja svo til baka vörur á verði sem heiðarlegt fólk getur ekki keppt við.  Á Vesturlöndum í dag er aðeins einn stjórnmálamaður sem berst gegn þessum kommúnisma, og það er Donald Trump.

Kommúnismi er fámenn elíta sem ræður bæði stjórnkerfi og allri framleiðslu.  Almenningur er valdlaus.  Ofurseldur regluveldi og stórfyrirtækjum.

Kommúnismi er misskipting gæða þar sem fjölmennur verkalýður heldur uppi hóglífi elítu og þjóna hennar. 

Kommúnismi er ávísun á örbirgð því þar sem Örfáir eiga allt og ráða öllu, þar er samkeppni drepin í dróma, þar er drifkraftur einstaklingsins í fjötrum.

Kommúnismi er eins og Orwell lýsti á svo napran hátt í Animal farm, hugmyndafræði sem telur fólki í trú um að það sé ekkert til skipanna, þegar elítan er búinn að taka sinn hlut.  Sem reyndar er kannski rétt, það er í þjóðfélagskerfi kommúnistanna, því efnahagskerfi stórfyrirtækjanna lágmarkar framleiðslu, í stað þess að hámarka hana.

Svo spurningin er Halldór, hverjir eru kommarnir í dag.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 24.1.2019 kl. 09:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 7
  • Sl. sólarhring: 619
  • Sl. viku: 5591
  • Frá upphafi: 1399530

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 4770
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband