Hvenær var verkalýðshreyfingin lögð niður??

 

Hlýtur maður að spyrja þegar maður hlustar á hið unga róttæka fólk sem leiðir hana í dag.

Öflugra en það að hægt sé að tala um endurfæðingu, miklu frekar endurreisn.

 

Og til að hægt sé að endurreisa, þá þarf fyrst að leggja niður.

Því spyr ég aftur, hvenær var verkalýðshreyfingin lögð niður hérna á árum áður??

Hvenær varð hún að skúffu hjá einhverjum kontórista í vinnu hjá Samtökum Atvinnulífsins??

 

Ég veit allavega að hún stóð ekki með þjóðinni eftir Hrunið.

Hvort sem það var að verjast fjárkúgun breta eða Hollendinga, vernda heimilin fyrir hrægömmum, eða berjast gegn hinum stökkbreyttu lánum.

Ef hún slapp úr skúffunni, þá heyrðist aðeins ámátlegt mjálm til stuðnings verðtryggingunni, eða að þjóðin ætti að ganga sömu svipugöng og grískum eða írskum almenningi var boðið uppá.

En til þess þurfti fyrst að ganga í Evrópusambandið, svo öruggt væri að þrælapískarar fjármagnsins gætu blóðmjólkað þjóðina, kreist hverja krónu úr vinnandi fólki.

 

Svo hún var bara best geymt í skúffunni.

 

Samt man ég að þetta var ekki alltaf svona.

En ég man ekki bara hvenær þetta breyttist.

Hvenær hún lagði sjálfa sig niður.

 

En í dag sér maður alvöru tilraunir stjórnvalda og atvinnurekenda til að koma til móts við sanngjarnar kröfur samtaka verkafólks.

Slík eru umskiptin á aðeins örfáum mánuðum.

 

Og ef það heldur áfram sem horfir, þá gæti hugsanlega orðið smá sátt í landinu.

Að fólk virkilega tryði því að vilji væri til breytinga, að færa auð frá fjármagni til fólks.

 

Vissulega er langt í land.

Verðtryggingin þarf að fara, og það þarf að takast á við braskið sem þrýstir kostnaði uppúr öllu valdi á byggingamarkaðnum.

Þar dugar sjálfsagt fátt annað en að skipta fólki út í Reykjavík, hagsmunatengsl við braskara, og fylgispekt við hugmyndafræði þeirra gegnsýrir núverandi meirihluta, og hefur gert í fjölda fjölda ára.

Eða muniði ekki eftir frjálshyggjumanninum sem hóf lóðauppboðið, illu heili fyrir almenning, en Friedman brosti víst hringinn í gröfinni.  Eða var hann kannski ekki fallin þá frá kallinn??

 

Það er nefnilega þannig að um sumt er ekki hægt að semja.

Sumt snýr að fólki sjálfu, að falla ekki fyrir fagurgala og froðu, þeirra sem segja eitt, en framkvæma annað.

Að fólk beri ábyrgð á atkvæði sínu.

 

Ef fólk vill lifa áfram sem þjóð í þessu landi, þá þarf þjóðin að endurnýja sig.

Ungt fólk á vergangi eða í skuldkreppu leigumarkaðar eða ofurgreiðslubyrði verðtryggingar, það mun að lokum greiða atkvæði með fótunum.

Þess vegna kjósum við ekki braskara, þess vegna kjósum við ekki fólk sem styður arðrán verðtryggingarinnar.

Svo einfalt er það.

 

En að breytast úr mús í mann er ekki sjálfgefið, sérstaklega þegar öll áróðurstæki auðs og fjármagns reyna að sannfæra fólk um að það sé náttúrulegt ástand að lifa í skuldaörbirgð lungað af ævi sinni.

Að heilsa auðs og fjármagns sé heilsa þjóðarinnar.

 

En það er ótrúlegt hvað góð hvatning getur gert.

Sérstaklega þegar eldmóður hennar á rætur í ríkri réttlætiskennd.

 

Þess vegna ber að fagna endurreisn verkalýðshreyfingarinnar.

Það er allavega eitthvað að gerast sem hefur ekki gerst í mannaminnum.

 

Megi skúffan hvíla í friði.

Kveðja að austan.


mbl.is „Samræmist okkar kröfum mjög vel“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 Vonum það besta, en nógu vel þekki ég til byggingarbransans, að ég veit að það var einungis lapþunn og óbrúkleg steypa sem flæddi um Kastljóss borðið í kvöld.  Forsætisráðherra malaði þar mest um rafræna stjórnsýslu og var helst á henni að skilja að hún leysti ein og sér öll húsnæðisvandamálin. En guð láti gott á vita þó Kastljósið hafi verið jafn lapþunnt og jafnan. 

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 22.1.2019 kl. 22:01

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Pétur Örn.

Ég sé að þú treystir þér ekki til að geta þér til um hvenær hreyfingin var lögð niður, manst það sjálf sagt ekki frekar en ég.

En froðuna hefur maður heyrt áður, en núna er komið fólk sem tekur ekki mark á henni. 

Og það hótar.

Uppreisn fjöldans.

Ég veit ekki um ístaðið, en það er allavega nýr tónn sleginn.

Og glamrið í tönnum Kötu heyrist jafnvel alla leið hingað austur, líkt og Þór hafi tekið sér reiðsprett um þrumuskýin.

Síðan megum við ekki gleyma að öll vegferð hefst með fyrirheitum um fyrsta skrefið.

Það glittir í þau fyrirheit í dag.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.1.2019 kl. 22:07

3 identicon

Vissulega hefst þúsund mílna ferðalag með fyrsta skrefinu.  En hvernig til tekst með það ferðalag ræðst af mörgum þáttum.  Það veit ég af langri reynslu að byggingarkostnaður mun lækka hverfandi við lækkun einhverra gjalda, nýja byggimgarreglugerðin er meinið og hún breytist með hraða snigilsins og sem beðið væri eftir Godot og hefur hingað til þjónað uppreistum fjármálastofnunum og stórberktökum og þeir ráða meira um hana en leikmenn halda.

Vona að Ragnar Þór og Skaga Villi gleymi ekki á meðan biðinni eftir Godot vari, kröfunni um hækkun persónuafsláttar til þeirra hinna minnstu bræðra og systra.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 22.1.2019 kl. 22:26

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Þeir gleyma engu Pétur örn.

En líklegast er ekki nóg að losa sig við R-listann og verðtrygginguna, heldur þarf líka að losna við EES reglugerðirnar.

Svo upphaf og endir alls er fólkið og atkvæði þess.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.1.2019 kl. 22:36

5 identicon

Þar hittirðu naglann lóðbeint á höfuðið:

Þeir þurfa að losa okkur undan oki EES reglugerðarfargansins og verðtrygginguna.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 22.1.2019 kl. 22:43

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Já og frjálshyggjunnar sem hóf lóðauppboðið og alla þá vegferð brasksins sem fylgdi í kjölfarið.

Veit ekki betur en að hún sé ennþá við völd.

Og þessir þeir eru við kjósendur, ekki hin endurreista forysta, þrátt fyrir allt er þetta bara fólk, ekki guðir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.1.2019 kl. 22:48

7 identicon

Einnig rétt Ómar.  En ég óttast þegar Ragna Þór talar um þennan "húsnæðispakka" sem "risastórt skref til gerðar kjarasamninga."  Þar er lofað einhverju sem mun taka miklu lengri tíma að leysa í "praxís" sem svo klár maður og Ragnar Þór á að vita.  Því hefði ég orðað þetta í hans sporum, að um að þetta væri gott skref sem liðkaði vissulega fyrir kjarasamningum, en aðeins eitt af fleirum óleystum.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 22.1.2019 kl. 22:58

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Nei, nei þetta er taktík Pétur, og þegar Katrín tekur undir, þá mun Ragnar kurteislega benda henni á að það byggir enginn hús úr froðu.

Hann hefur öll spilin á hendi, en Katrín uppí erminni, svona átta ása eða svo.  Og óttast mjög að uppum sig komist, að það sé bæði vitlaust gefið og þar að auki svindlað, því ef Ragnar er með fjóra ása á hendi, þá hljóta ásar Katrínar uppí erminni að vera feik,.

Vanmetum ekki Ragnar, hann hefur staðið sig alveg ótrúlega vel, frá því að vera óreyndur peyi yfir í að vera virkilega öflugur bardagamaður sem bæði sendir frá sér skeyti, en ekki hvað síst, eins og Skarphéðinn forðum, grípur skeyti fjandmanna sinna og sendir þau jafnhendis til baka.

Og ég get svarið, að þó ég sé með húfuna á hausnum hér innandyra, enda orðinn gamall maður, að þá heyri ég samt glamrið í tönnum Katrínar, og ég held að það sé ekki kuldahrollur sem framkallar það glamur.

En nóg um það, þarf víst að fara að sofa.

Ég sá samt að þú hafðir rekist á hörkupistil Vilhelms, og lækað hann.

Það mættu fleiri hafa vígmóð hans.

Bið að heilsa suður.

Kveðja að austan

Ómar Geirsson, 22.1.2019 kl. 23:09

9 identicon

Sæll Ómar: sem og aðrir gestir þínir, sem endranær !

Líklegast - að réttmæt tortryggni ykkar Péturs Arnar, eigi eftir að stigmagnast enn frekar, þegar kemur fram á útmánuðina, Ómar.

Hingað til: hefur ekki VERIÐ ORÐ að marka, allt það undanrennu þvaður, sem komið hefur frá hinni geiflóttu og leiðinlegu Katrínu Jakobsdóttur, né öðrum vina hennar:: yfirleitt.

Fyrr - skyldi hitastig yfirborðs hnattarins ná - (mínus) 195°, ef ekki meir, áður en við færum að leggja við hlustir við það, sem frá þing- og stjórnarráðs liðinu kemur, Ómar síðuhafi, og Pétur Örn.

Nema: mögulega hafa þau Bjarni Benediktsson og nótar hans orðið skelfd við tíðindin sunnan frá Síkiley í dag, en Ítalska Lögreglan ku hafa gert skurk, í nokkrum bækistöðvum Mafíunnar, þar syðra.

Gæti verið - að Bjarni og vinir hans, kunni að óttast þann mögu leika hérlendis:: að Haraldur Ríkislögreglustjóri Johannessen legði til atlögu við Garðabæjar grenin (höfuð-aðsetur Engeyinganna) frændgarð Bjarna bófans sjálfs / eða hvað, piltar ???

Því: einhverra skýringa hlýtur að vera að finna, á sinnaskiptum Bjarna - Katrínar og Sigurðar Inga í húsnæðismála vefjunum, skyldum við ætla.

Með beztu kveðjum austur í fjörðu - sem víðar um héröð, af Suðurlandi /// 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 22.1.2019 kl. 23:26

10 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Ómar og aðrir hér.

Það er auðvelt að tala eins og Kata auðvelt að stofna nefndir og auðvelt fyrir þær nefndir að komast að augljósri niðurstöðu. Hitt verður erfiðara, að framkvæma.

Þessar tillögur eru óframkvæmanlegar og kemur þar einkum tvennt til, fjármálamenn og EES. Að ætla að ráðast að fjármálamönnum þarf hugaðra fólk en það sem nú stjórnar landinu. Því eru þessar tillögur í raun fallnar, áður en alvöru umræða er hafin. Reglugerðir í byggingariðnaði eru flestar stimplaðar í Brussel og ekki komist hjá þeim nema með uppsögn EES. Kjarkur til þess er fjarri því til staðar meðal stjórnarflokkanna.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 23.1.2019 kl. 06:44

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Já, ég heyri glamur Óskar, má vera að það sé í fleirum en Katrínu.

En áður en annað kemur í ljós, skulum treysta á að hið unga fólk sem stjórnar nú verkalýðshreyfingunni nái að fylgja málum sínum eftir.

Vissulega er togast á við ramman, en vilja menn frekar að allt springi í loft upp??

Held ekki.

En upphaf alls og endir er atkvæði okkar.

Og menn ættu að vera búnir að fá nóg af froðunni.

Kveðja að austan,.

Ómar Geirsson, 23.1.2019 kl. 06:46

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Gunnar.

Auðvitað er ég sammála þér en þó tel ég þetta merki um vilja til að gera eitthvað gott þó raunveruleikinn muni alltaf sigra þennan góða vilja.

Hár kostnaður er kerfislægur, bæði út af regluveldinu sem skipulega hækkar kostnað um allt samfélagið, sem og að hugmyndafræði andskotans braskaravæðir allt.

Það er allt keyrt upp í stað þess að ná niður.  Enda afleiðingin sú, ekki bara hér, heldur um allan hinn vestræna heim, að æ fleiri hafa hreinlega ekki efni á að taka þátt í nútímaþjóðfélagi, verða útundan, og þessir æ fleiri er fólk í fullri vinnu.  Bætast við þá hópa sem eru þegar útundan vegna aldurs, sjúkdóma eða erfiðra félagslegra stöðu.

Hér er elítan svo veruleikafirrt að hún talar um að nýta nútímaeftirlitstækni til að ofurskattleggja bíleigendur og nýtur náttúrulega stuðnings hinna velstæðu sem munar ekkert um viðbótarútgjöldin, en útí Frakklandi er fátækt fólk farið að skemma þessi eftirlitstæki.

Þess vegna tala ég um að ef ekkert verði gert, þá muni allt springa.  Og þess vegna mun eitthvað verða gert.

En við vitum báðir að dugar ekki til.

Ekki frekar en að fjölga lensdælum á báti með míglekan skrokk.  Því hann sekkur ef hann er ekki þéttur.

Heimur elítunnar er að sökkva.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 23.1.2019 kl. 08:17

13 identicon

Ég les nú athugasemdir þínar Ómar og sé, að þú deilir áhyggjum mínum.  Og það er ástæða til.

Ég ítreka, Ragnar og Skaga Villi ættu að leggja höfuðáherslu á að knýja fram Eflingar kröfu þá sem Stefán Ólafsson hefur skrifað mjög um, hækkun persónuafsláttar og þar með skattleysi tekna upp að 300.000 kr., framfærsluviðmiði.  Í  stað þess er Ragnar nú einum of ginkeyptur fyrir byggingarmálum, sen vissulega eru nauðsynleg, en eru þeim annmörkum háð sem bæði þú og aðrir þeir sem hér hafa tjáð sig, gera sér fyllilega grein fyrir, hraða snigilsins og reglugerðarfári og braski.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 23.1.2019 kl. 09:02

14 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Pétur.

Ég held að Ragnar eigi eftir að berjast fyrir þessu og mörgu öðru.

En húsnæðismálin eru mál málanna hjá ungu fólki í dag, og það þarf að losa um tregðuna sem er í kerfinu.  Og að menn átti sig á að verktakar á beit við þéttingu byggðar er í núverandi fjármögnunarkerfi aðeins lausn fyrir velmenntað velborgað fólk.

Við megum ekki falla í þá gryfju Pétur, að fyrst að ekki er styrkur til að breyta kerfinu, að breyta þjóðfélagsskipan úr auðræði aftur í lýðræði, að þá sé allt hálf glatað sem reynt er að gera.

Fjarri því.

Og þó ég hafi ekki nennt að kynna mér það, því eins og þú veist þá er ég latur með afbrigðum og þetta blogg er aðeins hobbý, á meðan hlaðið er í kannónur gegn orkuauðlindaþjófum, að þá held ég að, og vísa þá í orð fólks sem hefur nennt að kynna sér það, að réttarbótin gagnvart fólki á leigumarkaði, sé eitthvað sem er einnar Rómargöngu virði.

Sérstaklega vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn er með í leiknum.  En eins og þú veist að þá gengur slík réttarbót þvert á hugmyndafræði þess ágæta flokks.  Er reyndar argasti kommúnismi í augum margra fépúka sem styðja þann flokk.

En það verður ekki neitt úr neinu ef unga fólkið sem er þó að reyna, fær engan stuðning við viðleitni sína.

Það er ekki þannig að við séum að gera eitthvað.

Við erum algjörlega gagnslausir á meðan ekkert stríð er í gangi.

En það geta ekki allir verið gamlir skæruliðar, til dæmis unga fólkið.

En það er gaman að sjá Stefán Ólafsson endurfæðast.

Ég býð bara eftir hans Skáldatíma.

Hann er ekki heill fyrr en hann gerir upp við regluveldið mikla.

Þá býð ég hann velkominn í baráttunni fyrir lífi og framtíð barna okkar.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 23.1.2019 kl. 09:24

15 Smámynd: Ómar Geirsson

P.S.

Svo hélt ég að þú hefðir fattað að í þessum pistli er ég að gera fátt annað en að hæðast að Gylfa forseta og góða fólkinu í Reykjavík.

En auðvitað á maður að taka svona háalvarleg mál alvarlega.

Reyni mitt besta, en mér þótti ekki verra að fá orðkyngi síðasta stríðsmanns þjóðarinnar af mongólsku kyni hér inná athugasemdarkerfið.

Þetta er svona Pétur, við verðum að passa að skotgrafirnar falli ekki saman og að smyrja framhlaðninginn reglulega, á svikalogn er ill treystandi.

Kveðja að austan.

 

 

 

Ómar Geirsson, 23.1.2019 kl. 09:31

16 identicon

Sæll Ómar

var það ekki Þór Saari, sá góði maður, sem taldi að forystan í hreyfingunni væri undirdeild í stjórnmálaflokki. Held að hann hafi greint þetta rétt, þar telja menn að lausn á öllu milli himins og jarðar sé að finna í Brussel og ganga í ESB. Held að síðasti alvöru baráttumaðurinn hafi sennilega verið Gvendur Jaki, kom til dyra eins og hann var klæddur, slíka menn sérðu ekki lengur í dag, svolítið eins og Geirfuglinn, horfin tegund. 

Böðvar (IP-tala skráð) 23.1.2019 kl. 12:16

17 identicon

Já Ómar minn,

við smyrjum framhlaðningana reglulega.

Og það er eins gott, því baráttan gegn orkuauðlindaþjófunum er fram undan.

Það verður mesta orustan síðan Icesave baráttan var, nú verður það Icelink, baráttan gegn því að land og þjóð verði endanlega rænd auðlindum lands okkar.  Það skal aldrei verða!

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 23.1.2019 kl. 12:41

18 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Böðvar.

Ég held að þetta sé stór skýring á meintu andláti hreyfingarinnar; ".. að lausn á öllu milli himins og jarðar sé að finna í Brussel og ganga í ESB.".

Síðan brást hún algjörlega eftir Hrun, það voru grasrótarsamtök eins og Hagsmunasamtök heimilanna sem tóku slaginn fyrir heimilin, en Gylfi forseti var ekki einu sinni á hliðarlínunni.

En allavega, endurreisn hennar er hafin.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 23.1.2019 kl. 12:41

19 Smámynd: Ómar Geirsson

Nei Pétur, það skal aldrei verða.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 23.1.2019 kl. 12:42

20 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ómar, varðandi fögnuð verkalýðsforkólfa þá deili skoðunum með Pétri Erni og efast um að verkalýðsforkólfarnir geri sér fulla grein fyrir hverskonar moðreykur þessar húsnæðistillögur eru. Ekki það að ég hafi nennt að sökkva mér ofaní þær, en þegar tillögugerðarmenn gera að því skóna að byggt hafi verið "vitlaust" þ.e. litlar íbúðir á dýrum stöðum og stórar íbúðir fyrir fólk sem ekki hafi greiðslugetu þá er varla hægt að eyða tíma í að lesa restina af þvælunni.

Málið er eins og Pétur Örn bendir á að regluverkið kemur frá andskotanum og er ekki fyrir djöfulinn við að eiga. Og rétt eins og þú bendir á þá er ekki hægt endurreisa neitt sem ekki hefur verið lagt niður. Þetta kerfi sem byggt er eftir samkvæmt Mannvirkjastofnun ríkisins og á að vera fyrir almenning er þannig að ekki dugir að "berja í brestina" eins og sjávarútvegsráðherrann komst svo smekklega að orði varðandi kvótakerfið og brottkastið. Þetta bygginga bákn verður hreinlega fá að "bresta".

Magnús Sigurðsson, 23.1.2019 kl. 14:23

21 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Svo ég ítreka fyrri sjónarmið mín, að þá tel ég að fátt breytist fyrr en hugmyndafræðin sem mótar bæði stjórnkerfið og efnahagskerfið, breytist.

En margt breytist til batnaðar ef við losnum við svikamyllu verðtryggingarinnar.

Og ekki myndi það skaða að evrópska reglugerðarbáknið félli undan sínum eigin þunga,.

En þó hárið á okkur félögunum sé farið að grána, þá verðum við samt að virða viðleitnina til að bæta úr slæmu ástandi.

Mest um vert tel ég að loksins er breið sátt um að eitthvað þurfi að gera.  Að það sé eiginlega lífsnauðsynlegt fyrir þjóðina.  Vissulega er margt loðið, en ef þrýst er á efndir, þá koma þær, svona í einhverri eða annarri mynd.

Réttarbætur leigjanda eru einnig mikilvægar, og það eitt og sér réttlætir sjálfshrósið.  Því ef það er gjaldið, þá má þetta fólk mín vegna halda blaðamannafund annan hvern dag, og segja frá því hvað það er gott og vill vel.

Og í þriðja lagi, fyrir utan smáatriði hér og smáatriði þar, þá er loksins viðurkennt að það þurfi eitthvað að gera fyrir tekjulægri hópa svo þeir eigi líka möguleika á að eignast húsnæði.

Leggjum þetta saman og gefum þessu fólki breik.

Höldum svo áfram að skammast í því á morgun.

Því annars náttúrulega gerist ekkert.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 23.1.2019 kl. 20:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 202
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 168
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband