28.9.2018 | 12:09
Hið ósagða í sýknu Hæstaréttar.
Er að í réttarríki eigi saklausir ekki að sæta röngum ákærum, tilbúnum, fölsuðum.
Að í réttarríki eigi menn ekki að sæta pyntingum þar til þeir játa á sig upplognar sakir.
Að í réttarríki eigi kerfið sem gerði sig sekt um framgreind brot, ekki að komast upp með að hylma yfir, eða hindra á nokkurn hátt að hið sanna komi í ljós.
Og í réttarríki eiga dómsstólar að játa þegar þeim hefur orðið á.
Þegar þetta er ósagt, þá er sýkna á þeirri forsendu að "að ekki hefði tekist að sanna sekt þeirra svo hafið væri yfir skynsamlegan vafa" einfaldlega röng.
Hæstiréttur átti að viðurkenna að málatilbúnaðurinn var rangur frá upphafi, grunur rannsakenda um meinta sekt sakborningana studdist hvorki við áþreifanlegar sannanir og var þar að auki algjörlega á skjön við þó þekkta atburðarrás. Og þeim varð þá á að hanna atburðarás og með ómanneskjulegum þvingunum þá voru hinir meintu sakborningar neyddir til að játa á sig glæpi sem þeir höfðu aldrei framið.
Skáldsögur og játningar fengnar með harðræði geta aldrei verið dómtækar í réttarríki, og hafi verið dæmt, þá á að ógilda þann dóm og veita sakborningum fulla æru.
Annað er ekki forsvaranlegt, hvað þá að sýkna með þeim orðum að sekt sé hafin yfir skynsamlegan vafa. Því það var engin sekt í málinu, en orðalagið gefur til kynna að hún hafi hugsanlega getað verið. Þar með loða ásakanirnar ennþá við hina sýknuðu sakborninga, og þar með réttlætir kerfið málatilbúnað sinn. Heldur andlitinu eins og sagt er.
Að átta sig á þessu er grundvallaratriði.
Þetta er grundvallarforsenda réttarríkisins, og ef þetta er ekki viðurkennt, þá veit enginn hver getur verið næstur í þeim sporum að sæta saklaus ákæru, verið þvingaður til játningar, og dæmdur á grunni hennar.
Réttarríki funkerar ekki ef kerfið er ófært að takast á við mistök sín og afglöp.
Núverandi endurupptaka og sýkna er ekki slíkt uppgjör, heldur augljóslega nauðvörn þess eftir að hafa dregið lappirnar í 40 ár.
Það eru klókindi hjá ríkissaksóknara að krefjast sýknu á þeim forsendum að sekt sé ekki nægilega sönnuð. Þetta kallast að sætta sig við lágmarksskaða því ljóst er að kerfið gat ekki lengur staðið á sektardóm sínum.
En hann skilur eftir vafann og skítinn. Bæði með því að skilja einn sakborning eftir, Erlu Bolladóttir, sem og með hinu að fókusa á skort á sönnunarbyrði í stað þess að viðurkenna að kerfinu varð á.
Að málið hafi aldrei átt að fara í dóm, vegna þess að það var tilbúningur.
Með því er hann aðeins hlekkur í langri röð embættismanna sem hafa reynt að vernda kerfið með því á einhvern hátt réttlæta hinn ranga dóm. Beitt aleflinu til að hindra endurupptöku þess, að hindra að réttlætið nái fram að ganga.
Og Hæstiréttur þegir. Og í svona alvarlegu máli er þögn sama og samþykki.
Hæstiréttur varð á 1980 þegar hann dæmdi þá seka sem hann sýknaði í dag.
Og rannsakendum málsins varð örugglega á.
En kannski var það ekki svo ljóst þá, það voru aðrir tíma, aðrar aðstæður og menn töldu sig vera að gera rétt.
En þetta lá allt ljóst fyrir þegar Hæstiréttur neitaði Sævari Ciesielski um endurupptöku málsins 1999.
Harðræðið, hin tilbúna atburðarrás, algjör skortur á sönnunum.
En Hæstiréttur hengdi sig í játningu sakborningana. Það var eins og þjóðin væri stödd í Berlín 1936 eða Moskvu 1938. Í alræðisríkjum þar sem játningar fengnar með pyntingum voru notaðar til að réttlæta rangar ásakanir, ranga dóma.
Þarna varð Hæstarétt á, og hann verður að játa það.
Annað er absúrd í réttarríki.
En Hæstiréttur þagði, hann þagði í öllu sem máli skipti.
Hið meinta réttlæti sem hann veitti sakborningunum í gær var eitthvað sem raunveruleikinn hafði þegar neitt hann til að veita, annað var það ekki.
Hann neitaði réttarríkinu um réttlæti, hann neitaði þjóðinni um réttlæti.
Hjá honum er kerfið æðra en réttarríkið.
Spurningin er hvort við ætlum að þegja?
Ætlum við að láta hann komast upp með þetta?
Eiga varðhundar kerfisins að komast upp með það fram í rauðan dauðann að verja afglöp þess?
Jafnvel í grundvallarmálum sem snúa að tilveru okkar sem siðaðar þjóðar?
Mitt svar er greinilega Nei, annars hefði ég ekki skrifað þennan pistil.
En hinn raddlausi einstaklingur breytir engu, , það þarf fjöldann til.
Næstu dagar munu skera úr um það.
Mig langar hins vegar að enda þennan pistil á orðum sem féllu í umræðu á Alþingi þann 6. október 1998. Það var ekki raddlaus einstaklingur sem mælti þau, samt þurfti þjóðin að bíða í 20 ár eftir endurupptöku málsins, slíkur var ægiþungi tregðu kerfisins. Þetta eru sönn orð, og eiga jafnvel við í dag, og þá.
"Ég segi það fyrir mig persónulega að mér urðu mikil vonbrigði að Hæstiréttur skyldi ekki séð sig geta haft lagaskilyrði til að taka Geirfinnsmálið upp á nýjan leik. Ég hef fyrir mitt leyti kynnt mér þetta mál rækilega í gegnum tíðina og tel að þar hafi mönnum orðið á í messu í stórkostlegum mæli á nánast öllum stigum málsins. Ég held að það hefði verið mjög sársaukafullt fyrir íslenska dómstólakerfið, þá hefði það verið gott og nauðsynlegt, hundahreinsun fyrir okkur ef nota má það óvirðulegt orð, að fara í gegnum það mál allt og með hvaða hætti það var unnið. Þeir sem hafa kynnt sér það mál rækilega geta ekki annað en sagt að þar var víða pottur brotinn. ........ Það var ekki aðeins eitt dómsmorð framið á allri þessari vegferð, þau voru mörg dómsmorðin sem framin voru á þessari vegferð allri og það er mjög erfitt fyrir okkur að búa við það.".
Við megum ekki láta kattarþvott kerfisins koma í veg fyrir hina nauðsynlega hundahreinsun.
Réttarmorð og réttarríki eiga aldrei samleið.
Og það er okkar að verja réttarríkið.
Kveðja að austan.
Dómurinn: Sýknaðir af sakargiftum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:10 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 287
- Sl. sólarhring: 699
- Sl. viku: 5871
- Frá upphafi: 1399810
Annað
- Innlit í dag: 256
- Innlit sl. viku: 5020
- Gestir í dag: 250
- IP-tölur í dag: 249
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég man vel eftir fárinu í kringum þetta mál á sínum tíma. Svo þegar maður fór aðeins að kynna sér þetta mál fyrir nokkrum árum síðan fannst manni nokkuð mikill fnykur af þessu öllu saman. Það er allavega gott að þetta sé allavega komið á þennann stað.
En, svo er það stóra spurningin sem ég hef ekki heirt neinn setja fram. Hvað gerðist með Guðmund og Geirfinn? Var um slys að ræða við að ná í smyglvarning? (Eins og ein sagan segir) Eða voru þeir myrtir og sökini komið á þetta fólk sem hlaut dóma á sínum tíma? Og þá, hver/hverjir bera ábyrgð á því? Voru það eittverjir valdamikklir aðilar í samfélaginu sem gáti stýrt þessari atburðarás allri?
Alexander Smári Gjöveraa (IP-tala skráð) 28.9.2018 kl. 14:09
Blessaður Smári.
Í gegnum tíðina hafa margar kenningar kviknað, bæði að ætt samsæra um valdamikla aðila, eða þá um einhvers konar uppgjör í undirheimum.
Það seinna kannski án þess að fórnarlömbin hafi á nokkurn hátt tengst ólöglegri starfsemi, allavega ekki svo vitað sé.
Reyndar þarf að hafa í huga að á þessum tíma bjó fólk við mikið ofríki hins opinbera, sem skammtaði sér fríðindi varðandi áfengi, en meinaði almenningi eðlilegan umgang, bæði með ofurskattlagningu sem og bjórbanni sem engin rök lágu að baki. Nema þá til að skapa mismun, við versus þeir.
Í því samhengi var það sjálfsbjargarviðleitni að smygla, það var aum sjávarbyggð þar sem slíkt var ekki gert. Og til að leika á kerfið var ýmislegt gert.
Allsstaðar, að glæpavæða þá einstaklinga sem tóku þátt er aðeins dæmi um forpúkahugsun þjóna og þjónkunar valdsins,.
Svo ég vitni í bæði frönsku og bandarísku byltinguna, þá er það réttur fólks að bregðast við ólögum elítu og yfirstéttar.
En eitt er að missa fjölskyldumeðlim, annað er að lifa með orðróminum um mismikla ólöglega starfsemi. Og fólk þarf að fara mjög varlega með slíkan orðróm.
Og það ætti að vera sameiginlega krafa að skilið sé við skáldsögur, og mál í raun rannsökuð, jafnvel núna ætti að vera hægt að bregða ljósi á málið, til dæmis með aðferðum sannleiksnefndar.
En ekkert gerist ef fólk áttar sig ekki á hvílíkur kattarþvottur átti sér stað í gær, og það er í raun samsekt ef það klappar og húrrar fyrir þeim sem ólög frömdu og sannleikann hylja.
Fyrir kerfisníðingum og föntum.
Og þá er ég ekki að tala um þá sem píndu, á vissan hátt eru þeir líka fórnarlömb tíðaranda og atburðarrásar múgæsingar.
Óeðlið er að vita betur, en hylma samt, að neita um réttlæti, að réttlæta dómsmorð.
Við sem þjóð erum kóarar þeirra í dag.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 28.9.2018 kl. 16:16
Ekki misskilja mig Ómar, ég er allveg sammála þér í þessu. Ég var ekki að meina að þetta sé allt gott og blessað, einungis að málið sé komið á þennann stað. En ekki að við ættum að nema staðar núna. Róm var ekki byggð á einum degi. Þetta er vonandi bara byrjunin og vonandi tekur næsti kafli ekki eins langann tíma og þessi.
Alexander Smári Gjöveraa (IP-tala skráð) 28.9.2018 kl. 17:12
Alls ekki Smári, það gerði ég ekki, ég taldi þig aðeins orða það sem fólk hefur rætt sín á milli. Og út frá því hnykkti ég andsvar mitt, svona frekar sem uppfyllingu.
Ég vona að þetta séu aðeins kaflaskil, heyrði þann tón hjá Ragnari Aðalsteinssyni, á meðan svona íhaldssamari lögfræðingar voru meir svona að tala um að sýkn væri sama og sakleysi.
Þessi pistill minn er innlegg í þá umræðu, að fá lesendur þessa bloggs til að vera opna gagnvart þeim rökum, að aðeins sé um áfangasigur að ræða. Þetta hefur lengi verið í farveginum, og ég vissi að það yrði beggja blands hver viðbrögðin yrðu.
Kattarþvotturinn var augljós, en viðbrögðin við honum meir á huldu.
Þeir sem þekkja mig vita að ég hef pistlað um allt og ekkert í þessum 2-3 törnum sem ég hélt blogginu á lífi á þessu ári. Ekkert svona þema í gangi, og skýring þess er einföld, ég vildi gera mitt alveg eins og Ögmundur gerði sitt.
Að halda umræðunni lifandi, að hún sætti ekki þöggun, og hún yrði tekin alla leið.
Ekkert hefur komið mér á óvart, nema kannski uppgjöf höfundar þeirra orða sem ég notaði sem lokaorð þessa pistils, orðin um réttarmorðið.
Það vita allir að hann var laminn fyrir sannsögli sína, svona gera ekki virtir stjórnmálamenn á hægri væng stjórnmálanna, hinir seku, þeim sem varð á, eru jú í innsta hring valdsins.
Og ég skil vel að það voru engar forsendur að fara gegn þeim svipuhöggum, en í dag er leiðari dagsins á skjön við þessi orð. Hann tjáir uppgjöf, eins og að ungæðisháttur hafi knúið áfram hin meitluðu orð sem ég vitnaði í.
ÉG hélt að gamlir menn létu ekki óttann stjórna sér, því í raun hvað er hægt að gera þeim verr, en tíminn hefur þegar ákveðið, en kattarþvottur er víst auðveldari en hundahreinsun. Og fátt um það að segja.
Innslag þitt gladdi mig Smári, það er gott að vita að gamlir sveitungar fylgist með þessu jaðarbloggi mínu. Það er ekki allra, og það á ekki að vera allra.
En því er ætlað að vekja umhugsun, og mér finnst að þú hafir staðfest að það hafi mér tekist með þessum pistli mínum.
Kveðja suður á firði, með kveðju að austan.
Ómar Geirsson, 28.9.2018 kl. 18:15
Kannski ekki alveg skýrt þegar ég las orð mín hér að ofan, enda gleraugnalaus á hlaupum, en ég átti við að ég hélt því lifandi vegna þess að ég vissi að ég myndi skrifa svona pistil, og ég vildi að hann væri lesinn.
Og þá þýddi ekki að hafa bloggið steindautt, þess vegna tékkaði ég á lífsmarkinu reglulega, eða kannski óreglulega.
Aftur kveðjan, og núna er það 4. þáttur um þann mannlega harmleik sem Víetnamstríðið var.
Ómar Geirsson, 28.9.2018 kl. 18:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.